Táknmál
Táknmál
Aðgengilegar upplýsingar um reglurnar á landamærunum
Hér má finna flýtileið á ensku sem útskýrir helstu reglur sem gilda á landamærunum
Ekki sækja fólkið þitt á flugvöllinn
– þau eru í sóttkví fram
   yfir seinni sýnatöku
Þau sem koma til landsins þurfa að taka flugrútu, leigubíl eða keyra sjálf.

Gildandi takmarkanir

Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er í gildi frá og með 20. október og gildir til og með 17. nóvember 2021.

Reglugerðin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna, né til loftfara og skipa í millilandaferðum og skipa sem stunda fiskveiðar. Einnig tekur reglugerðin ekki til heilbrigðisstofnana, hjúkrunarheimila og annarra sambærilegra stofnana, en þær skulu setja sérreglur um sóttvarnir.

Fjöldatakmörkun á ekki við um börn sem fædd eru 2006 eða síðar. Nálægðarmörk og grímuskylda eiga ekki við um börn sem fædd eru 2006 og síðar.

Reglugerð þessi tekur til skólastarfs eftir því sem við á.

Fjöldi, nálægðarmörk, grímunotkun

Fjöldatakmörkun

Hámarksfjöldi fólks í sama rými er 2000 með ákveðnum takmörkunum, bæði í opinberu rými og í einkarými, úti og inni. Heimilt er að hafa ótakmarkaðan fjölda fólks á viðburðum enda framvísi allir gestir neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.

Fjöldatakmörkun tekur ekki til barna sem fædd eru 2006 eða síðar. Fjöldatakmörkunin gildir ekki um almenningsamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila (s.s. lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almannavarna og heilbrigðisstarfsfólks). Einnig gildir hún ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis, þjóðaröryggisráðs eða þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

Nálægðarmörk

Á öllum vinnustöðum og í annarri starfsemi þarf að tryggja 1 metra nálægðarmörk á milli fólks sem er ekki í nánum tengslum.

Heimilt er að falla frá 1 metra nálægðarmörkum á athöfnum þar sem gestir sitja.

Nálægðarmörk eiga ekki við um börn fædd 2006 og síðar.

1 metra nálægðarmörk gilda ekki á skólaskemmtunum.

Grímunotkun

Mælst er til þess að notuð sé gríma þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Andlitsgríma skal hylja nef og munn.

Starfsemi sem felur í sér sérstaka smithættu

Viðburðir þar sem gestir sitja:

Allt að 2000 manns mega vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðslistar- menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði. Nálægðarmörk gilda ekki á viðburðum þar sem allir sitja. Heimilt er að hafa hlé á sýningum og veitingasala á viðburðum er heimil. Í hléi skal tryggja 1 metra nálægðarmörk.

Heimilt er að hafa allt að ótakmarkaðan fjölda fólks í rými á viðburðum að því gefnu að allir gestir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst. ATH. sjálfspróf eru ekki tekin gild. 1 metra regla gildir ekki.

Ýmis starfsemi

Verslanir mega taka á móti 2000 viðskiptavinum svo lengi sem hægt sé að tryggja að minnsta kosti 1 metra á milli þeirra sem eru ekki í nánum tengslum. Tryggja þarf aðgang að handsótthreinsi við innganga og í grennd við algenga snertifleti, s.s. snertiskjái, innkaupakerrur og afgreiðslukassa.

Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir hafa heimild til að hafa allt að 2000 manns á sviði, þ.e. á æfingum og sýningum. Heimilt er að taka á móti allt að 2000 sitjandi gestum í hvert rými. Börn fædd 2006 og síðar eru ekki talin með. Veitingasala er heimil í hléi. Athugið sérstakar reglur um ótakmarkaðan fjölda fólks í hverju rými að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjá ofar.

Við athafnir trú- og lífskoðunarfélaga mega allt að 2000 gestir vera viðstaddir og einnig í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum.

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar mega hafa opið til kl. 1.00 alla daga vikunnar með að hámarki 2000 gesti í rými og 1 metra nálægðarmörkum. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn kl. 2.00.

Skemmtistaðir og krár mega hafa opið til kl. 1.00 alla daga vikunnar með að hámarki 2000 gesti í rými. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn kl. 2.00.

Þó er heimilt að halda einkasamkvæmi á veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengur en til kl. 1.00 að því gefnu að vínveitingaleyfi sé ekki nýtt og ekki komi nýjir gestir eftir kl. 1.00.

Spilakassar og spilasalir mega hafa opið til kl. 1.00 alla daga vikunnar með að hámarki 2000 gesti í rými. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn kl. 2.00.

Sundlaugar og baðstaðir eru opnir fyrir leyfilegan hámarksfjölda.

Heilsu- og líkamsræktarstöðvar eru opnar fyrir leyfilegan hámarksfjölda gesta. Búnað skal sótthreinsa milli notenda. Tryggja skal loftræstingu og góðan aðgang sótthreinsiefnum fyrir hendur og tæki.

Tjaldsvæði og hjólhýsasvæði mega taka á móti 2000 manns í hverju sóttvarnarými. Börn fædd árið 2006 og síðar eru ekki talin með.

Söfn mega taka á móti leyfilegum hámarksfjölda gesta en þó ekki fleiri en 2000 í hvert rými.

Ekki er heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum svo sem tónleikum, dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að sér hóp fólks eftir kl 1.00.

Íþróttastarf á vegum ÍSÍ

Íþróttir inni og úti, jafnt barna sem fullorðinna, eru heimilar. Hámarksfjöldi í hverju hólfi eru 2000 manns. Gætt skal að sóttvörnum og sameiginleg áhöld sótthreinsuð eftir notkun og þess gætt að loftræsting sé í lagi og loftað út reglulega.

Íþróttakeppnir barna og fullorðinna eru heimilar og leyfilegt að taka á móti allt að 2000 áhorfendum. Fylgja skal reglum um viðburði með sitjandi gesti. Sjá ofar. Veitingasala á keppnisstöðum er heimil.

Í íþróttum sem ekki tilheyra Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands skal setja leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilegar íþróttir innan sambandsins.

Vinnustaðir, verslanir, opinberar byggingar og þjónusta

Tryggja þarf 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga í sama rými og viðeigandi hámarksfjölda. Enginn samgangur má vera á milli rýma.

Sóttvarnir

Þrífa og sótthreinsa yfirborðsfleti eins oft og hægt er, sérstaklega algenga snertifleti eins hurðarhúna og handrið.

Tryggja þarf aðgang að handsótthreinsi við innganga og í grennd við algenga snertifleti, s.s. snertiskjái, innkaupakerrur og afgreiðslukassa.

Minna almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum.

Viðbrögð á Íslandi

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda og markmið aðgerða vegna COVID-19 hafa frá upphafi verið skýr. Áhersla hefur verið lögð á að tryggja að nauðsynlegir innviðir landsins, og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið, sé í stakk búið til að takast á við álagið sem óhjákvæmilega myndast vegna sjúkdómsins hér á landi. Yfirlit yfir viðbrögð á Íslandi frá upphafi faraldursins má finna hér.