Táknmál
Táknmál

Ferðir til útlanda

Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum til áhættusvæða en öll lönd og svæði erlendis eru nú skilgreind sem áhættusvæði vegna COVID-19.

Gefnar hafa verið út ráðleggingar fyrir Íslendinga á ferð erlendis. Þar er fjallað um notkun hlífðargríma, sýkingavarnir sem hver og einn þarf að viðhafa, ekki hvað síst erlendis og hvað skal gera við heimkomu.

Mjög mikilvægt er að ferðast ekki ef einkenni um smit eru til staðar. Æskilegt er að hver og einn kanni, áður en lagt er í ferð, hvaða reglur gilda í því landi sem farið er til með því að kynna sér ferðaráð utanríkisráðuneytisins.

Vottorð um neikvætt PCR-próf

Núgildandi reglur gera ráð fyrir að allir sem koma frá áhættusvæðum m.t.t. COVID-19 til Íslands fari í 14 daga sóttkví eða velji skimun og stytti sóttkví. Frá 19. ágúst 2020 felur skimun í sér sýnatöku við landamærin og aftur 6-7 dögum síðar ef fyrsta sýni er neikvætt. Á milli fyrstu og annarrar sýnatöku þarf að fylgja reglum um sóttkví. Ef seinna sýnið er neikvætt er sóttkví aflétt.

Eftirfarandi vottorð eru tekin gild og þá er sóttkví og sýnataka undanþegin þegar komið er til landsins:

• Vottorð sem staðfesta fyrri COVID-19 sýkingu á Íslandi og afléttingu einangrunar, á grundvelli ætlaðs ónæmis fyrir SARS-CoV-2. Framvísa þarf læknisvottorði eða staðfestingu frá sóttvarnalækni.

• Vottorð sem staðfesta mótefnamælingu á vegum Landspítala, Íslenskrar erfðagreiningar eða annarrar rannsóknarstofu hérlendis ef mótefni eru til staðar, á sama grundvelli. Framvísa þarf læknisvottorði eða staðfestingu frá sóttvarnalækni.

Aðstoð borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins

Mikilvægt er að fólk sem á í erfiðleikum með að komast burtu þaðan sem það er statt hafi samband við borgaraþjónustuna með tölvupósti á netfangið hjalp@utn.is eða með skilaboðum á Facebook. Í neyð er hægt að hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, 545 0112. Þar eru veittar upplýsingar allan sólarhringinn.

Helstu upplýsingar um réttindi ferðafólks vegna COVID-19 er að finna á síðu Ferðamálastofu.