Táknmál
Táknmál
Forskráning fyrir heimkomu

Sóttkví


Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af COVID-19 en er ekki með einkenni. Einangrun er fyrir þá sem eru með staðfesta COVID-19 sýkingu en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda. Smitgát er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega verið útsettur fyrir COVID-19 en ekki er talin þörf á sóttkví. Smitrakningarteymi metur áhættuna í hvert sinn, gjarnan í samstarfi við skólastjórnendur eða vinnuveitendur.

Athugið að þríbólusett fólk þarf enn að fara í sóttkví þó mildari reglur gildi um þá sóttkví.  

Mikilvægt er að fólk grípi til ráðstafana sjálft ef það veit að það hefur orðið útsett fyrir smiti (þ.e. hefur hitt einhvern smitaðan), þá eru líkur á því að fólk veikist og smiti aðra. Það á því að fara í sóttkví strax og bíða eftir skilaboðum frá rakningarteyminu sem skráir fólk formlega í sóttkví.

Þú ferð í sóttkví ef

Þú hefur umgengist einhvern sem reyndist smitaður.
Þú ferðast frá útlöndum og hefur ekki vottorð um bólusetningu eða fyrri COVID-19 sýkingu.

Þú ferð ekki í sóttkví ef

Þú hefur umgengist einhvern sem var síðar sendur í sóttkví.
Nágranni þinn smitast (til dæmis í sama stigagangi), nema þið hafið verið í miklum samskiptum.

Sóttkví lýkur

Sóttkví er hægt að stytta í 5 daga ef þú ferð í sýnatöku, annars er sóttkví 14 dagar.
Þú færð sjálfkrafa sent strikamerki fyrir sýnatökuna, þú þarft ekki að skrá þig sérstaklega til þess.
Sóttkví sem fer fram á heimili þar sem einhver er í einangrun lýkur með neikvæðri niðurstöðu úr sýnatöku eftir að einangrun hefur verið aflétt. Heimilismenn geta þá gert ráð fyrir sóttkví degi lengur en einangrun varir. Til að uppfylla skilyrði um styttingu sóttkvíar í 5 daga þarf að vera fullur aðskilnaður milli einstaklings í einangrun og þess sem er í sóttkví.

Sóttkví í heimahúsi

Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um sóttkví í heimahúsi. Sóttkvíarstaður þarf að vera fullnægjandi til sóttkvíar og þau sem eru í sóttkví þurfa að dvelja þar allan tímann sem sóttkví varir.

Í sóttkví

Umgengni við annað fólk er óheimil. Þess vegna þurfa þau sem eru í sóttkví að fá aðstoð við aðföng o.þ.h.

Ef heimilið er í sóttkví geta vinir eða ættingjar sinnt aðföngum og skilið eftir við útidyr en eiga ekki að hafa bein samskipti við aðila í sóttkví.

Ef heimsending matvæla og annarra nauðsynja er í boði á svæðinu er hægt að nýta þá þjónustu á meðan sóttkví stendur. Sá sem er í sóttkví ætti að taka fram að um sóttkví sé að ræða og varning ætti að skilja eftir við útidyr.

Ef einstaklingur í sóttkví fær einkenni COVID-19 sýkingar ber honum að fara tafarlaust í sýnatöku (nota má einkabíl eða leigubíl og taka skal fram að hann sé í sóttkví) og fylgja reglum um einangrun meðan beðið er eftir niðurstöðu. Aðrir heimilismenn fara þá undir eins í sóttkví og bíða niðurstöðu sýnatökunnar.

Hafa ber í huga að fólk er í sóttkví vegna þess að hugsanlegt er að það hafi smitast af COVID-19. Ef það veikist verða öll þau sem hafa umgengist viðkomandi sett í sóttkví. Þess vegna er náin umgengni við fólk í sóttkví óæskileg.

Heimilt er að dvelja á eigin heimili þó annar heimilismaður sé þar í sóttkví.

Ítarlegri leiðbeiningar um sóttkví í heimahúsi.

Í sóttkví má:

Fara í stutta gönguferð i nágrenni sóttkvíarstaðar
Nota flugrútu, einkabíl og leigubíl í ferð frá flugvelli
Fara til læknis en hringja fyrst

Í sóttkví má ekki:

Umgangast annað fólk
Vera í fjölmenni
Nota strætó, innanlandsflug og almenningssamgöngur
Fara í bíltúr
Nota tæki í almenningsrými svo sem til íþróttaæfinga eða á leikvöllum.
Fara í búðir eða á veitingastað
Búa í húsbíl/tjaldvagni
Dvelja á farfuglaheimili
Fara á ferðamannastaði

Sóttkví fyrir þríbólusetta eða tvær bólusetningar og staðfesta sögu um COVID-19

Mildari reglur í sóttkví gilda um:

Fólk sem er þríbólusett og fékk síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en útsetning fyrir smiti á sér stað.
Fólk sem hefur jafnað sig af staðfestu COVID-19 smiti og er jafnframt tvíbólusett, að því gefnu að seinni sprautan hafi verið fengin meira en 14 dögum áður en útsetning fyrir smiti á sér stað.

Athugið að bólusetning með einni sprautu af bóluefni Janssen telur sem ein bólusetning.

Breyttar reglur fela í sér að fólk er skráð í sóttkví en er:

heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.

Takmörkunum samkvæmt ofangreindum reglum lýkur ekki fyrr en með niðurstöðu PCR-prófs sem tekið er á fimmta degi sóttkvíar.

Húsnæði í sóttkví

Landlæknir hefur gefið út leiðbeiningar um viðeigandi húsnæði í sóttkví.

Hér má sjá lista yfir gististaði sem taka á móti gestum í sóttkví.

Sóttvarnarlæknir getur í undantekningartilfellum ákveðið að einstaklingur sem sætir sóttkví skuli dveljast á sóttvarnarhúsi, svo sem ef viðkomandi getur ekki einangrað sig í húsnæði á eigin vegum eða ef sýnt þykir að hann muni ekki hlíta reglum um sóttkví. Ekki má fara á milli gististaða eða landshluta að óþörfu og mikilvægt að tilkynna slíkt til almannavarna, t.d. á netspjalli covid.is.

Börn í sóttkví

Það er mörgum erfitt að vera stíað frá vinum og ættingjum vegna sóttkvíar. Það er enn erfiðara fyrir börn, sérstaklega ung börn, sem ekki skilja tilganginn með þessum ráðstöfunum. Til eru leiðbeiningar og tillögur til forráðamanna barna um dægradvöl í sóttkví og hvernig hægt sé að útskýra sóttkví fyrir börnum. Jafnframt hafa verið gerðar leiðbeiningar til forráðamanna barna með sértækar umönnunarþarfir í sóttkví.

Foreldri með barni í sóttkví vegna nándar við smitaða manneskju þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 5 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku.

Staðfesting/vottorð um sóttkví

Til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð þarf fólk að vera skráð í sóttkví. Það er gert af smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og almannavarna. Gert hefur verið myndband um hvernig sótt er um vottorð inni á heilsuveru. Þau eru án endurgjalds. Skráning í heilsuveru krefst þess að notandi sé með rafræn skilríki.

Hægt er að fá vottorð vegna fjarvista frá vinnu vegna:

Sóttkví vegna nándar við tilfelli, sóttkví fyrirskipuð af smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og almannavarna.
Barns sem er skipað í sóttkví, foreldrar fá vottorð vegna barns.

Vinnusóttkví

Sóttvarnalæknir getur heimilað einstaklingum, einum eða fleiri saman, sem skylt er að fara í sóttkví og eru komnir hingað til lands til starfa eða til að sinna sérstökum verkefnum að fara í vinnusóttkví í stað heimasóttkvíar. Með vinnusóttkí er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað á meðan sóttkví stendur.

Reglur um sóttkví við komuna til landsins

Allir eiga að fara í sóttkví nema farþegar sem framvísa bólusetningarvottorði eða vottorði um fyrri sýkingu.

Þau sem ekki framvísa vottorði á landamærunum þurfa að fara í sýnatöku á landamærunum, halda fimm daga sóttkví og fara í aðra sýnatöku við lok hennar.

Farþegum er heimilt að vera í heimasóttkví að því gefnu að húsnæðið uppfylli ákveðin skilyrði.

Um vernd persónuupplýsinga fer eftir lögumnr. 90/2018. Upplýsingar eru afhentar viðbragðsaðilum þ.e. slökkviliði og öðrum sem annast sjúkraflutninga og lögreglu, sem framfylgir því að sóttvarnarreglur séu virtar.

Brot á sóttvarnarreglum geta varðað sektum.

Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun um sóttkví skal beina til sóttvarnalæknis.

Um skyldu til að sæta sóttkví eða einangrun eða fara í sýnatöku vegna COVID-19 má lesa nánar á heimasíðu Landlæknis.

Kæruheimild: Þeim sem gert er að sæta sóttkví geta kært þá ákvörðun um að þér sé skylt að sæta sóttkví undir dóm, sbr. 15. gr. laganr. 19/1997. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd ákvörðunarinnar.

Einstaklingar geta farið fram á formlega ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví, einangrun eða sýnatöku. Beiðni um slíka ákvörðun skal senda á sottkvi@landlaeknir.is.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Aðgengilegar upplýsingar um reglurnar á landamærunum
Hér má finna flýtileið á ensku sem útskýrir helstu reglur sem gilda á landamærunum