Táknmál
Táknmál
Forskráning fyrir heimkomu

Smitgát

Smitgát vegna COVID-19

Fólk er hvatt til að vera í smitgát þegar það hefur umgengist eða verið á sama stað og einhver sem síðar greinist með COVID-19. Með því að vera í smitgát fækkar smitleiðum og við drögum úr útbreiðslu COVID-19. Smitgát varir í 5 daga frá því að þú hittir smitaðan einstakling síðast.

Fólk sem greinist með COVID-19 en er með lítil eða engin einkenni og hitalaus er beðið að viðhafa smitgát.

Í smitgát

Er í lagi að sækja vinnu, skóla og stunda íþróttir.
Er ráðlagt að forðast margmenni.
Er ráðlagt að bera grímu innan um annað fólk, við vitum ekki alltaf hver gæti verið viðkvæmur fyrir smiti frá okkur.
Ráðlagt er að forðast umgengni við þau sem eru viðkvæm fyrir alvarlegum veikindum af völdum Covid-19
Er í lagi að sækja nauðsynlega þjónustu
Ætti ekki að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. hjúkrunarheimili, án leyfis stofnunar
Er góð regla að upplýsa þau sem veita þjónustu í nánd, svo sem sjúkraþjálfara, hárgreiðslufólk, að smitgát standi yfir.
Er mikilvægt að fylgjast með einkennum og fara beint í sýnatöku ef þau koma fram.

Helstu einkenni COVID-19: Hiti, hósti, kvefeinkenni, hálsbólga, slappleiki, þreyta, höfuðverkur, bein-/vöðvaverkir, skyndileg breyting á lyktar- eða bragðskyni, kviðverkir og niðurgangur.

Sýnatöku vegna einkenna er hægt að panta á Heilsuveru á Mínum síðum (með rafrænum skilríki), á hradprof.covid.is eða gegnum netspjall Heilsuveru. Einnig er hægt að hringja í heilsugæsluna í síma 513 1700, eða utan dagvinnutíma á Læknavaktinni í 1700.

Um smitgát

Eftir að COVID-19 barst til Íslands í lok febrúar árið 2020 hófust víðtækar sóttvarnaraðgerðir til að reyna að stemma stigu við faraldrinum. Þannig fór fólk í einangrun sem hafði smitast og þau sem voru útsett fóru í sóttkví. Þegar leið á faraldurinn og sérstaklega eftir því sem bólusetningum vatt fram var leitað leiða til að draga úr íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum án þess að stefna heilsu landsmanna í hættu. Eitt af því sem gripið var til var smitgát. Smitgát er vægari aðgerð en sóttkví og öfugt við hana er ekki kveðið á um notkun smitgátar í sóttvarnarlögum.

Í smitgát var fólki ráðlagt að vera með grímu innan um annað fólk, halda sig frá fjölförnum stöðum og margmenni, halda tveggja metra nálægðarreglu, vinna heima ef kostur var og forðast að umgangast fólk í viðkvæmum hópum. Fólk í smitgát átti ekki að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þ.m.t. hjúkrunarheimili, án leyfis stofnunar.

Þó var í lagi að sækja vinnu, skóla og stunda íþróttir og sækja nauðsynlega þjónustu. Fólk var hvatt til að upplýsa þau sem veita þjónustu í nánd, svo sem sjúkraþjálfara, hárgreiðslufólk, að smitgát stæði yfir.

Hver fóru í smitgát:

Fyrst var talað um smitgát í júlí 2020, í samhenginu „heimkomusmitgát“. Það voru tilmæli til Íslendinga á leið heim frá útlöndum, um að fara varlega fyrstu dagana eftir heimkomu, þrátt fyrir að hafa farið í sýnatöku á landamærunum, og svo tilmæli um að fara í annað próf 5 dögum síðar. Þetta fyrirkomulag tvöfaldrar sýnatöku á landamærunum varð síðar almenn regla við komuna til landsins en í stað smitgátar var fólk í sóttkví milli sýnataka.

Þegar appið Rakning C-19 var kynnt sumarið 2020 var fólki sem hafði verið útsett samkvæmt upplýsingum úr appinu boðið að skrá sig í smitgát. Með hefðbundinni smitrakningu hefði verið hægt að ákveða hverjir skyldu fara í sóttkví vegna útsetningarinnar en af því að ekki var hægt að staðfesta útsetningu með óyggjandi hætti var fólki boðið að fara í smitgát í staðin.

1. júlí 2021 var reglum um sóttkví breytt þannig að þau sem voru bólusett eða höfðu sögu um fyrra smit þurftu ekki að vera í sóttkví þó einhver á heimilinu væri í sóttkví heldur dugði að beita smitgát. Þessi breyting var seinna tekin til baka.

Haustið 2021 var bólusetning orðin almenn og þrátt fyrir að hún minnkaði líkur á smiti og alvarlegum veikindum kom hún ekki í veg fyrir smit. Þegar skólar byrjuðu á ný eftir sumarfrí voru háværar raddir uppi um að koma þyrfti til móts við börn og skólafólk enda höfðu mörg börn og fjölskyldur þeirra þurft að fara í endurteknar sóttkvíar veturinn á undan og ljóst að allar breytingar sem kæmu í veg fyrir að börn þyrftu að dvelja langdvölum utan skóla væru til góðs. Þess vegna voru skilyrði fyrir sóttkví þrengd töluvert en smitgát gerð að reglu fyrir þau sem voru minna útsett og ólíklegri til að hafa smitast af umgengni.

Í lok faraldursins var svo tekið upp það fyrirkomulag fyrir smitað fólk að einangrun var stytt í nokkrum skrefum úr 14 dögum niður í 5 en mælst til þess að fólk væri í smitgát í allavega 2 daga eftir að einangrun lyki. Eins var einkennalausu fólki heimilt að sleppa einangrun en viðhafa í staðin smitgát.

Í janúar 2022 var reglum um sóttkví breytt þannig að einungis þau sem voru útsett fyrir smiti á heimili að dvalarstað þurftu að fara í sóttkví en þau sem voru útsett utan heimilis fóru í smitgát.

Hvernig virkaði smitgát

Af því að hugtakið smitgát var notað um á mismunandi hátt eftir því sem leið á faraldurinn var misjafnt hvernig henni var nákvæmlega háttað.

Heimkomusmitgátin sem áður var minnst á var 5 dagar og sömu sögu var að segja um smitgát sem skráð var vegna hugsanlegrar útsetningar samkvæmt Rakning C-19 appinu. Í reglugerð um sóttkví og einangrun  nr 938 sem sett var haustið 2021 var smitgát líka skilgreind sem 5 dagar og fólk boðað í hraðpróf á degi 1 og degi 5.

Smitgát sem tók við eftir að 7 eða 5 daga einangrun lauk undir lok faraldursins þurfti ekki að ljúka með hraðprófi.

Aðgengilegar upplýsingar um reglurnar á landamærunum
Hér má finna flýtileið á ensku sem útskýrir helstu reglur sem gilda á landamærunum