Vinnumarkaðurinn

Spurningar og svör vegna úrræða í tengslum við COVID-19 hjá Vinnumálastofnun, meðal annars um minnkað starfshlutfall og greiðslur í sóttkví.


Stjórnendur bera ábyrgð á að upplýsa starfsmenn um viðbragðsáætlun fyrirtækisins og hvaða reglur gilda um starfsemi þess meðan á varúðarráðstöfunum stendur vegna COVID-19.

Handþvottur er mikilvægur. Mikilvægt er að stjórnendur tryggi að allir starfsmenn hafi greiðan aðgang að heitu vatni og sápu, handspritti og einnota þurrkum.

Mikilvægt er að stjórnendur hvetji starfsfólk til að huga að heilsu sinni og halda sig heima ef veikinda verður vart.

Starfsmenn með undirliggjandi sjúkdóma og þar af leiðandi sérstaklega viðkvæmir fyrir veirunni ættu að láta stjórnendur vita og kanna í samráði við þá möguleika á að draga úr hættu á smiti á vinnustaðnum eða eftir atvikum vinna heima við á meðan veiran gengur yfir, verði því komið við.

Upplýsingar og leiðbeiningar

Upplýsingar og leiðbeiningar hafa verið gerðir fyrir atvinnulífið, fyrir fyrirtæki og þjónustuaðila sem og til rekstraraðila í samgöngum og flutningum.

Sjá sóttvarnaráðstafanir eftir innleiðingu skimunar á landamærum m.t.t. nýrrar kórónuveiru (COVID-19). Leiðbeiningar til stofnana og fyrirtækja sem sinna ómissandi innviðastarfsemi

Huga þarf sérstaklega að leiðbeiningum fyrir framlínustarfsmenn, en með því er átt við alla starfsmenn sem veita þjónustu og vinna í nálægð við viðskiptavini fyrirtækisins.

Leiðbeiningarnar ná einnig til þrifa á vinnustöðum og farartækjum til fólksflutninga. Einnig er ráðlagt að hvetja viðskiptavini til að nota snertilausar greiðslulausnir í sínum viðskiptum. Einnig er mikilvægt að kynna sér hvenær við eigum að nota einnota hanska og grímur.

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir snyrtistofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur, augnmælingar og sambærilega starfsemi sem krefst nálægðar við viðskiptavini.

Einnig eru aðgengilegar leiðbeiningar fyrir sjúkraþjálfun og sambærilega starfsemi.

Þá er einnig að finna leiðbeiningar fyrir ferðaþjónustu, þ.e. fyrir tjaldsvæði, hjólhýsasvæði, skála ferðafélaga, lítil gistihús, skipulagðar ferðir og afþreyingu utandyra.

Hér eru leiðbeiningar um það ferli sem fer í gang þegar upp kemur COVID-19 smit.

Ráðlagt er að meta þörf fyrir fundarhöld, einkum þegar um fjölmenna fundi er að ræða og nýta fremur fjarfundatækni þar sem því verður við komið, jafnvel innan vinnustaðarins ef hægt er. Gæta skal varúðar vegna ferða starfsmanna erlendis, meta þörf fyrir utanferðir hverju sinni og forðast ferðalög starfsmanna til hættusvæða nema brýna nauðsyn beri til.

Grunur um COVID-19 sýkingu

Ef grunur vaknar um COVID-19 sýkingu innan fyrirtækis, þarf að hafa samband við heilbrigðisþjónustuna í síma 1700, heilsugæslu eða í gegnum heilsuvera.is.

Þegar hætta er talin á smiti þarf hver starfsmaður að:

Upplýsa næsta yfirmann ef grunur vaknar um COVID-19 sýkingu hjá viðskiptavini eða starfsmanni.
Efla sýkingavarnir með því að huga sérlega vel að handþvotti og forðast handabönd og aðrar smitleiðir.

Þá skal huga vel að varúðarráðstöfunum í mötuneytum, t.d. ætti sá eða sú sem skammtar mat að nota einnota hanska við vinnu sína.

Mikilvægt er að fyrirtæki geri áætlun um órofinn rekstur fyrirtækja til að bregðast við ófyrirsjáanlegum aðstæðum sem þessum á sem árangursríkastan hátt.

Sóttvarnaráðstafanir vegna ferðamála

Til eru leiðbeiningar fyrir flugrekstraraðila, flugvelli og áhafnir varðandi sóttvarnaráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugvél sem taka mið af viðmiðum EASA-ECDC og ber farþegum að fylgja þeim. Sambærilegar leiðbeiningar eru til fyrir hafnir, umboðsmenn og áhafnir skipa.

Starfsfólk í ferðaþjónustu þarf að fara eftir leiðbeiningum fyrir framlínufólk í atvinnulífinu, bæði vegna þrifs og þegar upp kemur smit.

Til eru leiðbeiningar fyrir tjaldsvæði, hjólhýsasvæði, skála ferðafélaga, lítil gistihús, skipulagðar ferðir og afþreyingu utandyra.

Einnig er hægt að finna margvíslegar upplýsingar til ferðaþjónustuaðila vegna kórónuveirunnar á síðu Ferðamálastofu.