Frá sóttvarnalækni

19.11.2021

Rangfærslur um framkvæmd sóttkvíar í nálægum löndum vegna COVID-19.

Undanfarið hafa birst greinar og fullyrðingar frá ýmsum málsmetandi aðilum í íslensku samfélagi um að framkvæmd sóttkvíar vegna COVID-19 hér á landi sé gjörólík framkvæmd sóttkvíar t.d. á hinum Norðurlöndunum. Einnig er látið að því liggja að flestar þjóðir framkvæmi sóttkví á sama máta en að framkvæmdin sé með gjörólíku sniði hér á landi. Greinilegt er að þeir aðilar sem tjá sig um málefnið hafa annaðhvort ekki aflað sér nægilegra góðra upplýsinga eða skrumskælt þær óafvitandi eða af yfirlögðu ráði.

Þegar upplýsingar um framkvæmd sóttkvíar á hinum Norðurlöndunum er skoðuð t.d á vef Statens Serum Institut í Danmörku, Folkehelseinstitutet í Noregi, Folkhalsomyndigheten í Svíþjóð og Finnish Institut for health and welfare í Finnlandi kemur í ljós, að hver þjóð er með sínar eigin leiðbeiningar og útfærslur á sóttkví  sem í veigamiklum atriðum eru ólíkar.

Allar Norðurlandaþjóðirnar skilgreina útsetningu fyrir smiti á sama hátt og skilgreina sóttkví og einangrun á sama máta þó framkvæmdin sé ólík eins og áður sagði. Flestar þjóðirnar setja sínar leiðbeiningar undir þeim formerkjum að bólusetning gegn COVID-19 sé útbreidd og faraldurinn sé í lámarki í samfélaginu en því er nú ekki til að dreifa þessa stundina í flestum landanna.

Í mörgum landanna eru börn t.d sett í sóttkví við útsetningu á heimilium en þurfa að undirgangast próf reglulega í vikutíma eftir útsetningu í skólum. Í flestum landanna eru hins vegar heilu bekkirnir settir í hefðbundna sóttkví ef upp koma fleiri en eitt smit í sama bekk.

Nokkur hinna Norðurlandanna gera greinarmun á þeim sem eru bólusettir og óbólusettir þar sem að óbólusettir þurfa ekki að fara í sóttkví en þurfa að undirgangast PCR próf á á meðan að bólusettir eru lausir við íþyngjandi aðgerðir svo fremi að þeir séu einkennalausir.

Á Íslandi hafa reglur um sóttkví í skólum verið rýmkaðar verulega undanfarið og einungis þeir settir í sóttkví sem raunverulega voru útsettir fyrir smiti á meðan að aðrir fara í smitgát. Þeir sem eru í smitgát geta haldið áfram sinni daglegri vinnu en þurfa að fara í próf á fyrsta og fjórða degi. Heilu bekkirnir hafa hins vegar ekki verið settir í sóttkví nema ef upp hafa komið mörg smit og eins ef líkur eru taldar á að smit verði útbreitt.  

Full bólusettir hafa ekki verið undanþegnir sóttkví hér á landi og byggir það á þeim gögnum sem aflað hefur verið að smitlíkur eru töluverðar hjá fullbólusettum einstaklingum þó að þær séu um þrefalt minni en hjá óbólusettum. Ef að í ljós kemur að örvunarskammtur bóluefna dregur umtalsvert meira úr líkum á smiti umfram tvo skammta bóluefna þá verða reglur um sóttkví hér á landi endurskoðaðar.

Í reglulegum samræðum mínum við starfsfélaga á hinum Norðurlöndunum hefur komið fram að í undirbúningi þar sé endurskoðun á ýmsum þeim leiðbeiningum sem nú gilda í ljósi aukinnar útbreiðslu faraldursins. M.a. hafa Danir nú þurft að loka nokkrum skólum vegna aukinnar útbreiðslu.  

Smitrakning og beiting sóttkvíar og einangrunar hefur verið þungamiðjan í þeim sóttvarnaráðstöfunum sem við höfum beitt með góðum árangri í baráttunni við COVID-19 til þessa. Í núverandi bylgju hefur erfiðlega gengið að halda daglegum smitum í skefjum með þeim aðferðum sem notaðar hafa verið og ljóst að ef að slakað verður á þessum aðgerðum þá munum við fá aukningu í smittölum sem setja mun spítalakerfið á hliðina jafnframt því að valda miklu álagi á samfélagið í heild sinni, sérstaklega á samfélagslega mikilvæga starfsemi. Við verðum því að nota öll okkar ráð til að koma í veg fyrir að slíkt gerist.  

Þó að gagnrýnar umræður um þær sóttvarnaráðstafanir sem hér eru viðhafðar séu nauðsynlegar þá þjóna þær ekki tilgangi sínum ef menn fara fram með rangar staðhæfingar og láta líta út sem að við séum eftirbátar annarra hvað sóttvarnaráðstafanir varðar. Samanburður við aðra getur verið gagnlegur en nauðsynleg er að sjái líka það sem vel er gert hér á landi. Einnig verður að líta til þess að ráðstafanir í einu landi kunna ekki að virka sem skyldi í öðru.

Ef við ætlum okkur að komast farsællega út úr COVID-19 faraldrinum, þá þurfum við að styðjast við bestu þekkingu og vísindagögn sem völ er á. Einnig verðum við að ná samstöðu um að meginmarkmið aðgerðanna sé að vernda spítalakerfið og að raskanir verði sem minnstar á samfélagslega mikilvægum verkefnum.

Sóttvarnalæknir.

18.11.2021

Í fréttum undanfarið hefur verið fjallað um lögmæti þess að smitrakningateymi njóti aðstoðar skólastjórnenda við smitrakningu innan veggja skólanna vegna COVID-19 og því jafnvel verið haldið fram að engin lagaleg heimild sé fyrir því að skólastjórnendur skili nemendalistum til smitrakningateymis til að aðstoða við smitrakningu.

Rétt er að gera nokkrar athugasemdir við þessar fullyrðingar og skýra lögmæti og fyrirkomulag þess verklags sem viðhaft er við smitrakningu í skólum.

Í sóttvarnalögum nr. 19/1997 með seinni tíma breytingum er kveðið á um skyldu sóttvarnalæknis til að uppræta og koma veg fyrir alvarlega smitsjúkdóma eins og COVID-19. Í 4. mgr,  12. gr. laganna er kveðið á um rétt sóttvarnalæknis til aðgangs að gögnum til að gera faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits og eftir atvikum hefja smitrakningu. Í 5. gr. sóttvarnalaga er einnig kveðið á um að sóttvarnalækni er heimilt að fela tilteknum aðilum, ríkislögreglustjóra eða stofnunum að rekja smit þegar farsótt geisar og ber sóttvarnalæknir ábyrgð á smitrakningunni.

Í baráttunni við COVID-19 hefur smitrakning ásamt beiting úrræða eins og sóttkví og einangrun, gegnt lykilhlutverki. Smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og almannavarna hefur verið falin smitrakning skv. ofangreindum ákvæðum sóttvarnalaga og hefur þannig rétt til að afla þeirra gagna sem lögin heimila.

Í núverandi bylgju faraldurs COVID-19 hafa smit í skólum spilað stórt hluvert í útbreiðslu smita í samfélaginu og rakning innan skólanna verið þýðingarmikil. Til að rakningin skili árangri er samstarf við skólastjórnendur mikilvægt því einungis skólastjórnendur þekkja aðstæður og hafa aðgang að viðveru- og nemendalistum. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar þegar tekin er ákvörðun um sóttkví. Því má líta svo á að samstarf skólastjórnenda og rakningateymis falli undir nauðsynlega gagnaöflun skv. sóttvarnalögum fyrir sóttvarnalækni til að framfylgja sinni lagalegu skyldu.

Við rakningu smita í skólum eru foreldrum barna sendar upplýsingar og leiðbeiningar um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir sem í flestum tilfellum eru sendar af af skólastjórnendum f.h. rakningateymis. Þessi samvinna rakningateymis og skólastjórnenda er á engan hátt ígildi þess að ákvörðunin sé tekin af skólastjórnendum. Ábyrgðin liggur alltaf hjá smitrakningateyminu og sóttvarnalækni og formleg tilkynning berst þaðan.

Góður árangur okkar Íslendinga til þessa í baráttunni við COVID-19 felst ekki hvað síst í þeirri góðu samvinnu sem sóttvarnayfirvöld hafa átt við skólastjórnendur. Að leiðarljósi hefur verið haft að íþyngja skólastarfi sem minnst og er því sorglegt að sjá rangar fullyrðingar um að sóttvarnareglur séu meira íþyngjandi fyrir börn hér á landi en annars staðar. Staðreyndin er hins vegar sú að reglur um sóttkví barna eru breytilegar milli landa og í sumum löndum hefur verið lögð meiri ábyrgð á skólana með töku hraðgreiningaprófa á nokkurra daga fresti.  

Mikið hefur verið rætt um samstöðu allra í baráttunni við COVID-19. Nauðsynlegt er sú samstaða nái einnig til skólanna því án náinnar samvinnu skóla og sóttvarnayfirvalda þá mun okkur ekki takast hemja faraldurinn eins og við öll viljum.    

Sóttvarnalæknir.

17.11.2012

Frá því að síðasta reglugerð um takmarkandi aðgerðir gegn COVID-19 tók gildi þ. 13. nóvember sl. þá hafa verið sveiflur í fjölda daglegra smita og ekki hægt að segja með vissu að faraldurinn sé á niðurleið. Fjöldi innlagna á sjúkrahús hefur hins vegar aukist og eru nú 18 inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19 og þar af fjórir á gjörgæsludeild. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri liggja nú þrír sjúklingar vegna COVID-19 en enginn á gjörgæsludeild. Vert er að minna á að alvarleg veikindi koma ekki fram fyrr en á fyrstu til annarri viku veikinda og því mun það taka u.þ.b. tvær vikur að merkja fækkun í innlögnum í kjölfar hertra aðgerða. Hins vegar má búast við að sjá fækkun daglegra smita u.þ.b. 7 dögum eftir að aðgerðir voru hertar ef þær bera þá árangur á annað borð.

Undanfarna daga hefur talsvert verið rætt um hvort fullbólusettir einstaklingar með tveimur sprautum gegn COVID-19 eigi að njóta réttinda í samfélaginu umfram óbólusetta. Þessi umræða er ekki ný af nálinni því á undanförnum árum hefur oft verið rætt um hvort gera eigi bólusetningar barna að skyldubólusetningu, sérstaklega í þau fáu skipti þegar aukning verður á bólusetningasjúkdómum.

Sóttvarnalæknir hefur löngum haft þá afstöðu að varasamt sé að gera bólusetningar að skyldu af þeirri ástæðu að þátttaka hér í almennum bólusetningum er með ágætum og því gæti slík ákvörðun skapað önnur vandamál sem leitt gætui til minni þátttöku og meiri smithættu í samfélaginu.

Hvað varðar umræðu undanfarinna daga um aukin réttindi fullbólusettra þá verður hún að byggja á faglegum forsendum. Veitir full bólusetning með tveimur sprautum gegn COVID-19 það mikla vernd gegn smiti að það réttlæti mismunun bólusettra og óbólusettra? Niðurstöður rannsókna hafa sýnt, að full bólusetning veitir um 50% vernd gegn smiti og 90% vernd gegn alvarlegum veikindum. Gögn okkar hér á landi sýna jafnframt að flestir sem greinast (60%) eru fullbólusettir og um 50% þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús eru fullbólusettir. Hins vegar virðast fullbólusettir (skv. upplýsingum frá smitsjúkdómalæknum) fá vægari einkenni og dvelja skemur á sjúkrahúsi ef þeir þurfa á annað borð að leggjast inn. Ávinningur af bólusetningu með tveimur skömmtum er því ótvíræður.  Þó að óbólusettir séu um þrefalt líklegri til að smitast af COVID-19 og fimm sinnum líklegri til að leggjast inn á sjúkrahús þá er ekki hægt að segja að núverandi bylgja sé orsökuð og drifin áfram af smitum frá óbólusettum. Því er ekki líklegt að jafnvel þó allir hér á landi yrðu fullbólusettir með tveimur skömmtum, að smit í samfélaginu myndu stöðvast og ásættanlega staða myndi skapast á sjúkrahúsum. Því tel ég ekki faglegar forsendur vera fyrir því á þessari stundu að mismuna bólusettum og óbólusettum í samfélaginu.

Breytir örvunarbólusetning með þriðja skammti þá faglegum forsendum hvað varðar mismunun á þeim sem fá þriðja skammtinn og öðrum? Í dag er ekki hægt að fullyrða að bólusetning með örvunarskammti muni vernda að mestu gegn smiti. Erlendar rannsóknir gefa þó vonir um að verndin sé veruleg umfram skammt númer tvö og því eru allir hvattir til að mæta í örvunarbólusetninguna þegar boð berast. Sóttvarnalæknir mun áfram sem hingað til fylgjast náið með bólusetningastöðu þeirra sem greinast og því mun verða hægt að svara spurningunni um árangur örvunarskammtsins að nokkrum vikum eða mánuðum liðnum.

Sóttvarnalæknir vill því hvetja alla til að mæta í bólusetningu og þiggja jafnfram örvunarskammtinn sem í boði er. Ef í ljós kemur að smit eru mjög fátíð hjá þeim sem fá örvunarskammt þá verður kominn grundvöllur til að ræða hvort þessir aðilar eigi að njóta réttinda umfram þá sem eru óbólusettir eða hafa fengið tvo skammta. Slík ákvörðun verður þó alltaf pólitísk og siðfræðileg og verður ekki tekin af öðrum en stjórnvöldum.    

Sóttvarnalæknir.

11.11.2021

Covid faraldurinn hér á landi er áfram í veldisvexti og í gær greindust 192 innanlands og átta á landamærum. Þetta er mesti fjöldi frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Í einangrun eru nú rúmlega 1.500 manns og tæplega 2.400 í sóttkví. Í farsóttarhúsum eru nú rúmlega 100 manns og flestir í einangrun. Í dag og næstu daga verða opnuð fleiri farsóttarhús á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri því þörfin á dvöl í slíkum húsum er mikil.

Á Landspítala liggja nú 16 einstaklingar vegna COVID-19, þrír eru á gjörgæsludeild og þar af tveir í öndunarvél. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri liggja nú þrír vegna COVID-19 og er einn á gjörgæsludeild.

Þessi mikli fjöldi sem nú er að greinast með COVID-19 er orðinn mjög íþyngjandi fyrir starf rakningateymis, covid göngudeild Landspítalans og heilbrigðisþjónustuna í heild. Því er mikilvægt að ná betri tökum á útbreiðslu kórónaveirunnar hér á landi.

Almenningur hefur nú aldrei sem fyrr verið hvattur til að viðhafa ábyrgar einstaklingsbundnar sóttvarnir. Þrátt fyrir það erum við að sjá mörg hópsmit sem orsakast af óábyrgum sóttvörnum. Mikilvægt er því að herða hér takmarkanir innanlands til að ná daglegum fjölda smita í viðunandi fjölda sem ræðst við að sinna. Von er á tillögum frá sóttvarnalækni til heilbrigðisráðherra um takmarkanir innanlands sem vonandi munu duga til fækka hér smitum.

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að takmarkandi aðgerðir gegn kórónaveirunni séu íþyngjandi þá verður mikill fjöldi smita einnig íþyngjandi fyrir starfsemi fyrirtækja og þjóðfélagið í heild. Allt eins líklegt er að mikill fjöldi smita í samfélaginu og útbreidd veikindi geti orðið meira íþyngjandi og haft alvarlegri afleiðingar en þær samfélagslegu aðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir útbreiðsluna.

Stöndum saman um að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19 sem fyrst svo að hægt verið að koma í veg fyrir margvíslegar afleiðingar faraldursins og að við getum haldið jól með öruggum hætti.

Sóttvarnalæknir.

09.11.2021

Áfram heldur greindum smitum af völdum COVID-19 að fjölga hér á landi. Sl. sólarhring greindust 168 með COVID-19 innanlands og 14 á landamærum. Smitin greindust í öllum landshlutum en lang flest á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ljóst að að faraldurinn er áfram í veldisvexti hér á landi.

Innlögnum á sjúkrahús fjölgar jafnframt samhliða aukinni útbreiðslu því um 2% þeirra sem greinast geta búist við að þurfa að leggjast inn á spítala vegna alvarlegra veikinda. Í dag eru 13 inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19 og þar af þrír á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyrir og er sá einnig á gjörgæsludeild.

Nú er að hefjast átak í bólusetningum gegn COVID-19 þar sem að þeim sem fengið hafa tvo skammta bóluefnis verður boðinn þriðji skammtur eða svokallaður örvunarskammtur með bóluefni Pfizer. A.m.k. 5 mánuðir verða að líða frá skammti nr. tvö þar til að þriðji skammtur er gefinn. Fólk mun fá boð um mætingu í örvunarskammtinn  og vonast er til að það nást að bólusetja um 170 þúsund manns fyrir næstu áramót og 240 þúsund fyrir mars 2022.

Rannsóknir erlendis frá benda til að örvunarskammtur veiti um 90% vörn gegn smiti og alvarlegum veikindum umfram skammt nr. tvö og þannig eru sterkar vísbendingar um að hjarðónæmi muni nást með útbreiddri örvunarbólusetningu. Reynslan mun hins vegar skera úr um hver raunverulegur árangur verður eða hvort fleiri örvunarskammta þurfi að gefa á næstu mánuðum eða árum. Alvarlegar aukaverkanir eftir örvunarskammtinn eru afar fátíðar og síst algengari en eftir skammt nr. tvö. Einu frábendingar örvunarskammts eru hjá þeim sem fengu alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö og eins hjá þeim sem eru með sjálfofnæmissjúkdóm sem gæti versnað við bólusetninguna. Ef fólk er með alvarlegan sjálfofnæmissjúkdóm þá ætti það að ráðfæra sig við sinn lækni um hvort bólusetning sé ráðlögð.

Talsvert hefur borið á því að fólk hafi farið í mótefnamælingu gegn SARS-CoV-2 til að ákveða hvort raunveruleg þörf sé á örvunarskammti. Því er til að svara að ekki er hægt með góðu móti að meta út frá mótefnamagni í blóði hver verndin er gegn COVID-19. Því er alls ekki ráðlagt að fara í mótefnamælingu í slíkum tilgangi nema samkvæmt ákvörðun læknis.  

Allir (nema þeir sem ofangreindar frábendingar eiga við um) eru því hvattir til að mæta í örvunarbólusetningu bæði til að vernda sjálfan sig gegn smiti og alvarlegum veikindum, og einnig til að koma í fyrir samfélagslegt smit. Aðeins með góðri þátttöku mun okkur takast að skapa hér hjarðónæmi sem mun koma í veg fyrir útbreitt smit.

Sóttvarnalæknir

05.11.2021

Af tölum undanfarinna daga er ljóst að COVID-19 faraldurinn er í miklum vexti og hefur náð að dreifa sér um allt land. Síðast liðna tvo daga hafa 319 einstaklingar greinst smitaðir af COVID-19 innanlands og er það mesti fjöldi á tveimur dögum frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Álag er áfram mikið á Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri en nú liggja 15 einstaklingar inni á Landspítala með COVID-19 og þar af 4 á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og er sá í öndunarvél. Búast má við fleiri innlögnum á næstunni vegna vaxandi fjölda smita í samfélaginu sem mun auka enn frekar á vanda spítalakerfisins.

Eins og marg oft hefur komið fram þá er eina ráðið til að koma í veg fyrir neyðarástand á sjúkrahúsum landsins að fækka smitum í samfélaginu. Til þess þarf takmarkandi aðgerðir í samfélaginu því einstaklingsbundnar sóttvarnir duga ekki einar og sér til að bæla faraldurinn niður.

Sóttvarnalæknir hefur sent minnisblað til heilbrigðisráðherra þar sem bent er á alvarlega stöðu faraldursins og bent á fyrri aðgerðir innanlands sem skilað hafa árangri til að fækka smitum.

Nú gildir að sýna samstöðu og viðhafa þær sóttvarnir sem við vitum að skila árangri. Forðumst hópamyndanir, virðum eins metra nándarreglu, notum andlitsgrímu ef ekki er hægt að viðhafa eins metra nánd við ótengda aðila og/eða í illa loftræstum rýmum, þvoum og sprittum hendur, höldum okkur til hlés ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 og mætum í PCR próf. Einnig er mikilvægt að viðhafa góða smitgát þar til niðurstaða úr PCR prófi liggur fyrir.

Sóttvarnalæknir

03.11.2021

Fjöldi einstaklinga sem greinast með COVID-19 heldur áfram að aukast en í gær greindist 91 innanlands og þrír á landamærum. Samhliða vaxandi fjölda smita smita þá fjöldar þeim sem eru alvarlega veikir af völdum COVID-19 og sl. tvo sólarhringa lögðust 6 inn á Landspítala en þrír voru útskrifaðir. Í dag liggja 16 inni á spítalanum og þar af eitt barn. Fjórir eru á gjörgæsludeild og þar af er einn á hjarta- og lungnavél (ECMO) og tveir á öndunarvél. Helmingur þeirra er full bólusettur. Auk þess er einn einstaklingur inniliggjandi í öndunarvél á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Spá um þróun faraldursins er því að raungerast þ.e. útbreiðsla smita er að aukast í kjölfarið á afléttingu takmarkana og jafnframt er fjöldi þeirra sem leggst inn á sjúkrahús alvarlega veikur að aukast. Um 2% þeirra sem greinast með COVID-19 þurfa á spítalavist að halda og er um 60% þeirra full bólusettir.

Nú er að hefjast átak í áframhaldandi bólusetningum gegn COVID-19. Allir 60 ára og eldri verða kallaðir inn í sína þriðju bólusetningu (örvunarbólusetningu) sem og einstaklingar með undirliggjandi ónæmisvandamál og ýmsar framvarðasveitir t.d heilbrigðisstarfsmenn, lögregla og sjúkraflutningamenn. Til skoðunar er einnig að bjóða öllum almenningi örvunarbólusetningu. Örvunarbólusetning verður fyrst gefin 5-6 mánuðum eftir skammt númer tvö.

Ekki er komin víðtæk reynsla á örvunarbólusetningu vegna COVID-19. Mesta reynslan hefur fengist í Ísrael en þar hefur öllum verið boðin örvunarbólusetning með bóluefni frá Pfizer um 5-6 mánuðum eftir bólusetningu númer tvö. Niðurstaða rannsóknar í Ísrael sem birt var nýlega í vísindatímaritinu Lancet sýnir að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær sprautur. Í kynningu Ísraelsmanna á sínum niðurstöðum kemur einnig fram að alvarlegar aukaverkanir eru líklega færri eftir þriðja skammt en eftir skammt tvo en þess ber að geta að alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö eru mjög fátíðar.

Það er líklegt að fljótlega verði hafist handa hér á landi við að bjóða öllum örvunarbólusetningu með bóluefni Pfizer a.m.k. 5-6 mánuðum eftir bólusetningu tvö. Vonir eru bundnar við að örvunarbólusetning muni bæði koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi umfram tvær sprautur. Einnig er mikilvægt að allir sem ekki hafa mætt í sína fyrstu bólusetningu geri það sem fyrst því alvarleg veikindi meðal bólusettra (eftir tvær sprautur) eru um fimm sinnum fátíðari en meðal óbólusettra.

Sóttvarnalæknir

01.11.2021

Um helgina (föstudag-sunnudag) greindust 226 einstaklingar með COVID-19 innanlands og 19 á landamærum. Sjö lögðust inn á Landspítala en 10 voru útskrifaðir. Þrettán liggja nú inn á Landspítala vegna COVID-19 og þar af tveir á gjörgæsludeild. Annar þeirra er á hjarta- og lungnavél (ECMO) og hinn á öndunarvél. Einn einstaklingur með COVID-19 lést um helgina. Tveir af þessum þremur voru óbólusettir.  

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um samburð á svínaflensunni sem hér gekk 2009 og svo COVID-19. Í þessari umræðu hefur borið nokkuð á staðreyndarvillum og ályktunum sem illa standast.

Hið rétta er að í svínaflensunni 2009 sem stóð yfir frá september til ársloka 2009 er áætlað að um 60.000 manns hafi smitast og voru flestir yngri en 30 ára. Um 160 voru lagðir inn á sjúkrahús (0,3% af öllum sýkingum), 20 lögðust inn á gjörgæslu (0,03% af öllum sýkingum) og tveir létust. Ástæðan fyrir því að að ekki smituðust fleiri og alvarlegar afleiðingar urðu ekki víðtækari var að byrjað var að bólusetja með mjög virku bóluefni í október 2009 og veirulyfið (Tamiflu) var tiltækt til almennrar notkunar. Lokið var við að bólusetja helming þjóðarinnar gegn flensunni í upphafi árs 2010.

COVID-19 á hinn bóginn hegðar sér öðru vísi. Um 2-5% sýktra leggjast inn á sjúkrahús, 0,4% leggst inn á gjörgæsludeild og 34 hafa látist. Engin vel virk lyf eru til við sýkingunni og virkni bóluefna er einungis um 50% gegn smiti þó þau séu um 90% virk til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.  

Þá var á árinu 2009 heildarfjöldi gjörgæslurýma á Landspítalanum um 20 rúm, en í dag er fjöldi þeirra alls 14.

Af ofangreindu má því sjá að alvarleiki COVID-19 mældur í innlögnum á sjúkrahús, er um tíu sinnum meiri en svínaflensunnar 2009 auk þess eru bóluefni gegn COVID-19 minna virk, engin vel virk lyf eru til við COVID-19 og fjöldi gjörgæsluplássa er nú minni en árið 2009.

Þannig er allur samanburður á COVID-19 og svínaflensunni 2009 COVID í óhag. Baráttan við COVID-19 er margfalt erfiðari en baráttan var við svínaflensuna 2009.  

Sóttvarnalæknir

29.10.2021

Heldur færri greindust með COVID-19 í gær en í fyrradag eða 78 innanlands og 3 á landamærum. Sl. sólarhring lögðust þrír inn á Landspítalann en sex útskrifuðust. Alls eru því 13 inniliggjandi vegna COVID-19 á spítalanum og þar af fjórir á gjörgæsludeild og einn er á öndunarvél. Meðalaldur inniliggjandi sjúklinga er 56 ár. Erfitt er að túlka smittölur einstakra daga en þróun faraldursins mun skýrast betur á næstu dögum.

Nokkuð hefur verið rætt um árangur bólusetninga barna á aldrinum 12-15 ára gegn COVID-19. Áður hafði verið greint frá því að ekkert fullbólusett barn hefði greinst með COVID-19. Vegna tæknilegra vandamála þá hefur komið í ljós að þetta er ekki rétt. Af um rúmlega 12.000 fullbólusettum börnum 12-15 ára þá hafa 9 greinst með COVID-19 eða 0,07%. Til samanburðar þá hafa um 3.750 af um 266.000 fullbólusettum einstaklingum eldri en 15 ára greinst með COVID-19 (1,4%). Vísbendingar eru því um að bólusetning barna kunni að vera áhrifaríkari en bólusetning fullorðinna til að koma í veg fyrir smit af völdum COVID-19.

Ákvörðun um bólusetningu barna yngri en 12 ára hefur ekki verið tekin enda hafa engin bóluefni verið samþykkt hér á landi fyrir börn á þeim aldri. Bóluefni frá Pfizer er nú umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu og er von á niðurstöðu í desember 2021.

Sóttvarnalæknir

28.10.2021

COVID-19 smitum innanlands heldur áfram að fjölga. Í gær greindust tæplega 100 manns innanlands og voru aðeins um 40% í sóttkví við greiningu og eins og áður um helmingur full bólusettur. Meðalaldur þeirra sem greindust er um 30 ár og spannaði aldursbil þeirra frá nokkrum mánuðum til 92 ára. Lögheimili einstaklinganna var víða á landinu en flestir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Síðastliðinn sólarhring lögðust þrír inn á Landspítalann vegna COVID-19 og eru nú alls 15 inniliggjandi vegna COVID og þrír á gjörgæsludeild, þar af einn á öndunarvél.

Þróun faraldursins hér er því enn versnandi og faraldurinn í veldisvexti. Líklegt er að þessi þróun  hvað varðar heildarfjölda smita haldi áfram sem mun leiða til versnandi ástands á Landsspítalanum.

Þó að litlar opinberar takmarkanir séu nú í gildi þá getum við öll sem einstaklingar lagt okkar af mörkum  til að hindra útbreiðslu veirunnar. Við getum forðast hópamyndanir með ókunnugum, viðhaft eins metra nándarreglu, notað andlitsgrímur í aðstæðum þar sem nánd við ókunnuga er undir einum metra og gætt að góðri sótthreinsun handa. Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá ættum við að halda okkur til hlés, forðast margmenni og umgengni við viðkvæma einstaklinga og fara í sýnatöku.

Hollt er hins vegar að hafa í huga þá reynslu okkar að samfélagslegum smitum fækkar ekki fyrr en gripið er til takmarkandi aðgerða í samfélaginu.

Sóttvarnalæknir

Til baka á forsíðu

Tilkynna brot