Bólusetning verður langt komin í lok júní
Gera má ráð fyrir að hægt verði að bólusetja tæplega 190.000 einstaklinga hér á landi fyrir lok júní næstkomandi með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna sem öll eru með markaðsleyfi og komin í notkun hér á landi. Þetta er mun meira en áður var vænst. Mestu munar annars vegar um nýjan samning Evrópusambandsins við Pfizer sem tryggir Íslandi bóluefni fyrir 25.000 til 30.000 manns strax á öðrum ársfjórðungi, til viðbótar fyrri samningum. Gert er ráð fyrir að Ísland undirriti samning um aukið magn bóluefna frá Pfizer á grundvelli nýs samnings Evrópusambandsins fyrir lok þessarar viku. Einnig mun aukin framleiðslugeta AstraZeneca hafa áhrif. Alls verður rúmlega 280.000 einstaklingum boðin bólusetning hér á landi, þ.e. öllum sem eru 16 ára og eldri. Vænta má bóluefna frá fleiri lyfjaframleiðendum á öðrum ársfjórðungi að því gefnu að þeim verði veitt markaðsleyfi á næstunni eins og að er stefnt.