Aukning í alvarlegum veikindum vegna COVID-19
Eins og fram kom í frétt 10. júní þá er útbreiðsla COVID-19 vaxandi hér á landi. Nú greinast opinberlega um og yfir 200 manns á dag en líklega er fjöldinn meiri því margir greinast með heimaprófi og fá ekki greininguna staðfesta með opinberu prófi. Flestir sem greinast hafa ekki fengið COVID-19 áður en endursmit eru undir 10% af daglegum greindum smitum.
Samfara þessari aukinni útbreiðslu þá hefur orðið veruleg aukning á innlögnum sjúklinga með COVID-19. Nú liggja 27 einstaklingar inni á Landspítala með eða vegna COVID-19. Þar af eru tveir á gjörgæsludeild og einn þarf á aðstoð öndunarvélar að halda. Flestir inniliggjandi sjúklinganna eru eldri en 70 ára en alvarleg veikindi sjást aðallega hjá þeim sem hafa fengið þrjár eða færri bólusetningar. Þetta er í samræmi við niðurstöðu erlendra rannsókna um að fjórði bólusetningarskammtur minnkar verulega líkur á alvarlegum veikindum vegna COVID-19.