Táknmál
Táknmál

Líðan okkar

Ef þú finnur fyrir áhyggjum eða þarft ráðgjöf getur þú alltaf haft samband við 1717 hjálparsíma Rauða krossins eða netspjallið.
Rauði Krossinn er með svörun á pólsku, bæði í síma og spjalli á fimmtudögum milli 20:00 - 23:00.

Þessi þjónusta er ókeypis fyrir alla.

Þú getur m.a. fengið ráðgjöf  vegna:  

kvíða, einmanaleika, þunglyndis, sjálfsvígshugsana, sjálfskaða
áfalla, sorgar, geðrænna erfiðleika
fjármála, námsörðuleika, húsnæðisvanda, atvinnuleysis
erfiðra samskipta og fordóma
eineltis og stríðni
barnaverndarmála
kynferðislegs, andlegs og/eða líkamlegs ofbeldis,
heilbrigðisvanda, neyslu eða fíknar 

Aðstoð sem tengist líðan

Hér má nálgast upplýsingar um aðila um allt land sem veita aðstoð sem tengist líðan.

Gagnlegar upplýsingar

Lýðheilsusvið embættis landlæknis hefur tekið saman 10 heilræði um heilsu og líðan. Heilræðin hafa einnig verið þýdd á ensku og pólsku.

Bæklingur um hvernig takast má á við áhyggjur og kvíða á tímum COVID-19. Sjá enska útgáfa og öðrum tungumálum, m.a. pólsku.

Bæklingur um góð ráð til foreldra og uppalenda.

Upplýsingar á vef heilsuveru.is um vellíðan, samskipti, einmanaleika og streitu.

Handbók um hugræna atferlismeðferð, þróuð af starfsfólki geðsviðs Reykjalundar.

Gert hefur verið myndband um áhyggjur og kvíða og hvað hægt sé að gera til að draga úr því, lengri útgáfa og styttri útgáfa.

Hvenær verða áhyggjur vandamál?

Allir hafa áhyggjur og það að hugsa fram í tímann getur hjálpað okkur að skipuleggja hluti og bregðast við aðstæðum. Erfitt getur verið fyrir fólk að meta hvenær áhyggjur eru orðnar óhóflegar. Stundum er miðað við að áhyggjur séu orðnar sjálfstætt vandamál þegar þær koma í veg fyrir að fólk geti lifað því lífi sem það vill lifa eða ef þær valda þreytu og vanlíðan.

Hvernig get ég brugðist við áhyggjum?

Í núverandi ástandi er eðlilegt að hafa áhyggjur, en ef áhyggjur eru orðnar óhóflegar og farnar að stjórna lífi fólks - t.d. ef þær valda kvíða eða svefnvanda, er mikilvægt að leita leiða til að bæta líðan og takmarka þann tíma sem fer í áhyggjur.  

Jafnvægi í daglegu lífi. Sálfræðingar líta á vellíðan sem samspil athafna sem veita ánægju og nánd og gefa fólki þá upplifun að það hafi áorkað einhverju. Mælt er með því að fólk sé í samskiptum en nú gæti þurft að beita nýstárlegum aðferðum til þess að halda nægjanlegri fjarlægð í samskiptum, til dæmis með myndsamtali og annarskonar netsamskiptum.
Snúast áhyggjurnar um raunveruleg vandamál eða möguleg vandamál? Ef við erum með áhyggjur af mörgum mögulegum vandamálum er mikilvægt að við minnum okkur á að hugurinn er upptekinn af vandamálum sem við höfum ekki tök á að leysa núna. Í framhaldinu er hjálplegt að finna leiðir til að sleppa áhyggjunum og einbeita sér að öðru.
Æfingar í að fresta áhyggjum. Áhyggjur geta verið ágengar og valdið því að fólki finnist nauðsynlegt að bregðast strax við. Með því að æfa sig í að fresta áhyggjum af mögulegum vandamálum fær fólk gjarnan annað sjónarhorn og upplifun af áhyggjum sínum. Í framkvæmd snýst þetta um að taka daglega frá tíma (t.d. 30 mínútur seinnipart dags) til þess að hugsa um áhyggjurnar og jafnframt að sleppa og fresta áhyggjum á öðrum tímum sólarhringsins.
Sjálfstal sem einkennist af samkennd. Áhyggjur beinast gjarnan að fólki sem okkur þykir vænt um. Eitt af helstu verkfærum hugrænnar atferlismeðferðar er að skrifa niður hugsanir sem eru neikvæðar, valda kvíða eða öðru uppnámi og að finna svör við þeim.
Núvitund. Að læra núvitund og stunda slíkar æfingar getur hjálpað fólki að sleppa áhyggjum og að draga athyglina að líðandi stund. Full athygli að önduninni eða umhverfishljóðum getur verið hjálplegt “akkeri” til þess að beina athyglinni að núinu og að sleppa áhyggjum.