Staða COVID-19
COVID-19 veikindi
Tilfellum og dauðsföllum COVID-19 í heiminum hefur fækkað en hins vegar hefur sýnatökum einnig fækkað mikið. Enn er yfirlýstur heimsfaraldur.
Hérlendis hefur um helmingur íbúa greinst opinberlega með COVID-19 þó að líklegt sé að mun fleiri hafi smitast. Ekki hefur sést aukning á endursmitum. Undanfarna daga hefur tilfellum verið að fjölga og greinast nú á milli 150–200 einstaklingar daglega. Þó hefur hlutfall jákvæðra sýna haldist stöðugt síðustu vikur um 7–10% en það segir til hve margir sem fara í próf greinast með sjúkdóminn. Þannig gæti aukning tilfella að hluta skýrst af aukningu tekinna sýna. Flest tilfelli sem greinast eru ómíkron afbrigðið BA.2 en einnig greinist afbrigðið BA.5.
Vart hefur verið við aukningu á komum sjúklinga í áhættuhópum með COVID-19 á göngudeild Landspítala til vökva- og lyfjagjafar og nú eru átta manns inniliggjandi með COVID-19, þar af einn á gjörgæslu.