Spurt og svarað

Hvernig get ég forðast smit?

Mikilvægast er að þvo sér vel og oft um hendurnar með vatni og sápu í lágmark 20 sekúndur eða nota handspritt. Þegar þú mætir í vinnu eða kemur heim skaltu byrja á að þvo hendur vel og vandlega. Svo er góð regla að forðast náin samskipti við aðra sem eru með einkenni kvefs, eins og hnerra eða hósta og halda sig í minnst eins  metra fjarlægð.

Ef þú þarft að hósta eða hnerra er betra að gera það í olnbogabótina en ekki í hendurnar eða út í loftið. Sýndu sérstaka aðgát við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna. Heilsaðu með brosi frekar en handabandi.

Hverjir eru í mestri hættu með að fá alvarleg einkenni?

Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 50 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af COVID-19 sjúkdómi. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar, en þegar borin eru saman væg og alvarleg tilfelli er greinilegt að ákveðin vandamál voru til staðar hjá mun fleirum með alvarlegan sjúkdóm en vægan sjúkdóm. Þessi vandamál eru: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein. 

Einstaklingar sem reykja virðast vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins.

Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu.

Ég held að ég hafi smitast af COVID-19, hvað á ég að gera?

Hafðu samband við heilsugæsluna þína, netspjall á heilsuvera.is eða Læknavaktina í síma 1700, og fáðu ráðleggingar. Ekki fara beint á heilbrigðisstofnun, heldur hringdu fyrst og fáðu leiðbeiningar. 

Hvernig er einangrun aflétt eftir COVID-19 sýkingu?

Læknar COVID-19-teymis Landspítala sjá um útskriftarsímtöl fyrir einstaklinga sem útskrifast úr einangrun. Þeir þurfa að uppfylla bæði eftirfarandi skilyrði og staðfesta það í samtali við lækni:

Að komnir séu a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarsýni).
Að hafa verið einkennalausir í 7 daga.

Þá fá allir þau tilmæli að huga sérstaklega vel að handþvotti og hreinlæti í tvær vikur eftir að einangrun hefur verið aflétt. Þá ber þeim einnig að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem eldra fólk og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóm í a.m.k. 2 vikur.

Einangrun aflétt - Sérstök tilvik

Einangrun aflétt í sérstökum tilvikum:

Einkennalausir einstaklingar: Í þessu tilviki er átt við einstaklinga sem hafa t.d.  greinst með veiruna í skimun Íslenskrar erfðagreiningar (Decode) og eru án einkenna í a.m.k. viku. Viðkomandi er laus úr einangrun 14 dögum eftir að hann greindist jákvæður með sýni. Til að teljast einkennalaus er einstaklingur alveg hitalaus, alveg laus við slappleika/veikindatilfinningu, hósta, mæði og nefrennsli.

Sambýlisfólk sem er saman í sóttkví og einangrun: Það má aflétta sóttkví þeirra sem búa á sama stað og einstaklingur í einangrun, þegar eru liðnir 14 dagar frá því að viðkomandi voru síðast í beinni snertingu. Í því felst náin umgengni, notað var sama salerni eða einstaklingar voru í undir 2 metra fjarlægð í 15 mínútur eða meira. Það á við um alla á sama heimili, einnig börn.

Sambýlisfólk sem er allt í einangrun á sama stað: Þegar fyrsta einstaklingnum í hópnum batnar af COVID-19 er hægt að leysa hann úr einangrun með því skilyrði að hinir veiku verði áfram í einangrun og ekki á sama stað og sá sem hefur náð bata. Í ákveðnum tilfellum verður sá sem hefur náð bata að vera áfram á sama stað og hinir veiku. Þá verður einangrun ekki aflétt, fyrr en sá sem síðastur nær bata er útskrifaður úr einangrun. Áður en einangrun er aflétt er mikilvægt að sambýlisfólk gæti ýtrasta hreinlætis, þrífi bæði sig og heimilið. Það á við um alla á sama heimili, einnig börn.

Heilbrigðisstarfsfólk: Um heilbrigðisstarfsfólk gilda sömu reglur og um aðra en huga þarf vel að verkefnum viðkomandi þegar hann snýr aftur til starfa (viðkvæmir hópar). Læknir og yfirmaður meta hvert tilfelli fyrir sig.

Hver er munurinn á sóttkví og einangrun? 

Sóttkví er fyrir þá sem grunur leikur á að gætu verið smitaðir af Covid-19 en eru einkennalausir. Einangrun er fyrir þá sem eru með staðfest smit. Nánari leiðbeiningar um einangrun í heimahúsi má finna á vef embættis landlæknis. 

Er kvef án hita og beinverkja tilefni til þess að fleiri á heimilinu fari í sóttkví?

Ef vitað er um útsetningu fyrir kórónaveirusmiti eru öll öndunarfæraeinkenni grunsamleg og kalla á sóttkví annarra á heimilinu. Hægt er að leita ráðgjafar í síma 1700, á heilsugæslu eða gegnum netspjall á vefnum Heilsuvera.is.

Eru einhverjir hópar undanþegnir frá sóttkví og hvers vegna? 

Flugáhafnir og áhafnir flutningaskipa eru undanþegnar kröfu um sóttkví við komu til landsins. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar til að tryggja örugga birgðaflutninga til landsins og hins vegar þar sem dvalartími þeirra erlendis fer sjaldnar yfir 24 klukkustundir. Rík áhersla er lögð á að áhafnir sýni ýtrustu varkárni og gæti að sóttvörnum.

Ef einhver í fjölskyldu kennara er í sóttkví, getur sá kennari haldið áfram störfum?

Ef einhver í fjölskyldu kennara er í sóttkví, en ekki með einkenni, getur viðkomandi kennari haldið áfram sínum störfum.  Ef sá sem er í sóttkví fær einkenni fer hann í einangrun og eiga aðrir sem hafa verið á heimilinu að fara í sóttkví.

Á fjölskylda nemenda í sóttkví að sækja áfram sína skóla eða vinnustaði?

Á meðan sá sem er í sóttkví hefur engin einkenni er öðru heimilisfólki sem ekki hefur sjálft umgengist einstaklinga með COVID-19 sjúkdóm óhætt að sækja sinn skóla/vinnu. Mikilvægt er þó að huga að sóttvörnum, sýna varkárni og ef grunur vaknar um einkenni hjá þeim sem er í sóttkví skal leita ráðgjafar í síma 1700, á heilsugæslu eða gegnum netspjall á vefnum Heilsuvera.is.

Ef viðkomandi nemandi  er ekki með einkenni en þarf að vera í sóttkví þurfa fjölskyldumeðlimir ekki að vera í sóttkví nema þeir hafi sjálfir umgengist smitaðan einstakling. Mikilvægt er þó að huga vel að sóttvörnum á heimilinu og minnka náin samskipti eins og kostur er.

Sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga í sóttkví.

Ef einstaklingur sem hefur verið útsettur fyrir smiti fær einkenni á meðan á sóttkví stendur er brýnt að viðkomandi hafi samband við sína heilsugæslustöð eða vaktsíma 1700 og fái ráðgjöf.

Hvað er vinnusóttkví og hvernig virkar hún?

Þeir sem koma til landsins til starfa í ákveðnum verkefnum geta sótt um að fara í vinnusóttkví í stað heimasóttkvíar. Með vinnusóttkví er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað á meðan 14 daga sóttkví þeirra stendur. Skilyrði fyrir vinnusóttkví eru að:

Viðkomandi umgangist ekki aðra en heimilisfólk eða þá sem eru með þeim í vinnusóttkví.

Viðkomandi dveljist einungis á gististað og vinnustað meðan á sóttkví stendur.

Viðkomandi fylgi öðrum reglum og leiðbeiningum sem við á um sóttvarnaráðstafanir.

Sótt sé um heimild fyrir vinnusóttkví til sóttvarnalæknis.

Ég er í sóttkví og þarf að gista í Reykjavík áður en ég fer heim út á land, hvað geri ég?

Ýmis hótel og gistiheimili bjóða fólki á heimleið í sóttkví velkomið. Á heimasíðu Ferðamálastofu er að finna lista yfir staði sem bjóða upp á gistingu fyrir fólk í sóttkví. Mikilvægt er að halda í lágmarki samneyti við annað fólk og leggja áherslur á hreinlæti og önnur sóttvarnarráð.

Gæti ég þurft að fara ítrekað í sóttkví? 

Já. Það gilda alltaf sömu reglur um sóttkví, bæði varðandi ferðalög til útlanda og umgengni við smitaða einstaklinga.  

Getur fólk þurft að fara aftur í sóttkví sem kemur að utan?

Öllum sem koma til landsins er skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu nema þeir kjósi að undirgangast PCR-próf til greiningar á COVID-19.

Ég er í sóttkví, þarf að láta vita af því?

Já, það er mikilvægt að sóttvarnalæknir hafi yfirsýn yfir þann fjölda sem er í sóttkví hverju sinni.

Þeir sem eru í sóttkví og hafa ekki verið skráðir í gegn um rakningateymi, heilsugæslu eða í síma 1700 geta skráð upplýsingar um sóttkví á vefinn heilsuvera.is. Athugið að til að geta gengið frá slíkri skráningu í heilsuveru þarf að hafa rafræn skilríki. Hægt er að óska eftir vottorði um sóttkví um leið og hún er skráð í gegn um heilsuveru.is og fæst það endurgjaldslaust. Vottorðið gildir ekki fyrir sjálfskipaða sóttkví.

Þeir sem hafa ekki rafræn skilríki og geta ekki nýtt sér heilsuveru eiga að hafa samband við heilsugæslustöðina sína. Heilsugæslustöðin kemur upplýsingum um sóttkví viðkomandi til sóttvarnalæknis. Til að fá staðfestingu á sóttkví geta þeir sem þess þurfa með sent tölvupóst á netfangið mottaka@landlaeknir.is og skrá í efnislínu: Staðfesting á sóttkví.

Get ég fengið vottorð ef ég fer í sóttkví?

Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Rakningateymi sér um að skrá einstaklinga í sóttkví skv. fyrirskipun sóttvarnalæknis vegna ferðalaga eða nándar við staðfest tilfelli.

Þegar skráning er frágengin þá er hægt að sækja staðfestingu/vottorð um skráða sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.

Ef einstaklingar eru ekki meðrafræn skilríki og þurfa staðfestingu/vottorð um skráða sóttkví þá geta þeir sent beiðni á mottaka@landlaeknir.is með efnislínuna: „Staðfesting á sóttkví“ og fá það þá sent í tölvupósti.

Á ég rétt á launum í sóttkví? 

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt ríka áherslu á að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Stéttarfélög, bæði á opinberum og einkamarkaði, hafa flest birt leiðbeiningar til sinna félagsmanna um rétt þeirra til launagreiðslna í sóttkví.  

Ef einstaklingur fer í sjálfskipaða sóttkví, þ.e. án fyrirmæla frá heilbrigðisyfirvöldum, á hann ekki rétt til launa meðan á því stendur. 

Er hægt að sækja um undanþágu frá því að fara í sóttkví? 

Undanþágur eru ekki veittar fyrir persónulegar ástæður, s.s. vegna jarðarfara eða veikinda ættingja. Einstaklingar sem eru í sóttkví vegna ferðar til Íslands geta hins vegar verið viðstaddir jarðarför ástvinar skv. sérstökum leiðbeiningum. Ef sóttkví er vegna tengsla við COVID-19 veikan einstakling má einstaklingur ekki vera viðstaddur jarðarför eða aðrar athafnir vegna andláts.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví til að mynda vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast (t.d. á sviði raforku, sorphirðu, heilbrigðisstarfsemi o.fl.). Þá getur sóttvarnalæknir veitt undanþágu vegna mikilvægrar starfsemi, svo sem til að tryggja fæðuöryggi. Undanþágur þarf að sækja um til sóttvarnalæknis.

Get ég farið til læknis þrátt fyrir samkomubann?

Já, öll heilbrigðisstarfsemi er heimil og tekur það einnig til valkvæðra skurðaðgerða eða annarra valaðgerða. Ef grunur vaknar um mögulegt COVID-19 smit á alls ekki að fara beint til læknis eða á heilsugæsluna heldur hringja í heilsugæsluna eða nota netspjallið á vefsvæðinu heilsuvera.is, á dagvinnutíma, eða hringja í símanúmerið 1700 (Læknavaktin) sem er opið allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.

Get ég farið til tannlæknis þrátt fyrir samkomubann?

Já, öll heilbrigðisstarfsemi er heimil og fólk getur því farið til tannlæknis án takmarkana. Nota þarf hlífðargrímu þegar er farið til tannlæknis. Sjá leiðbeiningar um notkun á hlífðargrímu

Ef grunur vaknar um mögulegt COVID-19 smit á alls ekki að fara beint til læknis eða á heilsugæsluna heldur hringja í heilsugæsluna eða nota netspjallið á vefsvæðinu heilsuvera.is, á dagvinnutíma, eða hringja í símanúmerið 1700 (Læknavaktin) sem er opið allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.

Er hægt að veita heilbrigðisþjónustu utan opinberra heilbrigðisstofnana?

Já, öll heilbrigðisstarfsemi heimil. Ef grunur vaknar um mögulegt COVID-19 smit á alls ekki að fara beint til læknis eða á heilsugæsluna heldur hringja í heilsugæsluna eða nota netspjallið á vefsvæðinu heilsuvera.is, á dagvinnutíma, eða hringja í símanúmerið 1700 (Læknavaktin) sem er opið allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.

 

Hvernig geta heilbrigðisstarfsmenn forðast smit?

Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsmenn, eins og aðrir sýni varkárni og passi vel upp á sóttvarnir. Ef einstaklingur sem hefur einkenni COVID-19 þarf á bráðaþjónustu að halda ætti að takmarka fjölda starfsmanna eins og hægt er og reyna að láta viðkomandi ekki sitja með öðrum sjúklingum á biðstofu. Öllum skoðunum og aðgerðum sem mega bíða ætti að fresta þar til veikindi viðkomandi eru gengin yfir.

Hvers vegna er sett á samkomubann?

Samkomubanni var upphaflega komið á 15. mars 2020 í þeim tilgangi að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdóminum.

Markmið yfirvalda er að fækka smitum og hægja á faraldrinum til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að hlúa að þeim sem veikjast af COVID-19 ásamt því að sinna annarri bráðaþjónustu. Í þessu skyni var nauðsynlegt að setja á samkomubann og takmarka samgang og samneyti fólks.

Hvað mun samkomubannið vara lengi?

Gildandi takmörkun á samkomum, 200 manna samkomubann, nær frá og með 7. september og gildir til 27. september (23.59). Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr en hvort framlengja þurfi gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Hvers vegna eru tilslakanir á aðgerðum í samkomubanni?

Samkomubanni var fyrst komið á 15. mars hérlendis í þeim tilgangi að stemma stigu við hraðri útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Eftir að faraldurinn sótti í sig veðrið og smitum fjölgaði var hert á aðgerðunum, eða 24. mars sl.

Þessar aðgerðir hafa ásamt öðrum aðgerðum skilað þeim árangri að faraldurinn hefur gefið eftir. Mikilvægt er að fara að öllu með gát á næstu vikum og mánuðum og er ástandið metið hverju sinni áður en ákvörðun er tekin um frekari tilslakanir.

Er hægt að fá undanþágu frá samkomubanni?

Það er hægt að sækja um undanþágu en skilyrðin eru ströng. Undanþágur eru því aðeins veittar ef afar brýnir hagsmunir liggja að baki, svo sem í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra. Fyrst eftir að samkomubannið tók gildi bárust heilbrigðisráðuneytinu margar umsóknir um undanþágu. Flestum þeirra hefur verið hafnað. Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna takmarkana á samkomum og sóttkví halda gildi sínu.

Eru mannamót og skemmtanahald leyft í samkomubanni?

Leyfilegt er að halda samkomur fyrir 200 manns og færri að því gefnu að hægt sé að halda eins metra bili milli ótengdra aðila. Takmörkunin nær yfir allar samkomur, einnig áfengislausar skemmtanir. Staðir með veitingaleyfi geta haldið samkomur til kl. 23 á kvöldin. Þá skal einnig hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metra.

Eru sundlaugar opnar í samkomubanni?

Já, sund- og baðstöðum er heimilt að hafa opið fyrir þrjá fjórðu (75%) af leyfilegum hámarksfjölda, sem er skráður í starfsleyfi.
Nauðsynlegt er að tryggja 1 metra fjarlægð milli óskildra einstaklinga.

Eru skemmtistaðir opnir í samkomubanni?

Já, skemmtistaðir, krár og spilastaðir eru opnir til kl. 23 alla daga. Mikilvægt er að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga.

Nær samkomubannið til útisamkoma?

Já. Um slíkar samkomur gilda sömu reglur og fyrir samkomur sem haldnar eru innandyra, bæði hvað varðar fjölda og hversu mikið pláss þarf að vera hægt að hafa milli fólks.

Geta trúarlegar athafnir farið fram í samkomubanni?

Takmörkun á samkomum tekur einnig til trúarathafna. Óheimilt er að fleiri en 200 manns komi saman, að meðtöldum þeim sem stýra athöfninni. Dæmi um þetta eru útfarir, giftingar, fermingar, skírnir og sambærilegar athafnir, hvort sem er í kirkju eða á öðrum stöðum. Mikilvægt er að halda eins metra bili milli ótengdra aðila. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun.

Geta veislur farið fram í samkomubanni?

Veislur, matarboð og öll önnur tilefni þar sem fólk kemur saman í heimahúsi, í veislusölum, utandyra eða á öðrum stöðum eru bannaðar séu fleiri en 200 manns viðstaddir. Tryggja skal eins og kostur er að fjarlægð á milli fólks sé a.m.k. 1 meter. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Tryggja þarf að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metri.

Hvaða reglur gilda um leikhús og bíóhús í samkomubanni?

Leiksýningar og bíósýningar geta farið fram, að því skilyrði uppfylltu að færri en 200 manns sæki sýningarnar þ.m.t. flytjendur og starfsfólk og að því gefnu að hægt sé að halda eins metra bili milli ótengdra aðila.. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metri.

Má halda tónleika í samkomubanni?

Tónleikar geta farið fram, að því skilyrði uppfylltu að ekki séu fleiri en 200 á tónleikunum, þar með taldir flytjendur og starfsfólk að því gefnu að hægt sé að halda eins metra bili milli ótengdra aðila. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metra.

Má hafa söfn opin meðan á samkomubanni stendur?

Já, heimilt er að hafa söfn opin, að því tilskildu að ekki séu fleiri á safninu en 200 manns, þ.m.t. starfsfólk safnsins þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metri.

Geta ráðstefnur eða stórir fundir farið fram í samkomubanni?

Ef færri en 200 manns koma saman er heimilt að halda námskeið, ráðstefnur, málþing, fundi og kennslu, en tryggja þarf að a.m.k. 1 metri sé milli ótengdra aðila. Þegar hafa fjölmargir vinnustaðir fært fundahöld yfir í fjarfundi og er reynslan af slíku almennt góð

Eru sólbaðsstofur opnar?

Sólbaðsstofur hafa leyfi til að vera opnar. Hvatt er til þess að viðhalda 1 metra fjarlægð milli viðskiptavina. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum.

Eru líkamsræktarstöðvar opnar í samkomubanni?

Já, líkamsræktarstöðvar eru opnar og er hámarksfjöldi gesta samkvæmt starfsleyfi.

Hvernig verður skólahaldi háttað í samkomubanninu?

Leik- og grunnskólar
Engar hömlur gilda hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 200 manna hámarksreglan og eins metra nándarregla.

Framhalds- og háskólar

200 manna fjöldatakmarkanir gilda og eins metra nándaregla. Sótthreinsun sameiginlegra áhalda verði gerð a.m.k. einu sinni á dag. Mikil áhersla verði lögð á einstaklingsbundnar smitvarnir. Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Hvernig munu leikskólar starfa í samkomubanni?

Leikskólar starfa með hefðbundnum hætti en þar eru áfram í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa m.a. að hreinlæti og sótthreinsun og aðgengi að byggingum. Engar fjöldatakmarkanir eru á fjölda barna fæddra 2005 eða síðar sem koma saman. Öðrum en nemendum ber að fara eftir ákvæðum um hámarksfjölda 200 manns í rými og tveggja metra nálægðartakmörkunum sín á milli eins og unnt er.

Hvernig starfa háskólar í samkomubanni?

Eins metra nándaregla gildir í framhalds- og háskólum. 200 einstaklingar mega vera í sama rými. Sótthreinsun sameiginlegra áhalda verði gerð a.m.k. einu sinni á dag. Mikil áhersla verði lögð á einstaklingsbundnar smitvarnir.Fyrirkomulag kennslu fer eftir aðstæðum í hverjum skóla fyrir sig.

Mega nemendur sækja hóptíma í tónlistarskólum, að teknu tilliti til hreinlætis og fjarlægðar?

Já, nemendur á leik- og grunnskólaaldri geta sótt tíma án takmarkana. Kennarar og nemendur eldri en 16 ára þurfa að virða reglur um 200 fullorðna einstaklinga í sama rými og tryggja 1 metra nándarmörkin milli óskildra einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin hertum aðgerðum.Þar sem ekki er mögulegt að tryggja 1 metra nándarmörkin milli óskildra einstaklinga er nauðsynlegt að nota hlífðargrímur. Sjá leiðbeiningar.

Geta íþróttaviðburðir farið fram meðan á samkomubanni stendur?

Íþróttaviðburðir mega fara fram með ákveðnum skilyrðum. Takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðast almennt við 200 fullorðna og 1 metra nándarmörk. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

Sjá nánar vef ÍSÍ

Hvaða reglur gilda um íþróttastarf í samkomubanni?

Hámarksfjöldi fullorðinna er allt að 200 manns í sama rými. Jafnframt er hvatt til þess að tillit sé tekið til 1 metra nálægðarmarka. Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

Hvernig virkar hið nýja úrræði stjórnvalda um minnkað starfshlutfall?

Eiga sjálfstætt starfandi aðilar rétt á hinu nýja úrræði um minnkað starfshlutfall?

Samkvæmt lagabreytingunni þurfa sjálfstætt starfandi einstaklingar ekki að stöðva starfsemi til þess að eiga rétt til atvinnuleysisbóta heldur eingöngu að tilkynna skattayfirvöldum um samdrátt í rekstri (eyðublað RSK 5.02). Sækir sjálfstætt starfandi einstaklingur um hefðbundnar atvinnuleysisbætur og fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli áunnina réttinda sinna.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sækir um atvinnuleysisbætur í gegnum mínar síður atvinnuleitanda hjá Vinnumálastofnun.

Hér finna sjálfstætt starfandi aðilar góðar upplýsingar um sína möguleika í stöðunni.

Hvenær er rétt að nota hanska og hvernig eru þeir notaðir?

Þvoðu hendur og þurrkaðu vel með hreinum klút áður en matvæli eru snert og/eða matar er neytt, alltaf eftir salernisferðir, þegar hendur mengast sem og í lok vaktar.

Ef handlaug er ekki nærri skaltu nota handspritt í stað handþvottar.

Líta ætti á alla hanska sem óhreina. Hætt er við að handhreinsun verði útundan og gleymist að skipta um hanska milli verka, ef þeir eru notaðir að staðaldri.

Hansa á að nota við óhrein verk, s.s. þrif. Einnig ef matvæli sem aðrir neyta, án skolunar eða eldunar, eru handleikin meðberum höndum. Ekki fara á milli verka án þess að skipta um hanska. Hendur á að hreinsa fyrir og eftir hanskanotkun.

Ef hanskar (t.d. plasthanska) eru notaðir þar sem afgreidd eru matvæli sem eru tilbúin til neyslu (t.d bakarí og á veitingastöðum,þarf að fara í hreina hanska fyrir hverja afgreiðslu og henda þeim gömlu.

Ef annað afgreiðslufólk vill nota hanska má nota plasthanska, vínilhanska eða nítrílhanska. Latexhanskar eru óæskilegir vegna hættu á ofnæmi hjá viðskiptavinum.

Hvenær er rétt að nota grímur og hvernig eru þær notaðar?

Þarf að loka stórum vinnustöðum í samkomubanninu?

Allir vinnustaðir þurfa að tryggja að ekki séu fleiri en 200 í sama rými á hverjum tíma. Mikilvægt er að tryggja 1 metra fjarlægð milli einstaklinga.Mikilvægt er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Hvaða áhrif hefur samkomubann á minni vinnustaði?

Á þeim vinnustöðum þar sem færri en 200 manns vinna er hvatt til þess að haga vinnurými þannig að hægt sé að hafa 1 metra á milli einstaklinga. Gott er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Hvernig er fyrirkomulag á opnun verslana í samkomubanni?

Verslanir þurfa að gæta að því að ekki séu fleiri en 200 einstaklingar inni í verslunarrýminu á sama tíma. Mikilvægt er að sýna tillitsemi og virða 1 metra fjarlægðarregluna.

Hvernig er best að snúa sér í því að versla inn matvörur fyrir heimilið?

Gott er að skrifa niður innkaupalista áður en farið er í búðina til að hægt sé að ljúka innkaupunum á sem stystum tíma. Í búðinni þarf svo að gæta að því að halda tveggja metra fjarlægðinni milli fólks, svo sem í biðröðum við kassa. Í mörgum verslunum eru merki á gólfi á biðraðasvæði til að gefa til kynna hvar fólk á að standa til að tryggja nægilega fjarlægð á milli manna.

Þá er víða boðið upp á heimsendingarþjónustu, bæði frá matvöruverslunum og apótekum sem fólk í sóttkví og einangrun getur m.a. nýtt.

Hvernig er fyrirkomulagið á opnun verslunarmiðstöðva?

Í verslunarmiðstöðvum er hvert verslunarrými sér eining. Tryggja þarf að ekki séu á sama tíma fleiri en 200 manns inni í hverju verslunarrými fyrir sig. Sameiginleg rými skal skipuleggja þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti einn metra á milli einstaklinga . Þjónusta sem fólk hefur ekki kost á öðru en að mæta og versla (t.a.m. lyf) þarf að tryggja þeim sem kjósa það að halda 1 metra fjarlægð frá öðrum.

Mun lögreglan passa upp á fjölda fólks inni í verslunum?

Nei, við treystum á að eigendur verslana og aðrir fylgi fyrirmælum um samkomubann.  

Get ég farið í klippingu og á snyrtistofur í samkomubanni?

Hárgreiðslustofur og snyrtistofur mega vera opnar, en taka skal tillit til 1 metra fjarlægðarreglunnar. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Sjá leiðbeiningar um notkun á hlífðargrímum.

Get ég farið í nudd í samkomubanni?

Hægt er að fara í nudd, en taka skal tillit til eins metra fjarlægðarreglunnar. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Eru húðflúrstofur opnar?

Húðflúrstofur hafa leyfi til að vera opnar, en taka skal tillit til 1 metra nálægðarmarka. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Hvað þarf ég að vita fyrir ferðalagið til Íslands?

Farþegum ber skylda til að fylla út forskráningarform fyrir komuna til Íslands, þar sem fram koma m.a. upplýsingar um nafn, kennitölu/fæðingardag, upplýsingar um hvernig er hægt að ná sambandi við þá, ferðamáta, dvalartíma og dvalarstaði á Íslandi og hvaða löndum þeir hafa dvalið í undanfarið. Í forminu er einnig heilbrigðisyfirlýsing og farþegar svara hvort þeir hafi einhver einkenni eða hafi greinst með COVID-19 eða verið í nánd við sýktan einstakling undanfarna 14 daga.  

Ferðamenn eru einnig hvattir til að hlaða niður og nota COVID-19 appið Rakning C-19. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um COVID-19 og hvernig á að hafa samband við heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.

Hér getur þú fyllt út forskráningarformið: https://heimkoma.covid.is/

Er öruggt að ferðast til Íslands þrátt fyrir COVID-19?

Ísland hefur náð góðum árangri með viðbrögðum sínum við COVID-19 og náðist stjórn á faraldrinum með umfangsmiklum prófunum, smitrakningu, öflugri upplýsingagjöf og ráðstöfunum tengdum sóttkví og einangrun. Heilbrigðisþjónustan stóðst mikið álagspróf og styrkur hennar kom í ljós. Ríkisstjórn Íslands í samráði við sóttvarnalækni hefur nú aflétt samkomutakmörkunum hægt og gætilega en auk þess leyft fyrirtækjum, skemmtistöðum, sundlaugum, veitingastöðum og börum að opna á ný. Ákveðnar takmarkanir eru enn í gildi. Fólk þarf að fylgja hreinlætis- og sóttvarnarreglum og er jafnframt hvatt til að hlaða niður og nota COVID-19 appið, Rakning C-19 í símum sínum. Íslendingar og þeir sem hér eru gestir takast á við heimsfaraldurinn af ábyrgð en eru á sama tíma að hefja aðlögun að hversdagslífinu á ný.

Hvaða sóttvarnaráðstafanir gilda fyrir farþega, áhafnir flugvéla og skipa, flugvelli og hafnir?

Leiðbeiningar um COVID-19 sóttvarnarráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugvélum fyrir flugfélög, flugvelli og áhafnir hafa verið uppfærðar og taka mið af leiðbeiningum Flugöryggisstofnunnar Evrópu (EASA) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) og farþegum ber að fylgja. Unnið er að sambærilegum leiðbeiningum fyrir hafnir og skip. Þessar upplýsingar eru fáanlegar á www.covid.is.

Hvernig er öryggi tryggt og smithætta lágmörkuð á Íslandi?

Öllum sem koma til landsins er skylt að fylla út forskráningarform fyrir komu til landsins og fara í sótthví annað hvort í 14 daga eða undirgangast tvær COVID-19 sýnatökur og sóttkví á milli sýnataka. Ef sýnataka er valin þá er fyrri sýnataka á landamærum við komu til landsins en sú seinni 6 dögum síðar á vegum heilsugæslunnar. Ef seinna próf er neikvætt er sóttkví aflétt. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin sóttkví og sýnatöku.

Á Íslandi er lögð áhersla á eftirfarandi:  

• 200 manna samkomubann frá og með 7.september 2020 til 27. september (23:59).

• Framkvæma prófanir.

• Framfylgja einangrun greindra tilvika og sóttkví fyrir þá sem eru útsettir fyrir smiti.

• Bjóða fjarheilbrigðisþjónustu fyrir þá sem eru með væg einkenni.

• Takmarka opinberar samkomur og samkomur í heimahúsum.

• Hvetja til þess að 1 metra nándarreglunni sé fylgt.

• Fylgja heilbrigðis- og öryggisreglum.

• Upplýsa almenning um allar ráðstafanir sem gripið er til í baráttunni við COVID-19.

Hvaða hreinlætisreglur gilda í flugi til Íslands?

Heilbrigðis- og öryggisreglur geta verið mismunandi milli flugvalla og flugfélaga, en leiðbeiningar fyrir flugfélög, flugvelli og áhafnir varðandi sóttvarnarráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugvélum sem taka mið af viðmiðum EASA og ECDC varðandi COVID-19 hafa verið uppfærðar. Gættu að þeim reglum sem eru í gildi þar sem þú ferðast og hafðu samband við viðkomandi flugfélag eða flugvelli sem þú ferðast í gegnum til að fá frekari upplýsingar. Farþegum ber að fylgja þeim.

Hvað get ég gert ef ég veikist í flugi á leið til Íslands?

Áhöfn hefur fengið sérstaka þjálfun í að takast á við aðstæður þar sem farþegar veikjast um borð. Láttu áhöfn vita ef veikindi gera vart við sig og þau munu aðstoða þig.

Þarf ég að forskrá mig aftur eða borga nýtt sýnatökugjald ef ferðaáætlun mín breytist fyrir brottför?

Það þarf hvorki að forskrá sig aftur né borga nýtt sýnatökugjald ef ferðaáætlun breytist. Fengið strikamerki gildir áfram.

Hvað þarf ég að vita á meðan dvöl stendur?

Komufarþegar sem koma erlendis frá fara í tvær sýnatökur með 6 daga millibili og viðhafa smitgát á því tímabili.  Einnig er hægt að kjósa að fara í að fara í 14 daga sóttkví

Er þetta gert til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófið á landamærum geti leitt til stærri hópsmita á Íslandi. Allir ferðamenn eru hvattir til að gera varúðarráðstafanir til að vernda sjálfa sig og aðra, s.s. tíðan handþvott, notkun sótthreinsiefna, eins metra nándarregluna og að virða þær heilbrigðis- og öryggisreglur sem í gildi eru. PCR-próf útilokar ekki algerlega að einkennalaus einstaklingur sé sýktur af COVID-19.

Smitaður einstaklingur getur verið smitandi 1-2 dögum áður en einkenni koma fram. Ferðamenn eru hvattir til að hlaða niður og nota COVID-19 appið, Rakning C-19. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um COVID-19 og hvernig nálgast á heilbrigðisþjónustuna.

Þeir eru einnig hvattir til að fylgjast með COVID-19 upplýsingagáttinni  www.covid.is þar sem nýjustu upplýsingar eru birtar og mikilvægar tilkynningar eru settar inn á nokkrum tungumálum fyrir ferðamenn. Ferðamenn eru hvattir til að huga að heilsu sinni. Þeir sem veikjast eða telja sig vera með COVID-19 einkenni geta haft samband við Læknavaktina í gegnum Rakning C-19 appið, vefsíðuna http://heilsuvera.is, í síma 1700 (eða í síma +354 544 4113 ef hringt er úr erlendu símanúmeri). Ekki skal mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.

Allir ferðamenn eru hvattir til að halda 1 metra fjarlægð frá öðrum að því marki sem mögulegt er. Að halda fjarlægðarmörkum er mikilvægur hluti smitvarna og skulu allir sem þess óska eiga rétt á að halda slíkri fjarlægð. Ef einstaklingur fær einkenni sem gæti verið COVID-19 eins og hita, hósta, andþyngsli o.fl. skal hafa samband við heilsugæslu símleiðis, hafa samband við netspjall heilsuveru.is eða, utan dagvinnutíma, Læknavaktina í síma 1700.

Sjá leiðbeiningar um sóttkví í heimsókn til Íslands og leiðbeiningar um sóttkví í heimahúsi á vef embættis landlæknis.

Ferðamönnum er ráðlagt að gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
Fylgja reglum um sóttkví við komu til Íslands og mæta í aðra sýnatöku á boðuðum degi.
Handspritt má nota ef ekki er hægt að þvo hendur. Þó skyldi alltaf þvo hendur með sápu og vatni ef þær eru sýnilega óhreinar.
Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
Ekki snerta munn, nef eða augu með óþvegnum höndum. Hreinsið hendur aftur eftir að hafa snert andlitið.
Nota pappír fyrir vit við hnerra og hósta og þvo hendur reglulega. Henda skal pappír eftir notkun. Annars hnerra og hósta í olnbogabót.
Halda 1 metra fjarlægð frá öðrum.
Nota hlífðargrímur þar sem það á við.

Þurfa skiptifarþegar að forskrá sig?

Já. Þeir merkja sérstaklega við að þeir séu tengifarþegar í forskráningunni.

Þurfa farþegar sem eru að ferðast frá landi sem undanþegið er skimun eða sóttkví vegna Covid 19, en millilenda í landi sem ekki er á slíkum lista, að fara í skimun eða sóttkví?

Öll lönd heims talin áhættusvæði. Allir komufarþegar geta valið um að vera skimaðir tvisvar við komuna til Íslands eða fara í 14 daga sóttkví. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin sóttkví og sýnatöku.

Hefur ríkisstjórnin gert tímabundnar eða varanlegar breytingar á vegabréfsáritunum eða komutakmörkunum?

Landamæri Íslands við Evrópskaefnahagssvæðið (EES), ESB, Schengen og EFTA-ríkin eru nú opin. Komutakmarkanir gilda um aðra erlenda ríkisborgara, en með nokkrum undantekningum þó. 

Mikilvægt er fyrir erlent ferðafólk sem hugar að ferð til Íslands að kynna sér ferðatakmarkanir á Íslandi.

Á ferðamaður sem greinst hefur með COVID-19 smit við komu til landsins rétt til endurgreiðslu ferðatengdrar þjónustu sem hann getur ekki nýtt sér vegna skyldu til að sæta einangrun eða sóttkví?

Þeir einstaklingar sem greinast með COVID-19 smit við komu sína til landsins verða ekki sendir úr landi heldur ber þeim að fara í einangrun hér á landi. Hið sama getur átt við um þá sem setið hafa nálægt viðkomandi einstaklingi í flugi og ber að fara í sóttkví.

Þeir ferðamenn sem bókað hafa gistingu/afþreyingu með þeim skilmálum að hún sé endurgreiðanlag fram að vissu tímamarki, eiga rétt á endurgreiðslu sé hennar óskað fyrir uppgefið tímamark.

Sú staða getur komið upp að ferðmaður þurfi að afpanta gistingu/afþreyingu sem hefði átt að hefjast samdægurs, t.d. við komuna til landsins. Kveði skilmálar á um að afbókun þurfi t.d. að eiga sér stað með 24 klst. fyrirvara, þá á ferðamaður í þeirri stöðu ekki skýlausan rétt á endurgreiðslu.

Komi upp sú staða að ferðamaður hafi hafið nýtingu gistiþjónustu/afþreyingar en fái síðar þær upplýsingar að hann þurfi að fara í einangrun/sóttkví, á hann ekki rétt á endurgreiðslu þar sem nýting þjónustunnar er hafin. Þá á ferðamaður ekki rétt á endurgreiðslu vegna þess sem eftir stendur af bókaðri gistingu/afþreyingu.

Samkvæmt framansögðu má ferðamaður almennt gera ráð fyrir að tapa þeim fjármunum, sem hann hefur þegar greitt söluaðilum, geti hann ekki nýtt sér þjónustuna vegna skyldu til að sæta einangrunar eða fara í sóttkví. Slíkt fer þó fyrst og fremst eftir skilmálum söluaðila er varða afbókun. Ekki er litið svo á að gildandi sóttvarnarráðstafanir feli í sér óviðráðanlegar aðstæður sem veitt geti ferðamanni rétt til endurgreiðslu ferðar.

Þrátt fyrir að söluaðilum sé ekki skylt að endurgreiða gistingu og/eða afþreyingu sem ekki nýtist vegna framangreinds, getur ferðamaður eftir atvikum átt rétt á endurgreiðslu úr forfalla- eða ferðatryggingu sinni samkvæmt nánari skilmálum hennar.

Ferðamönnum er bent á að yfirfara tryggingar sínar vel fyrir brottför og kanna skilmála þeirra þjónustu sem þeir kaupa.

Þarf ég að fara í sóttkví ef einhver í flugvélinni greinist með COVID-19?

Ef einhver um borð greinist með COVID-19 mun smitrakningarteymið hafa samband við viðkomandi og þá sem sátu í tveimur sætaröðum í kringum þann sýkta. Þessir aðilar gætu þurft að fara í sóttkví.

No items found.

Hvernig er öryggis gætt á Keflavíkurflugvelli, innanlandsflugvöllum og um borð í vélinni?

Heilsu- og öryggisráðstöfunum er fylgt á öllum íslenskum flugvöllum, bæði alþjóðlegum og innanlands.  

Keflavíkurflugvöllur og innanlandsflugvellir eru þrifnir með reglulegu millibili. Sölubásar, innritunarborð, hurðarhúnar, handrið og aðrir snertifletir eru sótthreinsaðir mörgum sinnum á dag. Handspritt er í boði víða í flugstöðvarbyggingunni. Keflavíkurflugvöllur veitir upplýsingar um sóttvarnarúrræði sem tengjast COVID-19 og flugvellinum. Vinsamlegast hafið samband við viðkomandi flugfélag eða farið á vefsíðu flugvallarins sem flogið er frá til að fá frekari upplýsingar um flug eða varúðarráðstafanir.

Munu nýju öryggisráðstafanirnar hafa áhrif á hvernig farangur er meðhöndlaður eða þá aðstoð sem ég þarf á flugvellinum?

Nei, þjónusta á Keflavíkurflugvelli verður með óbreyttum hætti. Farþegar eru hvattir til að innrita farangur til að takmarka snertifleti í flugvél. Við hvetjum farþega til að kanna upplýsingar frá flugfélaginu sem þeir fljúga með um það hvort breytingar hafi verið gerðar á meðhöndlun farangurs og/eða farangursheimildum. Sama á við um innanlandsflug.

Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar við aðra komustaði en Keflavíkurflugvöll varðandi próf og sóttkví?

Boðið er upp á sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og á Seyðisfirði (fyrir farþega sem koma með Norrænu) fyrir þá sem kjósa að undirgangast prófun við komuna til Íslands. Komufarþegar á öðrum alþjóðaflugvöllum (Reykjavík, Akureyri, Egilsstaðir) og höfnum fara í sýnatöku á heilsugæslu á staðnum.

Öllum sem koma til landsins er skylt að fylla út forskráningarform fyrir komu til landsins og undirgangast tvær COVID-19 sýnatökur (PCR-próf) og sóttkví á milli sýnataka. Börn fædd árið 2005 eða síðar, eru undanþegin sýnatöku og sóttkví.

Ef sýnataka er ekki valin þarf að sæta sóttkví í 14 daga.

Sjá upplýsingar um heilsugæslustöðvar sem bjóða upp á síðari sýnatöku.

Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar varðandi COVID-19 prófin?

Frá og með 1. júlí greiða komufarþegar 9 þúsund kr. fyrir hvert próf ef greitt er við forskráningu ekki síðar en 1 degi fyrir komu en 11 þúsund kr. ef greitt er við komu til landsins. Þó greiðir hver einstaklingur aldrei meira en 22 þúsund kr. á hverju 30 daga tímabili. Börn fædd eftir árið 2005 eru undanþegin prófum. Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa hvorki að fara í sýnatöku né í sóttkví.

Frá og með 19. ágúst kl. 00:00 verða allir komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands.

Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku. Fyrri sýnatakan fer fram við landamæri og sú seinni á heilsugæslustöð 5-6 dögum síðar.

Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar til að hægt sé að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi.

Hér getur þú skráð þig: https://heimkoma.covid.is/

Upplýsingar um opnunartíma heilsugæslustöðva fyrir landamæraskimun.

Verð ég að undirgangast prófun við komuna til landsins?

Nei, það er ekki skylda. Hægt er að velja að fara í 14 daga sóttkví og þá þarf ekki að undirgangast prófun. Þeir sem kjósa sóttkví við komuna til landsins verða að gera eigin ráðstafanir varðandi húsnæði og gæta þess að fylgja leiðbeiningum um sóttkví. Upplýsingar um sóttkví er að finna á https://www.covid.is/flokkar/sottkvi  

Vakin er athygli á því að brot á sóttkví eða einangrun getur leitt til sekta eða aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir frekari brot.

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hvers konar próf er um að ræða og hvernig er það framkvæmt?

Um er að ræða PCR-próf, þ.e. kjarnsýrumælingu (e. Polymerase Chain Reaction), sem er vel þekkt og áhættulítil aðferð til að greina veirusýkingar. Prófin gera læknum kleift að nota lítið magn af veirunni til að framkvæma greiningu. Neikvæð niðurstaða úr PCR-prófi útilokar ekki algerlega að einkennalaus einstaklingur sé smitaður af COVID-19.  

PCR-próf er framkvæmt með því að taka strok úr nefkoki og/eða hálsi. Langur sýnatökupinni er settur upp í nef [og munn] til að ná í sýni frá slímhúð í öndunarfærunum. Þetta getur valdið smávægilegum óþægindum.  

Stroksýnin eru greind á rannsóknarstofu í Reykjavík. Ferlið getur tekið aðeins lengri tíma fyrir þá sem koma til flugvalla og hafna utan Keflavíkur og Reykjavíkur.

Hvað kostar prófið?

Komufarþegar greiða 9 þúsund kr. fyrir hvert próf, ef greitt er við forskráningu ekki síðar en 1 degi fyrir komu en 11 þúsund kr. ef greitt er við komu til landsins. Þó greiðir hver einstaklingur aldrei meira en 22 þúsund kr. á hverju 30 daga tímabili. Börn fædd eftir árið 2005 eru undanþegin prófum. Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa hvorki að fara í sýnatöku né í sóttkví.

Hvert snýr ferðaskipuleggjandi sér ef hann vill fá fyrirfram samþykki Heilsugæslunnar við því að borga sýnatökugjald fyrir hóp?

Fyrst um sinn er ekki hægt að nýta sér þessa þjónustu. Einstaklingar þurfa að greiða (sjálfir) með debet eða kreditkorti.

Get ég fengið endurgreiðslu ef ferðin mín fellur niður?

Til þess að óska eftir endurgreiðslu þarftu að hafa samband við heilsugæsluna í gegnum netfangið: innheimta@heilsugaeslan.is

Verða gerð próf á börnum?

Börn fædd 2005 eða síðar eru undanþegin prófun.  

Hvert snýr einstaklingur sér til að fá endurgreitt ef hann hefur greitt meira en 22 þúsund kr. fyrir skimanir samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis á hverju 30 daga tímabili?

Hann ætti að senda beiðni á netfangið innheimta@heilsugaeslan.is

Hvað tekur prófið langan tíma?

Miðað er við að biðtími eftir sýnatöku á Keflavíkurflugvelli verði innan við ein klukkustund, en gæti orðið aðeins lengri á álagstímum. Þetta getur verið breytilegt á öðrum flugvöllum og í höfnum.  

Þegar stroksýni hefur verið tekið er komufarþegum heimilt að fara á skráðan dvalarstað (sem er gefin upp á forskráningareyðublaðinu). Komufarþegar þurfa að sæta sóttkví á meðan þeir bíða niðurstaðna úr prófinu, bent er á að gæta smitvarna og huga að heilsu sinni og annarra. Sjá leiðbeiningar um sóttkví.

Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr fyrra prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, ef komutími er eftir kl. 17, næsta dag. Komufarþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, eða í smáskilaboðum. Farþegum sem greinast jákvæðir verður tilkynnt símleiðis um niðurstöðurnar. Farþegar fá strikamerki sent í tölvupósti daginn áður en mæta á í seinni sýnatöku. Mættu með skilríki og strikamerkið. Seinni sýnataka fer fram hér.

Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar á forskráningareyðublaðinu um hvernig er hægt að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi.

Miðað er við að biðtími eftir sýnatöku á Keflavíkurflugvelli verði innan við ein klukkustund, en gæti orðið aðeins lengri á álagstímum. Þetta getur verið breytilegt á öðrum flugvöllum og í höfnum.  Þegar stroksýni hefur verið tekið er komufarþegum heimilt að fara á skráðan dvalarstað (sem er gefin upp á forskráningareyðublaðinu). Komufarþegar þurfa að sæta sóttkví á meðan þeir bíða niðurstaðna úr prófinu, bent er á að gæta smitvarna og huga að heilsu sinni og annarra. Sjá leiðbeiningar um sóttkví. Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr fyrra prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, ef komutími er eftir kl. 17, næsta dag. Komufarþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, eða í smáskilaboðum. Farþegum sem greinast jákvæðir verður tilkynnt símleiðis um niðurstöðurnar. Farþegar fá strikamerki sent í tölvupósti daginn áður en mæta á í seinni sýnatöku. Mættu með skilríki og strikamerkið. Seinni sýnataka fer fram "https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item42632/Upplysingar-um-opnunartima-heilsugaeslustodva-fyrir-landamaeraskimun">hér.  Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar á forskráningareyðublaðinu um hvernig er hægt að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi.

Hversu lengi þarf ég að bíða eftir niðurstöðunum og hvernig fæ ég þær?

Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, ef komutími er eftir kl. 17, næsta dag. Komufarþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, eða í smáskilaboðum. Farþegum sem greinast jákvæðir verður tilkynnt símleiðis um niðurstöðurnar. Farþegar fá tíma í seinni sýnatöku í smáskilaboðum.  

Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar á forskráningareyðublaðinu um hvernig er hægt að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi. Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hvar get ég beðið eftir niðurstöðum? Hvað get ég gert á meðan ég bíð?

Allir komufarþegar verða skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku. Nauðsynlegt er að vera í sóttkví á því tímabili. Einstaklingur í sóttkví á að halda sig heima við og hafa samskipti við sem fæsta einstaklinga.

Sóttkví fer fram í heimahúsi, á hóteli, eða í öðrum gistimöguleika sem telst viðeigandi húsnæði fyrir sóttkví.

Á vef Ferðamálastofu má nálgast lista yfir gististaði sem bjóða velkomna gesti í sóttkví (listi tók gildi 19.08.2020).

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hvernig ferðast ég frá flugvellinum/höfninni?

Í sóttkví má ekki nota almenningssamgöngur (strætisvagna). Hægt er að fara með hópbifreið og ber að vera með andlitsgrímu. Einnig er hægt að nota leigubíla, bílaleigubíla eða einkabíl. Til að mynda er hægt að biðja ættingja eða vini um að keyra á tveimur bílum til Keflavíkur, skilja annan eftir og skilja lyklana eftir fyrir ferðalangana til að taka bílinn heim.

Þarf ég að dvelja í höfuðborginni á meðan ég bíð eftir niðurstöðunum?

Frá því að farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví. Þegar sýnatöku er lokið skal halda rakleiðis á sóttkvíarstað með hópbifreið (ekki strætó) einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl. Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.

Vinsamlega sæktu appið Rakning C-19, https://www.covid.is/app/is. Það er notað til að miðla neikvæðum niðurstöðum úr skimun og hjálpar við að rekja smit ef þörf krefur. Einnig veitir það mikilvægar upplýsingar um COVID-19. Nánari upplýsingar um appið er að finna á www.covid.is/app

Haft verður samband við þig í síma frá COVID-göngudeild Landspítala ef veiran greinist hjá þér (jákvætt próf) og næstu skref til að staðfesta hvort um virkt smit er að ræða útskýrð. Neikvæð niðurstaða er send í Rakning C-19 appið eða með SMS í símanúmerið sem þú staðfestir við forskráningu. Mikilvægt er að síminn sem var notaður við forskráningu sé virkur.

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hverjar eru kröfurnar um tveggja vikna sóttkví?

Ef ég ákveð að fara í sjálfskipaða sóttkví?

Vinsamlegast lesið upplýsingarnar um sóttkví á Íslandi.  

Þeir sem kjósa að fara í sjálfskipaða 14 daga sóttkví við komu þurfa að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þeir geti fylgt leiðbeiningunum um sjálfskipaða sóttkví. Vinsamlegast lesið upplýsingarnar um sóttkví á Íslandi.  

Vakin er athygli á því að brot á sóttkví eða einangrun getur leitt til sekta eða aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir frekari brot.

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Upplýsingar um sektir fyrir brot gegn sóttvarnalögum vegna COVID-19 má finna hér.

Þarf ég að fara í sóttkví ef einstaklingur í hópnum mínum/fjölskyldunni minni greinist með COVID-19?

Neikvæð niðurstaða úr sýnatöku tryggir ekki að einstaklingur þurfi ekki síðar að fara í sóttkví ef í ljós kemur að hann hefur verið útsettur fyrir smiti, s.s. til dæmis í fluginu til Íslands eða á ferðalaginu. Smitrakningarteymið hefur samband við þá sem hafa verið í nánd við einstakling með staðfest virkt smit frá því tveimur dögum áður en einkenna varð vart, t.d. umgengist hann lengur en 15 mínútur í minna en 2ja metra fjarlægð eða teljast hafa verið í nánd við smitaðan einstakling í flugvél (almennt 2 sætaraðir allt um kring) eða í rútu. Þessum einstaklingum kann að vera gert að fara í sóttkví. Erlendir ríkisborgarar sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í sóttkví verður boðið upp á að dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að þeir beri kostnað af því.

Vinsamlegast lesið upplýsingarnar um sóttkví á Íslandi á vefslóðinni https://www.covid.is/flokkar/sottkvi

Upplýsingar um sektir fyrir brot gegn sóttvarnalögum vegna COVID-19 má finna hér.

Þarf ég að fara heim ef prófið mitt er jákvætt?

Nei. Þú mátt ekki ferðast ef prófið reynist jákvætt og þú ert talin/n smitandi.

Hvað gerist ef niðurstaða úr COVID-19 prófi er jákvæð ?

Ef komufarþegi greinist jákvæður verður viðkomandi boðið að fara í mótefnamælingu til að ákvarða hvort smitið er virkt. Sé um virkt smit að ræða ber viðkomandi að fara í einangrun. Erlendir ríkisborgarar sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði, sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í einangrun verður boðið upp á að dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að þeir beri kostnað af því. Smituðum einstaklingum ber að veita smitrakningarteymi upplýsingar um hverja þeir hafa umgengist frá því tveimur dögum áður en einkenna varð vart.

Nánari upplýsingar um einangrun er að finna hér: https://www.covid.is/flokkar/einangrun

Hvað gerist ef smit greinist hjá mér?

Greining, meðferð og eftirlit tilkynningarskyldra sjúkdóma, þar með talið COVID-19, er sjúklingi að kostnaðarlausu. Þetta á hins vegar ekki við um valkvætt PCR-próf vegna COVID-19.

Þurfa allir sem heimsækja Ísland að hlaða niður smitrakningarappinu Rakning C-19?

Gagnasöfnun appsins fylgir ítrustu reglum um friðhelgi einkalífs og persónusjónarmiðum.

Gögn um staðsetningar eru vistuð á snjalltæki notandans nema viðkomandi leyfi notkun þeirra til að rekja smit.

Nánari upplýsingar á: https://www.covid.is/app/is.

Hvað gerist ef ég veikist meðan ég er í sóttkví?

Þeir sem veikjast eða telja sig vera með COVID-19 einkenni ættu að hafa samband við Læknavaktina í gegnum Rakning C-19 appið, í netfangið heilsuvera.is, í síma 1700 (eða í síma +354 544 4113 sé hringt úr erlendu símanúmeri).

Í neyð skal hringja í 112. Allir ferðamenn eru hvattir til að halda 1 metra fjarlægð frá öðrum að því marki sem mögulegt er.

Að halda fjarlægðarmörkum er mikilvægur hluti smitvarna og skulu allir sem þess óska eiga rétt á að halda slíkri fjarlægð.

Hverjar eru sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands?

Farþegum er gerð grein fyrir skilyrðum fyrir komu til Íslands í forskráningarformi. Farþegar geta við komuna kosið að undirgangast tvö PCR-próf til greiningar á COVID-19. Fyrra prófið á landamærum og hið síðara 5-6 dögum síðar. Nauðsynlegt er að viðhafa heimasóttkví í 5 daga meðan beðið er eftir niðurstöðum. Annar möguleiki er að velja tveggja vikna sóttkví í stað sýnatöku. Undanþegin þessum skilyrðum eru börn fædd 2005 eða síðar. Áhafnir flugvéla og flutningaskipa, sem hafa búsetu á Íslandi eru einnig undanþegnar þessum ráðstöfunum. Að svo stöddu geta íslensk heilbrigðisyfirvöld ekki tekið við niðurstöðu erlendra vottorða við komu. Þeir sem hafa áður staðfesta COVID-19 sýkingu á Íslandi eru undanþegnir sóttkví við komu aftur til landsins.

Við komuna til Íslands standa því tveir kostir til boða:  

• að fara í tveggja vikna sóttkví

• að undirgangast tvær prófanir fyrir kórónuveirunni SARS-CoV-2

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hvernig er greitt fyrir prófið?

Frá 1. júlí getur þú skráir þig fyrir komu: https://heimkoma.covid.is eða greitt með korti við komuna á Keflavíkurflugvelli (eða á komustað). Ekki er tekið við reiðufé.

Hver ber ábyrgð á að fylgjast með heilbrigðis- og öryggisleiðbeiningum hjá fyrirtækjum o.s.frv.?

Stöðugt er fylgst með heilbrigðis- og öryggisreglum og þeim framfylgt af ýmsum aðilum á heilbrigðisviði landið um kring. Sóttvarnalæknir fylgist með ástandinu í samstarfi við embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Hvað get ég gert ef ég veikist á Íslandi?

Ef einkenni koma fram sem gætu orsakast af COVID-19 t.d.: hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir, kvefeinkenni eða hálsbólga, skyndileg breyting á lyktar- og/eða bragðskyni, hvetjum við til þess að haft sé samband við lækni í gegnum síma eða COVID-19 appið og fá upplýsingar. Ef hringt er úr íslensku símanúmeri skal hringja í 1700 (en ef hringt er úr erlendu símanúmeri má hringja í +354-544-4113). Ef um neyðartilvik er að ræða skal hringja í 112.

Ýmsar upplýsingar er varða öryggi geta breyst meðan á Íslandsdvöl stendur. Hvar er hægt að finna uppfærðar upplýsingar um gildandi ráðstafanir?

Á vefsíðunni www.covid.is er að finna upplýsingar um COVID-19 ráðstafanir á Íslandi.

Á vefsíðunni www.safetravel.is eru upplýsingar er varða öryggi á ferðalögum um Ísland.

Í hvaða aðstæðum er mælt með að fólk noti andlitsgrímur?

Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Það er t.d. starfsemi eins og heilbrigðisþjónusta, hárgreiðslustofur, nuddstofur, snyrtistofur og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur.

Þarf ég að nota hanska eða andlitsgrímu?

Á Íslandi er ekki skylda eða mælt með að nota hanska eða andlitsgrímu að staðaldri. Handþvottur og sótthreinsun eru mikilvægustu hreinlætisreglurnar og ráðlagt er að halda 1 metra fjarlægð milli manna.

Fylgið vinsamlegast þeim reglum sem hafa verið settar á þeim stöðum sem eru heimsóttir á meðan dvalið er á Íslandi. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja smitvarnir á hótelum, í verslunum, á veitingastöðum og í almenningssamgöngum?

Get ég verið í sóttkví á hóteli?

Hvernig mun hið opinbera safna og nota þær upplýsingar sem safnast í gengum smitrakningarappið?

Gagnasöfnun appsins fylgir ítrustu reglum um friðhelgi einkalífs og persónusjónarmiðum. Gögn um staðsetningar eru vistuð á snjalltæki notandans nema viðkomandi leyfi notkun þeirra til að rekja smit. Nánari upplýsingar á: https://www.covid.is/app/is

Hvernig get ég forðast smit?

Mikilvægast er að þvo sér vel og oft um hendurnar með vatni og sápu í lágmark 20 sekúndur eða nota handspritt. Þegar þú mætir í vinnu eða kemur heim skaltu byrja á að þvo hendur vel og vandlega. Svo er góð regla að forðast náin samskipti við aðra sem eru með einkenni kvefs, eins og hnerra eða hósta og halda sig í minnst eins  metra fjarlægð.

Ef þú þarft að hósta eða hnerra er betra að gera það í olnbogabótina en ekki í hendurnar eða út í loftið. Sýndu sérstaka aðgát við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna. Heilsaðu með brosi frekar en handabandi.

Hvað þarf ég að vita fyrir ferðalagið til Íslands?

Farþegum ber skylda til að fylla út forskráningarform fyrir komuna til Íslands, þar sem fram koma m.a. upplýsingar um nafn, kennitölu/fæðingardag, upplýsingar um hvernig er hægt að ná sambandi við þá, ferðamáta, dvalartíma og dvalarstaði á Íslandi og hvaða löndum þeir hafa dvalið í undanfarið. Í forminu er einnig heilbrigðisyfirlýsing og farþegar svara hvort þeir hafi einhver einkenni eða hafi greinst með COVID-19 eða verið í nánd við sýktan einstakling undanfarna 14 daga.  

Ferðamenn eru einnig hvattir til að hlaða niður og nota COVID-19 appið Rakning C-19. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um COVID-19 og hvernig á að hafa samband við heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.

Hér getur þú fyllt út forskráningarformið: https://heimkoma.covid.is/

Hver ber ábyrgð á að fylgjast með heilbrigðis- og öryggisleiðbeiningum hjá fyrirtækjum o.s.frv.?

Stöðugt er fylgst með heilbrigðis- og öryggisreglum og þeim framfylgt af ýmsum aðilum á heilbrigðisviði landið um kring. Sóttvarnalæknir fylgist með ástandinu í samstarfi við embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Hvernig er öryggis gætt á Keflavíkurflugvelli, innanlandsflugvöllum og um borð í vélinni?

Heilsu- og öryggisráðstöfunum er fylgt á öllum íslenskum flugvöllum, bæði alþjóðlegum og innanlands.  

Keflavíkurflugvöllur og innanlandsflugvellir eru þrifnir með reglulegu millibili. Sölubásar, innritunarborð, hurðarhúnar, handrið og aðrir snertifletir eru sótthreinsaðir mörgum sinnum á dag. Handspritt er í boði víða í flugstöðvarbyggingunni. Keflavíkurflugvöllur veitir upplýsingar um sóttvarnarúrræði sem tengjast COVID-19 og flugvellinum. Vinsamlegast hafið samband við viðkomandi flugfélag eða farið á vefsíðu flugvallarins sem flogið er frá til að fá frekari upplýsingar um flug eða varúðarráðstafanir.

Hverjir eru í mestri hættu með að fá alvarleg einkenni?

Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 50 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af COVID-19 sjúkdómi. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar, en þegar borin eru saman væg og alvarleg tilfelli er greinilegt að ákveðin vandamál voru til staðar hjá mun fleirum með alvarlegan sjúkdóm en vægan sjúkdóm. Þessi vandamál eru: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein. 

Einstaklingar sem reykja virðast vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins.

Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu.

Er öruggt að ferðast til Íslands þrátt fyrir COVID-19?

Ísland hefur náð góðum árangri með viðbrögðum sínum við COVID-19 og náðist stjórn á faraldrinum með umfangsmiklum prófunum, smitrakningu, öflugri upplýsingagjöf og ráðstöfunum tengdum sóttkví og einangrun. Heilbrigðisþjónustan stóðst mikið álagspróf og styrkur hennar kom í ljós. Ríkisstjórn Íslands í samráði við sóttvarnalækni hefur nú aflétt samkomutakmörkunum hægt og gætilega en auk þess leyft fyrirtækjum, skemmtistöðum, sundlaugum, veitingastöðum og börum að opna á ný. Ákveðnar takmarkanir eru enn í gildi. Fólk þarf að fylgja hreinlætis- og sóttvarnarreglum og er jafnframt hvatt til að hlaða niður og nota COVID-19 appið, Rakning C-19 í símum sínum. Íslendingar og þeir sem hér eru gestir takast á við heimsfaraldurinn af ábyrgð en eru á sama tíma að hefja aðlögun að hversdagslífinu á ný.

Munu nýju öryggisráðstafanirnar hafa áhrif á hvernig farangur er meðhöndlaður eða þá aðstoð sem ég þarf á flugvellinum?

Nei, þjónusta á Keflavíkurflugvelli verður með óbreyttum hætti. Farþegar eru hvattir til að innrita farangur til að takmarka snertifleti í flugvél. Við hvetjum farþega til að kanna upplýsingar frá flugfélaginu sem þeir fljúga með um það hvort breytingar hafi verið gerðar á meðhöndlun farangurs og/eða farangursheimildum. Sama á við um innanlandsflug.

Ég held að ég hafi smitast af COVID-19, hvað á ég að gera?

Hafðu samband við heilsugæsluna þína, netspjall á heilsuvera.is eða Læknavaktina í síma 1700, og fáðu ráðleggingar. Ekki fara beint á heilbrigðisstofnun, heldur hringdu fyrst og fáðu leiðbeiningar. 

Hvað get ég gert ef ég veikist á Íslandi?

Ef einkenni koma fram sem gætu orsakast af COVID-19 t.d.: hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir, kvefeinkenni eða hálsbólga, skyndileg breyting á lyktar- og/eða bragðskyni, hvetjum við til þess að haft sé samband við lækni í gegnum síma eða COVID-19 appið og fá upplýsingar. Ef hringt er úr íslensku símanúmeri skal hringja í 1700 (en ef hringt er úr erlendu símanúmeri má hringja í +354-544-4113). Ef um neyðartilvik er að ræða skal hringja í 112.

Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar við aðra komustaði en Keflavíkurflugvöll varðandi próf og sóttkví?

Boðið er upp á sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og á Seyðisfirði (fyrir farþega sem koma með Norrænu) fyrir þá sem kjósa að undirgangast prófun við komuna til Íslands. Komufarþegar á öðrum alþjóðaflugvöllum (Reykjavík, Akureyri, Egilsstaðir) og höfnum fara í sýnatöku á heilsugæslu á staðnum.

Öllum sem koma til landsins er skylt að fylla út forskráningarform fyrir komu til landsins og undirgangast tvær COVID-19 sýnatökur (PCR-próf) og sóttkví á milli sýnataka. Börn fædd árið 2005 eða síðar, eru undanþegin sýnatöku og sóttkví.

Ef sýnataka er ekki valin þarf að sæta sóttkví í 14 daga.

Sjá upplýsingar um heilsugæslustöðvar sem bjóða upp á síðari sýnatöku.

Hvernig er einangrun aflétt eftir COVID-19 sýkingu?

Læknar COVID-19-teymis Landspítala sjá um útskriftarsímtöl fyrir einstaklinga sem útskrifast úr einangrun. Þeir þurfa að uppfylla bæði eftirfarandi skilyrði og staðfesta það í samtali við lækni:

Að komnir séu a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarsýni).
Að hafa verið einkennalausir í 7 daga.

Þá fá allir þau tilmæli að huga sérstaklega vel að handþvotti og hreinlæti í tvær vikur eftir að einangrun hefur verið aflétt. Þá ber þeim einnig að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem eldra fólk og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóm í a.m.k. 2 vikur.

Einangrun aflétt - Sérstök tilvik

Einangrun aflétt í sérstökum tilvikum:

Einkennalausir einstaklingar: Í þessu tilviki er átt við einstaklinga sem hafa t.d.  greinst með veiruna í skimun Íslenskrar erfðagreiningar (Decode) og eru án einkenna í a.m.k. viku. Viðkomandi er laus úr einangrun 14 dögum eftir að hann greindist jákvæður með sýni. Til að teljast einkennalaus er einstaklingur alveg hitalaus, alveg laus við slappleika/veikindatilfinningu, hósta, mæði og nefrennsli.

Sambýlisfólk sem er saman í sóttkví og einangrun: Það má aflétta sóttkví þeirra sem búa á sama stað og einstaklingur í einangrun, þegar eru liðnir 14 dagar frá því að viðkomandi voru síðast í beinni snertingu. Í því felst náin umgengni, notað var sama salerni eða einstaklingar voru í undir 2 metra fjarlægð í 15 mínútur eða meira. Það á við um alla á sama heimili, einnig börn.

Sambýlisfólk sem er allt í einangrun á sama stað: Þegar fyrsta einstaklingnum í hópnum batnar af COVID-19 er hægt að leysa hann úr einangrun með því skilyrði að hinir veiku verði áfram í einangrun og ekki á sama stað og sá sem hefur náð bata. Í ákveðnum tilfellum verður sá sem hefur náð bata að vera áfram á sama stað og hinir veiku. Þá verður einangrun ekki aflétt, fyrr en sá sem síðastur nær bata er útskrifaður úr einangrun. Áður en einangrun er aflétt er mikilvægt að sambýlisfólk gæti ýtrasta hreinlætis, þrífi bæði sig og heimilið. Það á við um alla á sama heimili, einnig börn.

Heilbrigðisstarfsfólk: Um heilbrigðisstarfsfólk gilda sömu reglur og um aðra en huga þarf vel að verkefnum viðkomandi þegar hann snýr aftur til starfa (viðkvæmir hópar). Læknir og yfirmaður meta hvert tilfelli fyrir sig.

Hvers vegna er sett á samkomubann?

Samkomubanni var upphaflega komið á 15. mars 2020 í þeim tilgangi að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdóminum.

Markmið yfirvalda er að fækka smitum og hægja á faraldrinum til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að hlúa að þeim sem veikjast af COVID-19 ásamt því að sinna annarri bráðaþjónustu. Í þessu skyni var nauðsynlegt að setja á samkomubann og takmarka samgang og samneyti fólks.

Ýmsar upplýsingar er varða öryggi geta breyst meðan á Íslandsdvöl stendur. Hvar er hægt að finna uppfærðar upplýsingar um gildandi ráðstafanir?

Á vefsíðunni www.covid.is er að finna upplýsingar um COVID-19 ráðstafanir á Íslandi.

Á vefsíðunni www.safetravel.is eru upplýsingar er varða öryggi á ferðalögum um Ísland.

Hvaða sóttvarnaráðstafanir gilda fyrir farþega, áhafnir flugvéla og skipa, flugvelli og hafnir?

Leiðbeiningar um COVID-19 sóttvarnarráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugvélum fyrir flugfélög, flugvelli og áhafnir hafa verið uppfærðar og taka mið af leiðbeiningum Flugöryggisstofnunnar Evrópu (EASA) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) og farþegum ber að fylgja. Unnið er að sambærilegum leiðbeiningum fyrir hafnir og skip. Þessar upplýsingar eru fáanlegar á www.covid.is.

Í hvaða aðstæðum er mælt með að fólk noti andlitsgrímur?

Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Það er t.d. starfsemi eins og heilbrigðisþjónusta, hárgreiðslustofur, nuddstofur, snyrtistofur og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur.

Hvað mun samkomubannið vara lengi?

Gildandi takmörkun á samkomum, 200 manna samkomubann, nær frá og með 7. september og gildir til 27. september (23.59). Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr en hvort framlengja þurfi gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Hvernig er öryggi tryggt og smithætta lágmörkuð á Íslandi?

Öllum sem koma til landsins er skylt að fylla út forskráningarform fyrir komu til landsins og fara í sótthví annað hvort í 14 daga eða undirgangast tvær COVID-19 sýnatökur og sóttkví á milli sýnataka. Ef sýnataka er valin þá er fyrri sýnataka á landamærum við komu til landsins en sú seinni 6 dögum síðar á vegum heilsugæslunnar. Ef seinna próf er neikvætt er sóttkví aflétt. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin sóttkví og sýnatöku.

Á Íslandi er lögð áhersla á eftirfarandi:  

• 200 manna samkomubann frá og með 7.september 2020 til 27. september (23:59).

• Framkvæma prófanir.

• Framfylgja einangrun greindra tilvika og sóttkví fyrir þá sem eru útsettir fyrir smiti.

• Bjóða fjarheilbrigðisþjónustu fyrir þá sem eru með væg einkenni.

• Takmarka opinberar samkomur og samkomur í heimahúsum.

• Hvetja til þess að 1 metra nándarreglunni sé fylgt.

• Fylgja heilbrigðis- og öryggisreglum.

• Upplýsa almenning um allar ráðstafanir sem gripið er til í baráttunni við COVID-19.

Þarf ég að nota hanska eða andlitsgrímu?

Á Íslandi er ekki skylda eða mælt með að nota hanska eða andlitsgrímu að staðaldri. Handþvottur og sótthreinsun eru mikilvægustu hreinlætisreglurnar og ráðlagt er að halda 1 metra fjarlægð milli manna.

Fylgið vinsamlegast þeim reglum sem hafa verið settar á þeim stöðum sem eru heimsóttir á meðan dvalið er á Íslandi. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Hvaða hreinlætisreglur gilda í flugi til Íslands?

Heilbrigðis- og öryggisreglur geta verið mismunandi milli flugvalla og flugfélaga, en leiðbeiningar fyrir flugfélög, flugvelli og áhafnir varðandi sóttvarnarráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugvélum sem taka mið af viðmiðum EASA og ECDC varðandi COVID-19 hafa verið uppfærðar. Gættu að þeim reglum sem eru í gildi þar sem þú ferðast og hafðu samband við viðkomandi flugfélag eða flugvelli sem þú ferðast í gegnum til að fá frekari upplýsingar. Farþegum ber að fylgja þeim.

Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar varðandi COVID-19 prófin?

Frá og með 1. júlí greiða komufarþegar 9 þúsund kr. fyrir hvert próf ef greitt er við forskráningu ekki síðar en 1 degi fyrir komu en 11 þúsund kr. ef greitt er við komu til landsins. Þó greiðir hver einstaklingur aldrei meira en 22 þúsund kr. á hverju 30 daga tímabili. Börn fædd eftir árið 2005 eru undanþegin prófum. Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa hvorki að fara í sýnatöku né í sóttkví.

Frá og með 19. ágúst kl. 00:00 verða allir komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands.

Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku. Fyrri sýnatakan fer fram við landamæri og sú seinni á heilsugæslustöð 5-6 dögum síðar.

Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar til að hægt sé að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi.

Hér getur þú skráð þig: https://heimkoma.covid.is/

Upplýsingar um opnunartíma heilsugæslustöðva fyrir landamæraskimun.

Hvers vegna eru tilslakanir á aðgerðum í samkomubanni?

Samkomubanni var fyrst komið á 15. mars hérlendis í þeim tilgangi að stemma stigu við hraðri útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Eftir að faraldurinn sótti í sig veðrið og smitum fjölgaði var hert á aðgerðunum, eða 24. mars sl.

Þessar aðgerðir hafa ásamt öðrum aðgerðum skilað þeim árangri að faraldurinn hefur gefið eftir. Mikilvægt er að fara að öllu með gát á næstu vikum og mánuðum og er ástandið metið hverju sinni áður en ákvörðun er tekin um frekari tilslakanir.

Hvað get ég gert ef ég veikist í flugi á leið til Íslands?

Áhöfn hefur fengið sérstaka þjálfun í að takast á við aðstæður þar sem farþegar veikjast um borð. Láttu áhöfn vita ef veikindi gera vart við sig og þau munu aðstoða þig.

Verð ég að undirgangast prófun við komuna til landsins?

Nei, það er ekki skylda. Hægt er að velja að fara í 14 daga sóttkví og þá þarf ekki að undirgangast prófun. Þeir sem kjósa sóttkví við komuna til landsins verða að gera eigin ráðstafanir varðandi húsnæði og gæta þess að fylgja leiðbeiningum um sóttkví. Upplýsingar um sóttkví er að finna á https://www.covid.is/flokkar/sottkvi  

Vakin er athygli á því að brot á sóttkví eða einangrun getur leitt til sekta eða aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir frekari brot.

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja smitvarnir á hótelum, í verslunum, á veitingastöðum og í almenningssamgöngum?

Hver er munurinn á sóttkví og einangrun? 

Sóttkví er fyrir þá sem grunur leikur á að gætu verið smitaðir af Covid-19 en eru einkennalausir. Einangrun er fyrir þá sem eru með staðfest smit. Nánari leiðbeiningar um einangrun í heimahúsi má finna á vef embættis landlæknis. 

Er kvef án hita og beinverkja tilefni til þess að fleiri á heimilinu fari í sóttkví?

Ef vitað er um útsetningu fyrir kórónaveirusmiti eru öll öndunarfæraeinkenni grunsamleg og kalla á sóttkví annarra á heimilinu. Hægt er að leita ráðgjafar í síma 1700, á heilsugæslu eða gegnum netspjall á vefnum Heilsuvera.is.

Eru einhverjir hópar undanþegnir frá sóttkví og hvers vegna? 

Flugáhafnir og áhafnir flutningaskipa eru undanþegnar kröfu um sóttkví við komu til landsins. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar til að tryggja örugga birgðaflutninga til landsins og hins vegar þar sem dvalartími þeirra erlendis fer sjaldnar yfir 24 klukkustundir. Rík áhersla er lögð á að áhafnir sýni ýtrustu varkárni og gæti að sóttvörnum.

Hvers konar próf er um að ræða og hvernig er það framkvæmt?

Um er að ræða PCR-próf, þ.e. kjarnsýrumælingu (e. Polymerase Chain Reaction), sem er vel þekkt og áhættulítil aðferð til að greina veirusýkingar. Prófin gera læknum kleift að nota lítið magn af veirunni til að framkvæma greiningu. Neikvæð niðurstaða úr PCR-prófi útilokar ekki algerlega að einkennalaus einstaklingur sé smitaður af COVID-19.  

PCR-próf er framkvæmt með því að taka strok úr nefkoki og/eða hálsi. Langur sýnatökupinni er settur upp í nef [og munn] til að ná í sýni frá slímhúð í öndunarfærunum. Þetta getur valdið smávægilegum óþægindum.  

Stroksýnin eru greind á rannsóknarstofu í Reykjavík. Ferlið getur tekið aðeins lengri tíma fyrir þá sem koma til flugvalla og hafna utan Keflavíkur og Reykjavíkur.

Ef einhver í fjölskyldu kennara er í sóttkví, getur sá kennari haldið áfram störfum?

Ef einhver í fjölskyldu kennara er í sóttkví, en ekki með einkenni, getur viðkomandi kennari haldið áfram sínum störfum.  Ef sá sem er í sóttkví fær einkenni fer hann í einangrun og eiga aðrir sem hafa verið á heimilinu að fara í sóttkví.

Hvað kostar prófið?

Komufarþegar greiða 9 þúsund kr. fyrir hvert próf, ef greitt er við forskráningu ekki síðar en 1 degi fyrir komu en 11 þúsund kr. ef greitt er við komu til landsins. Þó greiðir hver einstaklingur aldrei meira en 22 þúsund kr. á hverju 30 daga tímabili. Börn fædd eftir árið 2005 eru undanþegin prófum. Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa hvorki að fara í sýnatöku né í sóttkví.

Hvert snýr ferðaskipuleggjandi sér ef hann vill fá fyrirfram samþykki Heilsugæslunnar við því að borga sýnatökugjald fyrir hóp?

Fyrst um sinn er ekki hægt að nýta sér þessa þjónustu. Einstaklingar þurfa að greiða (sjálfir) með debet eða kreditkorti.

Get ég fengið endurgreiðslu ef ferðin mín fellur niður?

Til þess að óska eftir endurgreiðslu þarftu að hafa samband við heilsugæsluna í gegnum netfangið: innheimta@heilsugaeslan.is

Á fjölskylda nemenda í sóttkví að sækja áfram sína skóla eða vinnustaði?

Á meðan sá sem er í sóttkví hefur engin einkenni er öðru heimilisfólki sem ekki hefur sjálft umgengist einstaklinga með COVID-19 sjúkdóm óhætt að sækja sinn skóla/vinnu. Mikilvægt er þó að huga að sóttvörnum, sýna varkárni og ef grunur vaknar um einkenni hjá þeim sem er í sóttkví skal leita ráðgjafar í síma 1700, á heilsugæslu eða gegnum netspjall á vefnum Heilsuvera.is.

Ef viðkomandi nemandi  er ekki með einkenni en þarf að vera í sóttkví þurfa fjölskyldumeðlimir ekki að vera í sóttkví nema þeir hafi sjálfir umgengist smitaðan einstakling. Mikilvægt er þó að huga vel að sóttvörnum á heimilinu og minnka náin samskipti eins og kostur er.

Sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga í sóttkví.

Ef einstaklingur sem hefur verið útsettur fyrir smiti fær einkenni á meðan á sóttkví stendur er brýnt að viðkomandi hafi samband við sína heilsugæslustöð eða vaktsíma 1700 og fái ráðgjöf.

Þarf ég að forskrá mig aftur eða borga nýtt sýnatökugjald ef ferðaáætlun mín breytist fyrir brottför?

Það þarf hvorki að forskrá sig aftur né borga nýtt sýnatökugjald ef ferðaáætlun breytist. Fengið strikamerki gildir áfram.

Hvað er vinnusóttkví og hvernig virkar hún?

Þeir sem koma til landsins til starfa í ákveðnum verkefnum geta sótt um að fara í vinnusóttkví í stað heimasóttkvíar. Með vinnusóttkví er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað á meðan 14 daga sóttkví þeirra stendur. Skilyrði fyrir vinnusóttkví eru að:

Viðkomandi umgangist ekki aðra en heimilisfólk eða þá sem eru með þeim í vinnusóttkví.

Viðkomandi dveljist einungis á gististað og vinnustað meðan á sóttkví stendur.

Viðkomandi fylgi öðrum reglum og leiðbeiningum sem við á um sóttvarnaráðstafanir.

Sótt sé um heimild fyrir vinnusóttkví til sóttvarnalæknis.

Verða gerð próf á börnum?

Börn fædd 2005 eða síðar eru undanþegin prófun.  

Hvað þarf ég að vita á meðan dvöl stendur?

Komufarþegar sem koma erlendis frá fara í tvær sýnatökur með 6 daga millibili og viðhafa smitgát á því tímabili.  Einnig er hægt að kjósa að fara í að fara í 14 daga sóttkví

Er þetta gert til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófið á landamærum geti leitt til stærri hópsmita á Íslandi. Allir ferðamenn eru hvattir til að gera varúðarráðstafanir til að vernda sjálfa sig og aðra, s.s. tíðan handþvott, notkun sótthreinsiefna, eins metra nándarregluna og að virða þær heilbrigðis- og öryggisreglur sem í gildi eru. PCR-próf útilokar ekki algerlega að einkennalaus einstaklingur sé sýktur af COVID-19.

Smitaður einstaklingur getur verið smitandi 1-2 dögum áður en einkenni koma fram. Ferðamenn eru hvattir til að hlaða niður og nota COVID-19 appið, Rakning C-19. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um COVID-19 og hvernig nálgast á heilbrigðisþjónustuna.

Þeir eru einnig hvattir til að fylgjast með COVID-19 upplýsingagáttinni  www.covid.is þar sem nýjustu upplýsingar eru birtar og mikilvægar tilkynningar eru settar inn á nokkrum tungumálum fyrir ferðamenn. Ferðamenn eru hvattir til að huga að heilsu sinni. Þeir sem veikjast eða telja sig vera með COVID-19 einkenni geta haft samband við Læknavaktina í gegnum Rakning C-19 appið, vefsíðuna http://heilsuvera.is, í síma 1700 (eða í síma +354 544 4113 ef hringt er úr erlendu símanúmeri). Ekki skal mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.

Allir ferðamenn eru hvattir til að halda 1 metra fjarlægð frá öðrum að því marki sem mögulegt er. Að halda fjarlægðarmörkum er mikilvægur hluti smitvarna og skulu allir sem þess óska eiga rétt á að halda slíkri fjarlægð. Ef einstaklingur fær einkenni sem gæti verið COVID-19 eins og hita, hósta, andþyngsli o.fl. skal hafa samband við heilsugæslu símleiðis, hafa samband við netspjall heilsuveru.is eða, utan dagvinnutíma, Læknavaktina í síma 1700.

Sjá leiðbeiningar um sóttkví í heimsókn til Íslands og leiðbeiningar um sóttkví í heimahúsi á vef embættis landlæknis.

Ferðamönnum er ráðlagt að gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
Fylgja reglum um sóttkví við komu til Íslands og mæta í aðra sýnatöku á boðuðum degi.
Handspritt má nota ef ekki er hægt að þvo hendur. Þó skyldi alltaf þvo hendur með sápu og vatni ef þær eru sýnilega óhreinar.
Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni/hósta.
Ekki snerta munn, nef eða augu með óþvegnum höndum. Hreinsið hendur aftur eftir að hafa snert andlitið.
Nota pappír fyrir vit við hnerra og hósta og þvo hendur reglulega. Henda skal pappír eftir notkun. Annars hnerra og hósta í olnbogabót.
Halda 1 metra fjarlægð frá öðrum.
Nota hlífðargrímur þar sem það á við.

Hvert snýr einstaklingur sér til að fá endurgreitt ef hann hefur greitt meira en 22 þúsund kr. fyrir skimanir samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis á hverju 30 daga tímabili?

Hann ætti að senda beiðni á netfangið innheimta@heilsugaeslan.is

Ég er í sóttkví og þarf að gista í Reykjavík áður en ég fer heim út á land, hvað geri ég?

Ýmis hótel og gistiheimili bjóða fólki á heimleið í sóttkví velkomið. Á heimasíðu Ferðamálastofu er að finna lista yfir staði sem bjóða upp á gistingu fyrir fólk í sóttkví. Mikilvægt er að halda í lágmarki samneyti við annað fólk og leggja áherslur á hreinlæti og önnur sóttvarnarráð.

Þurfa skiptifarþegar að forskrá sig?

Já. Þeir merkja sérstaklega við að þeir séu tengifarþegar í forskráningunni.

Þurfa farþegar sem eru að ferðast frá landi sem undanþegið er skimun eða sóttkví vegna Covid 19, en millilenda í landi sem ekki er á slíkum lista, að fara í skimun eða sóttkví?

Öll lönd heims talin áhættusvæði. Allir komufarþegar geta valið um að vera skimaðir tvisvar við komuna til Íslands eða fara í 14 daga sóttkví. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin sóttkví og sýnatöku.

Gæti ég þurft að fara ítrekað í sóttkví? 

Já. Það gilda alltaf sömu reglur um sóttkví, bæði varðandi ferðalög til útlanda og umgengni við smitaða einstaklinga.  

Hvað tekur prófið langan tíma?

Miðað er við að biðtími eftir sýnatöku á Keflavíkurflugvelli verði innan við ein klukkustund, en gæti orðið aðeins lengri á álagstímum. Þetta getur verið breytilegt á öðrum flugvöllum og í höfnum.  

Þegar stroksýni hefur verið tekið er komufarþegum heimilt að fara á skráðan dvalarstað (sem er gefin upp á forskráningareyðublaðinu). Komufarþegar þurfa að sæta sóttkví á meðan þeir bíða niðurstaðna úr prófinu, bent er á að gæta smitvarna og huga að heilsu sinni og annarra. Sjá leiðbeiningar um sóttkví.

Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr fyrra prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, ef komutími er eftir kl. 17, næsta dag. Komufarþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, eða í smáskilaboðum. Farþegum sem greinast jákvæðir verður tilkynnt símleiðis um niðurstöðurnar. Farþegar fá strikamerki sent í tölvupósti daginn áður en mæta á í seinni sýnatöku. Mættu með skilríki og strikamerkið. Seinni sýnataka fer fram hér.

Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar á forskráningareyðublaðinu um hvernig er hægt að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi.

Miðað er við að biðtími eftir sýnatöku á Keflavíkurflugvelli verði innan við ein klukkustund, en gæti orðið aðeins lengri á álagstímum. Þetta getur verið breytilegt á öðrum flugvöllum og í höfnum.  Þegar stroksýni hefur verið tekið er komufarþegum heimilt að fara á skráðan dvalarstað (sem er gefin upp á forskráningareyðublaðinu). Komufarþegar þurfa að sæta sóttkví á meðan þeir bíða niðurstaðna úr prófinu, bent er á að gæta smitvarna og huga að heilsu sinni og annarra. Sjá leiðbeiningar um sóttkví. Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr fyrra prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, ef komutími er eftir kl. 17, næsta dag. Komufarþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, eða í smáskilaboðum. Farþegum sem greinast jákvæðir verður tilkynnt símleiðis um niðurstöðurnar. Farþegar fá strikamerki sent í tölvupósti daginn áður en mæta á í seinni sýnatöku. Mættu með skilríki og strikamerkið. Seinni sýnataka fer fram "https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item42632/Upplysingar-um-opnunartima-heilsugaeslustodva-fyrir-landamaeraskimun">hér.  Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar á forskráningareyðublaðinu um hvernig er hægt að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi.

Getur fólk þurft að fara aftur í sóttkví sem kemur að utan?

Öllum sem koma til landsins er skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu nema þeir kjósi að undirgangast PCR-próf til greiningar á COVID-19.

Ég er í sóttkví, þarf að láta vita af því?

Já, það er mikilvægt að sóttvarnalæknir hafi yfirsýn yfir þann fjölda sem er í sóttkví hverju sinni.

Þeir sem eru í sóttkví og hafa ekki verið skráðir í gegn um rakningateymi, heilsugæslu eða í síma 1700 geta skráð upplýsingar um sóttkví á vefinn heilsuvera.is. Athugið að til að geta gengið frá slíkri skráningu í heilsuveru þarf að hafa rafræn skilríki. Hægt er að óska eftir vottorði um sóttkví um leið og hún er skráð í gegn um heilsuveru.is og fæst það endurgjaldslaust. Vottorðið gildir ekki fyrir sjálfskipaða sóttkví.

Þeir sem hafa ekki rafræn skilríki og geta ekki nýtt sér heilsuveru eiga að hafa samband við heilsugæslustöðina sína. Heilsugæslustöðin kemur upplýsingum um sóttkví viðkomandi til sóttvarnalæknis. Til að fá staðfestingu á sóttkví geta þeir sem þess þurfa með sent tölvupóst á netfangið mottaka@landlaeknir.is og skrá í efnislínu: Staðfesting á sóttkví.

Get ég fengið vottorð ef ég fer í sóttkví?

Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Rakningateymi sér um að skrá einstaklinga í sóttkví skv. fyrirskipun sóttvarnalæknis vegna ferðalaga eða nándar við staðfest tilfelli.

Þegar skráning er frágengin þá er hægt að sækja staðfestingu/vottorð um skráða sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.

Ef einstaklingar eru ekki meðrafræn skilríki og þurfa staðfestingu/vottorð um skráða sóttkví þá geta þeir sent beiðni á mottaka@landlaeknir.is með efnislínuna: „Staðfesting á sóttkví“ og fá það þá sent í tölvupósti.

Á ég rétt á launum í sóttkví? 

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt ríka áherslu á að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Stéttarfélög, bæði á opinberum og einkamarkaði, hafa flest birt leiðbeiningar til sinna félagsmanna um rétt þeirra til launagreiðslna í sóttkví.  

Ef einstaklingur fer í sjálfskipaða sóttkví, þ.e. án fyrirmæla frá heilbrigðisyfirvöldum, á hann ekki rétt til launa meðan á því stendur. 

Hversu lengi þarf ég að bíða eftir niðurstöðunum og hvernig fæ ég þær?

Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái upplýsingar um niðurstöðu úr prófi innan sólarhrings, yfirleitt samdægurs eða, ef komutími er eftir kl. 17, næsta dag. Komufarþegum verður tilkynnt um niðurstöðuna í rakningarappinu, Rakning C-19, eða í smáskilaboðum. Farþegum sem greinast jákvæðir verður tilkynnt símleiðis um niðurstöðurnar. Farþegar fá tíma í seinni sýnatöku í smáskilaboðum.  

Allir komufarþegar þurfa að gefa áreiðanlegar upplýsingar á forskráningareyðublaðinu um hvernig er hægt að ná sambandi við þá til að tilkynna þeim um niðurstöðu úr prófi. Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Er hægt að sækja um undanþágu frá því að fara í sóttkví? 

Undanþágur eru ekki veittar fyrir persónulegar ástæður, s.s. vegna jarðarfara eða veikinda ættingja. Einstaklingar sem eru í sóttkví vegna ferðar til Íslands geta hins vegar verið viðstaddir jarðarför ástvinar skv. sérstökum leiðbeiningum. Ef sóttkví er vegna tengsla við COVID-19 veikan einstakling má einstaklingur ekki vera viðstaddur jarðarför eða aðrar athafnir vegna andláts.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví til að mynda vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast (t.d. á sviði raforku, sorphirðu, heilbrigðisstarfsemi o.fl.). Þá getur sóttvarnalæknir veitt undanþágu vegna mikilvægrar starfsemi, svo sem til að tryggja fæðuöryggi. Undanþágur þarf að sækja um til sóttvarnalæknis.

Hvaða áhrif hefur samkomubann á minni vinnustaði?

Á þeim vinnustöðum þar sem færri en 200 manns vinna er hvatt til þess að haga vinnurými þannig að hægt sé að hafa 1 metra á milli einstaklinga. Gott er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Þarf að loka stórum vinnustöðum í samkomubanninu?

Allir vinnustaðir þurfa að tryggja að ekki séu fleiri en 200 í sama rými á hverjum tíma. Mikilvægt er að tryggja 1 metra fjarlægð milli einstaklinga.Mikilvægt er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

Hvar get ég beðið eftir niðurstöðum? Hvað get ég gert á meðan ég bíð?

Allir komufarþegar verða skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnataka verður á landamærum, að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 5-6 daga þangað til niðurstaða er fengin úr seinni sýnatöku. Nauðsynlegt er að vera í sóttkví á því tímabili. Einstaklingur í sóttkví á að halda sig heima við og hafa samskipti við sem fæsta einstaklinga.

Sóttkví fer fram í heimahúsi, á hóteli, eða í öðrum gistimöguleika sem telst viðeigandi húsnæði fyrir sóttkví.

Á vef Ferðamálastofu má nálgast lista yfir gististaði sem bjóða velkomna gesti í sóttkví (listi tók gildi 19.08.2020).

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hvenær er rétt að nota grímur og hvernig eru þær notaðar?

Hvenær er rétt að nota hanska og hvernig eru þeir notaðir?

Þvoðu hendur og þurrkaðu vel með hreinum klút áður en matvæli eru snert og/eða matar er neytt, alltaf eftir salernisferðir, þegar hendur mengast sem og í lok vaktar.

Ef handlaug er ekki nærri skaltu nota handspritt í stað handþvottar.

Líta ætti á alla hanska sem óhreina. Hætt er við að handhreinsun verði útundan og gleymist að skipta um hanska milli verka, ef þeir eru notaðir að staðaldri.

Hansa á að nota við óhrein verk, s.s. þrif. Einnig ef matvæli sem aðrir neyta, án skolunar eða eldunar, eru handleikin meðberum höndum. Ekki fara á milli verka án þess að skipta um hanska. Hendur á að hreinsa fyrir og eftir hanskanotkun.

Ef hanskar (t.d. plasthanska) eru notaðir þar sem afgreidd eru matvæli sem eru tilbúin til neyslu (t.d bakarí og á veitingastöðum,þarf að fara í hreina hanska fyrir hverja afgreiðslu og henda þeim gömlu.

Ef annað afgreiðslufólk vill nota hanska má nota plasthanska, vínilhanska eða nítrílhanska. Latexhanskar eru óæskilegir vegna hættu á ofnæmi hjá viðskiptavinum.

Hvernig verður skólahaldi háttað í samkomubanninu?

Leik- og grunnskólar
Engar hömlur gilda hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 200 manna hámarksreglan og eins metra nándarregla.

Framhalds- og háskólar

200 manna fjöldatakmarkanir gilda og eins metra nándaregla. Sótthreinsun sameiginlegra áhalda verði gerð a.m.k. einu sinni á dag. Mikil áhersla verði lögð á einstaklingsbundnar smitvarnir. Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Sjá nánar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Eiga sjálfstætt starfandi aðilar rétt á hinu nýja úrræði um minnkað starfshlutfall?

Samkvæmt lagabreytingunni þurfa sjálfstætt starfandi einstaklingar ekki að stöðva starfsemi til þess að eiga rétt til atvinnuleysisbóta heldur eingöngu að tilkynna skattayfirvöldum um samdrátt í rekstri (eyðublað RSK 5.02). Sækir sjálfstætt starfandi einstaklingur um hefðbundnar atvinnuleysisbætur og fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli áunnina réttinda sinna.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sækir um atvinnuleysisbætur í gegnum mínar síður atvinnuleitanda hjá Vinnumálastofnun.

Hér finna sjálfstætt starfandi aðilar góðar upplýsingar um sína möguleika í stöðunni.

Hvernig ferðast ég frá flugvellinum/höfninni?

Í sóttkví má ekki nota almenningssamgöngur (strætisvagna). Hægt er að fara með hópbifreið og ber að vera með andlitsgrímu. Einnig er hægt að nota leigubíla, bílaleigubíla eða einkabíl. Til að mynda er hægt að biðja ættingja eða vini um að keyra á tveimur bílum til Keflavíkur, skilja annan eftir og skilja lyklana eftir fyrir ferðalangana til að taka bílinn heim.

Hvernig virkar hið nýja úrræði stjórnvalda um minnkað starfshlutfall?

Hvernig munu leikskólar starfa í samkomubanni?

Leikskólar starfa með hefðbundnum hætti en þar eru áfram í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa m.a. að hreinlæti og sótthreinsun og aðgengi að byggingum. Engar fjöldatakmarkanir eru á fjölda barna fæddra 2005 eða síðar sem koma saman. Öðrum en nemendum ber að fara eftir ákvæðum um hámarksfjölda 200 manns í rými og tveggja metra nálægðartakmörkunum sín á milli eins og unnt er.

Þarf ég að dvelja í höfuðborginni á meðan ég bíð eftir niðurstöðunum?

Frá því að farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví. Þegar sýnatöku er lokið skal halda rakleiðis á sóttkvíarstað með hópbifreið (ekki strætó) einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl. Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.

Vinsamlega sæktu appið Rakning C-19, https://www.covid.is/app/is. Það er notað til að miðla neikvæðum niðurstöðum úr skimun og hjálpar við að rekja smit ef þörf krefur. Einnig veitir það mikilvægar upplýsingar um COVID-19. Nánari upplýsingar um appið er að finna á www.covid.is/app

Haft verður samband við þig í síma frá COVID-göngudeild Landspítala ef veiran greinist hjá þér (jákvætt próf) og næstu skref til að staðfesta hvort um virkt smit er að ræða útskýrð. Neikvæð niðurstaða er send í Rakning C-19 appið eða með SMS í símanúmerið sem þú staðfestir við forskráningu. Mikilvægt er að síminn sem var notaður við forskráningu sé virkur.

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Hverjar eru kröfurnar um tveggja vikna sóttkví?

Ef ég ákveð að fara í sjálfskipaða sóttkví?

Vinsamlegast lesið upplýsingarnar um sóttkví á Íslandi.  

Þeir sem kjósa að fara í sjálfskipaða 14 daga sóttkví við komu þurfa að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þeir geti fylgt leiðbeiningunum um sjálfskipaða sóttkví. Vinsamlegast lesið upplýsingarnar um sóttkví á Íslandi.  

Vakin er athygli á því að brot á sóttkví eða einangrun getur leitt til sekta eða aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir frekari brot.

Forskráning fyrir ferðalagið til Íslands fer fram hér: https://heimkoma.covid.is/

Upplýsingar um sektir fyrir brot gegn sóttvarnalögum vegna COVID-19 má finna hér.

Hvernig starfa háskólar í samkomubanni?

Eins metra nándaregla gildir í framhalds- og háskólum. 200 einstaklingar mega vera í sama rými. Sótthreinsun sameiginlegra áhalda verði gerð a.m.k. einu sinni á dag. Mikil áhersla verði lögð á einstaklingsbundnar smitvarnir.Fyrirkomulag kennslu fer eftir aðstæðum í hverjum skóla fyrir sig.

Þarf ég að fara í sóttkví ef einstaklingur í hópnum mínum/fjölskyldunni minni greinist með COVID-19?

Neikvæð niðurstaða úr sýnatöku tryggir ekki að einstaklingur þurfi ekki síðar að fara í sóttkví ef í ljós kemur að hann hefur verið útsettur fyrir smiti, s.s. til dæmis í fluginu til Íslands eða á ferðalaginu. Smitrakningarteymið hefur samband við þá sem hafa verið í nánd við einstakling með staðfest virkt smit frá því tveimur dögum áður en einkenna varð vart, t.d. umgengist hann lengur en 15 mínútur í minna en 2ja metra fjarlægð eða teljast hafa verið í nánd við smitaðan einstakling í flugvél (almennt 2 sætaraðir allt um kring) eða í rútu. Þessum einstaklingum kann að vera gert að fara í sóttkví. Erlendir ríkisborgarar sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í sóttkví verður boðið upp á að dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að þeir beri kostnað af því.

Vinsamlegast lesið upplýsingarnar um sóttkví á Íslandi á vefslóðinni https://www.covid.is/flokkar/sottkvi

Upplýsingar um sektir fyrir brot gegn sóttvarnalögum vegna COVID-19 má finna hér.

Mega nemendur sækja hóptíma í tónlistarskólum, að teknu tilliti til hreinlætis og fjarlægðar?

Já, nemendur á leik- og grunnskólaaldri geta sótt tíma án takmarkana. Kennarar og nemendur eldri en 16 ára þurfa að virða reglur um 200 fullorðna einstaklinga í sama rými og tryggja 1 metra nándarmörkin milli óskildra einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin hertum aðgerðum.Þar sem ekki er mögulegt að tryggja 1 metra nándarmörkin milli óskildra einstaklinga er nauðsynlegt að nota hlífðargrímur. Sjá leiðbeiningar.

Get ég verið í sóttkví á hóteli?

Þarf ég að fara heim ef prófið mitt er jákvætt?

Nei. Þú mátt ekki ferðast ef prófið reynist jákvætt og þú ert talin/n smitandi.

Hvað gerist ef niðurstaða úr COVID-19 prófi er jákvæð ?

Ef komufarþegi greinist jákvæður verður viðkomandi boðið að fara í mótefnamælingu til að ákvarða hvort smitið er virkt. Sé um virkt smit að ræða ber viðkomandi að fara í einangrun. Erlendir ríkisborgarar sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði, sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í einangrun verður boðið upp á að dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að þeir beri kostnað af því. Smituðum einstaklingum ber að veita smitrakningarteymi upplýsingar um hverja þeir hafa umgengist frá því tveimur dögum áður en einkenna varð vart.

Nánari upplýsingar um einangrun er að finna hér: https://www.covid.is/flokkar/einangrun

Er hægt að fá undanþágu frá samkomubanni?

Það er hægt að sækja um undanþágu en skilyrðin eru ströng. Undanþágur eru því aðeins veittar ef afar brýnir hagsmunir liggja að baki, svo sem í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra. Fyrst eftir að samkomubannið tók gildi bárust heilbrigðisráðuneytinu margar umsóknir um undanþágu. Flestum þeirra hefur verið hafnað. Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna takmarkana á samkomum og sóttkví halda gildi sínu.

Hvað gerist ef smit greinist hjá mér?

Greining, meðferð og eftirlit tilkynningarskyldra sjúkdóma, þar með talið COVID-19, er sjúklingi að kostnaðarlausu. Þetta á hins vegar ekki við um valkvætt PCR-próf vegna COVID-19.

Eru mannamót og skemmtanahald leyft í samkomubanni?

Leyfilegt er að halda samkomur fyrir 200 manns og færri að því gefnu að hægt sé að halda eins metra bili milli ótengdra aðila. Takmörkunin nær yfir allar samkomur, einnig áfengislausar skemmtanir. Staðir með veitingaleyfi geta haldið samkomur til kl. 23 á kvöldin. Þá skal einnig hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metra.

Eru sundlaugar opnar í samkomubanni?

Já, sund- og baðstöðum er heimilt að hafa opið fyrir þrjá fjórðu (75%) af leyfilegum hámarksfjölda, sem er skráður í starfsleyfi.
Nauðsynlegt er að tryggja 1 metra fjarlægð milli óskildra einstaklinga.

Eru skemmtistaðir opnir í samkomubanni?

Já, skemmtistaðir, krár og spilastaðir eru opnir til kl. 23 alla daga. Mikilvægt er að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga.

Þurfa allir sem heimsækja Ísland að hlaða niður smitrakningarappinu Rakning C-19?

Gagnasöfnun appsins fylgir ítrustu reglum um friðhelgi einkalífs og persónusjónarmiðum.

Gögn um staðsetningar eru vistuð á snjalltæki notandans nema viðkomandi leyfi notkun þeirra til að rekja smit.

Nánari upplýsingar á: https://www.covid.is/app/is.

Nær samkomubannið til útisamkoma?

Já. Um slíkar samkomur gilda sömu reglur og fyrir samkomur sem haldnar eru innandyra, bæði hvað varðar fjölda og hversu mikið pláss þarf að vera hægt að hafa milli fólks.

Hvernig mun hið opinbera safna og nota þær upplýsingar sem safnast í gengum smitrakningarappið?

Gagnasöfnun appsins fylgir ítrustu reglum um friðhelgi einkalífs og persónusjónarmiðum. Gögn um staðsetningar eru vistuð á snjalltæki notandans nema viðkomandi leyfi notkun þeirra til að rekja smit. Nánari upplýsingar á: https://www.covid.is/app/is

Geta trúarlegar athafnir farið fram í samkomubanni?

Takmörkun á samkomum tekur einnig til trúarathafna. Óheimilt er að fleiri en 200 manns komi saman, að meðtöldum þeim sem stýra athöfninni. Dæmi um þetta eru útfarir, giftingar, fermingar, skírnir og sambærilegar athafnir, hvort sem er í kirkju eða á öðrum stöðum. Mikilvægt er að halda eins metra bili milli ótengdra aðila. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun.

Geta veislur farið fram í samkomubanni?

Veislur, matarboð og öll önnur tilefni þar sem fólk kemur saman í heimahúsi, í veislusölum, utandyra eða á öðrum stöðum eru bannaðar séu fleiri en 200 manns viðstaddir. Tryggja skal eins og kostur er að fjarlægð á milli fólks sé a.m.k. 1 meter. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Tryggja þarf að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metri.

Geta íþróttaviðburðir farið fram meðan á samkomubanni stendur?

Íþróttaviðburðir mega fara fram með ákveðnum skilyrðum. Takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðast almennt við 200 fullorðna og 1 metra nándarmörk. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

Sjá nánar vef ÍSÍ

Hvaða reglur gilda um íþróttastarf í samkomubanni?

Hámarksfjöldi fullorðinna er allt að 200 manns í sama rými. Jafnframt er hvatt til þess að tillit sé tekið til 1 metra nálægðarmarka. Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

Hvaða reglur gilda um leikhús og bíóhús í samkomubanni?

Leiksýningar og bíósýningar geta farið fram, að því skilyrði uppfylltu að færri en 200 manns sæki sýningarnar þ.m.t. flytjendur og starfsfólk og að því gefnu að hægt sé að halda eins metra bili milli ótengdra aðila.. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metri.

Hvað gerist ef ég veikist meðan ég er í sóttkví?

Þeir sem veikjast eða telja sig vera með COVID-19 einkenni ættu að hafa samband við Læknavaktina í gegnum Rakning C-19 appið, í netfangið heilsuvera.is, í síma 1700 (eða í síma +354 544 4113 sé hringt úr erlendu símanúmeri).

Í neyð skal hringja í 112. Allir ferðamenn eru hvattir til að halda 1 metra fjarlægð frá öðrum að því marki sem mögulegt er.

Að halda fjarlægðarmörkum er mikilvægur hluti smitvarna og skulu allir sem þess óska eiga rétt á að halda slíkri fjarlægð.

Má halda tónleika í samkomubanni?

Tónleikar geta farið fram, að því skilyrði uppfylltu að ekki séu fleiri en 200 á tónleikunum, þar með taldir flytjendur og starfsfólk að því gefnu að hægt sé að halda eins metra bili milli ótengdra aðila. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metra.

Má hafa söfn opin meðan á samkomubanni stendur?

Já, heimilt er að hafa söfn opin, að því tilskildu að ekki séu fleiri á safninu en 200 manns, þ.m.t. starfsfólk safnsins þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun. Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 1 metri.

Geta ráðstefnur eða stórir fundir farið fram í samkomubanni?

Ef færri en 200 manns koma saman er heimilt að halda námskeið, ráðstefnur, málþing, fundi og kennslu, en tryggja þarf að a.m.k. 1 metri sé milli ótengdra aðila. Þegar hafa fjölmargir vinnustaðir fært fundahöld yfir í fjarfundi og er reynslan af slíku almennt góð

Hvað fellur ekki undir samkomubann?

Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa. Hvatt er til öflugra sóttvarnaráðstafana og að rekstraraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti.

Hvernig er fyrirkomulag á opnun verslana í samkomubanni?

Verslanir þurfa að gæta að því að ekki séu fleiri en 200 einstaklingar inni í verslunarrýminu á sama tíma. Mikilvægt er að sýna tillitsemi og virða 1 metra fjarlægðarregluna.

Hvernig er best að snúa sér í því að versla inn matvörur fyrir heimilið?

Gott er að skrifa niður innkaupalista áður en farið er í búðina til að hægt sé að ljúka innkaupunum á sem stystum tíma. Í búðinni þarf svo að gæta að því að halda tveggja metra fjarlægðinni milli fólks, svo sem í biðröðum við kassa. Í mörgum verslunum eru merki á gólfi á biðraðasvæði til að gefa til kynna hvar fólk á að standa til að tryggja nægilega fjarlægð á milli manna.

Þá er víða boðið upp á heimsendingarþjónustu, bæði frá matvöruverslunum og apótekum sem fólk í sóttkví og einangrun getur m.a. nýtt.

Hvernig er fyrirkomulagið á opnun verslunarmiðstöðva?

Í verslunarmiðstöðvum er hvert verslunarrými sér eining. Tryggja þarf að ekki séu á sama tíma fleiri en 200 manns inni í hverju verslunarrými fyrir sig. Sameiginleg rými skal skipuleggja þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti einn metra á milli einstaklinga . Þjónusta sem fólk hefur ekki kost á öðru en að mæta og versla (t.a.m. lyf) þarf að tryggja þeim sem kjósa það að halda 1 metra fjarlægð frá öðrum.

Eru sólbaðsstofur opnar?

Sólbaðsstofur hafa leyfi til að vera opnar. Hvatt er til þess að viðhalda 1 metra fjarlægð milli viðskiptavina. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum.

Mun lögreglan passa upp á fjölda fólks inni í verslunum?

Nei, við treystum á að eigendur verslana og aðrir fylgi fyrirmælum um samkomubann.  

Hvaða reglur gilda fyrir sundstaði?

Sund- og baðstöðum er heimilt að hafa opið með fjöldatakmörkunum. Börn fædd árið 2005 og síðar teljast ekki með gestafjölda. Eins metra nálægðartakmörk gilda ekki á sundlaugarsvæðum en taka skal tillit til þeirra sem kjósa að fylgja eins metra nálægðartakmörkunum.  Eftir bestu vitneskju í dag er ekki talin hætta á að veiran berist í fólk úr vatni í heitum pottum eða sundlaugum.

Í heitum pottum (og á líkamsræktarstöðvum) er hins vegar oft mikil nánd við marga einstaklinga og þar af leiðandi smithætta. Veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum og viðkomandi ber þær svo upp að andliti sínu. Í leiðbeiningum fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu nýrrar kórónaveiru er einstaklingum með undirliggjandi vandamál ráðlagt að halda sig frá fjölmenni, þar á meðal líkamsræktarstöðvum og sundlaugum.

Eru líkamsræktarstöðvar opnar í samkomubanni?

Já, líkamsræktarstöðvar eru opnar og er hámarksfjöldi gesta samkvæmt starfsleyfi.

Get ég farið í klippingu og á snyrtistofur í samkomubanni?

Hárgreiðslustofur og snyrtistofur mega vera opnar, en taka skal tillit til 1 metra fjarlægðarreglunnar. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Sjá leiðbeiningar um notkun á hlífðargrímum.

Get ég farið í nudd í samkomubanni?

Hægt er að fara í nudd, en taka skal tillit til eins metra fjarlægðarreglunnar. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Eru húðflúrstofur opnar?

Húðflúrstofur hafa leyfi til að vera opnar, en taka skal tillit til 1 metra nálægðarmarka. Gætt skal að sótthreinsun og þrifum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn.

Get ég farið til læknis þrátt fyrir samkomubann?

Já, öll heilbrigðisstarfsemi er heimil og tekur það einnig til valkvæðra skurðaðgerða eða annarra valaðgerða. Ef grunur vaknar um mögulegt COVID-19 smit á alls ekki að fara beint til læknis eða á heilsugæsluna heldur hringja í heilsugæsluna eða nota netspjallið á vefsvæðinu heilsuvera.is, á dagvinnutíma, eða hringja í símanúmerið 1700 (Læknavaktin) sem er opið allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.

Get ég farið til tannlæknis þrátt fyrir samkomubann?

Já, öll heilbrigðisstarfsemi er heimil og fólk getur því farið til tannlæknis án takmarkana. Nota þarf hlífðargrímu þegar er farið til tannlæknis. Sjá leiðbeiningar um notkun á hlífðargrímu

Ef grunur vaknar um mögulegt COVID-19 smit á alls ekki að fara beint til læknis eða á heilsugæsluna heldur hringja í heilsugæsluna eða nota netspjallið á vefsvæðinu heilsuvera.is, á dagvinnutíma, eða hringja í símanúmerið 1700 (Læknavaktin) sem er opið allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.

Get ég farið í sjúkraþjálfun í samkomubanninu?

Já, heilbrigðisþjónusta á borð við sjúkraþjálfun er í boði.

Á vef Embætti landlæknis má finna fleiri spurningar og svör í tengslum við COVID-19.
Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins má einnig finna upplýsingar um takmarkanir á skólastarfi.

Til baka á forsíðu

Tilkynna brot