Táknmál
Táknmál
Sóttkví, hvernig virkar hún?

Þú þarft að fara í sóttkví þegar þú hefur mögulega smitast en upplifir engin einkenni

Þú gætir hafa smitast ef þú hefur umgengist fólk sem svo greinist með COVID-19.

Aðrir á þínu heimili sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma geta verið samtímis í sóttkví á sama stað. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á heimili sem lýsa því hvað má og má ekki á meðan á sóttkví stendur.

Hafðu samband við heilsugæsluna þína eða netspjall á heilsuvera.is til að fá nánari leiðbeiningar um sóttkví ef þurfa þykir.

Þeir sem þurfa að vera í sóttkví samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda geta sjálfir skráð upplýsingar um það inn á vefinn heilsuvera.is og fengið vottorð þar að lútandi. Vottorðin eru án endurgjalds. Vakin er athygli á því að skráning í heilsuveru krefst þess að notandi sé með rafræn skilríki. Nánari upplýsingar eru á vef Stjórnarráðsins.

Gert hefur verið myndband um heimasóttkví sem útskýrir hvernig það virkar.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Ef aðrir á heimilinu fara í sóttkví en ekki þú

Ef einhver á heimilinu hefur verið útsett(ur) fyrir smiti og fer í sóttkví heima en ekki þú, er æskilegt að þú sért ekki á sama stað. Ef þú vilt ekki eða getur ekki farið af heimilinu er nauðsynlegt að takmarka snertingu eins og þú getur við þann sem er í sóttkví.

Sóttkví vegna COVID-19 eru 14 dagar frá síðasta mögulega smiti eða þar til einkenni koma fram. Ef þú ferð að upplifa einkenni og sýking er staðfest í kjölfarið þarf að fara eftir leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi.

Staðfesting/vottorð um sóttkví

Sjá leiðbeiningar

Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Þeir hafa þá annað hvort farið í sóttkví vegna ferðalaga eða hafa verið skráðir í sóttkví af heilsugæslunni eða rakningateymi samkvæmt fyrirskipun sóttvarnalæknis.

Einstaklingar með rafræn skilríki geta skráð sig sjálfir í sóttkví á heilsuvera.is (eingöngu sóttkví fyrirskipuð af yfirvöldum sbr. að ofan, en ekki sjálfskipuð sóttkví). Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki þá skrá þeir sig í sóttkví á sinni heilsugæslu.
Þegar skráning er frágengin er hægt að sækja vottorð/staðfestingu um sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.  Þetta má sjá nánar hér. Vottorð vegna einangrunar þarf að nálgast hjá þínum lækni.

Tengt efni