Táknmál
Táknmál
Forskráning fyrir heimkomu

Sóttkví


Sóttkví

Sóttkví er ekki er notuð við að hemja útbreiðslu COVID-19 á Íslandi lengur.

Smitrakning

Smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og almannavarna starfaði frá upphafi faraldursins í febrúar 2020 þar til sóttkví var aflögð 11. febrúar 2022. Með nákvæmu samtali við þau sem höfðu greinst með COVID-19 var fundið út hverja þau hefðu umgengist og þannig hugsanlega smitað, áður en einkenna varð vart. Síðar var notast við rafrænt form sem fylgt var eftir með símtali ef þörf var á.

Útsetning

Fólk sem var í töluverðum samskiptum við smitaðan einstakling á meðan viðkomandi var talinn smitandi var útsett fyrir smit. Útsettir einstaklingar voru settir í sóttkví til að koma í veg fyrir að það smitaði aðra. Dagurinn sem fólki hitti smitaða síðast var kallaður útsetningardagur.

Við smitrakningu var litið til þess hversu lengi sá smitaði hafði verið í samveru við aðra og hversu mikil fjarlægð hefði verið milli þeirra. Þá skipti einnig máli lengd samveru og náin endurtekin samskipti. Sama átti við um langa dvöl innandyra á sama heimili eða vinnustað og sameiginlega snertifleti. Þegar leið á faraldurinn og grímunotkun varð almennari hafði hún meira vægi þegar teknar voru ákvarðanir um sóttkví.

Um tíma var reglum um sóttkví aflétt fyrir fólk sem búið var að bólusetja og þegar sóttkví var afnumin í skrefum var einnig litið til bólusetningarstöðu.

Fjöldi í sóttkví

Einangrun var fyrir þau sem voru með staðfesta COVID-19 sýkingu en þurftu ekki á sjúkrahúsdvöl að halda. Smitgát var notuð fyrir fólk sem mögulega hafði verið útsett en líkur á smiti voru taldar minniháttar.

Á þessari mynd má sjá hlutfall þeirra sem voru í sóttkví þegar þau greindust með COVID-19 eftir mánuðum. Sjá má að hlutfallið hækkaði og lækkaði gegnum faraldurinn en þegar smitum fjölgaði ört í samfélaginu lækkaði hlutfall þeirra sem greindust í sóttkví oft tímabundið. Að meðaltali voru um 58% sem voru í sóttkví við greiningu þegar faraldurinn er skoðaður í heild sinni.  

Hvað mátti og hvað ekki?

Í sóttkví þurfti fólk að halda sig frá öðrum, mátti eingöngu fara í gönguferð í nágrenni heimilis síns eða dvalarstaðar en mátti ekki fara í vinnu, skóla, verslanir eða á aðra fjölsótta staði. Þannig þurftu vinir og ættingjar að sinna innkaupum til heimilisins og skilja vörur eftir fyrir utan heimili og dvalarstaði. Margir nýttu sér möguleika á að kaupa á netinu og fá sent heim en vefverslun óx mjög í faraldrinum.

Sérstakar reglur giltu um húsnæði í sóttkví þar sem fólk í sóttkví varð að halda sig frá öðrum fjölskyldumeðlimum, hafa aðgangi að sér salernisaðstöðu og ýmislegt fleira. Þó gátu heimilismeðlimir sem höfðu verið útsettir á sama tíma verið saman í sóttkví en þessar reglur tóku nokkrum breytingum eftir því sem leið á faraldurinn. Foreldrar ungra barna sem fóru í sóttkví þurftu stærstan hluta faraldursins að fylgja þeim í sóttkví.

Ef fólk var í sóttkví á sama heimili og einhver var í einangrun, lauk þeirri sóttkví með neikvæðu PCR prófi daginn eftir að einangrun lauk. Ef í ljós kom COVID-19 smit hjá heimilismeðlim í sóttkví lengdist sóttkví annarra þangað til daginn eftir að einangrun þess heimilsmanns var lokið.  

Hversu lengi

Í upphafi varði sóttkví í 14 daga frá útsetningardegi. Með betri skilningi á smitleiðum og hvenær smit kom fram hafi það á annað borð orðið var haustið 2020 boðið upp á að stytta sóttkví í 7 daga, að því gefnu að neikvæð niðurstaða fengist úr PCR prófi á síðasta degi. Í janúar 2021 var sóttkví svo stytt í 5 daga með sömu skilyrðum. Eftir sem áður var þó hægt að sleppa sýnatökum og halda 14 daga sóttkví, en hvatt til þess að fólk færi í sýnatöku ef það fékk einkenni.  

Ferðalög frá útlöndum

Auk þess að fara í sóttkví vegna nálægðar við smitaða manneskju var sóttkví beitt þegar fólk kom til landsins frá ákveðnum löndum þar sem talið var að mikið væri um COVID-19 smit.

Í upphafi var sóttkví við komuna til landsins 14 dagar. Í júní 2020 var reglum þó breytt á þá leið að í stað þess að fara í sóttkví gat fólk gengist undir PCR próf á landamærunum en ef það var neikvætt var sóttkví ekki nauðsynleg. Þegar leið á sumarið varð þó ljóst að smit bárust inn í landið þrátt fyrir skimun á landamærunum. Í ágúst 2020 var gerð krafa um að fólk færi tvisvar í PCR próf með fimm daga millibili og væri í sóttkví á milli.

Í apríl 2021 var öllum sem komu til landsins frá ákveðnum há-áhættusvæðum, gert skylt að dvelja í sóttkvíarhúsi á vegum yfirvalda, hvort sem þau voru búsettir á Íslandi eða ferðafólk. Þann 9. apríl 2021 úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að ríkið mætti ekki skylda fólk í sóttkví á ákveðnum stað, en áfram var biðlað til fólks að ljúka sóttkví á sóttkvíarhótelinu og leiðbeiningar um hvað teldist viðunandi húsnæði í sóttkví hertar. Reglan var felld úr gildi 31. maí 2021 en sóttvarnarhús voru áfram starfrækt fyrir þau sem ekki höfðu aðstöðu til að vera í heimasóttkví.

Afnám

Þegar ómicron afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19  varð allsráðandi í  samfélaginu var sóttkví afnumin enda voru þegar mest lét hátt í 14.000 manns í sóttkví. Sökum þess að ómicron olli vægari veikindum en fyrri afbrigði veirunnar var talið að áhrif sóttkvínnar á samfélagið væru orðin alvarlegri en áhrif mögulegra veikinda. Því var sóttkví einangruð við þá sem voru útsettir fyrir smiti á eigin heimili og síðan afnumin með öllu.

Fjöldi

Á meðfylgjandi mynd má sjá meðaltalstölur um fjölda í sóttkví á dag eftir mánuðum frá febrúar 2020 til febrúar 2022. Þegar allur faraldurinn er skoðaður voru að meðaltali 2596 manns í sóttkví á hverjum degi.

Allar þessar takmarkanir byggðu á heimild í Sóttvarnarlögum og reglugerðum heilbrigðisráðherra.

Aðgengilegar upplýsingar um reglurnar á landamærunum
Hér má finna flýtileið á ensku sem útskýrir helstu reglur sem gilda á landamærunum