Rýmkun á skólastarfi, háskólar geta hafið staðnám að nýju
Tilslakanir í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra gera háskólum kleift að hefja staðnám að nýju. Reglugerðin tekur gildi 24. febrúar og gildir til og með 30. apríl nk. Mestu breytingarnar felast í afnámi 2 metra reglunnar í öllu skólastarfi og hækkun hámarksfjölda nemenda í framhalds- og háskólum í 150 frá og með næstu mánaðarmótum.
„Það gleður mig hversu öflugt íslenska skólakerfið hefur reynst á meðan heimsfaraldur hefur geysað, við erum stolt af skólunum okkar – kennurum, stjórnendum, starfsfólki og vitanlega nemendum sem komist hafa í gegnum erfiða og flókna tíma með góðri samvinnu og seiglu. Það er sérlega ánægjulegt að nú hillir undir að nemendur muni getað lokið þessari önn í staðnámi. Við höldum þó áfram að fara varlega, svo að við getum haldið áfram að uppskera ríkulega,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.