Ákveðið hefur verið að bjóða börnum 5-11 ára bólusetningu gegn COVID-19.
Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að börnum á aldrinum 5-11 ára verði boðin bólusetning gegn COVID-19. Þessi ákvörðun er í samræmi við ákvörðun í mörgum löndum eins og Danmörku, Írlandi, Austurríki, Bandaríkjunum, Kanada og Ísrael. Auk þess hefur Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins bent á fjölmargar ástæður þess að bólusetja börn á þessum aldri.
Ástæður fyrir þeirri ákvörðun að bjóða bólusetninguna börnum á aldrinum 5-11 ára eru eftirfarandi:
1. COVID-19 getur verið alvarlegur sjúkdómur hjá börnum á þessum aldri.
Í samantekt Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) frá 1. desember sl. (https://www.ecdc.europa.eu/en/publications-data/interim-public-health-considerations-covid-19-vaccination-children-aged-5-11) kemur fram að 0,6% barna sem smitast af COVID-19 þurfa á spítalainnlögn að halda, 10% þeirra þurfa að leggjast inn á gjörgæslu og 0,006% smitaðra barna látast. Upplýsingar frá Bandaríkjunum (MMWR 10. september og 12. nóvember 2021) sýna sambærilegar afleiðingar af völdum COVID-19.
Ef ofangreindar tölur eru yfirfærðar á íslensk börn á aldrinum 5-11 ára og öll börn á þeim aldri myndu smitast (32.000), þá gætum við búist við að 100-200 börn þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús, 16 legðust inn á gjörgæsludeild og 1-2 börn myndu látast vegna COVID-19.
2. Virkni bólusetningar hjá börnum á aldrinum 5-11 ára gegn smiti er um 90%.
Í bólusetningarannsókn á um 3.000 börnum á aldrinum 5-11 ára (NEJM 9. nóvember 2021) kom í ljós að virkni bólusetningar var um 90% gegn smiti og engar alvarlegar aukaverkanir komu fram. Börnin mynduðu mótefni í háum styrkleika, samsvarandi og sést eftir bólusetningu barna á aldrinum 12-15 ára. Góð virkni sést af bólusetningu þessa aldurshóps og reynslan hér á landi sýnir að bólusetning barna á aldrinum 12-15 ára virðist árangursríkari en bólusetning fullorðinna með tveimur skömmtum.
Allar vísbendingar eru því um að bólusetning barna á aldrinum 5-11 ára séu a.m.k. eins árangursríkar og bólusetning barna 12-15 ára. Hins vegar er ekki vitað hversu lengi vernd bólusetningarinnar mun vara.
3. Bólusetning barna minnkar líkur á langtíma áhrifum af völdum COVID-19 („Long Covid“).
Langtíma áhrif COVID-19 eru skilgreind sem sjúkdómseinkenni sem eru viðloðandi vikum og mánuðum eftir að sýkingin er yfirstaðin. Þessi áhrif eru vel þekkt hjá fullorðnum en ekki verið vel lýst hjá börnum enn sem komið er. Full ástæða er hins vegar að hafa áhyggjur af þessum áhrifum hjá börnum, jafnvel þeim sem ekki hafa veikst alvarlega í upphafi sjúkdómsferilsins.
Bólusetningin mun með fækkun smita að líkindum koma í veg fyrir langtímaáhrif af völdum COVID-19.
4. Alvarlegar aukverkanir eftir bólusetningu barna 5-11 ára hafa enn sem komið er ekki verið tilkynntar.
Á þessari stundu hafa ekki mörg börn verið bólusett þannig að ekki er hægt að fullyrða með vissu hvort alvarlegar aukaverkanir muni sjást eftir bólusetninguna. Hjá eldri börnum hefur bólgum í hjartavöðva og/eða gollurshúsi verið verið lýst hjá einum af hverjum 10.000 bólusettum (https://www.cdc.gov/coronavirus/2019-ncov/vaccines/recommendations/children-teens.html) en hefur ekki verið lýst hjá yngri bólusettum börnum.
Ef tíðni alvarlegra aukaverkana COVID-19 og bólusetningar er yfirfærð frá aldurshópnum 12-16 ára yfir á aldurshópinn 5-11 ára á Íslandi, þá má búast við að 32 fengju hjartavöðvabólgu eftir COVID-19 en einungis 2 börn eftir bólusetningu. Að auki má búast við öðrum alvarlegum aukaverkunum eftir COVID-19 sem ekki sjást eftir bólusetninguna (https://www.cdc.gov/mmwr/volumes/70/wr/mm7036e2.htm).
Því má fullyrða að alvarlegar aukaverkanir eftir COVID-19 hjá börnum 5-11 ára séu umtalsvert líklegri en alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu.
5. Bólusetning minnkar truflun á skólagöngu og félagslíf barna, og minnkar truflun á atvinnu foreldra.
Útbreidd veikindi meðal barna veldur víðtækri röskun á skólagöngu og félagslífi þeirra. Smituð börn þurfa að fara í einangrun í a.m.k. 7 daga og útsett börn þurfa að fara í sóttkví í 5 daga og sum endurtekið. Mikil krafa hefur verið uppi um endurskoðun á sóttkví barna en vandséð er að það sé framkvæmanlegt með þá útbreiðslu á COVID-19 sem til staðar er í dag.
Útbreidd bólusetning barna myndi lágmarka truflun á skólastarfi þeirra og félagslíf vegna smita í nærumhverfi.
6. Útbreidd bólusetning barna minnkar líkur á dreifingu smits innan fjölskyldna og til viðkvæmra hópa.
Í þessari bylgju faraldursins hafa hlutfallslega flest smit af völdum COVID-19 sést hjá aldurshópnum 6-12 ára. Smitin berast milli barna innan sem utan skóla og dreifast síðan til fjölskyldna og vina.
Bólusetning barna myndi því minnka smitdreifingu í samfélaginu og koma þannig í veg COVID-19 hjá þeim sem viðkvæmir eru.
Framkvæmd bólusetningar.
Fyrirhugað er að hefja bólusetningu hjá börnum fljótlega eftir næstu áramót og munu nánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar síðar. Áætlað er að bólusetning fari fram í grunnskólum landsins en allur undirbúningur verður gerður í samvinnu við heilsugæsluna, skóla- og menntamálayfirvöld, umboðsmann barna og Persónuvernd. Framkvæmdin verður í höndum heilsugæslunnar.
Sóttvarnalæknir