Matvæli og dýr

Matvæli

Ekkert bendir til þess að Covid-19 veiran berist með matvælum.

Getur veiran borist með ferskum ávöxtum og grænmeti?

Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum skv. áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir úðasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Mjög ólíklegt er þó að hún nái að berast milli landa með ávöxtum og grænmeti. Engu að síður er mikilvægt að þú, nú sem áður, skolir vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu. Ef þú ert í einangrun áttu ekki að útbúa mat fyrir aðra.

Getur veiran borist með umbúðum matvæla?

Það er mjög ólíklegt að þú smitist af kórónaveirunni við snertingu matvælaumbúða. Mundu samt að handþvottur fyrir og eftir verslunarferð er góð venja.

Getur veiran borist með innkaupavögnum og körfum í verslunum?

Það er ólíklegt að innkaupavagnar og körfur beri smit. Ef sýktur einstaklingur hóstar eða hnerrar á vagninn eða körfuna eða hreinsar ekki hendur eftir að hafa hóstað og hnerrað í þær gæti smit borist frá yfirborði á hendur annars viðskiptavinar. Ef hugað er að handhreinsun fyrir og eftir verslunarferð er hætta á að smitast vegna mengunar slíkra yfirborða lítil.

Uppskera grænmetis og framleiðsla dýraafurða

Fólk sem hefur verið greint með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, má ekki vinna við uppskeru grænmetis. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er varða matvæli skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt. Fólk sem hefur verið úrskurðað í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og er einkennalaust, má vinna við uppskeru grænmetis séu ekki aðrir þar að störfum líkaTíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin.

Huga þarf vel að leiðbeiningum og reglum um kórónaveirusmit og sóttkví þegar kemur að framleiðslu dýraafurða og vinnu við mjaltir og önnur fjósastörf.

Geta húsdýr eða gæludýr smitast af Covid-19 og geta þau orðið veik?

Ekki er vitað til þess að húsdýr eða gæludýr veikist af Covid-19 en Matvælastofnun fylgist með þekkingarþróun á þessu sviði.

Ætti fólk sýkt af Covid-19 að forðast snertingu við dýr?

Það hefur ekki verið staðfest að menn geti smitað dýr. Þetta er nýr sjúkdómur og því er hann og smitleiðir hans ekki fullrannsakaðar en nýjar upplýsingar berast stöðugt. Það er engin ástæða fyrir þig að vera ekki með gæludýrinu þínu, þau geta veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður. Að þvo hendur eftir snertingu við dýr er góð venja og almennt ætti að forðast að hundar sleiki fólk í andlitið. Ef þú ert í sóttkví geturðu farið út með hundinn þinn að því gefnu að leiðbeiningum varðandi sóttkví í heimahúsi sé fylgt.