Frá sóttvarnalækni

26.10.2021

Undanfarnar vikur hefur nokkuð hröð fjölgun sést á greindum smitum af völdum COVID-19 hér á landi. Smitin hafa greinst í svo til öllum landshlutum, um 50% voru í sóttkví við greiningu og um 50% full bólusettir. Í gær greindust 80 einstaklingar innanlands og er 14 daga nýgengi nú komið upp íum 230 á 100.000 íbúa. Þetta er með því mesta sem sést hefur frá því faraldurinn hófst.

Innlögnum á Landspítalann hefur einnig fjölgað og á spítalanum liggja nú 11 einstaklingar og þar af einn á gjörgæsludeild. Síðustu vikur og mánuði hafa um 2% þeirra sem greinast lagst inn á sjúkrahús, 0,4% lagst inn á gjörgæsludeild og um 0,2% þurft aðstoð öndunarvéla. Um helmingur innlagðra var full bólusettur.

Fyllsta ástæða er til að hafa áhyggjur af núverandi þróun COVID-19 á Íslandi. Með vaxandi afléttingu takmarkana þá hefur dreifing smits aukist og greinilegt að einstaklingsbundnar sóttvarnir duga ekki til að halda faraldrinum í skefjum. Þó að útbreidd bólusetning komi í veg fyrir smit og einkum alvarleg veikindi þá virðist hún ekki duga til að stöðva þá bylgju sem nú er í gangi né heldur að koma í veg fyrir innlagnir alvarlegra veikra.

Rétt er að hvetja alla til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum svo síður þurfi að koma til opinberra takmarkana á umgengni fólks. Munum að margar innlagnir á sjúkrahús koma ekki einungis niður á umönnun þeirra sem veikst hafa alvarlega af COVID-19 heldur einnig annarri mikilvægri þjónustu.

Sóttvarnalæknir

Til baka á forsíðu

Tilkynna brot