Bólusetning með Astra-Zeneca
Að gefnu tilefni skal það áréttað að nú er verið að bjóða öllum 60 ára og eldri bóluefni Astra-Zeneca. Þeir einu sem ekki eru boðaðir í þessa bólusetningu nú eru þeir sem samkvæmt áliti blóðmeinafræðinga eru með undirliggjandi sjúkdóma sem taldir eru geta aukið líkur á blóðsega- og blæðingarvandamálum (sjá frétt á heimasíðu embættis landlæknis þ. 16. apríl sl.)
Samkvæmt upplýsingum Lyfjastofnunar Evrópu þá hafa alvarleg blóðsega- og blæðingarvandamál sést eftir bólusetningu með bóluefni Astra-Zeneca hjá u.þ.b einum af 300.000 bólusettum, einkum konum yngri en 55 ára. Í Bretlandi er talað um að þessar aukaverkanir sjáist hins vegar hjá 6 af milljón bólusettum.
Þeir sem nú eru boðaðir í bólusetningu með Astra-Zeneca bóluefninu eiga því að vera eins öruggir og hægt er með bóluefnið. Bóluefnið er jafnframt mjög virkt við að koma í veg fyrir COVID-19.
Ef einstaklingar þiggja ekki það bóluefnið sem í boði er þá þarf ekki að láta vita. Þeir sem ekki þiggja bóluefnið geta hins vegar fylgst með auglýsingum í opna daga í bólusetningar fyrir sína aldurshópa en þeir dagar hafa ekki verið ákveðnir á þessari stundu. Þeir fá hins vegar ekki aftur boð úr miðlæga kerfinu. Ekki er hægt að óska eftir öðru bóluefni á grundvelli persónulegra óska eða annarrar sjúkrasögu, hvorki hjá heilsugæslu né sóttvarnalækni.
Sóttvarnalæknir