Frá sóttvarnalækni

10.03.2022

Staða COVID-19 faraldurs 10. mars 2022.

Útbreiðsla COVID-19 er áfram gríðarlega mikil og hefur áhrif víða í samfélaginu þótt reglur um sóttkví og einangrun hafi verið felldar niður. Greiningum hefur ekki fjölgað frá því sem var meðan reglur um einangrun voru enn í gildi, en innlögnum á sjúkrahús hefur fjölgað verulega. Hlutfall jákvæðra hraðprófa sem nú eru notuð til staðfestingar er svipað og hlutfall jákvæðra PCR sýna áður, en vegna nokkuð lakara næmis hraðprófanna er þetta vísbending um að útbreiðslan sé líklega meiri en áður.

Embætti landlæknis tekur vikulega út stöðuna á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins. Staðan hefur þyngst viku fyrir viku og ekki hefur verið meira álag vegna COVID-19 frá því að faraldurinn hófst fyrir tveimur árum. Það skýrist annars vegar af útbreiddu samfélagslegu smiti með útbreiddum veikindum og fjölda innlagna vegna COVID-19 og hins vegar mikils fjölda starfsmanna sem er frá vinnu vegna veikinda. Álagið er mikið á öllum stofnunum ekki síst á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem og á Heilbrigðisstofnunum Vesturlands, Norðurlands og Austurlands. Þá er staðan mjög erfið á mörgum hjúkrunarheimilum. Fram kemur á reglulegum fundum með fulltrúum þessara stofnana að almennt leggja heilbrigðisstarfsmenn og stjórnendur mikið á sig til að geta sinnt nauðsynlegri heilbrigðisstarfsemi og ber að þakka það.

Staðan er þó viðkvæm og má lítið út af bregða.

Mikilvægt er að við vinnum áfram saman að því að hefta útbreiðsluna eins og við getum þótt samfélagsaðgerðir stjórnvalda hafi verið felldar niður. Jafnvel þótt alvarleg veikindi komi fram hjá lægra hlutfalli en áður, m.a. vegna útbreiddra bólusetninga, þá geta alvarleg veikindi komið fram á öllum aldri og jafnvel hjá hraustum, bólusettum einstaklingum. Þegar útbreiðslan er orðin eins mikil og raun ber vitni verður meiri fjöldi en áður alvarlega veikur og dauðsföllum fjölgar þrátt fyrir að hlutfallið af heildarfjölda smitaðra sé lægra en t.d. í delta bylgju eða áður en bóluefni komu fram.

 

Persónulegar sóttvarnir eru áhöldin sem við höfum til að hafa áhrif á útbreiðsluna:

 

·       Áfram er æskilegt að þeir sem greinast með COVID-19 haldi sig frá öðrum eins og kostur er í a.m.k. 5 daga eða svo lengi sem hiti og/eða veruleg kvefeinkenni eða hálsbólga eru til staðar.

·       Þegar umgengni við aðra er óhjákvæmileg er rétt að smitaðir haldi sig í sem mestri fjarlægð frá öðrum, noti grímu og gæti að handhreinsun og þrifum á umhverfi eftir því sem við á.

·       Allir ættu að gæta að persónubundnum sóttvörnumí fjölmenni.

o  Því ekki nota grímu í matvöruverslunum, almenningssamgöngum, á viðburðum þar sem koma saman stórir hópar þótt skiltin séu horfin víða?

o  Því ekki hreinsa hendur áður en þú tekur í innkaupakerruna og þegar þú ert að ganga út úr versluninni með innkaupin?

o  Því ekki nota allt rýmið í fundarherberginu eða veislusalnum?

·       Allir ættu að gæta sérstaklega vel að persónubundnum sóttvörnum í umgengni við aldraða og aðra viðkæma einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19:

o  Forðast alla umgengni við viðkvæma einstaklinga ef einkenni eru til staðar, nota grímu ef umgengni er óhjákvæmileg, vanda handhreinsun og halda þeirri fjarlægð sem aðstæður leyfa hverju sinni.

o  Takmarka fjölda sem er í nánum samskiptum við viðkvæma hverju sinni, vanda handhreinsun, halda fjarlægð og nota grímu í návígi eftir því sem kostur er jafnvel þótt einkenni séu ekki til staðar, á meðan útbreiðslan er eins og nú er.

Verjum okkur, verjum fjölskyldur okkar og ástvini, við þurfum ekki tilskipun frá stjórnvöldum því.

Við erum öll almannavarnir.

Landlæknir

Sóttvarnalæknir

01.03.2022

Staða Covid-19 á Íslandi.

Mikil útbreiðsla hefur verið á Covid-19 hér á landi undanfarið en þrátt fyrir það var öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum aflétt innanlands og á landamærum þ. 25. febrúar sl. Samhliða þessum breytingum, var sýntaökum vegna Covid-19 breytt og er nú almennt boðið upp á hraðgreiningaprófí stað PCR prófa til greiningar á sjúkdómnum.

Í kjölfarið á öllum þessum breytingum þá fækkaði heildarfjölda tekinna sýna og þar með einnig daglegum fjölda greindra smita. Þetta þýðir hins vegar ekki að smitum í samfélaginu hafi fækkað og á þessari stundu er ekki ljóst hvenær hámarki faraldurins verður náð.

Í dag hafa um 130 þúsund manns greinst hér á landi með Covid-19 frá upphafi faraldursins. Áætlað hefur verið að fjöldi þeirra sem hefur smitast en ekki greinst, sé um tvöfalt meiri og því er hugsanlegt að um 70% landsmanna hafi nú þegar smitast af Covid-19. Því er ekki óvarlegt að ætla að hámarki faraldursins verði náð innan tveggja til þriggja vikna og í framhaldi af því fari nýgreiningum að fækka.

Álag á heilbrigðiskerfið og ýmsar stofnanir eins og hjúkrunarheimili hefur verið mikið undanfarið vegna útbreiddra veikinda. Á Landspítala leggjast nú inn um 10 einstaklingar daglega með eða vegna Covid-19 en heldur færri útskrifast. Í dag liggja inn á spítalanum 55 manns með/vegna sjúkdómsins og þar af þrír á gjörgæsludeild, allir á öndunarvél. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri eru nú sjö inniliggjandi með eða vegna Covid-19 og þar af er einn á gjörgæsludeild og þarf sá á aðstoð öndunarvélar að halda. Þannig er Covid-19 ennþá að valda alvarlegum veikindum þó þau séu hlutfallslega fátíðari en í fyrri bylgjum faraldursins.

Útbreidd veikindi meðal starfsfólks heilbrigðisstofnana eru einnig að valda verulegri röskun á starfsemi þeirra og af þeim sökum hefur Landspítali nú verið settur á neyðarstig.

Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir að Covid-19 er á þessum tímapunkti enn stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi þrátt fyrir að opinberum sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu hafi verið aflétt. Því eru allir hvattir til að viðhafa áfram einstaklingsbundnar sóttvarnir sem miða að því að tefja útbreiðslu Covid-19 og þar með koma í veg fyrir óviðráðanlegt álag á heilbrigðiskerfi okkar. Andlitsgrímur gegna enn mikilvægu hlutverki í einstaklingsbundnum sóttvörnum en notkun þeirra er nú valkvæð.

Sóttvarnalæknir

23.02.2022

Breytingar á rannsóknum til greiningar á COVID-19

Eins og áður hefur komið fram í fréttum, þá var hámarks PCR-greiningargetu vegna COVID-19 náð fyrir nokkru síðan. Þetta hefur leitt til þess að bið eftir niðurstöðu úr PCR-greiningum er orðin allt að 2-3 sólarhringar sem er óásættanlegt.

Til að bregðast við þessu þá hefur verið ákveðið að nú verður ekki lengur í boði fyrir almenning með einkenni sem benda til smits af völdum COVID-19 að panta í PCR sýnatöku heldur verða hraðgreiningapróf einungis í boði.

Fólk getur pantað tíma í hraðgreiningapróf hjá heilsugæslunni í Heilsuveru. Einnig verður hægt að panta próf hjá einkafyrirtækjum sem bjóða upp á hraðgreiningapróf. Prófið er einstaklingum að kostnaðarlausu.

Jákvætt hraðgreiningapróf mun því nægja til greiningar á COVID-19 og ekki verður þörf á staðfestingu ágreiningunni með PCR-prófi.

Þeir sem greinast jákvæðir á sjálfprófum/heimaprófum geta fengið greininguna staðfesta með hraðgreiningaprófi hjá heilsugæslunni eða einkafyrirtækjum en greining hjá þessum aðilum er forsenda fyrir því að hún verði skráð í sjúkraskrá viðkomandi og forsenda fyrir opinberum vottorðum um smit af völdum COVID-19.

Þeim sem nú greinast með COVID-19 á hraðgreiningaprófi er ekki skylt að dvelja í einangrun en engu að síður eru tilmæli sóttvarnayfirvalda þau, að fólk dvelji í einangrun í 5 daga. Ef fólk er einkennalítið eða einkennalaust þá getur það mætt til vinnu en fari þá eftir leiðbeiningumum um smitgát í 5 daga. Samkvæmt núgildandi reglugerð um einangrun þá er þeim sem greinast með PCR-prófi hins vegar skylt að dvelja í einangrun í a.m.k. 5 daga.

Notkun á PCR-prófum verður framvegis bundin við ábendingar lækna og þá sem eru með alvarleg einkenni eða alvarlega undirliggjandi sjúkdóma skv. mati læknis. Einnig verður PCR-próf áfram í boði fyrir þá sem þurfa á neikvæðum niðurstöðum slíkra prófa að halda vegna ferðalaga erlendis en þá gegn gjaldi.

 

Sóttvarnalæknir

 

 

10.02.2022

Takmörkuð rannsóknargeta á PCR prófum vegna COVID-19

Vegna mikillar aukningar á PCR prófum undanfarna daga verður fólk að gera ráð fyrir allt að þremur sólarhringum þangað til niðurstaða berst. Þeir sem eru með einkenni sjúkdóms eru beðnir að halda sig til hlés en einangrun verður talin frá sýnatökudegi þó niðurstaða berist síðar.

Vegna þessa mikla álags þarf að takmarka fjölda PCR prófa hvern dag þar sem rannsóknarstofan annar ekki þeim fjölda sýna sem nú er að berast. Á Suðurlandsbraut 34 verður í boði að fara í hraðpróf þegar hámarks PCR sýnafjölda fyrir daginn er náð. Ef hraðpróf reynist jákvætt er áfram skylda að staðfesta það með PCR en hins vegar má telja daga í einangrun frá jákvæðu hraðprófi. (Uppfærsla: En hefur ekki komið til þess að jákvætt hraðpróf gildi sem fyrsti dagur í einangrun)


03.02.2022

Mótefnamælingar Íslenskrar erfðagreiningar fyrir COVID-19 í samstarfi við sóttvarnalækni.

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður úr rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á útbreiðslu COVID-19 Íslandi í samvinnu við sóttvarnalækni.

Mótefni voru mæld hjá 1892 einstaklingum víðs vegar af landinu sem voru á aldrinum 20-90 ára. Helstu niðurstöður voru þær, að um 20% einstaklinga yngri en 50 ára mældust með mótefni gegn SARS-CoV-2 veirunni en voru heldur sjaldgæfari eldri einstaklingum.

Vísbendingar eru því um að um síðustu áramót hafi um 20% Íslendinga sýkst af COVID-19 frá upphafi faraldursins. Ef þetta hlutfall er borið saman við það hlutfall sem greinst hefur með PCR prófi á sama tímabili þá má ætla að rúmlega helmingi fleiri hafi raunverulega sýkst en greinst hafa. Með sömu útreikningum og að því gefnu að um 1.500 manns smitist á hverjum degi þá má ætla að um 80% landsmanni hafi öðlast gott ónæmi gegn COVID-19 síðari hluta mars mánaðar.

Á næstu dögum verða niðurstöður sendar í Heilsuveru þeirra sem tóku þátt í rannsókninni og verður það auglýst sérstaklega þegar það verður gert. Mikilvægt er að hafa í huga að mótefni í blóði segja ekki óyggjandi til um hversu vel varðir einstaklingar eru fyrir endursmiti af völdum COVID-19. Endursmit eru hins vegar fátíð og í dag hafa um 1.300 manns sýkst aftur af COVID-19 af um 70.000 staðfestum smitum (1,9%).

Fyrirhugað er einnig að mæla mótefni gegn S-próteini veirunnar og á þann hátt er hægt að greina þá sem myndað hafa mótefni eftir bólusetningu. Ekki er ljóst hvenær þessum mælingum mun ljúka en það verður auglýst betur þegar að því kemur.

25.01.2022

Staða COVID-19 og breytingar á sóttkví og sýnatökum.

Vegna þeirra takmarkana og aðgerða sem viðhafðar hafa verið undanfarið gegn COVID-19, hefur tekist að halda fjölda daglegra smita nokkuð stöðugum eða um 1.200 smitum á dag. Þær samfélagslegu aðgerðir sem hafa verið í gildi hafa auk þess valdið því, að flest smit eru nú að greinast hjá börnum á skólaaldri enda litlar sem engar hömlur verið á skólastarfi.

Þrátt fyrir mikinn fjölda daglegra smita þá hefur ekki verið samsvarandi fjölgun á alvarlegum veikindum sem þurft hefur innlögn á sjúkrahús. Hins vegar hafa margir þurft að fara í sóttkví og einangrun og er fjöldi þeirra sem þarf að dvelja í sóttkví orðinn verulega hamlandi fyrir ýmsa starfsemi í landinu.  

Af þeim sökum hefur nú verið sett ný reglugerð um sóttkví og smitgát sem tekur gildi á miðnætti í kvöld. Helstu atriði reglugerðarinnar eru eftirfarandi:

• Kröfur og leiðbeiningar um einangrun verður óbreytt.

• Einstaklingar (börn og fullorðnir) sem útsettir verða fyrir COVID-19 innan heimila þurfa að fara í fimm daga sóttkví sem lýkur með neikvæðu PCR prófi á 5. degi. Undanþegnir sóttkví eru þeir einstaklingar sem hafa fengið örvunarskammt bóluefnis (þríbólusettir) og sömuleiðis þeir sem eru tvíbólusettir og hafa fengið staðfest Covid smit með PCR prófi. Þessir einstaklingar þurfa að viðhafa smitgát í fimm daga sem lýkur með PCR prófi á 5. degi. Strikamerki fyrir sýnatökunni munu berast sjálfkrafa.

• Einstaklingar í sóttkví eða smitgát sem dvelja á sama heimili og einstaklingur í einangrun,  losna ekki úr sinni sóttkví eða smitgát fyrr en einum sólarhring eftir að einangrun lýkur.

• Börn á leik- og grunnskólaaldri sem útsett eru fyrir COVID-19 utan heimila þurfa ekki að fara í sóttkví, smitgát eða sýnatöku. Ef börnin fá einkenni sem bent geta til COVID-19 þá þurfa þau að fara í PCR sýnatöku.

• Eldri börn og fullorðnir sem útsettir eru utan heimila þurfa að fara í fimm daga smitgát án þess að þurfa að fara í sýnatöku. Fái þeir hins vegar einkenni sem bent geta til COVID-19 þá þurfa þeir að fara í PCR sýnatöku.

• Með smitgát er átt við að viðkomandi beri grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, úti sem inni. Forðast skuli mannmarga staði og sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga.

Reglugerðin gildir um þá sem nú þegar eru í sóttkví. Strikamerki sem berast skal einungis nota af þeim sem útsettir eru innan heimili. Aðrir sem útsettir eru utan heimila og kunna að fá strikamerki geta sleppt því að mæta í sýnatöku. Vottorð fyrir sóttkví má fá á Mínum síðum á Heilsuveru.

Í dag eru um 13.300 einstaklingar skráðir í sóttkví og er hluti þessa hóps fólk sem er í smitgát vegna sinna bólusetninga. Búast má við að stór hluti hópsins losni nú úr sóttkví en ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu stór hópurinn er.

18.01.2022

Tími örvunarskammts bólusetningar gegn COVID-19 eftir skammt nr. tvö, styttur í fjóra mánuði.

Ákveðið hefur verið að stytta tímann á milli bólusetningarskammts nr. tvö og örvunarskammts úr fimm til sex mánuðum í fjóra.

Þessi nýja tilhögun kemst til framkvæmda í næstu viku (frá og með 24. janúar nk.) og verður auglýst nánar af heilsugæslunni. Stefnt er að því að einstaklingar verði kallaðir inn í bólusetninguna.

Bólusett verður með bóluefni frá Moderna eða Pfizer en takmarkað magn af bóluefni Pfizer er nú til staðar í landinu.  

Sóttvarnalæknir

18.01.2022

Breytingar á töku sýna vegna COVID-19 hjá börnum átta ára og yngri.

Sýnatökur hjá börnum, átta ára og yngri vegna COVID-19 hafa verið umfangsmiklar undanfarnar vikur og mánuði. Börnin hafa þurft að fara í sýnatöku (PCR) vegna gruns um smit, til að losna úr sóttkví og eins þegar þau eru sett í smitgát (tvær sýnatökur). Vegna útbreiddra smita í samfélaginu undanfarið, hafa mjög mörg börn þurft að fara í ofangreindar sýnatökur.

Til þessa hefur þess verið krafist, að öll sýni séu tekin frá nefkoki og hefur það skapað mikinn ótta hjá börnunum og framkvæmdin verið erfið hjá þeim sem taka sýnin.

Þess vegna hefur verið ákveðið að framvegis verða sýni hjá börnum átta ára og yngri tekin frá munnholi í stað nefkoks. Þetta gildir bæði um hraðgreiningapróf og PCR próf.

Sýni tekin frá munnholi eru að öllu jöfnu ekki eins áreiðanlega og sýni tekin frá nefkoki en á þessu stigi faraldursins er áhættan á falskri niðurstöður talin ásættanleg. Áfram er hins vegar mælt með að sýni sé tekið frá nefkoki ef þess er kostur þegar barnið er með einkenni um Covid-19 smit.

Sóttvarnalæknir

11.01.2022

Nýjar reglur um sóttkví þríbólusettra

Þann 7. janúar sl. tók gildi reglugerð nr. 3/2022 um sóttkví þríbólusettra vegna COVID-19 (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/01/07/COVID-19-Breyttar-reglur-um-sottkvi/). Með reglugerðinni er dregið úr takmörkunum á einstaklinga sem sæta sóttkví vegna COVID-19 ef þeir eru þríbólusettir gegn COVID-19 eða hafa fengið COVID-19 sjúkdóminn staðfestan með PCR prófi og að auki tvær bólusetningar.

Mikilvægt er að einstaklingar og fyrirtæki kynni sér vel þessar nýju reglur og setji sér verklag um hvernig vinnu þeirra sem falla undir ákvæði reglugerðarinnar verður háttað. Rétt er að árétta að þessar einstaklingar eru skráðir í sóttkví eins tíðkast hefur verið til þessa um sóttkví almennt og þurfa að fara í PCR sýnatöku á fimmta degi.

Unnið er að fyrirkomulagi þar sem þeir sem undir reglugerðina falla geti sótt formlega staðfestingu á ákvæðum reglugerðarinnar.

Sóttvarnalæknir

08.01.2022

Breyttar reglur um sóttkví þeirra sem fengið hafa örvunarskammt bóluefnis gegn COVID-19.

Í gær (7. janúar 2022) tóku gildi breyttar reglur um sóttkví þeirra sem eru útsettir fyrir COVID-19 og hafa fengið örvunarskammt bóluefnis (þríbólusettir) gegn COVID-19 (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/01/07/COVID-19-Breyttar-reglur-um-sottkvi/).

Reglurnar fela í sér, að nú eru þeir sem fengið hafa örvunarskammt bóluefnis gegn COVID-19 undanþegnir hefðbundinni sóttkví en þurfa að undirgangast ákveðnar reglur í 5 daga sem lýkur með PCR prófi. Þessar reglur gera hins vegar viðkomandi kleift að stunda vinnu og skóla í þessa 5 daga frá útsetningu sem þær gilda. Ákveðnar sérreglur geta þó nú eins og áður gilt um viðkvæma starfsemi eins og á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.

Faglegar ástæður fyrir þessum nýju reglum eru þær, að nýleg rannsókn í New England Journal of Medicine sem birt var 5. janúar sl. sýnir, að tvíbólusettir eru bæði ólíklegri til að taka smit og smita aðra. Hér var um að ræða smit af völdum alfa og delta afbrigðis kórónaveirunnar en líklegt að það sama gildi um ómícron afbrigðið sérstaklega hjá þríbólusettum. 

Þessar nýju reglur gilda einnig fyrir þá sem eru í sóttkví við gildistöku (voru búnir að vera í sóttkví fyrir gildistöku).

Þeir sem eru útsettir fyrir smitðuðum einstaklingi munu nú fá skilaboð frá rakningateymi almannavarna um þessar nýju reglur og bera þannig sjálfir ábyrgð á framkvæmd reglanna séu þeir þríbólusettir.

Allir sem fara í sóttkví geta stytt hana með neikvæðri niðurstöðu PCR prófi á fimmta degi.

Sóttvarnalæknir

Til baka á forsíðu