Endursmit COVID-19 á Íslandi
Með tilkomu ómíkron afbrigðis SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur COVID-19 varð gífurleg aukning á smitum í samfélaginu á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Ómíkrón greindist fyrst í desember 2021 en hafði náð yfirhöndinni yfir delta afbrigðinu í janúar 2022. Hér á landi hefur verið greiður aðgangur að gjaldfrjálsri sýnatöku vegna COVID-19 og voru PCR próf eingöngu notuð til að staðfesta smit þangað til skipt var yfir í hraðpróf í lok febrúarmánaðar 2022. Sóttvarnalæknir fær sendar allar rannsóknarniðurstöður enda COVID-19 tilkynningarskyldur sjúkdómur. Endursmit hérlendis er skilgreint í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) ef sami einstaklingur greinist tvisvar og 60 dagar eða meira eru á milli greininga. Í ákveðnum tilfellum hefur endursmit verið skilgreint innan 60 daga skv. mati COVID-19 göngudeildar Landspítala.