Táknmál
Táknmál
Forskráning fyrir heimkomu

Viðbrögð á Íslandi - til 2022

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda og markmið aðgerða vegna COVID-19 hafa frá upphafi verið skýr. Áhersla hefur verið lögð á að tryggja að nauðsynlegir innviðir landsins, og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið, sé í stakk búið til að takast á við álagið sem óhjákvæmilega myndast vegna sjúkdómsins hér á landi.

Helstu ráðstafanir sem gripið hefur verið til:

Áhættusvæði eru skilgreind snemma.
Öllum landsmönnum sem koma frá áhættusvæðum gert að sæta sóttkví og/eða fara í sýnatöku.
Rík áhersla lögð á að skima sem flesta.
Rakning allra smita eins og kostur er.
Öllum þeim sem hafa haft samneyti við smitaða einstaklinga er gert að sæta sóttkví.
Takmörkun á samkomum.
Framhaldsskólar og háskólar stunda fjarkennslu og rekstur leik- og grunnskóla takmarkaður.
Mikil áhersla lögð á stöðuga fræðslu og upplýsingagjöf til almennings.
Vefurinn covid.is birtir upplýsingar og fræðslu á 11 tungumálum og reglulega eru haldnir fréttamannafundir sóttvarnalæknis og almannavarna sem sendir eru út beint í stærstu fjölmiðlum landsins.

Tímalína

Árið 2022

29. apríl Hættustig Almannavarna vegna COVID-19 fært niður á óvissustig.

29. apríl Sýnatökur á höfuðborgarsvæðinu færast af Suðurlandsbraut 34 í húsnæði Heilsugæslunnar við Álfabakka 16.

20. apríl Landspítalinn færður af hættustigi niður á óvissustig vegna COVID-19.

19. apríl Ríkisstjórnin ákveður að verja allt að 750 milljónum króna til sértækra aðgerða til að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum COVID-19.

30. mars Fólk sem greinist með COVID-19 smit smit erlendis og framvísar vottorði um jákvætt PCR eða mótefnavakahraðpróf sem uppfyllir ákveðin skilyrði getur fengið samevrópskt batavottorð útgefið á Íslandi. 

28. mars Landspítali færður niður á hættustig.

16. mars Sjúklingar með COVID-19 smit fá heimild til að kaupa Parkódín án lyfseðils með tímabundinni heimild Lyfjastofnunar. Parkódín er gefið við hósta.

14. mars Tilmæli um að atvinnurekendur láti fimm daga vottorð um COVID-19 duga jafnvel þó veikindi standi lengur.

10. mars  Vottorð um jákvæð hraðpróf birtast í heilsuveru og eru tekin gild sem staðfesting á COVID-19 sýkingu.

28. febrúar Bólusetningar færast frá Laugardalshöll og yfir til heilsugæslunnar.

25. febrúar Landspítali færður á neyðarstig.

25. febrúar Öllum opinberum sóttvarnaraðgerðum vegna heimsfaraldurs COVID-19 aflétt, jafnt innanlands og á landamærunum.

10. febrúar Mikið álag í sýnatökur með PCR prófi verður til þess að boðið er upp á hraðpróf þegar hámarks sýnatökufjölda er náð. Eftir sem áður þarf að staðfesta jákvætt hraðpróf með PCR en heimilt að telja daga í einangrun frá jákvæðu hraðprófi.

9. febrúar Heilbrigðisráðuneytið minnir á bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar til að mæta vaxandi álagi á heilbrigðisstofnunum vegna fjölgunar Covid-19 smita.

7. febrúar Einangrun stytt úr sjö dögum í fimm fyrir fólk með væg eða engin einkenni.

7. febrúar Þau sem hafa staðfest smit yngra en 6 mánaða undanþegin sóttkví og smitgát.

2. febrúar Mælt með fjórða skammti bóluefnis fyrir einstaklinga með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma eð asem hafa fengið ákveðnar ónæmisbælandi meðferðir.

4. febrúar Nálægðarmörk á sitjandi viðburðum felld brott.

1. febrúar Almannavarnarstig fært af neyðarstigi yfir á hættustig vegna COVID-19.

1. febrúar Landspítali færður af neyðarstigi á hættustig.

1. febrúar. Gildistími bólusetningarvottorða þeirra sem einungis hafa fengið grunnbólusetningu styttur í 9 mánuði. Örvunarskammtur fellir úr gildi gildistímann.

29. janúar Miklar tilslakanir innanlands. 50 metra fjöldatakmörkun,  nándarregla verður 1 metri, krár og skemmtistaðir mega opna að nýju og opnunartími þeirra og annarra veitingastaða verður lengdur um tvær klukkustundir. Heimilt verður að halda sitjandi viðburði fyrir 500 manns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

26. janúar Reglum um sóttkví breytt þannig að nú þurfa einungis þau að fara í sóttkví sem eru útsett fyrir smiti af öðrum á sama heimili eða dvalarstað. Aðrir fara í smitgát.

20. janúar Samningur Sjúkratrygginga við Lækningu um að styrkja tímabundið mönnun á Landspítala vegna COVID-19. Áður hefur veirð samið við Klíníkina og Orkuhúsið. Samtals eru þetta 10 svæfingarlæknar, 18 hjúkrunarfræðingar og 2 sjúkraliðar á tímabilinu 10. – 28. janúar.

19. janúar Breytingar á reglum um smitgát sem afnema skyldu til að fara í hraðpróf við upphaf og lok smitgátar.

19. janúar Fólk í einangrun heimilt að fara í gönguferð í nærumhverfi heimilis síns ef heilsa leyfir.

15. janúar Samkomutakmarkanir hertar. 10 manna fjöldatakmörkun og ekki lengur hægt að fá undanþágu með notkun hraðprófa. Skemmtistöðum, krám og spilakössum lokað.

14. janúar Tilkynnt um að Landspítala verði gert kleift að greiða starfsfólki sérstaklega fyrir viðbótarvinnuframlag næstu fjórar vikurnar til að koma til móts við mönnunarvanda.

11. janúar Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, lýsti yfir neyðarstigi Almannavarna vegna COVID-19 heimsfaraldursins í þriðja sinn frá því hann hófst.

11. janúar Gildandi takmarkanir á samkomum innanlands framlengdar til 2. febrúar.

7. janúar Ferðamenn sem koma til landsins hvattir til að fara í COVID próf í flugstöinni en bíða ekki 48 tíma eins og reglugerðin leyfir vegna mikillar útbreiðslu ómíkron afbrigðisins.

7. janúar Rýmri reglur um sóttkví taka gildi fyrir fólk sem fengið hefur þrjár bólusetningar eða sem hefur fyrri sögu um COVID-19.

5. janúar Bólusetning barna á aldrinum 5-11 ára hefjast.

Árið 2021

30. desember Einangrun stytt í 7 daga fyrir fólk með væg eða lítil einkenni.

28. desember Landspítali settur á neyðarstig vegna hraðrar útbreiðslu COVID-19.

28. desember Undirbúið að flytja hátt í 30 sjúklinga frá Landspítala á aðrar heilbrigðisstofnanir víðsvegar um landið til að bregðast við aðstæðum á spítalanum vegna COVID-19.

23. desember Veitingamenn fá undanþágu frá fjöldatakmörkun nýrrar reglugerðar svo þeim verður heimilt að taka móti 50 gestum í rými þann 23. desember í stað 20 líkt og kveðið er á um í reglugerð.

23. desember Innanlandstakmarkanir hertar til að sporna við hraðri útbreiðslu smita. Fjöldatakmarkanir verða 20 manns, nándarregla 2 metrar, opnunartími veitingastaða styttur til kl. 21. Sund- bað og líkamsræktarstöðvar opnar fyrir helming leyfilegra gesta og hraðprófsviðburðir takmarkaðir við 200 manns. Hvatt er til fjarvinnu eins og kostur er.

7. desember Sérstök hjúkrunareining fyrir COVID-19 sjúklinga sem búsettir eru á hjúkrunarheimilum, opnuð á hjúkrunarheimilinu Eir.

3. desember Landspítali kaupir nýtt lyf sem heitir Sotrovimab, sem þykir draga úr hættu á alvarlegum veikindum fólks vegna Covid-19. Meðferðin gagnast best þeim sem eru óbólusettir og/eða þeim sem mynda illa mótefni vegna lyfja eða sjúkdóma.

2. desember Opnunartími vegna hraðprófa lengdur fram á kvöld og opið á laugardögum, hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

26. nóvember Sóttvarnarlæknir ráðleggur gegn ferðalögum til Botsvana, Esvatíní, Lesótó, Mósambík, Namibíu, Suður Afríku og Simbabve til að sporna gegn útbreiðslu ómíkron. Fólk sem ferðast þaðan þarf að fara í tvær PCR sýnatökur með 5 daga sóttkví á milli við komuna til landsins.  

17. nóvember Bólusetningarbíll Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu tekur til starfa en honum er ætlað að ná til þeirra sem enn eru óbólusett, til dæmis á framkvæmdasvæðum og verslunarmiðstöðvum.

15. nóvember Átak í örvunarbólusetningum hefst.

13. nóvember Sóttvarnaraðgerðir hertar. Almennar fjöldatakmarkanir 50 manns en heimilt að hafa allt að 500 manns í hólfi að undangengnu hraðprófi. Veitingastaðir opnir til 22 og nálægðarmörk 1 metri.

10. nóvember 500 manna fjöldatakmarkanir teknar upp. Heimilt að hafa allt að 1500 manns á viðburðum að undangengnu hraðprófi. Veitingastaðir loka kl. 23.

6. nóvember Grímuskylda tekin upp að nýju þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægðarmörk. Skylt að bera grímu á sitjandi viðburðum.

4. nóvember Reglugerð um sóttvarnarráðstafanir á landamærunum framlengd óbreytt.

29. október Breyttar reglur um sóttkví og einangrun taka gildi. Heimilt er að stytta einangrun í allt að 7 daga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en sóttkví getur styst orðið 5 dagar.

27. október Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar virkjuð á ný.

20. október Verulegar afléttingar innanlandstakmarkana. Fjöldatakmarkanir 2000 manns, grímuskyldu aflétt, opnunartími skemmtistaða lengdur til kl. 1.00 og skráningarskyldu gesta aflétt. Boðað afnám allra takmarkana 18. nóvember.

5. október Reglur um takmarkanir á samkomum innanlands framlengdar til 20. október. Farið á neyðarstig vegna COVID-19 í annað sinn.

1. október Embætti Landlæknis gefur út nýtt smáforrit, Skanna C-19. Skanni C19 les QR-kóða vottorða um neikvætt próf, hvort sem er af skjá eða pappír og staðfestir hvort vottorðið sé gilt eða ekki. Auk þess les hann samevrópsk COVID-19 vottorð.  

1. október Ferðamenn með tengsl við Ísland þurfa ekki lengur að framvísa neikvæðu COVID-19 prófi við komuna til landsins en þurfa að fara í sýnatöku innan 48 tíma eftir komuna til landsins.

20. september Heilbrigðisráðherra ákveður að ríkið taki þátt í kostnaði við töku hraðprófa hjá einkaaðilum.

15. september Tilslakanir á sóttvörnum. Almennar fjöldatakmarkanir 500 manns en heimild fyrir allt að 1500 manns með notkun hraðprófa. Ekki þarf að viðhafa 1 metra fjarlægð eða grímu meðan setið er á hraðprófsviðburðum en reglur um 1 metra reglu og grímuskyldu að öðru leiti óbreyttar.

10. september Opnað fyrir hraðpróf vegna viðburða hjá Heilsugæslunni á Suðurlandsbraut 34.

28. ágúst Slakað á takmörkunum innanlands. Meðal annars heimilt að hafa allt að 500 manns í hólfi að undangengnu hraðprófi. Sundlaugar, heilsu- og líkamsræktarstöðvar opnar fyrir hámarksfjölda og eins metra regla felld niður á sitjandi viðburðum.

23. ágúst Breytingar á reglugerð sem leyfa notkun hraðprófa og sölu sjálfsprófa á Íslandi.

23. ágúst Bólusetningar barna á aldrinum 12-15 ára á höfuðborgarsvæðinu í Laugardalshöll.

21. ágúst Reglur um leiðbeiningar um sóttkví í skólum, frístundastarfi og félagsmiðstöðvum endurskoðaðar. Með breytingunum er gert ráð fyrir að færri þurfi að sæta sóttkví en þau sem eru minna útsett fari í smitgát.

16. ágúst Bólusettir farþegar með tengsl við Ísland skyldaðir í sýnatöku innan 48 tíma frá komunni til Íslands.

12. ágúst Gildandi takmarkanir innanlands framlengdar til 27. ágúst.

7. ágúst Aðgengi að sóttvarnarhúsum takmarkað og áhersla lögð á að nýta húsin fyrst og fremst fyrir fólk í einangrun.

3. ágúst Öllum sem fengu Jansen bólusetningu boðin örvunarskammtur mRNA bóluefnis ((Pfizer/Moderna).

3. ágúst Kennarar og starfsmenn skóla sem fengu Jansen bólusetningu boðin örvunarskammtur með mRNA bóluefni (Pfizer/Moderna).

27. júlí Íbúum á Íslandi ráðlagt að ferðast ekki að nauðsynjalausu til hættusvæða vegna aukinna smita. Öll lönd nema Grænland teljast til hættusvæða.

27. júlí Bólusetningar barnshafandi kvenna gegn COVID-19 hefjast. Allar konur sem komnar eru á annan eða þriðja þriðjung hvattar í bólusetningu.

27. júlí Tilmælum beint til fólks sem búsett er á íslandi eða með tengslanet hérlendis að fara í sýnatöku strax eftir komuna til landsins, þó þau séu einkennalaus.

27. júlí Allir bólusettir einstaklingar sem koma til landsins skyldaðir til að framvísa neikvæðu COVID-19 prófi fyrir komuna til landsins.

26. júlí Bóluefnið Spikevax (áður Moderna) leyft til notkunar fyrir börn á aldrinum 12-17 ára.

25. júlí 200 manna samkomutakmarkanir teknar upp og eins metra nálægðarregla. Grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægð.

1. júlí Stafræn COVID-19 vottorð taka gildi. Þau gilda í öllum ríkjum Evrópusambandsins, Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss.

1. júlí Reglum um sóttkví breytt þannig að þau sem hafa verið bólusett, eða hafa sögu um fyrra smit, þurfa ekki að vera í sóttkví þó einhver á heimilinu sé í sóttkví. Þau mega, í stað sóttkvíar, beita smitgát sé það mat rakningarteymis að útsetning hafi verið minniháttar.

1. júlí Sýnatöku hætt á landamærunum hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu. Sýnatöku er einnig hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar. Þessir hópar þurfa ekki lengur að sýna vottorð um neikvætt PCR-próf við komuna til landsins.

28. júní Heimilt að bólusetja börn sem náð hafa 12 ára aldri með bóluefni Pfizer ef foreldrar óska þess. Börn á aldrinum 12-15 ára eru þó ekki boðuð í bólusetningu að svo stöddu.

26. júní Allar takmarkanir á samkomum innanlands felldar úr gildi. Í þessu felst m.a. fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana.

24. júní Heilbrigðisráðherra fellir brott ákvæði reglugerðar sem kveður á um forgangshópa í bólusetningu þar sem öllum skilgreindum forgangshópum hefur verið boðin bólusetning.

23. júní Heilsugæslan tekur í notkun hraðpróf til greiningar á kórónuveirunni sem veldur Covid-19. Hraðprófin eru ekki notuð við einkennasýnatöku, heldur eru þau eingöngu ætluð þeim sem þurfa á þeim að halda, t.d. vegna ferðalaga.

18. júní Þeim sem veikst hafa af COVID-19 boðið upp á bólusetningu með Janssen. Þeim sem vegna ungs aldurs eða þungunar ættu heldur að fá Pfizer bóluefni er boðið það í staðin.

16. júní Tilraunaverkefni á landamærum Íslands hefst um móttöku á Excelsior vottorði frá farþegum sem fljúga frá New York. Vottorðið er stafrænt og þróað af New York fylki í samvinnu við IBM en íbúar þar geta sótt sér vottorðið til að staðfesta COVID-19 bólusetningu og rannsóknarniðurstöður.

15. júní Fjöldatakmörk fara úr 150 manns í 300 og nándarregla 1 metri í stað tveggja. Á sitjandi viðburðum verður engin nándarregla en öllum skylt að bera grímu. Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, þ.e. til miðnættis.

7. júní Heilsugæslan víða um land dregur úr potti til að ákvarða í hvaða röð fólkið í síðasta hópnum sem á að bólusetja er boðað.  

2. júní Tilraunaverkefni hefst um móttöku stafræns evrópsks Covid-19 vottorðs á landamærum Íslands fyrir þá sem koma til landsins. Fyrstu farþegarnir með slík vottorð komu til landsins. Vottorðin gilda í öllum löndum Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss. Vottorðin eru aðgengileg íbúum á Íslandi á vef Heilsuveru.

1. júní Bann við ónauðsynlegum ferðalögum útlendinga frá há-áhættusvæðum fellur úr gildi.  

31. maí Brott fellur regla sem skyldar fólk frá skilgreindum hááhættusvæðum til að dvelja í sóttvarnahúsi meðan á sóttkví stendur. Frá þeim tíma er þeim einum skylt að dvelja í sóttvarnahúsi sem ekki hafa aðstöðu til að vera í heimasóttkví.

25. maí Verulega dregið úr fjöldatakmörkunum. Fjöldatakmörk hækka í 150 manns, slakað á grímuskyldu og tveggja metra reglunni. Takmörkunum á gestafjölda sund- og baðstaða, skíða- og tjaldsvæða og safna er aflétt og sömuleiðis á líkamsræktarstöðvum. Hámarksfjöldi áhorfenda og gesta á sitjandi viðburðum fer úr 150 í 300 manns í hverju sóttvarnarhólfi. Afgreiðslutími veitingastaða lengist til kl 23.

21. maí Reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 framlengd til 15. júní.

18. maí Gildi tekur ný auglýsing um svæði og lönd sem talin eru há-áhættusvæði vegna COVID-19 og þar af leiðandi skikkaðir til dvalar í sóttkvíarhúsi.

10. maí Slakað á fjöldatakmörkunum. Nú mega 50 manns koma saman og allt að 150 á viðburðum þar sem einstaklingar eru skráðir í sæti (sem öll snúa í sömu átt) með 1m fjarlægð og grímuskyldu. Tilslakanirnar eiga m.a. við um sviðslistir, áhorfendur á íþróttaviðburðum, fyrirlestra og ráðstefnur. Vínveitingastaðir mega hafa opið til kl. 22 en síðustu gestir verða að hafa yfirgefði staðinn fyrir kl. 23. Sund, baðstaðir, skíðasvæði, tjaldsvæði og söfn mega hafa opið fyrir 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.

7. maí Viðmið um há-áhættulönd endurskoðuð. Til viðbótar viðmiðum um nýgengi smita var bætt við skilyrði um hlutfall jákvæðra sýna sem hefur áhrif á hvort land telst há-áhættusvæði eða ekki. Verulega fjölgar á lista yfir lönd sem teljast há-áhættusvæði.

4. maí Gildistími reglugerðar um takmarkanir á samkomum og skólastarfi framlengdur um eina viku.

27. apríl Bann lagt við ónauðsynlegum ferðalögum frá há-áhættulöndum fyrir útlendinga sem ekki hafa hér búsetu, hafa fjölskyldutengsl við landið, ferðast vegna vinnu eða náms eða geta sýnt vottorð fyrir bólusetningu eða fyrri sýkingu COVID-19. Bannið á ekki við um tengifarþega.

27. apríl Ný reglugerð skyldar komufarþega til að dvelja í sóttvarnahúsi án undantekninga komi þeir frá löndum þar sem nýgengi COVID-smita er yfir tilteknum mörkum.

15. apríl Tilslakanir á almennum fjöldatakmörkunum úr 10 í 20 manns og reglur fylgja viðmiðum um appelsínugula COVID-19 viðvörun. Almenn nálægðarmörk eru enn 2 metrar en í skólastarfi 1 metri. Undantekningar á almennum fjöldatakmörkunum eru í verslunum, íþróttastarfi, menningarstarfi og hjá trú- og lífsskoðunarfélögum og jarðarfarir mega hafa allt að 100 manns. Veitingahús og krár hafa opið til 21 en skrá alla gesti. Sundlaugar opna fyrir helming leyfðra gesta.

15. apríl Landið er allt fært á appelsínugula viðvörun vegna COVID-19 faraldursins en áfram er lýst yfir neyðarstigi almannavarna um land allt.

9. apríl Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðar að ríkið mætti ekki skikka fólk í sóttkví eftir að fimm ferðamenn kærðu framkvæmdina. Áfram var biðlað til fólks að ljúka sóttkví á sóttkvíarhótelinu og leiðbeiningar um hvað teldist viðunandi húsnæði í sóttkví hertar.

1. apríl Öllum sem koma til landsins frá löndum sem skilgreind eru sem há-áhættusvæði gert skilt að dvelja í sérstöku opinberu sóttkvíarhúsi, hvort sem þeir eru búsettir á Íslandi eða ferðamenn. Sóttvarnarlæknir skilgreinir há-áhættusvæði eftir fjölda nýgengis smita undanfarnar tvær vikur.

1. apríl Sýnataka á landamærunum hjá öllum börnum og eins farþegum með vottorð um fyrri sýkingu og bólusetningu.

31.mars Skólar hefja starfsemi að nýju en takmarkanir á skólastarfi taka mið af viðmiðunartöflumí appelsínugulri COVID-19 viðvörun. Um alla aðra starfsemi gilda þó áframviðmið um rauða viðvörun. Gildistíminn er til og með 15. apríl.

25. mars Hertar sóttvarnareglur með 10 manna samkomubanni taka gildi. Öllum skólastigum, utan leikskólastigs, er gert að fara snemma í páskafrí með banni við staðnámi. Breyting frá fjöldatakmörkunum sem áður hafa gilt er að börn fædd 2015 eru ekki talin með, í stað 2005 áður. Ástæðan er skyndileg fjölgun smita og þá sérstaklega á meðal barna af svokölluðu breska afbrigði. Reglur í skólastarfi gilda til og með 31. mars og reglur um takmarkanir á samkomum gilda til 15. apríl.

25. mars Landið allt fært á rauða viðvörun vegna COVID-19 og neyðarstigi almannavarna lýst yfir um land allt vegna COVID-19. Það er í þriðja sinn frá upphafi faraldurs sem neyðarstigi er lýst yfir.

18. mars Undanþága fyrir fólk frá þriðju löndum, þ.e. utan EES/EFTA, sem hafa gild vottorð veitt fyrir ónauðsynlegar ferðir yfir landamæri kynnt og á að taka gildi 26. mars. Síðar frestað til 6. Apríl.

18. mars Gildandi takmarkanir frá 24. febrúar framlengdar til 9. apríl. Breytingar varðandi menningarviðburði gerðar þannig að hlé er áfram leyft en veitingasala óheimil.

16. mars Vottorð um fyrri sýkingu Covid-19 og vottorð um bólusetningu eru tekin gild, hvaðan sem þau koma uppfylli þau skilyrði sóttvarnalæknis. Áður voru eingöngu WHO vottorð og vottorð frá löndum innan EES/EFTA tekin gild. Fólk með vottorð eru undanþegin aðgerðum á landamærum en eru ekki undanþegin reglum um för yfir landamæri.

24. febrúar Tilslakanir innanlands á samkomutakmörkunum. Nú mega 50 manns koma saman og allt að 200 á viðburðum þar sem einstaklingar eru skráðir í sæti (sem öll snúa í sömu átt)með 1m fjarlægð og grímuskyldu. Tilslakanirnar eiga m.a. við um sviðslistir, áhorfendur á íþróttaviðburðum, fyrirlestra og ráðstefnur. Vínveitingastaðir mega hafa opið til kl. 23, en síðustu gestir verða að koma inn fyrir kl. 22 og staðurinn að vera tómur kl. 23.

24. febrúar Nýjar reglur um takmarkanir í skólastarfi taka gildi. Í grunnskólum mega nú 150 nemendur vera í rými. Í framhalds- og háskólum mega 150 nemendur og starfsmenn vera samtals í hverju rými sem sótthreinsa verður á milli hópa. Grímuskylda er í framhalds- og háskólum þar sem ekki er hægt að halda nálægðarmörk (1m). Reglurnar gilda til 30. apríl.

19. febrúar Krafa gerð um framvísun vottorð á neikvæðu PCR-prófi fyrir brottför og komu til landsins. Heimild veitt til að skylda fólk til að dvelja í Sóttvarnahúsi á vegum yfirvalda ef viðunandi staður fyrir sóttkví/einangrun er ekki til staðar. Jafnframt eru allir sem greinast með önnur afbrigði veirunnar skyldaðir til að dvelja i Sóttvarnahúsi.

8. febrúar  Tilslakanir innanlands taka gildi. Takmarkanir á samkomum miða áfram við 20 manns, en rýmri heimildir eru fyrir sviðslistir og verslanir þar sem allt að 150 fullorðnir viðskiptavinir/gestir mega vera í rými. Krár og skemmtistaðir mega opna og fylgja sömu reglum og veitingastaðir. Spilasalir og spilakassar mega opna og fylgja sömu reglum og t.d. krár. Líkamsræktarstöðvar mega opna tækjasali með skilyrðum um skráningu og sóttvarnir.

21. janúar  Rafræn bólusetningarskírteini fyrir íbúa á Íslandi gerð aðgengileg á vef Heilsuveru.

15. janúar  Breytingar á reglum við landamæri Íslands. Skylda verður fyrir alla sem koma til landsins að fara í tvöfalda skimun með 5 daga sóttkví á milli. Aflagður er þar með möguleiki fólks á að velja 14 daga sóttkví. Bólusetningarskírteini frá EES/EFTA ríkum einnig tekin gild. Gildistími er til 30. apríl. Samtímis er birt áætlun um aðgerðir á landamærum frá 1. maí.

13. janúar Tilslakanir innanlands taka gildi og landið allt fært á appelsínugula viðvörun vegna COVID-19. Takmarkanir á samkomum miða við 20 manns, en verslunum áfram leyft að hafa allt að 100 viðskiptavini hjá sér eftir því sem stærð rýmis leyfir. Sviðslistir mega hafa 50 starfsmenn/listamenn á sviði, 100 fullorðna í sal og að auki 100 börn fædd 2005 og síðar. Íþróttastarf, innan sem utandyra, með og án snertingar leyft á ný og líkamsræktarstöðvar mega opna með ströngum skilyrðum. Áfram eru krár, skemmtistaðir, spilasalir og spilakassar lokaðir.

13. janúar  Börn fædd 2005 og síðar skyldug til að fara í sóttkví við komuna til landsins. Áður voru börn á þessum aldri undanskilin sóttkví við komuna til landsins. Áfram eru börn undanskilin sýnatöku á landamærunum.

1. janúar  Nýjar reglur um takmarkanir í skólastarfi taka gildi. Framhaldsskólum er þar með gert kleift að hefja staðnám að miklu leyti og rýmri reglur gilda um leik- og grunnskóla. Reglurnar taka gildi með fyrirvara um að faraldurinn sé áfram í rénum innanlands og taka mið af viðmiðunartöflum í appelsínugulri COVID-19 viðvörun. Gildistíminn er til og með 28. febrúar.

Árið 2020

29. desember Bólusetning við COVID-19 hefst. Fyrstir til að fá bólusetningu voru 4 heilbrigðisstarfsmenn og var það gert í beinni útsendingu. Í kjölfarið hófst síðan bólusetning á íbúum hjúkrunarheimila.

28. desember Fyrsta sending af bóluefni kemur til landsins. Bóluefnið kemur frá Pfizer og skammtarnir alls 10.000 sem dugar fyrir 5000 manns þar sem hvern og einn þarf að bólusetja tvisvar.

11. desember Heilbrigðisyfirvöld undirrita samning við bóluefnaframleiðandann Pfizer. Áætlað er að fyrstu skammtar berist í síðasta lagi 29. desember að því gefnu að markaðsleyfi þess sé samþykkt af Evrópsku lyfjastofnuninni.

10. desember Vottorð um staðfesta fyrri sýkingu COVID-19 frá löndum innan EES/EFTA-svæðis tekin gild á landamærum. Tekin eru vottorð á ensku, norðurlandamálum (utan finnsku) um mæld mótefni og/eða jákvætt PCR próf sem er eldra en 14 daga gamalt. Alþjóðleg bólusetningarvottorð (gula bókin) tekin gild á landamærum.

10. desember Tilslakanir á samkomutakmörkunum. Aukinn fjöldi má vera í verslunum eftir stærð, þó að hámarki 100 manns. Sund og baðstaðir mega opna fyrir 50% af leyfilegum fjölda skv. starfsleyfi. Afreksfólk og efstu deildir innan ÍSÍ mega æfa án snertinga. Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir eru heimilir með 30 manns á sviði, 50 fullorðnum gestum og 100 börnum að auki. Hámarksfjöldi í jarðarförum verður 50 manns. Gildistími er til 12. janúar. Rýmri reglur taka einnig gildi í skólastarfi. Grímuskylda fellur niður hjá nemendum í grunnskóla og lestrarrými í framhalds og háskólum leyft fyrir allt að 30 manns. Takmarkanir á skólastarfi gilda til 31. desember.

7. desember Viðvörunarkerfi í litum vegna COVID-19 kynnt og tekur gildi. Allt landið á rauðum lit sem er hæsta áhættustig. Viðmiðunartöflur fyrir hvern lit eru birtar á covid.is. Samtímis eru kynntar viðmiðunartöflur fyrir skólastigin.

4. desember Ríkisstjórn samþykkir tillögu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og Embættis landlæknis um COVID-19 viðvörunarkerfi í litum. Kerfinu er ætlað að auka fyrirsjáanleika í faraldrinum og gefa fólki tækifæri á að taka upplýstar ákvarðanir um eigin hegðan út frá smithættu.

1. desember Sýnataka á landamærum verður gjaldfrjáls. Markmiðið er að hvetja fólk til að velja frekar tvöfalda sýnatöku í stað 14 daga sóttkvíar. Gildir til 31. janúar 2021.

1. desember Sóttvarnaráðstafanir framlengdar til 9.12.

28. nóvember  Reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna COVID-19 tekur gildi.

27. nóvember Landspítali færður niður á óvissustig. Var áður á hættustigi.

25.nóvember Samsýn bjó til myndband um þróun faraldursins frá upphafi.

24. nóvember Dregið úr takmörkunum á skólastarfi í tónlistarskólum í samræmi við reglur í öðru tómstundastarfi barna.

18. nóvember Tilslakanir á  samkomutakmörkunum og takmörkunum á skólastarfi. Íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum heimilt á ný. Grímuskylda barna miðast við börn í 8.-10. bekk í stað 5.-10. bekkja áður. Grímuskylda kennara gangvart leikskólabörnum og nemendum í 1.-7. bekk afnumin. Þjónusta sem krefst nándar leyfð ef notast er við andlitsgrímu. Almennar fjöldatakmarkanir miðast áfram við 10 manns. Gildistími er til og með 30. nóvember.

12. nóvember Landspítali færður niður á hættustig. Var áður á neyðarstigi.

3. nóvember Breyttar reglur um takmarkanir á skólastarfi. Fjöldatakmarkanir breytilegar eftir aldri en allt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf bannað. Grímuskylda á börn fædd 2010 og fyrr, líka í skólum.

3. nóvember Reglur varðandi fjölda viðskiptavina í verslunum og veitingastöðum skýrðar og fjöldatakmörkun í rými miðast við viðskiptavini annars vegar og starfsmenn hins vegar.

3. nóvember Reglugerð breytt og börn fædd 2011 og síðar þurfa ekki að bera andlitsgrímu.

31. október Hertar sóttvarnaráðstafanir um land allt taka gildi. Mestu takmarkanir síðan faraldurinn hófst. Samkomutakmarkanir miðast við 10 manns, allt íþróttastarf og sviðslistir bannaðar. Gildir til 17. nóvember. Víðtæk grímuskylda á alla fædda fyrir 2005.

25. október Landspítali færður á neyðarstig. Spítalinn var áður á hættustigi.

20. október   Ný reglugerð um sóttvarnaráðstafanir tekur gildi. Annars vegar er ný reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar og hins vegar breyting á reglugerð á takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar.

7. október  Hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Samkomutakmarkanir frá gærdeginum gilda óbreyttar annars staðar. Gildistími þessara takmarka til og með 19. október.

5. október   Breyttar reglur um samkomutakmarkanir og skólahald. Heilbrigðisráðherra staðfestir nýjar reglugerðir um takmarkanir á samkomuhaldi og skólastarfi sem kveða á um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19.

28. september   Sætaskylda innleidd á öllum vínveitingastöðum. Öllum vínveitingastöðum er skylt að hafa sæti fyrir alla gesti sína og tryggja að gestir séu að jafnaði í sætum eins og almennt tíðkast á veitingahúsum og kaffistöðum.

21. september   Lokun kráa og skemmtistaða framlengd til 27. september. Tímabundin lokun skemmtistaða og kráa er framlengd til og með sunnudagsins 27. september nk. Gripið var til þessara ráðstafana vegna mikils fjölda COVID-19 smita sem rekja mátti til kráa og skemmtistaða í miðbæ Reykjavíkur.

21. september  Uppfærðar leiðbeiningar fyrir framhalds- og háskóla: Grímunotkun í staðnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur gefið út uppfærðar leiðbeiningar til framhalds- og háskóla, í ljósi nýrra tilmæla sóttvarnarlæknis um grímunotkun í staðnámi í framhalds- og háskólum á höfuðborgarsvæðinu. Í leiðbeiningunum kemur fram að mælst sé til þess að nemendur, kennarar og annað starfsfólk framhalds- og háskóla noti grímur í öllu skólastarfi.

18. september   Skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu lokað tímabundið. Skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu er lokað tímabundið í fjóra daga frá 18. – 21. september. Þetta er gert til að sporna við útbreiðslu COVID-19.

14. september  Tími í sóttkví styttur úr 14 dögum í sjö með skimun í lok tímabilsins.

7. september   Rýmri samkomutakmarkanir. Nálægðarreglu er breytt úr 2 metrum í 1 metra og hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman fer úr 100 manns í 200. Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Hægt er að ljúka sóttkví á sjö dögum ef sannað er með sýnatöku í lok tímabilsins að engin merki séu um sýkingu af völdum COVID-19. Að sóttkví lokinni þurfa þessir einstaklingar að gæta vel að sóttvörnum og forðast samneyti við viðkvæma einstaklinga. Skipulag sýnatökunnar verður á hendi sóttvarnalæknis og er hlutaðeigandi einstaklingum að kostnaðarlausu. Breytingin á við um sóttvarnaráðstafanir innanlands en tekur ekki til komufarþega á landamærum.

31. ágúst  Netspjall opnað á covid.is. Markmiðið með þessari nýju lausn er að þjónusta fyrirspurnir sem tengjast COVID-19 hér á landi. Netspjallið er sett upp til að straumlínulaga og auka þjónustu við almenning, ásamt því að einfalda vinnu sérfræðinga sem starfa á ólíkum sviðum en sinna verkefnum sem tengjast COVID-19. Í flestum tilfellum verður hægt að leysa mál í netspjallinu en í öðrum tilfellum þarf að beina fyrirspurnum áfram til þeirra sem hafa sérþekkingu á málaflokknum.

19. ágúst   Farþegar sem koma til Íslands frá og með 19. ágúst geta valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins.

14. ágúst  Breyttar reglur um takmörkun á samkomum. Samkvæmt nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar eru reglur um nálægðartakmörk í framhalds- og háskólum rýmkaðar og sömuleiðis í íþróttum. Að öðru leyti gildir áfram meginreglan um 2 metra nálægðarmörk. Við aðstæður þar sem eðli starfsemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja 2 metra og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur skal nota andlitsgrímu. Hjúkrunarheimilum, öðrum heilbrigðisstofnunum og sambærilegum stofnunum er gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, svo sem um heimsóknir utanaðkomandi að heimilum og stofnunum. Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns að hámarki. Rík áhersla er lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

30. júlí  Samkomubann hert og er nú miðað við 100 einstaklinga. Ferðamenn sem ferðast frá áhættusvæðum og dvelja á Íslandi lengur en í 10 daga verða að fara í tvær skimanir á timabilinu. Lesa meira

14. júlí   Ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi bætast á lista með Færeyjum og Grænlandi og verða frá og með fimmtudeginum 16. júlí undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna COVID-19. Lesa meira

10. júlí  Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að frá og með 13. júlí 2020 skuli þeir sem eru búsettir hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar og hafa valið að fara í sýnatöku við komuna til landsins viðhafa svokallaða heimkomusmitgátí 4−5 daga og þá fara í aðra sýnatöku. Ef síðari sýnataka er neikvæð er heimkomusmitgát hætt. Er þetta gert til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófi á landamærumgeti leitt til hópsmita á Íslandi. Lesa meira

9. júlí  Niðurstöður mótefnamælinga sem Íslensk erfðagreining (ÍE) gerði gegn SARS-CoV-2 veirunni f.h. sóttvarnalæknis á tímabilinu 3. apríl til 20. júní 2020, eru nú komnar í Heilsuveru. Mælingarnar náðu til rúmlega 30 þúsund manns. Tilvist mótefna er merki um fyrri sýkingu og bendir til að viðkomandi muni ekki sýkjast aftur af veirunni. Lesa meira

26. júní Innanlandssmit greinar á ný á Íslandi. Tvö tilfelli í viðbót hafa nú verið staðfest innanlands af COVID-19. Í morgun greindist annað tilfelli sem talið er aðtengist því sem staðfest var í gær. Fyrra tilfellið er upprunnið erlendis en hið seinna innanlands. Er þetta fjórða innanlandssmitið síðan um miðjan maí. Áætlað er að yfir 200 manns þurfi að fara í sóttkví. Unnið er að smitrakningu og er málið meðhöndlað sem hugsanleg hópsýking á höfuðborgarsvæðinu. Lesa meira

15. júní  Farþegar sem koma til landsins eftir 15. júní 2020 verður gefinn kostur á að fara í sýnatöku vegna COVID-19 fremur en að sitja 14 daga í sóttkví. Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa ekki að fara í sýnatöku. Boðið verður upp á sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og fyrir komufarþega á öðrum alþjóðaflugvöllum og -höfnum. Farþegum ber einnig að fylla út skráningarform fyrir komu, hlíta sóttvarnareglum og þeir eru hvattir til að hlaða niður smáforritinu, Rakning C-19.

Frekari tilslakanir verða einnig á samkomubanni. Fjöldamörk á samkomum hækka úr 200 í 500. Núgildandi takmarkanir á gestafjölda sundlauga og líkamsræktarstöðva við 75% af leyfilegum hámarksfjölda falla jafnframt niður 15. júní.

25. maí  Tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi. Fjöldatakmörkun rýmkar úr 50 í 200 manns. Líkamsræktarstöðvum er heimilt að hafa opið með fjöldatakmörkunum þar sem leyfilegur hámarksfjöldi gesta fer aldrei yfir helming hámarksfjölda skv. starfsleyfi. Öllum veitingastöðum, þar með töldum krám og skemmtistöðum, og einnig spilasölum, verður heimilt að hafa opið til kl. 23.00. Hvatt er til þess að viðhalda tveggja metra nálægðarmörkum eftir því sem kostur er. Framkvæmd tveggja metra reglurnar er breytt nokkuð. Horft er til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu.

18. maí   Sund- og baðstöðum er heimilt að hafa opið með fjöldatakmörkunum þar sem leyfilegur hámarksfjöldi gesta fer aldrei yfir helming hámarksfjölda skv. starfsleyfi.

15. maí  Nýjar reglur um sóttkví taka gildi. Þeim sem koma til landsins er áfram skylt að fara í sóttkví í 14 daga, en heimild til að beita vinnusóttkví er rýmkuð. Nú eru öll lönd nema Grænland og Færeyjar áhættusvæði. Í þessu felst að engar sóttvarnalegar takmarkanir verða hér á landi gagnvart þeim sem koma hingað frá Færeyjum eða Grænlandi. Reglur um landamæri verða endurmetnar fyrir 15. júní.

4. maí Tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi. Fjöldatakmörkun rýmkar úr 20 í 50 manns, leik- og grunnskólar opna auk íþrótta- og æskulýðsstarfs án takmarkana. Unnt er að opna framhalds- og háskóla og ýmis starfsemi opnar að nýju.

24. apríl    Reglum um sóttkví breytt. Öllum sem koma til landsins gert skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu. Samhliða tekið upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum. Reglurnar gilda til 15. maí.

14. apríl  Tilkynnt um tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi sem taka gildi 4. maí. Fjöldatakmörkun rýmkar úr 20 í 50 manns, leik- og grunnskólar opna auk íþrótta- og æskulýðsstarfs án takmarkana. Unnt er að opna framhalds- og háskóla og ýmis starfsemi opnar að nýju.

3. apríl    Heilbrigðisráðherra tilkynnir ákvörðun sína um að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomumog skólahaldi sem að óbreyttu hefðu fallið úr gildi 13. apríl.

2. apríl  Smáforritið (síma-appið) Rakning C-19 tekið í notkun og gert aðgengilegt í App Store og Google Play. Tilgangur þess er að auðvelda smitrakningu.  

31. mars   Ísland gerist aðili að samningi sem gerir kleift að taka þátt í sameiginlegum innkaupum Evrópuríkja á margvíslegum aðföngum fyrir heilbrigðisþjónustuna.

27. mars  Ríkissaksóknari sendir öllum lögreglustjórum í landinu fyrirmæli um viðbrögð og sektargreiðslur brjóti fólk gegn reglum heilbrigðisráðherra um sóttkví og einangrun.

24. mars  Hertar takmarkanir á samkomum taka gildi. Tilkynnt um dauðsfall á Landspítala afvöldum Covid-19.

22. mars  Heilbrigðisráðherra tilkynnir enn frekari takmarkanir á samkomum í samræmi við ráðleggingar sóttvarnalæknis. Mörkin sett við 20 manns. Gildistaka á miðnætti aðfaranótt 24. mars.

19. mars  Öll lönd skilgreind sem áhættusvæði. Allir íslenskir ríkisborgarar og fólk með búsetu á Íslandi sem kemur til landsins eftir dvöl erlendis gert að sæta fjórtán daga sóttkví.

15. mars  Fyrstu niðurstöður skimana á almenningi benda til þess að óþekkt smit úti í samfélaginu séu fá.

14. mars  Íslensk stjórnvöld ráða Íslendingum frá ferðalögum og hvetja landsmenn á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför.

13. mars   Samkomur takmarkaðar og mörkin sett við 100 manns. Framhalds- og háskólum lokað og rekstur leik- og grunnskóla takmarkaður. Fyrstu smitin greinast sem ekki er hægt að rekja. Íslensk erfðagreining hefur almenna skimun fyrir COVID-19.

6. mars   Fyrstu tvö smitin sem berast á milli manna á Íslandi staðfest. Bæði rakin til einstaklinga sem höfðu ferðast til Norður-Ítalíu. Neyðarstig almannavarna virkjað.

1. mars  Ísland skilgreinir gjörvalla Ítalíu sem hættusvæði.

28. febrúar  Fyrsta COVID-19 smitið staðfest á Íslandi. Hættustig almannavarna virkjað.

27 febrúar Fyrsti blaðamannafundur sóttvarnalæknis, landlæknis og yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og streymt beint frá honum í stærstu fjölmiðlum landsins.

26. febrúar   Ísland skilgreinir áhættusvæði, þar á meðal Norður-Ítalíu og Tíról, á undan öðrum ríkjum, og grípur til harðari aðgerða. Öllum sem koma til landsins frá þessum svæðum er gert að sæta fjórtán daga sóttkví.

24. febrúar   Sóttvarnalæknir ráðleggur gegn ónauðsynlegum ferðum til fjögurra héraða á Norður-Ítalíu.

31. janúar Fundur haldinn í þjóðaröryggisráði ásamt heilbrigðisráðherra og sóttvarnalækni. Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð.

31. janúar Fyrsta sýni fyrir nýrri kórónuveiru (SARS-CoV-2) rannsakað á Íslandi (á Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans).

30. janúar   Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsir yfir neyðarástandi á heimsvísu.

29. janúar  Sóttvarnalæknir ráðleggur gegn ónauðsynlegum ferðalögum til Kína og mælist til þess að þeir sem koma þaðan fari í 14 daga heimasóttkví.

27. janúar  Óvissustigi lýst yfir vegna kórónaveirunnar hér á landi. Farið yfir viðbúnað og viðbragðsáætlanir og birgðastaða nauðsynlegs búnaðar könnuð.

Markmið og aðgerðir stjórnvalda

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýstu 6. mars sl. yfir hæsta almannavarnastigi  - neyðarstigi - vegna faraldurs veirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Var þetta gert í samræmi við Landsáætlun um heimsfaraldur. Þær aðgerðir sem þá var gripið til vörðuðu lykilstofnanir og fyrirtæki í landinu sem gripu til nauðsynlegra aðgerða til að mæta faraldrinum. Allar aðgerðir í sóttvarnaástandi hafa áhrif á daglegt líf fólks, mismikil þó. Því er gripið til aðgerða sem vitað er að muni skila árangri. Við horfum því til gagnreyndra aðferða sem vitað er að skila árangri, á borð við sóttkví fyrir útsetta, einangrun fyrir smitaða, snemmgreiningu smita og öfluga upplýsingagjöf til almennings. Einnig hefur verið gripið til frekari aðgerða til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og var sett á samkomubann sem miðaðist við 100 manns en það takmarkað enn frekar niður í 20 manns eða færri frá og með 24. mars. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest og birt reglur um sóttkví og einangrun vegna COVID-19. Reglurnar gilda um alla þá einstaklinga sem sóttvarnalæknir skyldar í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga.

Forsenda aðgerðanna er að það sé rík samstaða í samfélaginu um að fylgja ráðleggingum og taka þátt í þessari miklu vinnu. Sóttvarnir varða heilsu einstaklingsins en um leið hag samfélagsins alls. Við erum öll almannavarnir.

Nálgast má stöðuskýrslur almannavarna vegna COVID-19. Jafnframt eru upplýsingafundir haldnir í fjölmiðlum.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Nýjustu tölulegu upplýsingar er að finna á síðunni.

Aðgengilegar upplýsingar um reglurnar á landamærunum
Hér má finna flýtileið á ensku sem útskýrir helstu reglur sem gilda á landamærunum