Frá sóttvarnalækni

01.12.2021

Fréttir af Omicron afbrigði SARS-CoV-2.

Í dag hefur hið nýja Omicron afbrigði kórónaveirunnar verið greint hjá 57 einstaklingum í 12 löndum Evrópska Efnahagssvæðisins (Austurríki, Belgíu, Tékklandi, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Portúgal, Spáni og Svíþjóð). Auk þess voru tveir einstaklingar í Finnlandi grunaðir um að vera smitaðir af afbrigðinu en við nánari athugun reyndist svo ekki vera. Allir eru með tiltölulega væg einkenni og engin dauðsföll hafa verið tilkynnt. Margir voru fullbólusettir. Flestir hinna smituðu höfðu verið á ferð í Afríku en vitað er um nokkur tilfelli í Skotlandi sem engin tengsl hafa við Afríku.

Þannig er enn margt á huldu um eiginleika Omicron afbrigðisins t.d. hvort það dreifir sér auðveldar en delta afbrigðið, hvort veikindin séu frábrugðin eða hvort fyrri sýking eða bólusetning verndi gegn smiti eða alvarlegum veikindum. Á næstu dögum og vikum er búist við að nánari upplýsingar um þessi atriði muni liggja fyrir.

Í mörgum löndum Evrópu hefur verið ákveðið að grípa til hertra sóttvarnaaðgerða á landamærum sem eru breytilegar milli landa. Fólk sem hyggur á ferðalög til útlanda er hvatt til að kynna sér vel takmarkanir á landamærum viðkomandi landa.

Á Íslandi eru ekki breytingar fyrirhugaðar á landamærum á þessari stundu en það gæti breyst hratt í ljósi nýrra upplýsinga um Omicron afbrigðið.

Allir sem hingað koma og eru með tengsl innanlands eru hvattir til fara í PCR sýnatöku sem fyrst við eða eftir komu og fara í frekari sýnatöku ef sjúkdómseinkenni gera vart við sig á fyrstu viku eftir heimkomu.

Sóttvarnalæknir.

Til baka á forsíðu