Táknmál
Táknmál

Sóttkví og sóttvarnahólf

Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki með einkenni. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms.

Úrvinnslusóttkví

Úrvinnslusóttkví er sóttkví sem stendur yfir á meðan unnið er að smitrakningu. Þá fylgir þú þeim leiðbeiningum sem gilda um sóttkví þar til vitað er hvort þú þurfir að fara í sóttkví. Stundum ákveða fyrirtæki eða stofnanir sjálf að senda einstaklinga heim ef smit kemur upp á meðan verið er að meta aðstæður en stundum er það gert að tilmælum rakningateymis. Ekki er gefið út vottorð vegna fjarvista frá vinnu í úrvinnslusóttkví.

Sóttkví í heimahúsi

Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um sóttkví í heimahúsi. Aðrir á þínu heimili, sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma, geta verið samtímis í sóttkví á sama stað.

Börn í sóttkví

Það er mörgum erfitt að vera stíað frá vinum og ættingjum vegna sóttkvíar. Það er enn erfiðara fyrir börn, sérstaklega ung börn, sem ekki skilja vel tilganginn með þessum ráðstöfunum. Til eru leiðbeiningar og tillögur til forráðamanna barna um dægradvöl í sóttkví og hvernig hægt sé að útskýra sóttkví fyrir börnum. Jafnframt hafa verið gerðar leiðbeiningar til forráðamanna barna með sértækar umönnunarþarfir í sóttkví.

Ef börnin hafa ekki þroska eða getu til að vera ein í sóttkví þarf einhver að fara með barninu í sóttkví, t.d. foreldri þess. Sá/sú sem fer í sóttkví með barninu þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun með barninu ef valin er 7 daga sóttkví. Ef aðrir á heimilinu dvelja áfram þar sem barn er í sóttkví, þarf að tryggja nándarmörk og passa upp á þrif og sótthreinsun.
Ef foreldrar stálpaðra barna sem fara í sóttkví (útsetning í skóla eða tómstundum) geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum, geta þeir stundað áfram vinnu á vinnustað.
Börn sem hafa þroska og getu til að vera á heimili þar sem einhver er í sóttkví (sinna hreinlæti og fylgja fjarlægðarmörkum) geta áfram stundað skóla.

Ef aðrir á heimilinu fara í sóttkví en ekki þú

Ef einhver á heimilinu hefur verið útsett/ur fyrir smiti og fer í sóttkví heima en ekki þú, er mikilvægt að þú sért ekki á sama stað. Ef þú vilt ekki eða getur ekki farið af heimilinu er nauðsynlegt að passa upp á sóttvarnir og nándarregluna gagnvart þeim sem er í sóttkví.

Staðfesting/vottorð um sóttkví

Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Þeir hafa þá annað hvort farið í sóttkví vegna ferðalaga eða hafa verið skráðir í sóttkví af heilsugæslunni eða rakningateymi samkvæmt fyrirskipun sóttvarnalæknis. Gert hefur verið myndband um hvernig sótt er um vottorð inni á heilsuveru.is Þeir sem þurfa að vera í sóttkví samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda geta farið inn á heilsuveru.is og fengið vottorð. Þau eru án endurgjalds. Skráning í heilsuveru krefst þess að notandi sé með rafræn skilríki.

Einstaklingar með rafræn skilríki geta skráð sig sjálfir í sóttkví á heilsuvera.is (eingöngu sóttkví fyrirskipuð af yfirvöldum sbr. að ofan, en ekki sjálfskipuð sóttkví). Ef einstaklingar eru ekki með rafræn skilríki þá skrá þeir sig í sóttkví á sinni heilsugæslu.
Þegar skráning er frágengin er hægt að sækja vottorð/staðfestingu um sóttkví á heilsuvera.is með rafrænum skilríkjum. Vottorð vegna einangrunar þarf að nálgast hjá þínum lækni.

Leiðbeiningar fyrir einstaklinga í sóttkví vegna heimsóknar á Íslandi / komu til landsins

Þeir sem koma til Íslands eftir að hafa verið á áhættusvæðum erlendis þurfa að fara í sóttkví. Sóttkví með tilliti til COVID-19 varir í 14 daga skv. reglum hér á landi. Sóttkví eftir ferðalag á áhættusvæði er hægt að stytta með sýnatöku til veiruleitar (PCR próf) og greiningar COVID-19 sjúkdóms við komuna til landsins og aftur að 6-7 dögum liðnum frá komu. Nánari upplýsingar er að finna í leiðbeiningum um sóttkví vegna heimsóknar á Íslandi.

Vinnusóttkví

Líkt og verið hefur getur sóttvarnalæknir heimilað einstaklingum, einum eða fleiri saman, sem skylt er að fara í sóttkví og eru komnir hingað til lands til starfa eða til að sinna sérstökum verkefnum að fara í vinnusóttkví í stað heimasóttkvíar. Með vinnusóttkí er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað á meðan sóttkví stendur. Ákvæði um fyrirkomulag vinnusóttkvíar eru óbreytt.

Uppskipting í sóttvarnahólf

Uppskipting í sóttvarnahólf er sóttvarnaráðstöfun og ein af leiðunum til að takmarka útbreiðslu á COVID-19 á Íslandi. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um uppskiptingu í sóttvarnahólf og eiga þær við um alla hólfaskiptingu utanhúss og innandyra. Helstu reglur um skiptingu í sóttvarnahólf eru:

Fjöldatakmörkun á samkomum fer eftir ákvörðun yfirvalda hverju sinni.
Fylgja þarf 2 metra nándarreglu á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.
Enginn samgangur (blöndun) á að vera á milli hólfa.

Um öll svæði gildir að gestir eiga ekki að koma inn á svæði ef þeir:

Eru í sóttkví.
Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
Eru með einkenni um COVID-19 (hósta, hita, hálssærindi, kvefeinkenni, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu).
Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.