Táknmál
Táknmál
Hvernig forðast ég smit? Á Íslandi og erlendis


Þú getur varið þig og aðra gegn smiti með því að fylgja þessum ráðum

Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti.
Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum. 
Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina eða einnota klúta. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.
Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu.
Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.
Ef þú ert eldri borgari eða með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma er ráðlagt að halda sig fjarri mannamótum og fjöldasamkomum.
Forðastu að umgangast fólk sem er með einkenni sem minna á flensu.
Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímsem hylur nef og munn. Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um notkun á hlífðargrímum. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri og að rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingahættu. Jafnframt gerir einnota gríma, sem notuð er oftar en einu sinni, ekkert gagn og getur einnig aukið sýkingarhættu. Hlífðargríma, sem hylur ekki bæði nef og munn eða er höfð á enni eða undir höku, gerir heldur ekkert gagn. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að lágmarki uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna CEN.

Gert hefur verið myndband sem útskýrir mikilvægi handþvottar sem hluta af sóttvörnum, lengri útgáfa og styttri útgáfa.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Leiðbeiningar fyrir Íslendinga á ferð erlendis

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir Íslendinga á ferð erlendis. Þar er fjallað um notkun hlífðargríma, sýkingavarnir sem hver og einn þarf að viðhafa, ekki hvað síst erlendis og hvað skal gera við heimkomu.

Mjög mikilvægt er að ferðast ekki ef einkenni um smit eru til staðar. Æskilegt er að hver og einn kanni, áður en lagt er í ferð, hvaða reglur gilda í því landi sem farið er til með því að skoða upplýsingar á vef utanríkisráðuneytisins.

Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum til áhættusvæða en mörg lönd eru enn skilgreind sem áhættusvæði.

Heimkomusmitgát

Reynslan sýnir að mesta hættan á að fá smit inn í landið felst í því þegar fólk með fasta búsetu á Íslandi, eða þétt tengslanet, kemur frá útlöndum og á í miklum samskiptum við stóra hópa án þess að vita að það sé smitandi af COVID-19. Þess vegna hafa verið settar sérstakar reglur um einstaklinga sem falla undir þessa skilgreiningu. Mikilvægt er því að kynna sér leiðbeiningar um heimkomusmitgát.

Tengt efni