Táknmál
Táknmál
Hvað þýðir samkomubann?

Nýjustu upplýsingar

Samkomubannið nær frá og með 24. mars til skipulagðra viðburða þar sem fleiri en 20 manns koma saman. Við öll minni mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli fólks sé yfir tveir metrar.

Skipulagðir viðburðir sem bannið nær til eru til dæmis:

Ráðstefnur, málþing, fundir og hliðstæðir viðburðir.
Skemmtanir, s.s. tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi.
Trúarathafnir hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.
Aðrir sambærilegir viðburðir með 20 einstaklingum eða fleiri.

Eftirfarandi starfsemi er óheimil og verður lokað frá og með þriðjudeginum 24. mars:

Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaðir, spilasalir, spilakassar og söfn.
Starfsemi þar sem nálægð er mikil er bönnuð og gildir það t.a.m. um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og aðra slíka starfsemi. Sjúkraþjálfun sem er mikilvæg vegna endurhæfingar er heimil með skilyrðum um öflugar sóttvarnaráðstafanir.
Allt íþróttastarf barna og fullorðinna er bannað.

Allar undanþágur vegna sóttkvíar eru afnumdar frá og með 24. mars og þurfa þeir sem slíkt hafa fengið að sækja um að nýju. Eingöngu verða veittar undanþágur vegna innviða sem eru ómissandi þegar kemur að því að bjarga mannslífum og mega því ekki stöðvast. Þetta á m.a.  við um heilbrigðisstarfsemi, sjúkraflutninga, löggæslu, slökkvilið, samgöngur, raforku og fjarskipti.  

Matvöruverslanir og lyfjabúðir

Matvöruverslanir og lyfjabúðir mega engu að síður hafa allt að 100 manns inni í einu að því gefnu að gætt sé að því að hafa 2 metra á milli manna. Þá er matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 fermetrar að stærð heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavini inn fyrir hverja 10 fermetra umfram 1.000 fermetra, þó að hámarki 200 viðskiptavinum í allt.

Hvernig verður skólahaldi háttað?

Töluverðar takmarkanir eru á skólahaldi á meðan á samkomubanni stendur en um þær er fjallað í sérstakri auglýsingu heilbrigðisráðherra. Í mörgum tilfellum geta nemendur ekki mætt í skólabyggingar heldur stunda nám í fjarkennslu. Í öðrum tilfellum eru strangar kröfur settar um fjölda og nálægð nemenda.

Takmarkanirnar gilda um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en einnig aðrar menntastofnanir, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.

Framhaldsskólabyggingar og háskólabyggingar  eru lokaðar og kennsla fer fram í fjarkennslu eins og hægt er.
Grunnskólar mega hafa kennslu í skólabyggingum ef þeir tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern dag.
Leikskólar mega hafa opið og halda uppi leikskólastarfi ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er. Eins þarf að þrífa eða sótthreinsa leikskólabyggingarnar eftir hvern dag.
Hlé er gert á íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu.
Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla, sjá leiðbeiningar um börn og samkomubann.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar um samneyti barna og ungmenna utan skóla.  

Þessar takmarkanir verða í stöðugu endurmati þannig að hægt sé að draga úr þeim eða þá lengja tímabilið sem þær gilda ef þörf þykir.

Hvað fellur ekki undir samkomubann?

Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa. Hvatt er til öflugra sóttvarnaráðstafana og að rekstraraðilar grípi til ýtrustu ráðstafana til að minnka möguleika á smiti.

Hvenær lýkur samkomubanninu?

Samkomubannið gildir til og með 12. apríl en lengd þess verður endurskoðuð ef þurfa þykir.

Hvers vegna eru aðgerðir í samkomubanni hertar?

Samkomubanni, með banni við samkomum 100 manns eða fleiri, var komið á 15. mars í þeim tilgangi að stemma stigu við hraðri útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Síðan þá hefur faraldurinn sótt í sig veðrið hér á landi og smitum farið fjölgandi.

Smit á Íslandi hefur nú þegar haft nokkur áhrif á getu Landspítala til að veita heilbrigðisþjónustu og kallar það á frekari viðbrögð til að varna því að veiran breiðist hratt út. Nauðsynlegt er að hægja á faraldrinum enn frekar til að auka líkur á því að heilbrigðiskerfið geti sinnt þeim sem veikjast af COVID-19 ásamt því að sinna annarri bráðaþjónustu. Í þessu skyni telur sóttvarnalæknir nauðsynlegt að herða á aðgerðum í samkomubanni og takmarka enn frekar en áður samgang fólks á milli.

Tengt efni