Táknmál
Táknmál
Forskráning fyrir heimkomu

Með COVID-19

Með COVID-19 sýkingu

Fólk sem er greinist með COVID-19 getur verið mjög smitandi, sérstaklega á meðan það er með einkenni sjúkdómsins. Því mælist sóttvarnarlæknir til þess að fólk einangri sig í 5 daga eftir sýnatöku.

Upplýsingar og ráðgjöf er hægt að fá á netspjalli Heilsuveru og í síma 513 1700 eða 1700. Í neyðartilfellum skal ávallt hringja í Neyðarlínuna 112 og taka fram að um COVID sé að ræða.

Landspítali hefur gefið út leiðbeiningar fyrir börn og fullorðna sem greinst hafa með COVID-19. Einkenni COVID-19 geta verið ólík milli manna og breytast oft frá einum degi til annars. Helstu einkennin eru: Hiti, hósti, kvefeinkenni, hálsbólga, slappleiki, þreyta, höfuðverkur, bein-/vöðvaverkir, skyndileg breyting á lyktar- eða bragðskyni, kviðverkir og niðurgangur.

Í leiðbeiningunum er meðal annars bent á mikilvægi þess að drekka nóg og fylgjast með einkennum. Þar má einnig finna leiðbeiningar um verkjastillingu og fleira.

Á fyrstu fimm  dögum eftir að jákvætt próf er tekið eru tilmæli sóttvarnarlæknis að fólk einangri sig, það er að umgangast ekki annað fólk, gæta ýtrustu sóttvarna þegar notuð eru sameiginleg rými, bera grímu, þvo sér vel um hendur og spritta snertifleti. Það ætti alls ekki að umgangast fólk sem viðkvæmt er fyrir alvarlegum veikindum af völdum COVID-19.

Ef einkenna er enn vart eftir fimm daga er best að halda einangrun áfram þar til einkenni réna, en annars skal viðhafa smitgát í 2 daga.

Um einangrun

Einangrun er ekki lengur skylda á Íslandi þrátt fyrir að fólk hafi greinst með COVID-19. Þó er mælst til þess að fólk einangri sig í minnst 5 daga, eða á meðan einkenni eru alvarleg, og fylgi svo reglum um smitgát í tvo daga til viðbótar.

Hvað er einangrun?

Frá því fyrsta COVID-19 smitið kom upp á Íslandi lok febrúar árið 2020 og þar til öllum sóttvarnaraðgerðum var hætt í lok febrúar 2022 var fólk sem greindist með COVID-19 skylt að fara í einangrun til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Einangrun var strangara úrræði en sóttkví og lagði því auknar kröfur á þann sem var í einangrun umfram þær sem giltu um sóttkví.

Gefnar voru út ítarlegar leiðbeiningar um einangrun í heimahúsi þar sem meðal annars var tilgreint að manneskja í einangrun þyrfti sér herbergi, helst sér baðherbergi og ætti sem minnst samskipti við aðra. Helst átti að vera fullur aðskilnaður við aðra heimilismeðlimi og gæta ýtrustu sóttvarna svo sem með því að sótthreinsa alla snertifleti og lofta út.

Fólk í einangrun mátti ekki fara af heimilinu og þurfti að halda sig alfarið frá öðru fólki. Það mátti ekki hitta vini og ættingja, fara í vinnuna, gönguferð eða nota almenningssamgöngur. Ekki var heimilt að færa sig milli staða í einangrun og ekki mátti fara út úr húsi nema fólk hefði svalir eða einkalóð til umráða. Heimilt var að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu að höfnu samráði við heilbrigðisstofnun. Undir lok faraldursins þegar ómícron afbrigðið var orðið allsráðandi í samfélaginu var slakað á kröfum um einangrun og fólki heimilt að fara í stutta gönguferð í nágrenni heimilis eða dvalarstaðar, enda voru einkenni ómícron í flestum tilfellum mun vægari en af fyrri afbrigðum.

Ef margir á sama heimili greindust með COVID-19 var þeim frjálst að vera saman í einangrun. Ef fólk var í sóttkví á sama heimili lauk þeirri sóttkví með neikvæðu PCR prófi daginn eftir að einangrun lauk. Ef í ljós kom COVID-19 smit hjá heimilismeðlim í sóttkví lengdist sóttkví annarra þangað til daginn eftir að einangrun þess heimilsmanns var lokið.  

Leiðbeiningar um lok einangrunar voru einnig gefnar út en þar var leiðbeint til dæmis um þrif á herbergjum, fataþvott og sótthreinsun.

Lengd einangrunar

Stærstan hluta faraldursins stóð einangrun í 14 daga, frá því að jákvætt sýni var tekið. Í lok október 2021 var heimilt að stytta einangrun í allt að 7 daga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem að fólk væri fullbólusett og einkennalaust. Hjá öðrum mátti stytta einangrun í 10 daga ef fólk hafði verið hitalaust í allavega 48 tíma og að önnur einkenni væru á undanhaldi. Eftir að ómíkron afbrigðið varð allsráðandi, og einkenni í flestum tilfellum orðin vægari, var einangrun stytt í 5 daga en fólk beðið að halda smitgát í 2 daga til viðbótar. Reglugerð um einangrun var felld úr gildi 25. febrúar 2022 og eftir það voru einungis tilmæli en ekki skylda að vera í einangrun.  

Veikindi

Starfsfólk COVID göngudeildar Landspítalans var í samskiptum við fólk á meðan á einangrun stóð, fyrst með símtali í alla sem greindust en síðar með aðstoð rafrænna spurningalista. Fólk sem veiktist alvarlega var kallað inn á göngudeildina til mats og meðferðar en þaðan þurftu sumir að leggjast inn á spítalann til frekari meðferðar.

Skylda til að fara í einangrun byggði á heimild úr Sóttvarnarlögum og reglugerðum ráðherra.

Aðgengilegar upplýsingar um reglurnar á landamærunum
Hér má finna flýtileið á ensku sem útskýrir helstu reglur sem gilda á landamærunum