Táknmál
Táknmál
Sóttkví, sóttvarnahólf og heimkomusmitgát

Þú þarft að fara í sóttkví þegar þú hefur mögulega smitast en upplifir engin einkenni

Þú gætir hafa smitast ef þú hefur umgengist fólk sem svo greinist með COVID-19.

Aðrir á þínu heimili, sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma, geta verið samtímis í sóttkví á sama stað. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á heimili sem lýsa því hvað má og má ekki á meðan á sóttkví stendur.

Hafðu samband við heilsugæsluna þína eða netspjall á heilsuvera.is til að fá nánari leiðbeiningar um sóttkví ef þurfa þykir.

Þeir sem þurfa að vera í sóttkví samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda geta sjálfir skráð upplýsingar um það inn á vefinn heilsuvera.is og fengið vottorð þar að lútandi. Vottorðin eru án endurgjalds. Vakin er athygli á því að skráning í heilsuveru krefst þess að notandi sé með rafræn skilríki. Nánari upplýsingar eru á vef Stjórnarráðsins.

Gert hefur verið myndband um heimasóttkví sem útskýrir hvernig það virkar.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Ef aðrir á heimilinu fara í sóttkví en ekki þú

Ef einhver á heimilinu hefur verið útsett(ur) fyrir smiti og fer í sóttkví heima en ekki þú, er æskilegt að þú sért ekki á sama stað. Ef þú vilt ekki eða getur ekki farið af heimilinu er nauðsynlegt að takmarka snertingu eins og þú getur við þann sem er í sóttkví.

Sóttkví vegna COVID-19 eru 14 dagar frá síðasta mögulega smiti eða þar til einkenni koma fram. Ef þú ferð að upplifa einkenni og sýking er staðfest í kjölfarið þarf að fara eftir leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi.

Staðfesting/vottorð um sóttkví

Sjá leiðbeiningar

Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Þeir hafa þá annað hvort farið í sóttkví vegna ferðalaga eða hafa verið skráðir í sóttkví af heilsugæslunni eða rakningateymi samkvæmt fyrirskipun sóttvarnalæknis.

Einstaklingar með rafræn skilríki geta skráð sig sjálfir í sóttkví á heilsuvera.is (eingöngu sóttkví fyrirskipuð af yfirvöldum sbr. að ofan, en ekki sjálfskipuð sóttkví). Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki þá skrá þeir sig í sóttkví á sinni heilsugæslu.
Þegar skráning er frágengin er hægt að sækja vottorð/staðfestingu um sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum.  Þetta má sjá nánar hér. Vottorð vegna einangrunar þarf að nálgast hjá þínum lækni.

Uppskipting í sóttvarnahólf

Uppskipting í sóttvarnahólf er sóttvarnaráðstöfun og ein af leiðunum til að takmarka útbreiðslu á COVID-19 á Íslandi. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um uppskiptingu í sóttvarnahólf og eiga þær við um alla hólfaskiptingu utanhúss og innandyra. Helstu reglur um skiptingu í sóttvarnahólf eru:

Fjöldatakmörkun á samkomum fer eftir ákvörðun yfirvalda hverju sinni. Frá og með 31. júlí má hvert rými innan- sem utandyra ekki taka á móti fleiri en 100 manns nema hægt sé að skipta svæðinu upp í 100 manna hólf. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda.
Fylgja þarf 2ja metra reglunni á milli einstaklinga.
Enginn samgangur (blöndun) á að vera á milli hólfa. Það gengur þvert á tilgang fjöldatakmarkanna að hafa 100 manna hólf en mörg hólf safnist svo saman t.d. í sömu veitingasölu.

Um öll svæði gildir að gestir eiga ekki að koma inn á svæði ef þeir:

Eru í sóttkví.
Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu).

Heimkomusmitgát

Frá og með hádegi 31. júlí ber öllum sem til landsins koma (nema börn fædd 2005 og síðar) frá áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur að fara í tvöfalda sýnatöku vegna COVID-19 með ráðstöfunum í samræmi við það sem nefnt hefur verið heimkomusmitgát þar til neikvæð niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku. Fyrri sýnatakan fer fram við landamæri og sú seinni á heilsugæslustöð 4-6 dögum síðar. Ber fólki að viðhafa heimkomusmitgát þar til niðurstöður úr seinni sýntöku eru kunnar. Seinni sýnatakan er gjaldfrjáls og er hægt að fara í sýnatöku víðs vegar um landið. Nánari upplýsingar er að finna í bæklingnum um heimkomusmitgát.

Á meðan á heimkomusmitgát stendur skaltu:

ekki fara á mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir,
ekki vera í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæma hópa,
gæta að tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra,
ekki heilsa með handabandi og forðast faðmlög,
huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Þú mátt:

nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað,
fara í bíltúra,
fara í búðarferðir,
hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.

Ef niðurstaða úr síðara prófi er neikvæð er heimkomusmitgát hætt en jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar.

Heimkomusmitgát á einnig við um þá sem eru að flytja til landsins. Sérstaklega er mikilvægt að aðilar sem starfa hér eða eru við nám í lengri eða skemmri tíma, nýti þetta úrræði til að draga úr hættu á hópsýkingum, t.d. á vinnustað. Gerðar hafa verið leiðbeiningar fyrir vinnuveitendur, verslun og þjónustu um skimanir á landamærum og heimkomusmitgát.

Tengt efni