Frá sóttvarnalækni

1.11.2022

Covid-19 andlát á Íslandi

Andlát vegna Covid-19 hafa verið í umræðunni undanfarið. Fyrst langar mig að minna á að nálgast þá umræðu af virðingu og samkennd. Alls hafa 219 manns látist hérlendis frá 2020, beint af völdum Covid-19 eða Covid-19 var meðvirkandi þáttur andláts. Andlát er flokkað sem Covid-19 andlát ef viðkomandi lést á innan við einum mánuði eftir smit og læknir skráir Covid-19 sem orsök eða sem meðvirkandi þátt á dánarvottorð.

Árin 2020 og 2021 voru töluverðar en þó mismiklar takmarkanir í gangi í samfélaginu. Bólusetning hófst í desember 2020 en gert var átak í örvunarbólusetningum veturinn 2021. Ómíkron afbrigði veirunnar, sem hefur mikla smithæfni, tók yfir af delta afbrigði í desember 2021 til janúar 2022. Jafnframt var samkomutakmörkunum aflétt í lok febrúar 2022.

Af þessum 219 andlátum voru 180 á þessu ári. Þar af voru 129 andlát á tímabilinu febrúar-apríl og 25 létust í júlí (mynd 1). Líkur eru á að fjöldi andláta árið 2022 sé afleiðing af mikilli útbreiðslu á Covid-19 á þessu tímabili enda gengu þá yfir tvær stærstu bylgjur Covid-19 frá upphafi (mynd 2). Þess má geta að 5 Covid-19 andlát voru skráð í ágúst og september. Í alþjóðlegum samanburði er fjöldi andláta vegna Covid-19 á Íslandi árin 2020-2022 lágur miðað við mannfjölda.

Sjá covid.is

Umframdauðsföll

Eins og áður hefur komið fram er talið að áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta af völdum Covid-19 faraldurs sé að skoða heildarfjölda andláta af öllum orsökum og meta umframdauðsföll miðað við meðaltal fyrri ára.

Eins og sjá má á mynd 3 var heildarfjöldi andláta á Íslandi af öllum orsökum óvenju mikill í mars 2022 (rauð lína). Andlát í júlí 2022 voru einnig mörg miðað við meðaltali fyrri ára en á þessu tímabili gengu yfir tvær stærstu bylgjur Covid-19 (mynd 2).

Sjá einnig:

Sóttvarnalæknir

25.10.2022

Staða COVID-19 faraldurs

Undanfarinn mánuð hafa mörg ESB/EES ríki tilkynnt til sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) aukningu á COVID-19 sjúkrahúsinnlögnum, einnig gjörgæslu, auk aukningu á tíðni smita. Dánartíðni er lág en um þriðjungur landa tilkynnti þó um aukningu á dauðsföllum hjá íbúum hjúkrunarheimila. Talið er að í Evrópu muni minni fylgni við sóttvarnir, aukin innivera í haust/vetur, kaldara veður og samkomur og viðburðir sem fylgja þessum árstíma stuðla að frekari aukningu tilfella. Þá hefur þátttaka í seinni örvunarbólusetningu verið frekar dræm í mörgum ESB/EES löndum.  

Misjafnt er í löndum hve mörg sýni eru tekin opinberlega og því erfitt að segja um nákvæman fjölda smita. Hins vegar eru sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll skráð þó það geti verið munur milli landa hvernig þeirri skráningu er háttað.

Hérlendis hefur fjöldi greindra tilfella haldist nokkuð stöðugur síðan í sumar og nýgengi farið hægt lækkandi og er nú rúmlega 100 per 100 þúsund íbúa (var rúmlega 10 þús. per 100 þús. íbúa þegar hæst var um mánaðarmót febrúar/mars sl.). Um 55% íbúa hafa greinst með COVID-19 en fjöldinn er líklega meiri skv. mótefnamælingum. Þá hafa margir sýkst oftar en einu sinni. Hlutfall jákvæðra sýna hefur verið um 30% sem er hátt og bendir til að smit sé útbreitt í samfélaginu og ekki allir fari í opinber próf. Um 96% afbrigða hér er BA.5, um 3% BA.2 og 1% BA.4. Fá tilfelli BQ.1, BQ1.1, BQ1.2 og XBB hafa greinst (sjá um afbrigði hér fyrir neðan). Bólusetningastaða er með ágætum en allir 60 ára og elddri auk fólks í áhættuhópum eru hvattir til að fara í örvunarbólusetningu fyrir veturinn. Nú eru 7 inniliggjandi á Landspítala með COVID-19 en enginn á gjörgæslu og enginn inniliggjandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Skv. dánarvottorðum hafa 213 látist vegna COVID-19 til og með júlí sl.

Neyðarnefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) kom saman þann 13. okt sl. og voru niðurstöður hennar að COVID-19 teljist enn heilsuógn á heimsvísu. Þrátt fyrir aukið ónæmi vegna bólusetninga og/eða fyrri smita þannig að alvarlegum veikindum og dauðsföllum hafi fækkað þá stafar enn ógn af faraldrinum. Dauðsföll eru tíðari en gerist með aðrar öndunarfærasýkingar. Óvissa ríkir vegna breytileika veirunnar og hugsanlegra afleiðinga nýrra afbrigða. Sjúkdómurinn og afleiðingar hans til lengri og skemmri tíma valda áfram miklu álagi á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk. Víða hefur sýnatökum og rannsóknum fækkað en mikilvægt er að halda áfram skimunum og raðgreiningu til að geta metið stöðuna og gripið inn í ef þarf. Ná þarf markmiðum í örvunarbólusetningum áhættuhópa til að vernda þá sem eru í mestri hættu. Þá þarf að tryggja aðgang að meðferð þ.m.t. lyfjum.

Mynd. Dauðsföll vegna COVID-19 í Evrópu per viku 2020-2022. WHO

Ómíkron (B.1.1.529) er enn ráðandi afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar í heiminum en ómíkron spratt frá upprunalegu veirunni. Í Evrópu eru ómíkronafbrigðin BA.4/BA.5 algengust (98%). Önnur ómíkronafbrigði sem fylgst er með eru BA.2 og BA.2.75. Fjöldi annarra afbrigða ómíkron er í dreifingu en BQ.1 hefur verið í aukningu í Evrópu sem og BQ1.1. Þau afbrigði eru frá BA.5 en hins vegar eru engar vísbendingar komnar fram um að þau smitist frekar eða valdi meiri veikindum. Þó er talið líklegt að BQ.1 geti frekar vikið sér undan ónæmissvari líkamans þannig að smitum gæti fjölgað ef það nær yfirhöndinni. Sama afbrigði hefur einnig verið í aukningu í Bandaríkjunum en í Asíu hefur einnig verið aukning á XBB afbrigði sprottnu frá BA.2.

Inflúensan er einnig komin til landsins en nokkur tilfelli hafa verið staðfest í rannsókn síðustu tvær vikur. Tíðni öndunarfærasýkinga um þessar mundir hérlendis er svipuð og var árið 2021. Veturinn 2020-2021 kom engin inflúensa en síðasta vetur kom hún seinna en venjulega og tilfelli voru færri. Í ár er búist við inflúensu og öðrum öndunarfærasýkingum, þ.m.t. RS-veiru, eins og áður fyrr enda engar samkomutakmarkanir við lýði nú.

Sóttvarnalæknir mælir með örvunarbólusetningu gegn COVID-19 og inflúensubólusetningu fyrir áhættuhópa. COVID-19 örvunarbólusetningar eru gerðar með tvígildu bóluefni gegn upprunalega ómikron afbrigði sem veitir betri vörn. Aðrir fullorðnir sem hafa ástæðu til geta einnig fengið bólusetningu þegar bólusetningu áhættuhópa lýkur. Heilsugæslan er hvött til að bjóða þeim bólusetningu sem koma til þeirra. Og þó margir séu orðnir þreyttir á ástandinu er áfram mikilvægt að sinna sóttvörnum til að vernda sjálfan sig og aðra. Nota grímu þar sem það á við innandyra í margmenni, lofta vel út, halda fjarlægð í margmenni og sinna handhreinsun og þrifum. Einnig er mikilvægt að mæta ekki í vinnu eða skóla með einkenni öndunarfærasýkingar heldur halda sig til hlés þar til bata er náð. Persónulegar sóttvarnir veita vörn gegn pestum.

Sóttvarnalæknir

27.09.22

Bólusetning vegna COVID-19 og inflúensu

Nú er að hefjast átak í örvunarbólusetningu vegna COVID-19. Bólusetningar eru framkvæmdar af heilsugæslunni um land allt. Íbúum 60 ára og eldri verður boðið í örvunarbólusetningu (fjórða skammt). Eru allir sem geta hvattir til að mæta. Samhliða örvunarbólusetningu við COVID-19 verður boðið upp á bólusetningu við árlegri inflúensu. Þau sem vilja geta fengið báðar sprautur samtímis. Á höfuðborgarsvæðinu verður bólusetning í Laugardalshöll frá 27. september en á landsbyggðinni á vegum viðkomandi heilbrigðisstofnana. Vísast á heilsugæslustöðvar fyrir frekari upplýsingar.

Greindum tilfellum COVID-19 hefur fækkað undanfarið en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa spáð aukningu á tilfellum COVID-19 Í haust og vetur með eða án aukningar á inflúensu. Bólusetning hefur verndað fólk fyrir alvarlegum afleiðingum COVID-19 í faraldrinum en hár aldur er enn sterkasti áhættuþátturinn fyrir alvarlegum afleiðingum COVID-19.

Mælt er með örvunarskammti fjórum mánuðum eftir að einstaklingur fékk síðasta (þriðja) skammt af bóluefni. Einnig er mælt með að bíða í þrjá mánuði eftir COVID-19 smit.

Notast verður við uppfærðar útgáfur af bóluefnum gegn COVID-19 fyrir örvunarbólusetningu. Þeir sem hafa ekki lokið grunnbólusetningu geta eins og áður fengið bólusetningu á sinni heilsugæslustöð en í grunnbólusetningu eru notuð upprunalegu bóluefnin.

Þegar bólusetningarátaki 60 ára og eldri er lokið verður yngri en 60 ára sem vilja örvunarskammt boðið upp á bólusetningu á heilsugæslustöðvum. Þar verður einnig boðið upp á bólusetningu við inflúensu á sama tíma fyrir þau sem það vilja.

Áhættuhópar sem eru í forgangi fyrir bæði inflúensu og COVID-19 bólusetningar eru:

Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
Öll börn og fullorðin sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
Barnshafandi konur.
Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar um notkun COVID-19 bóluefna haustið 2022. Þar eru m.a. nánari upplýsingar um bóluefnin sem eru notuð, skammta og aukaverkanir. Upplýsingar um aukaverkanir vegna Covid-19 bólusetningar má einnig finna á covid.is.

COVID-19 bólusetningar eru með öllu gjaldfrjálsar fyrir einstaklinga. Heilbrigðisstofnunum er hins vegar heimilt að rukka komugjald vegna inflúensubólusetningar.

Sóttvarnalæknir

23.06.2022

Fjórði (örvunar) skammtur COVID-19 bóluefnis

Sóttvarnalæknir hvetur fólk til að þiggja fjórða skammtinn af COVID-19 bóluefni sérstaklega þeim sem eru 80 ára og eldri, heimilisfólki á hjúkrunarheimilum og yngri einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál. Aðrir sem þess óska geta einnig fengið fjórða skammtinn.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins býður upp á opið hús í bólusetningar 21. júní til 1. júlí, milli kl. 13:00 og 15:00, virka daga, í Mjóddinni að Álfabakka 14a á 2. hæð.

Bólusett er í almannarými og það er grímuskylda. Notað er Pfizer bóluefnið en einnig verður hægt að fá Janssen ef óskað er.

Allar heilsugæslustöðvar bjóða upp á ákveðna bólusetningadaga og þar er hægt að panta tíma í síma 513-1700 eða í gegnum Mínar síður á heilsuvera.is.

Til að geta fengið fjórða skammt bóluefnisins þurfa að lágmarki fjórir mánuðir að hafa liðið frá þriðja skammti bóluefnisins.

Allir, 16 ára og eldri, sem fengu tvær grunnbólusetningar fyrir a.m.k. 4 mánuðum eru velkomnir í þriðja skammtinn. Allir sem eru óbólusettir eða vanbólusettir (hafa fengið einn skammt) eru sérstaklega hvattir til að mæta og ljúka bólusetningunni.

Þessir hópar eru hvattir til að bóka tíma í bólusetningu á heilsugæslustöð eða mæta í opið hús í Álfabakka 14a næstu tvær vikurnar.

Sjá nánar hér: Bólusetningar heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæði

Á landsbyggðinni er fólk hvatt til að skoða heimasíðu sinna heilsugæslustöðva eða hafa samband símleiðis til að panta bólusetningu.

Sóttvarnalæknir

16.06.2022

Aukning í alvarlegum veikindum vegna COVID-19

Eins og fram kom í frétt 10. júní þá er útbreiðsla COVID-19 vaxandi hér á landi. Nú greinast opinberlega um og yfir 200 manns á dag en líklega er fjöldinn meiri því margir greinast með heimaprófi og fá ekki greininguna staðfesta með opinberu prófi. Flestir sem greinast hafa ekki fengið COVID-19 áður en endursmit eru undir 10% af daglegum greindum smitum.

Samfara þessari aukinni útbreiðslu þá hefur orðið veruleg aukning á innlögnum sjúklinga með COVID-19. Nú liggja 27 einstaklingar inni á Landspítala með eða vegna COVID-19. Þar af eru tveir á gjörgæsludeild og einn þarf á aðstoð öndunarvélar að halda. Flestir inniliggjandi sjúklinganna eru eldri en 70 ára en alvarleg veikindi sjást aðallega hjá þeim sem hafa fengið þrjár eða færri bólusetningar. Þetta er í samræmi við niðurstöðu erlendra rannsókna um að fjórði bólusetningarskammtur minnkar verulega líkur á alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Almenningur og sérstaklega þeir sem eru 80 ára eða eldri og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, eru hvattur til að gæta að sínum sóttvörnum þ.e. forðast fjölmenni, halda fjarlægð, þvo og spritta hendur og nota andlitsgrímu þegar sóttvörnum verður ekki við komið.

Einnig eru allir þeir sem eru óbólusettir hvattir til að þiggja bólusetningu. Einstaklingar 80 ára og eldri og heimilismenn á hjúkrunarheimilum eru hvattir til að þiggja fjórða skammt bólusetningar. Yngri einstaklingar sem telja sig geta verið viðkvæma fyrir COVID-19 eru einnig hvattir til að fá fjórða skammt bólusetningarinnar. Bólusetning minnkar verulega líkur á alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Sóttvarnalæknir

10.06.2022

Staða COVID-19

COVID-19 veikindi

Tilfellum og dauðsföllum COVID-19 í heiminum hefur fækkað en hins vegar hefur sýnatökum einnig fækkað mikið. Enn er yfirlýstur heimsfaraldur.

Hérlendis hefur um helmingur íbúa greinst opinberlega með COVID-19 þó að líklegt sé að mun fleiri hafi smitast. Ekki hefur sést aukning á endursmitum. Undanfarna daga hefur tilfellum verið að fjölga og greinast nú á milli 150–200 einstaklingar daglega. Þó hefur hlutfall jákvæðra sýna haldist stöðugt síðustu vikur um 7–10% en það segir til hve margir sem fara í próf greinast með sjúkdóminn. Þannig gæti aukning tilfella að hluta skýrst af aukningu tekinna sýna. Flest tilfelli sem greinast eru ómíkron afbrigðið BA.2 en einnig greinist afbrigðið BA.5.

Vart hefur verið við aukningu á komum sjúklinga í áhættuhópum með COVID-19 á göngudeild Landspítala til vökva- og lyfjagjafar og nú eru átta manns inniliggjandi með COVID-19, þar af einn á gjörgæslu.

Fjórða sprautan

Sóttvarnalæknir hvetur alla til að þiggja bólusetningu gegn COVID-19. Allir 16 ára og eldri ættu að vera búnir að fá þrjár sprautur. Allir 80 ára og eldri, allir íbúar hjúkrunarheimila og allir sem hafa undirliggjandi áhættuþætti ættu að þiggja fjórðu sprautu. Einnig geta aðrir sem vilja beðið um fjórðu sprautuna. Fjórðu sprautu má gefa fjórum mánuðum eftir þriðju sprautu en mælt er með að bíða í a.m.k. þrjá mánuði eftir COVID-19 sýkingu með að fara í bólusetningu. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt ávinning af bólusetningu hvað varðar vörn gegn alvarlegum veikindum og dauða. Þá eru aukaverkanir bólusetningar mun minni en aukaverkanir og afleiðingar COVID-19 sjúkdómsins.

Sóttvarnir

Allir eru hvattir til að sinna persónulegum sóttvörnum til varnar COVID-19 og öðrum sýkingum:

  • Sinna handhreinsun
  • Virða nánd við aðra
  • Hósta og hnerra í klút eða olnbogabót
  • Lofta vel út
  • Nota andlitsgrímu við ákveðnar aðstæður
  • Fara í sýnatöku ef með einkenni sjúkdóms

Sóttvarnalæknir

17.05.2022

Niðurstöður úr rannsókn sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar á útbreiðslu COVID-19 á Íslandi

Í byrjun apríl 2022 var gerð rannsókn á höfuðborgarsvæðinu þar sem könnuð var útbreiðsla COVID-19 á meðal einstaklinga 20-80 ára. Rannsóknin var samstarfsverkefni sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar sem miðaði að því að kanna hversu stór hluti fullorðinna einstaklinga hefðu sýkst af COVID-19.

Til að kanna yfirstaðið smit af völdum COVID-19 þá voru mótefni gegn veirunni mæld og einnig var tilvist veirunnar í nefkoki könnuð með PCR prófi. 916 einstaklingar tóku þátt í rannsókninni.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós, að um 70-80% yngra fólks (20-60 ára) höfðu smitast af COVID-19 í byrjun apríl 2022 en heldur færri eldri einstaklinga voru með merki um fyrra smit eða 50% einstaklinga á aldrinum 60-80 ára. Einstaklingsbundnar niðurstöður verða sendar til viðkomandi nú á næstu dögum.

Þessar upplýsingar styrkja þá tilgátu að útbreitt ónæmi gegn COVID-19 hefur nú náðst í samfélaginu og styður einnig þá ákvörðun sóttvarnalæknis að bjóða einstaklingum 80 ára og eldri fjórða skammtinn af bóluefni.

Sóttvarnalæknir

16.05.2022

Andlát á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs

Andlát og dánarvottorð

Yfirferð dánarvottorða hjá embætti landlæknis hefur leitt í ljós að samtals hafa orðið 153 andlát á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs til 1. apríl 2022. Þetta eru andlát þar sem COVID-19 hefur greinst innan 28 daga fyrir andlátið og valdið dauða viðkomandi skv. dánarvottorði.

Dánarvottorð berast að jafnaði ekki til landlæknis fyrr en mörgum vikum eftir andlát og eru því ekki hentug til að fylgjast með dánarorsökum í rauntíma. Sjúkrahús höfðu sent tilkynningar beint til sóttvarnalæknis um dauðsföll vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs. Samtals hefur þannig borist 101 tilkynning um andlát til sóttvarnalæknis á ofangreindu tímabili. Árið 2020 voru tvö andlát ekki tilkynnt og árið 2022 voru 50 andlát ekki tilkynnt miðað við dánarvottorð.

Skýringin á því að ekki voru öll dauðsföll tilkynnt beint til sóttvarnlæknis á þessu ári er sú að ekki var óskað eftir því fyrr en í lok febrúar 2022 að allar heilbrigðisstofnanir sendu slíkar tilkynningar. Hjúkrunarheimili sendu því ekki tilkynningar beint til sóttvarnalæknis í byrjun árs og hafa ekki öll haft tök á að senda þær. Hjúkrunarheimilin og sóttvarnalæknir hafa verið meðvituð um þetta misræmi og að endanlegur fjöldi COVID-19 tengdra dauðsfalla lægi ekki fyrir fyrr en eftir yfirferð dánarvottorða.

Stofnanir eru áfram beðnar um að tilkynna dauðsföll vegna COVID-19 beint til sóttvarnalæknis en endanlegur fjöldi andláta er síðan skv. dánarvottorðum. Í apríl voru 18 andlát tilkynnt og eitt það sem af er maímánuði.

Umframdauðsföll

Eins og áður hefur komið fram er áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta á tímum COVID-19 sennilega að skoða svokölluð umframdauðsföll en þá er fjöldi dauðsfalla af öllum orsökum borinn saman við meðalfjölda andláta undanfarinna ára.

Þegar umframdauðsföll eru skoðuð með þessum hætti á Íslandi sést marktæk aukning í mars árið 2022 hjá einstaklingum eldri en 70 ára en ekki sést aukning fyrir heildarfjölda andláta. Hins vegar sást marktæk fækkun andláta hjá eldri en 70 ára árin 2020 og 2021 (sjá frétt á vef embættisins 28. apríl sl.). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) birti nýlega úttekt á umframdauðsföllum í heiminum á tímum COVID-19 fyrir árin 2020 og 2021 og skv. þeirra mati voru dauðsföll stórlega vantalin en misjafnlega mikið eftir löndum/svæðum.

Mynd 1. Umframdauðsföll landa á 100.000 íbúa. Gögn vantar frá þeim löndum sem eru skástrikuð. Heimild

Sóttvarnalæknir

09.05.2022

Undirafbrigði omikron BA.5 greinist á Íslandi

Frá því að omikron afbrigði SARS-CoV-2 kom fram hafa nokkur undirafbrigði náð yfirtökum hvert af öðru, a.m.k. á afmörkuðu svæði. Omikron bylgjan hófst hér vegna undirafbrigðis sem kallast BA.1 en hér á landi vék það mjög hratt fyrir undirafbrigði BA.2. BA.2 náði mestri útbreiðslu hér en BA.1 hvarf þó aldrei alveg, enda lengi ráðandi í ýmsum löndum og barst því hingað endurtekið. BA.3 afbrigði hefur einnig fundist hér. Lítill munur ef nokkur hefur verið á veikindum vegna þessara afbrigða, en þau sem ná yfirhöndinni eru meira smitandi en þau sem víkja. Nokkuð er um að einstaklingar sem hafa fengið t.d. BA.1 fái síðar BA.2 en veikindin við endursmit eru alla jafna vægari en fyrstu veikindin. Endursmit með nýju undirafbrigði virðast vera líklegri hjá óbólusettum en bólusettum einstaklingum.

Á undanförnum vikum hefur COVID-19 tilfellum aftur fjölgað í S-Afríku, þar sem omikron (BA.1) kom fyrst fram, og kom í ljós að þar hafa komið fram tvö ný undirafbrigði, BA.4 sem enn hefur ekki náð mikilli útbreiðslu um heiminn, og BA.5 sem hefur borist til flestra heimsálfa og hefur nú greinst á Íslandi, hjá fjórum einstaklingum sem veiktust af COVID-19 í lok apríl. Einstaklingarnir sem greindust með BA.5 hér á landi höfðu fæstir ferðast nýlega, því er ljóst að afbrigðið er sennilega komið víða út í samfélagið. Allir sem greinst hafa með afbrigðið voru fullbólusettir og enginn hafði áður greinst með COVID-19. Tilfellum COVID-19 hefur ekki fjölgað undanfarið og fáir eru á sjúkrahúsum, því er ekki að merkja að þetta afbrigði sé að valda útbreiddu endursmiti eða alvarlegum veikindum, enn sem komið er. Áfram verður fylgst með fjölda þeirra sem greinast og afbrigðum með raðgreiningum hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Ekki er ástæða til að grípa til sértækra aðgerða vegna þessa nýja afbrigðis á þessu stigi.

Áfram er mælt með að þeir sem hafa náð aldri til að fá bólusetningu (miðast við 5 ára afmælisdag) fái hana til að hindra alvarleg veikindi eins og kostur er. Einnig er mælt með bólusetningu þeirra sem hafa fengið COVID-19, til að draga úr líkum á endursmiti.

Sóttvarnalæknir

28.04.2022

Að undanförnu hefur verið talsverð umræða í fjölmiðlum um fjölgun andláta á fyrsta fjórðungi þessa árs miðað við undanfarin ár og látið að því liggja að COVID-19 faraldrinum sé um að kenna. Engir tölfræðilegir útreikningar hafa hins vegar verið gerðir á fjölda andlátanna í samanburði við fjölda andláta undangenginna ára en slíkir útreikningar eru nauðsynlegir til að hægt sé að fullyrða um hvort fjöldinn nú sé marktækt meiri en búast hefði mátt við.

Sóttvarnalæknir fylgist með fjölda andláta á tímum COVID-19 á þrenna vegu. Í fyrsta lagi er fylgst með fjölda andláta sem tengjast COVID-19 með tilkynningum sem berast beint til sóttvarnalæknis. Í öðru lagi er fylgst með fjölda andláta með dánarvottorðum en á þeim eru að finna dánarorsakir. Það fyrirkomulag hefur hins vegar þann ágalla að nokkrar vikur eða mánuðir geta liðið frá andláti þar til að dánarvottorðin berast embætti landlæknis. Í þriðja lagi er fylgst með heildarfjölda andláta í hverri viku án tillits til dánarorsaka og er sú leið sennilega sú besta til að meta heildaráhrif COVID-19 faraldursins á andlát.

Alls hafa 119 andlát vegna COVID-19 verið tilkynnt sóttvarnalækni frá upphafi faraldursins árið 2020. Fjöldi andláta sem sóttvarnalæknir birtir á covid.is er háður tilkynningum stofnanna og lækna um andlát þar sem COVID-19 var orsök eða meðvirkandi þáttur í dauðsfalli. Framan af voru þessar tilkynningar einungis frá sjúkrastofnunum en í lok febrúar sl. óskaði sóttvarnalæknir eftir að aðrir læknar og hjúkrunarheimili myndu einnig senda inn slíkar tilkynningar. Á sama tíma voru gefnar út leiðbeiningar í sameiginlegu dreifibréfi landlæknis og sóttvarnalæknis um skilgreiningu á dauðsfalli af völdum COVID-19. Skilgreiningin innifelur að dauðsfall af völdum COVID-19 takmarkist við einstakling sem lést innan 28 daga frá greiningu COVID-19 og sjúkdómurinn á beinan eða óbeinan þátt í dauða viðkomandi. COVID-19 dauðsföll eru þannig aðskilin frá COVID-19 tengdum dauðsföllum þar sem sjúkdómurinn á ekki beinan eða óbeinan þátt í dauðsfallinu t.d. ef viðkomandi deyr vegna slyss.

Af 119 andlátum tilkynntum beint til sóttvarnalæknis hafa 82 andlát verið tilkynnt á þessu ári, 8 árið 2021 og 29 árið 2020. Af þeim hefur 61 komið frá Landspítala og 40 frá hjúkrunarheimilum (frá lok febrúar 2022) en 101 var 70 ára eða eldri (85%). Viðbúið er að einhver andlát af völdum COVID-19 hafi ekki verið tilkynnt sóttvarnalækni en það mun koma í ljós þegar dánarvottorð eru yfirfarin og dánarmein skráð endanlega. Landlæknir skráir dánarorsakir í dánarmeinaskrá en þar er farið yfir öll dánarvottorð og beitt alþjóðlegum flokkunarkerfum til að kóða andlát með samræmdum hætti og senda í alþjóðagrunna. Hins vegar getur liðið nokkur tími frá andláti þar til skráning hefur farið fram eins og áður er getið. Dánarorsakir eftir aldri og kyni eru birtar á vef landlæknis og má einnig finna á vef Hagstofunnar.

Þegar dánartölur vegna COVID-19 eru skoðaðar er ekkert kerfi skráningar án galla. Áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta á tímum COVID-19 er sennilega sú að skoða svokölluð umframdauðsföll. Þá er vikulegur eða mánaðarlegur fjöldi dauðsfalla af öllum orsökum skoðaður og borinn saman við fjölda dauðsfalla undanfarin ár. Tölfræðilega marktæk aukning á dauðsföllum miðað við undanfarin ár, eru þá kölluð umframdauðsföll. Tímaritið Economist hefur haldið út slíkri skráningu um lönd Evrópu og heims sem má nálgast hér (sjá einnig um þeirra aðferðarfræði). Þar má m.a. sjá að lönd Norður Evrópu hafa almennt færri umframdauðsföll en önnur Evrópulönd. Sérstaka athygli vekur hversu fá umframsdauðsföll hafa verið á Norðurlöndunum nema í Svíþjóð.

Á myndum hér að neðan má sjá heildarfjölda andláta per 100.000 á Íslandi eftir mánuðum og fjölda andláta per 100.000 hjá 70 ára og eldri. Mánaðarleg meðaltöl áranna 2012 - 2019 með 95% öryggisbilum, eru borin saman við árin 2020, 2021 og 2022. 95% öryggisbil eru reiknuð samkvæmt Poisson líkindadreifingu og mánaðarlegar tölur 2020 - 2022 sem falla innan öryggisbilsins eru þannig ekki marktækt frábrugðnar tölum fyrri ára.

Þegar öll andlát hér á landi eru skoðuð eftir mánuðum þá kemur í ljós að marktæk fjölgun andláta sást einungis hjá einstaklingum 70 ára og eldri í mars 2022 en ekki í heildarfjölda andláta. Líklega má skýra þessa fjölgun andláta af mikilli útbreiðslu COVID-19 á þessum tíma. Athyglisvert er að marktæk fækkun andláta hjá 70 ára og eldri sást hins vegar í júní til september 2020 og í janúar til mars auk september og október 2021. Þessi marktæka fækkun skýrist vafalaust af þeim sóttvarnaaðgerðum sem þá voru í gildi sem drógu verulega úr sýkingum almennt.

Til baka á forsíðu