Gildandi takmarkanir
Frá 25. febrúar 2022 er öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs COVID-19 aflétt, jafnt innanlands sem á landamærunum.
Fjöldatakmörkun er engin
Nálægðarmörk eru engin
Grímunotkun er ekki skylda neins staðar
Takmarkanir á hvers konar starfsemi eru lagðar af, hvorki er skráningarskylda né takmarkanir á opnunartíma
Hvatt er til persónulegra smitvarna og að ef við erum með einkenni þá förum við í sýnatöku.
Sóttvarnir
Þrífa og sótthreinsa yfirborðsfleti reglulega, sérstaklega algenga snertifleti eins og hurðarhúna og handrið.
Hafa handsótthreinsi við innganga og í grennd við algenga snertifleti, s.s. snertiskjái, innkaupakerrur og afgreiðslukassa.
Gildandi takmarkanir
Þegar faraldur COVID-19 var í miklum vexti í mars árið 2020 var ljóst að grípa þurfti til aðgerða til að koma í veg fyrir að koma í veg fyrir veldisvöxt, með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfi og samfélag. Það myndi einnig verja viðkvæmustu hópana í samfélaginu, aldraða og fólk með veikt ónæmiskerfi. Fólk var því hvatt til persónulegra sóttvarna, svo sem að þvo og spritta hendur, passa að hnerra eða hósta ekki í lófana og þrífa sameiginlega snertifleti. Til viðbótar var síðar gripið til opinberra aðgerða og reglugerðir settar um fjöldatakmarkanir, grímuskyldu og nándarreglu.
Samkomubann
Samkomubann var fyrst sett 16. mars 2020 og voru mörkin sett við samkomur með 100 manns eða fleiri. Strax 22. mars voru reglur enn hertar og fjöldatakmörkin sett við 20 manns. Fjöldatakmarkanir voru nýttar allan faraldurinn, með hléum þó, allt fram til 25. febrúar 2022 þegar allar takmarkanir voru afnumdar hérlendis. Þegar reglurnar voru harðastar máttu einungis 10 manns koma saman en þegar mest var voru takmarkanir settar við 2000 manns. Enn strangari tilmæli voru þó við lýði á stundum, til dæmis á norðanverðum Vestfjörðum þar sem öllu var skellt í lás og fjöldatakmarkanir miðuðust við 5 manns í apríl 2020.
Þrátt fyrir almennar samkomutakmarkanir giltu sérstakar reglur um ýmsa starfsemi svo sem verslanir og þjónustu þar sem takmarkanirnar gátu tekið mið af stærð húsnæðis, því hvort gestir sætu í sætum, hvort þau snéru öll í sömu átt og svo framvegis. Íþróttasamband Íslands setti sér reglur um starfsemi í faraldrinum og kveðið var á um fjölda gesta sem hlutfall af rekstrarleyfi, til dæmis á sundstöðum og líkamsræktarstöðvum. Þá tóku ýmsir rekstraraðilar fljótlega upp á því að hólfaskipta til dæmis veitingastöðum þannig að hægt væri að taka á móti fleirum en ella án þess að það kæmi niður á sóttvörnum.
Á sumum tímabilum faraldursins var gripið til þess ráðs að loka öllum líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, samkomustöðum og vínveitingastöðum, auk þess sem opnunartímar vínveitingastaða voru takmarkaðir verulega eftir stöðunni í faraldrinum hverju sinni.
Í lok ágúst 2021 var tekin upp sú nýlunda að leyfilegt var að taka á móti fleirum en almennt gilti, eða jafnvel víkja frá reglum um hámarksfjölda á viðburðum, að því gefnu að allir gestir framvísuðu neikvæðu hraðprófi sem ekki væri eldra en 48 klst gamalt. Þannig var þess vænst að hægt væri að draga úr sérstaklega neikvæðum áhrifum COVID-19 á sviðslistir og menningu.
Grímur
Í upphafi faraldursins var ekki gerð krafa um grímunotkun, en haustið 2020 var sett í reglugerð að grímur skyldi nota í störfum sem krefðust nándar, svo sem hárgreiðslustofur og nuddstofur, en líka í almenningssamgöngum öðrum en strætisvögnum.
Þá var einnig grímuskylda þar sem ekki var hægt að fylgja nándarreglu og dæmi um að eigendur veitingahúsa og forsvarsmenn verslana og þjónustu settu reglur um grímunotkun sem gengu lengra en reglugerðir.
Á ákveðnum tímabilum þegar faraldurinn var í vexti var grímuskylda sett á í verslunum og verslunarmiðstöðvum, sem og á veitingahúsum og í sviðslistum.
Fjarlægðarmörk - nálægðarmörk
Sérstakar reglur voru settar um fjarlægð frá þeim sem töldust ótengdir. Þannig var kynnt svokölluð tveggja metra regla sem skildi viðhöfð í allri þjónustu og fólk beðið að virða hana. Mörg fyrirtæki og stofnanir settu merkingar til dæmis í gólf til að leiðbeina fólki um fjarlægðina. Á tímabilum þar sem smitum fór fækkandi var bilið stytt í einn metra en svo lengt aftur þegar herða þurfti á reglum.
Fjarlægðarmörk og grímuskylda héldust oft í hendur þannig að fólk var beðið að halda fjarlægð en ef það var ekki hægt gilti grímuskylda.
Viðvörunarkerfi í litum
Þegar leið á faraldurinn og reglugerðum tók að fjölga var farið að leita leiða til að einfalda reglurnar og framsetningu þeirra. Þess vegna var meðal annars þróað COVID-19 viðvörunarkerfi í litum sem tók gildi í byrjun desember 2020. Allt landið var þá á rauðum lit sem var hæsta áhættustig en hver litur hafði ákveðin viðmið hvað varðaði takmarkanir á samkomum og skólastarfi og kort yfir landið var birt á covid.is. Þessu kerfi var bæði ætlað að auka fyrirsjáanleika í faraldrinum og gefa fólki tækifæri á að taka upplýstar ákvarðanir um eigin hegðun út frá smithættu hverju sinni.
Í júlí 2021 var öllum samkomutakmörkunum aflétt þar sem staðan í faraldrinum var mjög góð en einnig voru bólusetningar vel á veg komnar og miklar væntingar bundnar við þær. Þegar hins vegar kom í ljós að bólusetning dugði ekki til að stöðva smit gegn nýjum afbrigðum veirunnar var gripið til aðgerða á nýjan leik. Ekki var þó stuðst við viðvörunarkerfið áfram þar sem forsendur þess höfðu breyst mikið við almenna bólusetningu.
Skólastarf
Sérstakar reglugerðir voru settar um skólastarf þar sem meðal annars var kveðið á um fjölda barna í hverju rými, fjölda starfsmanna, blöndun milli hópa, grímuskyldu, nálægðarmörk og fleira. Í fyrstu bylgju COVID-19 vorið 2020 var gripið til þess ráðs að kenna til skiptis hópum leik- og grunnskólabarna, 20 eða færri. Þetta varð til þess til dæmis að í flestum leik- og grunnskólum mættu börn einungis annan hvern dag í skólann. Í menntaskólum og háskólum var á sama tíma nær eingöngu kennt í fjarnámi.
Eftir því sem leið á faraldurinn varð þó ljóst mikilvægi þess að reyna að raska sem minnst daglegu lífi barna og því reynt að koma því þannig fyrir að öll börn gætu verið allan daginn í skólanum. Þetta var gert með áframhaldandi hólfaskiptingu, stundum lokuðu mötuneyti, samgangur í frímínútum var takmarkaður, eldri börn og starfsfólk notaði grímu, foreldrum var óheimill aðgangur að húsnæði skólanna og fleira.
Sömu reglur giltu um íþróttir og tómstundastarf barna á hverjum tíma og giltu í skólum.
Leikskólabörn voru bæði undanþegin 2 metra reglu og grímunotkun enda ekki með þroska til annars.
Allar þessar takmarkanir byggðu á heimild úr Sóttvarnarlögum og reglugerðum ráðherra.