Frá sóttvarnalækni

03.02.2022

Mótefnamælingar Íslenskrar erfðagreiningar fyrir COVID-19 í samstarfi við sóttvarnalækni.

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður úr rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á útbreiðslu COVID-19 Íslandi í samvinnu við sóttvarnalækni.

Mótefni voru mæld hjá 1892 einstaklingum víðs vegar af landinu sem voru á aldrinum 20-90 ára. Helstu niðurstöður voru þær, að um 20% einstaklinga yngri en 50 ára mældust með mótefni gegn SARS-CoV-2 veirunni en voru heldur sjaldgæfari eldri einstaklingum.

Vísbendingar eru því um að um síðustu áramót hafi um 20% Íslendinga sýkst af COVID-19 frá upphafi faraldursins. Ef þetta hlutfall er borið saman við það hlutfall sem greinst hefur með PCR prófi á sama tímabili þá má ætla að rúmlega helmingi fleiri hafi raunverulega sýkst en greinst hafa. Með sömu útreikningum og að því gefnu að um 1.500 manns smitist á hverjum degi þá má ætla að um 80% landsmanni hafi öðlast gott ónæmi gegn COVID-19 síðari hluta mars mánaðar.

Á næstu dögum verða niðurstöður sendar í Heilsuveru þeirra sem tóku þátt í rannsókninni og verður það auglýst sérstaklega þegar það verður gert. Mikilvægt er að hafa í huga að mótefni í blóði segja ekki óyggjandi til um hversu vel varðir einstaklingar eru fyrir endursmiti af völdum COVID-19. Endursmit eru hins vegar fátíð og í dag hafa um 1.300 manns sýkst aftur af COVID-19 af um 70.000 staðfestum smitum (1,9%).

Fyrirhugað er einnig að mæla mótefni gegn S-próteini veirunnar og á þann hátt er hægt að greina þá sem myndað hafa mótefni eftir bólusetningu. Ekki er ljóst hvenær þessum mælingum mun ljúka en það verður auglýst betur þegar að því kemur.

25.01.2022

Staða COVID-19 og breytingar á sóttkví og sýnatökum.

Vegna þeirra takmarkana og aðgerða sem viðhafðar hafa verið undanfarið gegn COVID-19, hefur tekist að halda fjölda daglegra smita nokkuð stöðugum eða um 1.200 smitum á dag. Þær samfélagslegu aðgerðir sem hafa verið í gildi hafa auk þess valdið því, að flest smit eru nú að greinast hjá börnum á skólaaldri enda litlar sem engar hömlur verið á skólastarfi.

Þrátt fyrir mikinn fjölda daglegra smita þá hefur ekki verið samsvarandi fjölgun á alvarlegum veikindum sem þurft hefur innlögn á sjúkrahús. Hins vegar hafa margir þurft að fara í sóttkví og einangrun og er fjöldi þeirra sem þarf að dvelja í sóttkví orðinn verulega hamlandi fyrir ýmsa starfsemi í landinu.  

Af þeim sökum hefur nú verið sett ný reglugerð um sóttkví og smitgát sem tekur gildi á miðnætti í kvöld. Helstu atriði reglugerðarinnar eru eftirfarandi:

• Kröfur og leiðbeiningar um einangrun verður óbreytt.

• Einstaklingar (börn og fullorðnir) sem útsettir verða fyrir COVID-19 innan heimila þurfa að fara í fimm daga sóttkví sem lýkur með neikvæðu PCR prófi á 5. degi. Undanþegnir sóttkví eru þeir einstaklingar sem hafa fengið örvunarskammt bóluefnis (þríbólusettir) og sömuleiðis þeir sem eru tvíbólusettir og hafa fengið staðfest Covid smit með PCR prófi. Þessir einstaklingar þurfa að viðhafa smitgát í fimm daga sem lýkur með PCR prófi á 5. degi. Strikamerki fyrir sýnatökunni munu berast sjálfkrafa.

• Einstaklingar í sóttkví eða smitgát sem dvelja á sama heimili og einstaklingur í einangrun,  losna ekki úr sinni sóttkví eða smitgát fyrr en einum sólarhring eftir að einangrun lýkur.

• Börn á leik- og grunnskólaaldri sem útsett eru fyrir COVID-19 utan heimila þurfa ekki að fara í sóttkví, smitgát eða sýnatöku. Ef börnin fá einkenni sem bent geta til COVID-19 þá þurfa þau að fara í PCR sýnatöku.

• Eldri börn og fullorðnir sem útsettir eru utan heimila þurfa að fara í fimm daga smitgát án þess að þurfa að fara í sýnatöku. Fái þeir hins vegar einkenni sem bent geta til COVID-19 þá þurfa þeir að fara í PCR sýnatöku.

• Með smitgát er átt við að viðkomandi beri grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, úti sem inni. Forðast skuli mannmarga staði og sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga.

Reglugerðin gildir um þá sem nú þegar eru í sóttkví. Strikamerki sem berast skal einungis nota af þeim sem útsettir eru innan heimili. Aðrir sem útsettir eru utan heimila og kunna að fá strikamerki geta sleppt því að mæta í sýnatöku. Vottorð fyrir sóttkví má fá á Mínum síðum á Heilsuveru.

Í dag eru um 13.300 einstaklingar skráðir í sóttkví og er hluti þessa hóps fólk sem er í smitgát vegna sinna bólusetninga. Búast má við að stór hluti hópsins losni nú úr sóttkví en ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu stór hópurinn er.

18.01.2022

Tími örvunarskammts bólusetningar gegn COVID-19 eftir skammt nr. tvö, styttur í fjóra mánuði.

Ákveðið hefur verið að stytta tímann á milli bólusetningarskammts nr. tvö og örvunarskammts úr fimm til sex mánuðum í fjóra.

Þessi nýja tilhögun kemst til framkvæmda í næstu viku (frá og með 24. janúar nk.) og verður auglýst nánar af heilsugæslunni. Stefnt er að því að einstaklingar verði kallaðir inn í bólusetninguna.

Bólusett verður með bóluefni frá Moderna eða Pfizer en takmarkað magn af bóluefni Pfizer er nú til staðar í landinu.  

Sóttvarnalæknir

18.01.2022

Breytingar á töku sýna vegna COVID-19 hjá börnum átta ára og yngri.

Sýnatökur hjá börnum, átta ára og yngri vegna COVID-19 hafa verið umfangsmiklar undanfarnar vikur og mánuði. Börnin hafa þurft að fara í sýnatöku (PCR) vegna gruns um smit, til að losna úr sóttkví og eins þegar þau eru sett í smitgát (tvær sýnatökur). Vegna útbreiddra smita í samfélaginu undanfarið, hafa mjög mörg börn þurft að fara í ofangreindar sýnatökur.

Til þessa hefur þess verið krafist, að öll sýni séu tekin frá nefkoki og hefur það skapað mikinn ótta hjá börnunum og framkvæmdin verið erfið hjá þeim sem taka sýnin.

Þess vegna hefur verið ákveðið að framvegis verða sýni hjá börnum átta ára og yngri tekin frá munnholi í stað nefkoks. Þetta gildir bæði um hraðgreiningapróf og PCR próf.

Sýni tekin frá munnholi eru að öllu jöfnu ekki eins áreiðanlega og sýni tekin frá nefkoki en á þessu stigi faraldursins er áhættan á falskri niðurstöður talin ásættanleg. Áfram er hins vegar mælt með að sýni sé tekið frá nefkoki ef þess er kostur þegar barnið er með einkenni um Covid-19 smit.

Sóttvarnalæknir

11.01.2022

Nýjar reglur um sóttkví þríbólusettra

Þann 7. janúar sl. tók gildi reglugerð nr. 3/2022 um sóttkví þríbólusettra vegna COVID-19 (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/01/07/COVID-19-Breyttar-reglur-um-sottkvi/). Með reglugerðinni er dregið úr takmörkunum á einstaklinga sem sæta sóttkví vegna COVID-19 ef þeir eru þríbólusettir gegn COVID-19 eða hafa fengið COVID-19 sjúkdóminn staðfestan með PCR prófi og að auki tvær bólusetningar.

Mikilvægt er að einstaklingar og fyrirtæki kynni sér vel þessar nýju reglur og setji sér verklag um hvernig vinnu þeirra sem falla undir ákvæði reglugerðarinnar verður háttað. Rétt er að árétta að þessar einstaklingar eru skráðir í sóttkví eins tíðkast hefur verið til þessa um sóttkví almennt og þurfa að fara í PCR sýnatöku á fimmta degi.

Unnið er að fyrirkomulagi þar sem þeir sem undir reglugerðina falla geti sótt formlega staðfestingu á ákvæðum reglugerðarinnar.

Sóttvarnalæknir

08.01.2022

Breyttar reglur um sóttkví þeirra sem fengið hafa örvunarskammt bóluefnis gegn COVID-19.

Í gær (7. janúar 2022) tóku gildi breyttar reglur um sóttkví þeirra sem eru útsettir fyrir COVID-19 og hafa fengið örvunarskammt bóluefnis (þríbólusettir) gegn COVID-19 (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/01/07/COVID-19-Breyttar-reglur-um-sottkvi/).

Reglurnar fela í sér, að nú eru þeir sem fengið hafa örvunarskammt bóluefnis gegn COVID-19 undanþegnir hefðbundinni sóttkví en þurfa að undirgangast ákveðnar reglur í 5 daga sem lýkur með PCR prófi. Þessar reglur gera hins vegar viðkomandi kleift að stunda vinnu og skóla í þessa 5 daga frá útsetningu sem þær gilda. Ákveðnar sérreglur geta þó nú eins og áður gilt um viðkvæma starfsemi eins og á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.

Faglegar ástæður fyrir þessum nýju reglum eru þær, að nýleg rannsókn í New England Journal of Medicine sem birt var 5. janúar sl. sýnir, að tvíbólusettir eru bæði ólíklegri til að taka smit og smita aðra. Hér var um að ræða smit af völdum alfa og delta afbrigðis kórónaveirunnar en líklegt að það sama gildi um ómícron afbrigðið sérstaklega hjá þríbólusettum. 

Þessar nýju reglur gilda einnig fyrir þá sem eru í sóttkví við gildistöku (voru búnir að vera í sóttkví fyrir gildistöku).

Þeir sem eru útsettir fyrir smitðuðum einstaklingi munu nú fá skilaboð frá rakningateymi almannavarna um þessar nýju reglur og bera þannig sjálfir ábyrgð á framkvæmd reglanna séu þeir þríbólusettir.

Allir sem fara í sóttkví geta stytt hana með neikvæðri niðurstöðu PCR prófi á fimmta degi.

Sóttvarnalæknir

08.01.2022

Er meiri áhætta fyrir tvíbólusetta að fá COVID-19 en óbólusetta?

Undanfarið hafa komið fram þær raddir að samkvæmt línuriti sem birt er á covid.is um nýgengi sjúkdómsins hjá börnum og fullorðnum eftir bólusetningastöðu, sé hægt að álykta sem svo að áhættan á COVID-19 sé meiri hjá fullorðnum sem eru tvíbólusettir en þeim sem eru óbólusettir (sjá línurit).

Ekki er óeðlilegt komist sé að þessari niðurstöðu þegar einungis er rýnt tölurnar og sér í línuritinu en ekki samsetningu hópanna sem tölurnar byggja á.

Rétt er að benda á að hópur óbólusettra fullorðinna sem stuðst er við í línuritinu, er mjög fjölbreytilegur hópur sem erfitt er að skilgreina nákvæmlega. Í þessum hópi er all mikill fjöldi sem skráður er hér með búsetu en býr hér raunverulega ekki. Á þetta hefur marg oft verið bent sérstaklega þegar rætt hefur verið um hvernig ná eigi til óbólusettra hér álandi.

Þetta þýðir því, að hópur óbólusettra er að líkindum verulega minni en notast er við í útreikninum línuritsins. Þannig er töluvert vanmat til staðar í tölum um nýgengi hjá óbólusettum fullorðnum og nýgengið því í raun hærra en birt er. Á sama hátt er óvissa í skráningu bólusetningu annarra hópa eins og þeirra sem bólusettir hafa verið erlendis en búa hér og þeirra sem bólusettir hafa verið hér á landi en búa erlendis. Öll þessi óvissa gerir það að verkum að línuritið þarf að túlka af varúð.

Megin skilaboðin í ofangreindu línuriti eru hins vegar þau að bólusetning, sérsaklega einn eða tveir skammtar eru ekki að vernda vel gegnsmiti af völdum ómícron afbrigðisins. Þetta er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna eins og marg oft hefur verið bent á. Það sem að línuritið segir hins vegar ekki, er hver vernd bólusetningar er gegn alvarlegum veikindum af völdum ómícron afbrigðisins. Erlendar rannsóknir og reynsla okkar á Íslandi sýnir einmitt að verndin er fyrst og fremst gegn alvarlegum veikindum af völdum afbrigðisins og sérstaklega eftir örvunarskammtinn. Verndin gegn smiti er hins vegar góð þegar um er að ræða delta afbrigðið.

Þessi vitneskja á að vera öllum hvatning til að mæta í bólusetningu og þiggja örvunarskammt.  

Sóttvarnalæknir

06.01.2022

Upplýsingar um raðgreiningu á SARS-CoV-2 veiru

Útbreiðsla ómíkrón afbrigðis kórónuveirunnar SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 hefur verið hröð hérlendis undanfarið eins og í löndum kringum okkur. Nú er svo komið að 90% COVID-19 sýkinga innanlands eru af ómíkron afbrigði en 10% vegna delta afbrigðis sem áður var alls ráðandi. Fyrirspurnum frá einstaklingum um hvaða veiruafbrigði þeir hafi greinst með hefur fjölgað mikið. Íslensk erfðagreining annast allar raðgreiningar vegna COVID-19 hérlendis f.h. sýkla- og veirufræðideildar Landspítala og sóttvarnalæknis. Öll jákvæð sýni eru raðgreind en hins vegar tekur allt upp í 1-2 vikur að fá niðurstöður. Stefnt er að því að þessar upplýsingar komi inn í Heilsuveru hvers og eins á næstu dögum. Einstaklingar eru beðnir að sýna biðlund og nálgast þessar upplýsingar þar.

Fyrirspurnum varðandi hvaða afbrigði einstaklingar hafa greinst með verður ekki svarað að öðru leyti hjá embætti landlæknis eða annars staðar.

05.01.2022

Um bólusetningar barna 5 - 11 ára gegn COVID-19

Af hverju er mælt með bólusetningu 5-11 ára barna gegn COVID-19 á Íslandi?

Bólusetning 5-11 ára barna með tveimur skömmtum bóluefnisins er um 90% virk til að koma í veg fyrir staðfest COVID-19 smit af völdum delta afbrigðis kórónaveirunnar. Bólusetningin er því álíka virk gegn smiti af völdum delta afbrigðisins og þrír skammtar hjá fullorðnum.
Delta afbrigði er enn mikilvæg orsök COVID-19 hér á landi, sérstaklega hjá þessum aldurshópi.
Bólusetning gegn ómícron afbrigðinu, sérstaklega eftir örvunarskammtinn, er einnig virk til að koma í veg fyrir smit og sérstaklega til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.
Ekki liggja fyrir endanlegar niðurstöður um virkni bólusetningar hjá börnum gegn ómícron afbrigðinu en allar vísbendingar eru um að virknin sé betri en hjá fullorðnum.
Smit meðal barna geta valdið alvarlegum veikindum þótt það sé sjaldgæft. Bólusetning hjá unglingum dregur verulega úr hættu á alvarlegum veikindum, eins og hjá fullorðnum. Ekkert barn á aldrinum 5-11 ára hefur enn sem komið er verið lagt inn á sjúkrahús hér á landi vegna COVID-19 en í Bandaríkjunum og Evrópu hafa um 0,6% barna með einkenni vegna staðfests smits af völdum delta afbrigðisins þurft á innlögn að halda og 10% þeirra þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild.
Alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu eru margfalt sjaldgæfari hjá 5-11 ára en alvarlegir fylgikvillar eftir COVID-19 þegar um er að ræða smits af völdum delta afbrigðisins.
Enn sem komið er er ekki vitað um alvarleika smita af völdum ómícron afbrigðisins hjá börnum á þessum aldri en þar sem delta afbrigðið er enn í mikilli útbreiðslu þá getum við búist við að sjá alvarlegar afleiðingar af þess völdum. Bólusetning hjá fullorðnum verndar hins vegar gegn alvarlegum veikindum af völdum afbrigðisins og miklar líkur að verndin hjá börnum sé ekki síðri.
Einangrun og sóttkví hefur mikil og truflandi áhrif á skólagöngu og félagslíf barna 5-11 ára sem koma má í veg fyrir að verulegu leyti með bólusetningu.
Með bólusetningu barna má koma í veg fyrir útbreiðslu smita innan skóla, inn í fjölskyldur og til viðkvæmra hópa.

Hvenær verður hægt að fá bólusetningu fyrir 5-11 ára börn?

Bóluefni Pfizer/BioNTech sem sérstaklega er hannað fyrir börn er komið til landsins. Bólusetningar eru hafnar víða, sérstaklega hjá börnum sem eru í aukinni áhættu á að fá alvarlegar afleiðingar af  COVID-19 en framboð bóluefnis verður ekki fullnægjandi til að bjóða bólusetningu í stórum stíl fyrr en í viku 2  á þessu ári. Í Danmörku hafa um 50% barna á aldrinum 5-11 ára nú þegar fengið eina sprautu bóluefnis.

Forsjáraðilum barna á Íslandi verður boðin bólusetning fyrir 5-11 ára börn sín og þurfa þeir að taka afstöðu til bólusetningarinnar (þiggja, bíða eða hafna). Ef ekki er tekin afstaða verður ekki til strikamerki og ekki hægt að bólusetja barnið þótt það mæti á bólusetningarstað. Eingöngu verða send skilaboð á sannreyndar tengiliðaupplýsingar. Ef þær upplýsingar eru ekki í kerfum sem sóttvarnalæknir hefur heimild til að nýta, fá forsjáraðilar ekki boðið og þurfa þá að sækjast eftir bólusetningu í gegnum heilsugæsluna, eftir 15. janúar 2022.

Forsjáraðilar verða sjálfkrafa samþykktir fylgdarmenn barns í bólusetningu en geta tilgreint aðra fylgdarmenn sem þurfa að vera reiðubúnir að framvísa skilríkjum á bólusetningastað. Forsjáraðilar eru ábyrgir fyrir að láta öðrum sem fylgja barni í bólusetningu strikamerkið í té.

Hvernig verður fyrirkomulag bólusetninga barna gegn COVID-19

Heilsugæslan á hverjum stað skipuleggur framkvæmdina og auglýsir í samráði við sveitarstjórnir, skólayfirvöld og aðra sem málið varðar á hverju svæði:

Höfuðborgarsvæði: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Suðurnes: Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Suðurland: Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Austurland: Heilbrigðisstofnun Austurlands

Norðurland: Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Vestfirðir: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Vesturland: Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Í grófum dráttum er stefnt að því að nýta húsnæði skóla á þéttbýlum svæðum fyrir fjöldabólusetningarátak en þar er mætt þörfum barnanna, starfsfólk heilsugæslunnar þekkir til vegna aðkomu að heilsuvernd skólabarna og góð nýting fæst á bóluefninu. Til þess að tryggja að kennarar, nemendur og fylgdarmenn fylgist ekki með því hverjir mæta eða mæta ekki í bólusetninguna er æskilegt að kennsla falli niður meðan á bólusetningu stendur, a.m.k. í þeim árgöngum sem stendur bólusetning til boða. Nemendum verður raðað í bólusetninguna með slembiaðferð í stað þess að bólusetja árganga í heilu lagi. Frekari útfærsla er varðar niðurfellingu skólahalds verður rædd á vettvangi samráðshóps mennta- og barnamálaráðherra um sóttvarnir í dag og kynnt í framhaldinu.

Einnig er hugsanlegt að bólusetningin muni fara fram í öðru húsnæði en skólum ef heilsugæslunni þykir það hentugra.

Í dreifbýli verður víða bólusett á heilsugæslustöðvum eða í öðru heppilegu húsnæði.

Ef forsjáraðilar telja ákjósanlegra að bólusetning barns fari fram utan skóla geta þeir valið að mæta með barnið til bólusetningar í annað húsnæði samkvæmt ákvörðun heilsugæslunnar. Þetta kann þó að draga úr markmiði bólusetningarátaksins því mikilvægt að er að ná sem flestum í bólusetninguna sem fyrst, til að hindra smit eins fljótt og auðið er.

Efni fyrir börn um bólusetningar gegn COVID-19.

Upplýsingar um bólusetningar barna gegn COVID-19 á covid.is.

28.12.2021

Varðandi einangrun vegna COVID-19

Þann 22. desember tók gildi reglugerð nr. 1483/2021 um lengd einangrunar vegna COVID-19. Þar var kveðið á um að einstaklingi með staðfest smit af völdum SARS-CoV-2 væri gert að dvelja í 10 daga í einangrun frá greiningu. Heimilt væri að stytta eða lengja einangrun með mati lækna á göngudeild COVID.

Mikið er nú hringt í göngudeildina til að fá styttingu einangrunar. Rétt er að ítreka að ekki er hægt að meta styttingu einangrunar fyrr en sjö dagar hafa liðið á einangrunina. Sóttvarnalæknir vill því hvetja þá sem eru einkennalausir og vilja stytta einangrun að hafa ekki samband fyrr en að 7 dagar hafa liðið frá upphafi einangrunar.

Sóttvarnalæknir skoðar nú breytingar á leiðbeiningum um einangrun og sóttkví vegna COVID-19 með hliðsjón af nýjum leiðbeiningum sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna frá 27. desember sl.

Sóttvarnalæknir.

Til baka á forsíðu