Örvunarbólusetningar

Hvað er örvunarbólusetning?

Örvunarbólusetning er bólusetning umfram það sem er álitið grunnbólusetning s.s. tvær sprautur af mRNA bóluefni. Tilgangurinn með örvunarbólusetningu er að efla eins og hægt er varnir gegn COVID-19 smiti og alvarlegum veikindum. Þannig hefur komið fram að örvunarskammtur bóluefnis (þriðji skammtur) gegn COVID-19 verndar u.þ.b 90% betur en grunnbólusetning (tveir skammtar) gegn delta afbrigði. Þriðji skammtur gefur einnig nokkra vörn gegn omikron afbrigði, sérstaklega gegn alvarlegum veikindum.

Mælt er með fjórða skammti COVID-19 bóluefna fyrir 80 ára og eldri og þá sem hafa sjúkdóma sem auka hættu á alvarlegum COVID-19 veikindum. Fjórir mánuðir þurfa að líða frá þriðja skammti.

Til hvers?

Örvunarbólusetning er leið til að auka ónæmi gegn COVID-19. Þau bóluefni sem notuð eru hafa ekki reynst alveg eins öflug vörn og vonir stóðu til vegna tilkomu delta-afbrigðisins og svo omikron afbrigðis. Nánari upplýsingar um tilgang örvunarbólusetninga má finna á vef Embættis landlæknis.

Góð þátttaka í örvunarbólusetningum gegn COVID-19 er ein aðal forsenda þess að við náum tökum á útbreiðslunni.

Fyrir hver?

Örvunarbólusetningu er hægt að fá séu að lágmarki 4 mánuðir frá því grunnbólusetningu lauk. Sjötíu ára og eldri og fólk með ónæmisbælingu, óháð aldri, geta þó fengið örvunarbólusetninguna þegar 3 mánuðir eru liðnir þar sem þessi hópur er talinn í aukinni hættu á ófullnægjandi svari við tveimur bólusetningum. Nú þegar hafa þeir hópar verið boðaðir sem skilgreindir höfðu verið í forgangi fyrir örvunarskammt.

Sóttvarnarlæknir mælir einnig með því að þau sem ekki hafa mætt í sína fyrstu bólusetningu geri það sem fyrst því alvarleg veikindi meðal óbólusettra eru um fimm sinnum algengari en meðal bólusettra (eftir tvær sprautur).

Mælt er með að fullbólusett fólk sem hefur smitast af COVID-19 fari í örvunarbólusetningu, en ekki fyrr en þrír mánuðir eru liðnir frá smitinu, jafnvel þó boð berist úr bólusetningargrunninum. Í töflu á vef Landlæknis má finna út hvenær æskilegt er að fá næsta skammt, miðað við fyrri sögu um veikindi og bólusetningar.

Hvar?

Bólusetning er sem fyrr í höndum heilsugæslunnar og heilsustofnana um allt land.

Hvað sýna rannsóknir?

Niðurstaða rannsóknar í Ísrael sem birt var í vísindatímaritinu Lancet sýna að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær bólusetningar.

Hvaða bóluefni er notað?

Bóluefni frá Pfizer/BioNTech og Moderna er notað hérlendis í örvunarbólusetningar. Fyrir karlmenn 16–39 ára er mælt með að nota frekar Pfizer bóluefni vegna meiri óvissu um hversu mikil hætta er á hjartabólgu þegar bóluefni Moderna er notað við örvunarbólusetningu.

Hver fá ekki örvunarbólusetningu?

Gögn um örvunarbólusetningar 12–15 ára barna eru ekki fullnægjandi til að mæla með almennum örvunarbólusetningum þess aldurshóps, að svo komnu máli. Ónæmisbæld börn ættu að fá þriðja skammt, allt niður í 5 ára aldur.

Eftirfarandi hópar ættu ekki að þiggja örvunarbólusetningu nema að höfðu samráði við sinn lækni:

1. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem eru með virkan sjúkdóm þegar örvunarbólusetning er ráðlögð.
2. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem fengu versnun einkenna eða ný, alvarleg einkenni innan 2ja vikna frá COVID-19 grunnbólusetningu.
3. Einstaklingar sem fengu lífshættulegar aukaverkanir við grunnbólusetningu, s.s. bráðaofnæmi.

Til baka á forsíðu