Táknmál
Táknmál
Viðbrögð á Íslandi

Viðbrögð á Íslandi

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda og markmið aðgerða vegna COVID-19 hafa frá upphafi verið skýr. Áhersla hefur verið lögð á að tryggja að nauðsynlegir innviðir landsins, og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið, sé í stakk búið til að takast á við álagið sem óhjákvæmilega myndast vegna sjúkdómsins hér á landi.

Í þessu samhengi er mikilvægt að minna á að allir geta orðið veikir, en yfirgnæfandi meirihluti fólks verður ekki alvarlega veikur. Fyrst og fremst er það eldra fólk og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma sem eru berskjaldaðir fyrir alvarlegum veikindum. Til að vernda þennan hóp þurfum við að leggjast á eitt um að hefta útbreiðslu veirunnar og þannig tryggja að þessir einstaklingar hafi greiðan aðgang að góðri og skilvirkri heilbrigðisþjónustu, þurfi þeir á henni að halda.

Í upphafi var unnið út frá því að dreifa  álagi vegna sjúkdómsins yfir lengri tíma svo að heilbrigðisstofnanir landsins geti sinnt öllum með sem bestum hætti.  

Markmið og aðgerðir stjórnvalda

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýstu 6. mars sl. yfir hæsta almannavarnastigi  - neyðarstigi - vegna faraldurs veirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Var þetta gert í samræmi við Landsáætlun um heimsfaraldur. Þær aðgerðir sem þá var gripið til vörðuðu lykilstofnanir og fyrirtæki í landinu sem gripu til nauðsynlegra aðgerða til að mæta faraldrinum. Allar aðgerðir í sóttvarnaástandi hafa áhrif á daglegt líf fólks, mismikil þó. Því er gripið til aðgerða sem vitað er að muni skila árangri. Við horfum því til gagnreyndra aðferða sem vitað er að skila árangri, á borð við sóttkví fyrir útsetta , einangrun fyrir smitaða, snemmgreiningu smita og öfluga upplýsingagjöf til almennings. Einnig hefur verið gripið til frekari aðgerða til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og var sett á samkomubann sem miðaðist við 100 manns en það takmarkað enn frekar niður í 20 manns eða færri frá og með 24. mars. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest og birt reglur um sóttkví og einangrun vegna COVID-19. Reglurnar gilda um alla þá einstaklinga sem sóttvarnalæknir skyldar í sóttkví eða einangrun á grundvelli sóttvarnalaga.

Forsenda aðgerðanna er að það sé rík samstaða í samfélaginu um að fylgja ráðleggingum og taka þátt í þessari miklu vinnu. Sóttvarnir varða heilsu einstaklingsins en um leið hag samfélagsins alls. Við erum öll almannavarnir.

Þórólfur sóttvarnalæknir og Alma landlæknir ásamt fleirum fjölluðu í blaðagrein um mikilvægi þess að allir taki höndum saman og fylgi aðgerðum til að sporna við faraldrinum. Til að ná árangri þarf samstillt átak allra.
Kynnt var í blaðagrein spálíkan sem sýnir líklega þróun faraldursins á næstu vikum getur nýst við ákvarðanatöku um samfélagsleg viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu. Vísindafólk hjá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala vinna að líkaninu. Frekari upplýsingar er að finna á covid.hi.is

Stöðuskýrslur almannavarna vegna COVID-19 eru gefnar út alla virka daga.

COVID-19 – hvað er það?

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum. Þær eru þekkt orsök kvefs en aðrar kórónaveirur geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru voru SARS sem barst frá Kína á árunum 2002–2003 og MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.

Gert hefur verið myndband sem skýrir út hvað COVID-19 er.

Tengt efni