Um bólusetningar barna 5 - 11 ára gegn COVID-19
Af hverju er mælt með bólusetningu 5-11 ára barna gegn COVID-19 á Íslandi?
Bólusetning 5-11 ára barna með tveimur skömmtum bóluefnisins er um 90% virk til að koma í veg fyrir staðfest COVID-19 smit af völdum delta afbrigðis kórónaveirunnar. Bólusetningin er því álíka virk gegn smiti af völdum delta afbrigðisins og þrír skammtar hjá fullorðnum.
Delta afbrigði er enn mikilvæg orsök COVID-19 hér á landi, sérstaklega hjá þessum aldurshópi.
Bólusetning gegn ómícron afbrigðinu, sérstaklega eftir örvunarskammtinn, er einnig virk til að koma í veg fyrir smit og sérstaklega til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.
Ekki liggja fyrir endanlegar niðurstöður um virkni bólusetningar hjá börnum gegn ómícron afbrigðinu en allar vísbendingar eru um að virknin sé betri en hjá fullorðnum.
Smit meðal barna geta valdið alvarlegum veikindum þótt það sé sjaldgæft. Bólusetning hjá unglingum dregur verulega úr hættu á alvarlegum veikindum, eins og hjá fullorðnum. Ekkert barn á aldrinum 5-11 ára hefur enn sem komið er verið lagt inn á sjúkrahús hér á landi vegna COVID-19 en í Bandaríkjunum og Evrópu hafa um 0,6% barna með einkenni vegna staðfests smits af völdum delta afbrigðisins þurft á innlögn að halda og 10% þeirra þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild.
Alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu eru margfalt sjaldgæfari hjá 5-11 ára en alvarlegir fylgikvillar eftir COVID-19 þegar um er að ræða smits af völdum delta afbrigðisins.
Enn sem komið er er ekki vitað um alvarleika smita af völdum ómícron afbrigðisins hjá börnum á þessum aldri en þar sem delta afbrigðið er enn í mikilli útbreiðslu þá getum við búist við að sjá alvarlegar afleiðingar af þess völdum. Bólusetning hjá fullorðnum verndar hins vegar gegn alvarlegum veikindum af völdum afbrigðisins og miklar líkur að verndin hjá börnum sé ekki síðri.
Einangrun og sóttkví hefur mikil og truflandi áhrif á skólagöngu og félagslíf barna 5-11 ára sem koma má í veg fyrir að verulegu leyti með bólusetningu.
Með bólusetningu barna má koma í veg fyrir útbreiðslu smita innan skóla, inn í fjölskyldur og til viðkvæmra hópa.
Hvenær verður hægt að fá bólusetningu fyrir 5-11 ára börn?
Bóluefni Pfizer/BioNTech sem sérstaklega er hannað fyrir börn er komið til landsins. Bólusetningar eru hafnar víða, sérstaklega hjá börnum sem eru í aukinni áhættu á að fá alvarlegar afleiðingar af COVID-19 en framboð bóluefnis verður ekki fullnægjandi til að bjóða bólusetningu í stórum stíl fyrr en í viku 2 á þessu ári. Í Danmörku hafa um 50% barna á aldrinum 5-11 ára nú þegar fengið eina sprautu bóluefnis.
Forsjáraðilum barna á Íslandi verður boðin bólusetning fyrir 5-11 ára börn sín og þurfa þeir að taka afstöðu til bólusetningarinnar (þiggja, bíða eða hafna). Ef ekki er tekin afstaða verður ekki til strikamerki og ekki hægt að bólusetja barnið þótt það mæti á bólusetningarstað. Eingöngu verða send skilaboð á sannreyndar tengiliðaupplýsingar. Ef þær upplýsingar eru ekki í kerfum sem sóttvarnalæknir hefur heimild til að nýta, fá forsjáraðilar ekki boðið og þurfa þá að sækjast eftir bólusetningu í gegnum heilsugæsluna, eftir 15. janúar 2022.
Forsjáraðilar verða sjálfkrafa samþykktir fylgdarmenn barns í bólusetningu en geta tilgreint aðra fylgdarmenn sem þurfa að vera reiðubúnir að framvísa skilríkjum á bólusetningastað. Forsjáraðilar eru ábyrgir fyrir að láta öðrum sem fylgja barni í bólusetningu strikamerkið í té.
Hvernig verður fyrirkomulag bólusetninga barna gegn COVID-19
Heilsugæslan á hverjum stað skipuleggur framkvæmdina og auglýsir í samráði við sveitarstjórnir, skólayfirvöld og aðra sem málið varðar á hverju svæði:
Höfuðborgarsvæði: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Suðurnes: Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Suðurland: Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Austurland: Heilbrigðisstofnun Austurlands
Norðurland: Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Vestfirðir: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Vesturland: Heilbrigðisstofnun Vesturlands
Í grófum dráttum er stefnt að því að nýta húsnæði skóla á þéttbýlum svæðum fyrir fjöldabólusetningarátak en þar er mætt þörfum barnanna, starfsfólk heilsugæslunnar þekkir til vegna aðkomu að heilsuvernd skólabarna og góð nýting fæst á bóluefninu. Til þess að tryggja að kennarar, nemendur og fylgdarmenn fylgist ekki með því hverjir mæta eða mæta ekki í bólusetninguna er æskilegt að kennsla falli niður meðan á bólusetningu stendur, a.m.k. í þeim árgöngum sem stendur bólusetning til boða. Nemendum verður raðað í bólusetninguna með slembiaðferð í stað þess að bólusetja árganga í heilu lagi. Frekari útfærsla er varðar niðurfellingu skólahalds verður rædd á vettvangi samráðshóps mennta- og barnamálaráðherra um sóttvarnir í dag og kynnt í framhaldinu.
Einnig er hugsanlegt að bólusetningin muni fara fram í öðru húsnæði en skólum ef heilsugæslunni þykir það hentugra.
Í dreifbýli verður víða bólusett á heilsugæslustöðvum eða í öðru heppilegu húsnæði.
Ef forsjáraðilar telja ákjósanlegra að bólusetning barns fari fram utan skóla geta þeir valið að mæta með barnið til bólusetningar í annað húsnæði samkvæmt ákvörðun heilsugæslunnar. Þetta kann þó að draga úr markmiði bólusetningarátaksins því mikilvægt að er að ná sem flestum í bólusetninguna sem fyrst, til að hindra smit eins fljótt og auðið er.
Efni fyrir börn um bólusetningar gegn COVID-19.
Upplýsingar um bólusetningar barna gegn COVID-19 á covid.is.