Ferðalög

Þetta þarftu að vita ef þú ert á ferðalagi erlendis:

Íslensk stjórnvöld ráða Íslendingum frá ferðalögum og hvetja Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför.

Íslendingum sem enn eru á ferðalagi erlendis, eða þeim sem dvelja tímabundið erlendis og hyggja á heimferð á næstunni, er ráðlagt að snúa heim sem fyrst þar sem flugframboð fer ört minnkandi vegna víðtækra ferðatakmarkana á heimsvísu.

Mælt er með því að fólk á ferðalagi kynni sér ferðaráð stjórnvalda vegna COVID-19.

Utanríkisráðuneytið hvetur ferðalanga erlendis til að skrá ferðir sínar hjá utanríkisráðuneytinu. Upplýsingar í grunninum verða aðeins notaðar í öryggisskyni og til að hægt sé að ná í þig ef þörf krefur

Mikilvægt er að fólk sem á í erfiðleikum með að komast burtu þaðan sem það er statt hafi samband við borgaraþjónustuna með tölvupósti á netfangið hjalp@utn.is eða með skilaboðum á Facebook.

Fylgstu vel með tilmælum yfirvalda, t.d.ferða- og samkomutakmörkunum á þeim svæðum sem þú heimsækir og aðlagaðu ferðaáætlanir eins og þurfa þykir.
Ferðamálastofa hefur tekið saman helstu upplýsingar um réttindi fólks vegna ferðalaga. Einnig er gott að þú hafir samband við tryggingafélagið þitt vegna skilmála ferðatrygginga.
Gættu vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.

Í neyð getur þú haft samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, 545 0112. Þar færðu upplýsingar allan sólarhringinn.

Frá og með fimmtudeginum 19. mars 2020 er Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi og koma til landsins skylt að fara í tveggja vikna sóttkví án tillits til hvaðan þeir eru að koma. Sjá nánari upplýsingar um sóttkví í heimahúsi.

Hér má sjá lista yfir gististaði sem taka vel á móti fólki sem þarf að dvelja í sóttkví.

Skemmtiferðaskip og önnur sem koma til landsins

Öll skip sem koma til landsins erlendis frá þurfa nú að veita Landhelgisgæslunni sérstaka heilbrigðisyfirlýsingu vegna COVID-19 áður en þau fá heimild til að koma til hafnar. Vegna núverandi aðstæðna ber skipstjórum og skipslæknum, ef þeir eru um borð, að fylla út sérstakt eyðublað sem getur gefið upplýsingar um COVID-19 smit. Skipum verður ekki hleypt til hafnar nema eyðublaðið berist Landhelgisgæslunni. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sendir eyðublaðið til skipanna.

Ef þú starfar í ferðaþjónustu þar sem smit kemur upp þarf ákveðið ferli að fara í gang samkvæmt leiðbeiningum.

Tengt efni