Táknmál
Táknmál
Ferðalög á Íslandi

Forskráning vegna komu til Íslands

Rakning C-19 appið - upplýsingar og leiðbeiningar

Landamæri Íslands eru opin íbúum og ríkisborgurum EES og Sviss en Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ytri landamærum Schengen-svæðisins, sem nú eru í gildi.

Komufarþegar eiga kost á að fara í sýnatöku á landamærum í stað 14 daga sóttkvíar.

Frá og með hádegi 31. júlí eiga allir (fyrir utan börn fædd 2005 og síðar) sem hingað koma frá há-áhættusvæðum og dvelja hér 10 daga eða lengur að fara í tvöfalda sýnatöku vegna COVID-19 með ráðstöfunum sem nefnast heimkomusmitgát þar til neikvæð niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku. Fyrri sýnatakan fer fram við landamæri og sú seinni á heilsugæslustöð 4-6 dögum síðar. Fólk á að fylgja leiðbeiningum um heimkomusmitgát þar til niðurstöður úr seinni sýntöku eru kunnar. Seinni sýnatakan er gjaldfrjáls og er hægt að fara í sýnatöku víðs vegar um landið (sjá staðsetningar neðar á síðunni undir liðnum Seinni sýnataka).

Komufarþegum með íslenskan ríkisborgararétt, lögheimili á Íslandi og/eða tengslanet í íslensku samfélagi ber að fara í tvöfalda sýnatöku óháð dvalartíma þeirra á Íslandi.

Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa hvorki að fara í sýnatöku né sóttkví. Það á einnig við um komufarþega sem koma frá löndum skilgreindum utan há-áhættusvæða (Grænland, Færeyjar, Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland) og hafa dvalið þar að minnsta kosti í 14 daga. Þetta á einnig við um Íslendinga sem snúa aftur heim frá ofangreindum löndum en þeir eru hvattir til að sýna varúð í fjórtán daga eftir heimkomu, viðhalda einstaklingsbundnum smitvörnum og forðast á þeim tíma samneyti við viðkvæma einstaklinga.

Öllum farþegum ber að fylla út skráningarform fyrir komu, fara eftir sóttvarnareglum og þeir eru hvattir til að hlaða niður smáforritinu, Rakning C-19.

Mælt er með því að fólk sem er á ferðalagi kynni sér ferðaráð stjórnvalda vegna COVID-19  og kynna sér vel upplýsingar um flugáætlanir sem hafa verið staðfestar. Einnig er mikilvægt fyrir erlent ferðafólk sem hugar að ferð til Íslands að kynna sér ferðatakmarkanir á Íslandi.

Mikilvægt er að fólk sem á í erfiðleikum með að komast burtu þaðan sem það er statt hafi samband við borgaraþjónustuna með tölvupósti á netfangið hjalp@utn.is eða með skilaboðum á Facebook.

Fylgstu vel með tilmælum yfirvalda, t.d.ferða- og samkomutakmörkunum á þeim svæðum sem þú heimsækir og aðlagaðu ferðaáætlanir eins og þurfa þykir.
Gættu vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
Ferðamálastofa hefur tekið saman helstu upplýsingar um réttindi fólks vegna ferðalaga. Einnig er gott að þú hafir samband við tryggingafélagið þitt vegna skilmála ferðatrygginga.

Það sem þú þarft að vita:

Fyrir ferðina

Farþegum ber skylda til að fylla út forskráningarform [á covid.is] áður en þeir koma þar sem fram koma m.a. upplýsingar um nafn, kennitölu/fæðingardag, flug, dvalartíma, dvalarstaði, símanúmer á meðan á Íslandsdvöl og hvaða löndum þeir hafa dvalið í undanfarið.

Sóttvarnaráðstafanir flugvalla, flugfélaga og hafna

Til eru leiðbeiningar fyrir flugrekstraraðila, flugvelli og áhafnir varðandi sóttvarnaráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugbél sem taka mið af viðmiðum EASA-ECDC og ber farþegum að fylgja þeim. Sambærilegar leiðbeiningar eru til fyrir hafnir, umboðsmenn og áhafnir skipa.

Sóttvarnaráðstafanir á landamærum

Farþegum er gerð grein fyrir því í forskráningarformi að við komuna til landsins beri þeim að velja á milli þess að sæta tveggja vikna sóttkví eða undirgangast PCR-próf eða kjarnsýrumælingu (e. Polymerase Chain Reaction) við komu til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni, sem veldur COVID-19. Undanþegnir þessum skilyrðum eru einstaklingar sem hafa dvalið á lágáhættusvæðum sl. 14 daga og koma til Íslands til skemmri dvalar sem ferðamenn og börn fædd 2005 eða síðar og áhafnir flugvéla og flutningaskipa búsettar á Íslandi. Að svo stöddu verður ekki hægt að framvísa vottorðum um niðurstöðu fyrri PCR-prófa við komu. Þeir sem hafa staðfesta sýkingu á Íslandi eru eins og áður undanþegnir sóttkví við komu aftur til landsins.

Flugvellir og hafnir

Boðið verður upp á sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og á Seyðisfirði. Komufarþegar á öðrum alþjóða-flugvöllum (Akureyri, Egilsstaðir, Reykjavík) og höfnum þurfa að fara í sýnatöku á heilsugæslu á staðnum. Forskráning farþega mun upplýsa farþega, stytta biðtíma á flugvelli, einfalda framkvæmd sýnatöku og aðstoða við rakningu ef þörf er á.

Upplýsingar um próf á landamærum

Komufarþegar greiða 9 þúsund kr. fyrir hvert próf ef greitt er við forskráningu ekki síðar en einum degi fyrir komu en 11 þúsund kr. ef greitt er við komu til landsins. Þó greiðir hver einstaklingur aldrei meira en 22 þúsund kr. á hverju 30 daga tímabili.

Heimkomusmitgát

Í kjölfar sýnatöku á landamærum er komufarþegum gert að viðhafa heimkomusmitgát þar til niðurstöður úr seinni sýnatöku eru kunnar.

Um einstaklinga sem ber að viðhafa heimkomusmitgát gildir að þeir skuli:

• ekki fara á mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir,

• ekki vera í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæma hópa,

• gæta að tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra,

• ekki heilsa með handabandi og forðast faðmlög,

• huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Einstaklingum sem ber að viðhafa heimkomusmitgát er hins vegar heimilt að:

• nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað,

• fara í bíltúra,

• fara í búðarferðir,

• hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.

Seinni sýnataka

Einstaklingar sem viðhafa heimkomusmitgát þurfa að fara í aðra sýnatöku fjórum til sex dögum eftir komu til landsins. Seinni sýntakan fer fram á heilsugæslustöðvum. Boðið er upp á hana víðs vegar um landið og er hún gjaldfrjáls. Ef niðurstaða úr síðari sýnatöku er neikvæð  þarf fólk ekki lengur að viðhafa heimkomusmitgát en jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar.

Í Reykjavík er sýnataka að Suðurlandsbraut 34, 108 Reykjavík, jarðhæð, á milli kl. 10:00 og 15:00 mánudag til föstudags. Ekki þarf að panta tíma.

Á landsbyggðinni þarf að bóka tíma á viðeigandi heilsugæslustöð milli kl. 8-16. Eftirfarandi stöðvar bjóða upp á seinni sýnatöku:

Suðurnes: HSS, Skólavegi 6, 230 Reykjanesbæ. Sími: 4220500.

Selfoss: HSU, v/Árveg, 800 Selfoss. Sími: 4322000.

Vestmannaeyjar: HSU, Sólhlíð 10, 900 Vestmannaeyjar. Sími: 4322500.

Höfn í Hornafirði: HSU, Víkurbraut 26-31, 780 Höfn. Sími: 4708600.

Egilsstaðir: HSA, Laugarás 17-19, 700 Egilsstaðir. Sími: 4703000.

Akureyri: HSN, Hafnarstræti 99, 600 Akureyri. Sími: 4324600.

Ísafjörður: HVEST,Torfnesi, 400 Ísafjörður. Sími: 4504500.

Borgarnes: HVE, Borgarbraut 65, 310 Borgarnes. Sími: 4321430.

Stykkishólmur: HVE, Austurgötu 7, 340 Stykkishólmur. Sími: 4321200.

Ferli fyrir smitaða einstaklinga

Jákvætt próf við komuna til landsins getur, eftir aðstæðum, leitt til frekari rannsókna til að kanna hvort um virkt smit sé að ræða. Sé um virkt smit að ræða ber viðkomandi að fara í einangrun. Þeir sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í einangrun, skulu dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að bera kostnað af því. Smituðum einstaklingum ber að veita smitrakningarteymi upplýsingar um hverja þeir hafa umgengist frá því tveimur dögum áður en einkenna varð vart, eða frá því að smit greinist í einkennalausum einstaklingi.

Upplýsingar fyrir þá sem velja að fara í sóttkví

Upplýsingar um sóttkví er að finna á covid.is. Vakin er athygli á því að brot á sóttkví eða einangrun geti leitt til sekta og aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir brot.

Ferli fyrir einstaklinga sem skipað er í sóttkví

Neikvæð niðurstaða úr sýnatöku á landmærum kemur ekki í veg fyrir að einstaklingur verði að fara í sóttkví ef í ljós kemur að hann hefur verið útsettur fyrir smiti, s.s. vegna þess að smitaður einstaklingur sat nálægt honum í flugvél.

Smitrakningarteymi hefur samband við þá sem hafa verið í nánd við smitaðan einstakling frá því tveimur dögum áður en einkenna varð vart, t.d. umgengist hann lengur en 15 mínútur í minna en 2ja metra fjarlægð, verið í beinni snertingu við viðkomandi eða teljast hafa verið í nánd við smitaðan einstakling í flugvél. Þessum einstaklingum kann að vera gert að fara í sóttkví ef talið er að viðkomandi sé smitandi.

Eftirfarandi leiðbeiningar eiga við ef viðkomandi voru með grímu (maska) í flugi og gættu fyllstu varúðar eins og mælt er með. Ef það á ekki við þarf að meta aðstæður hverju sinni og sóttkví mögulega útvíkkuð. Rakning fer fram fyrir þá einstaklinga sem sátu í 2 sætaröðum umhverfis þann sem er talinn smitandi. Miðað er við 24 klst. áður en einkenni hans komu fram (24 klst. frá greiningu ef einkennalaus). Þessir farþegar verða látnir vita um útsetningu. Aðeins farþegar sem sitja við hlið hins smitandi einstaklings eru skilgreindir sem náin tengsl (há áhætta). Ef sá sem er smitandi sat við gang þá er einstaklingur hinum megin við ganginn ekki talinn sem náin tengsl (nema einhver önnur ástæða gefi tilefni til slíks s.s. ferðafélagi/fjölskylda, bein snerting, hóstað eða hnerrað á).

Með þessu verða yfirleitt 1−2 taldir sem náin tengsl (há áhætta fyrir útsetningu), aðrir eru taldir með tengsl en lága áhættu fyrir útsetningu. Endanleg ákvörðun er tekin af rakningateymi.

Erlendir ríkisborgarar sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í sóttkví, skulu dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að þeir beri kostnað af því.

Einstaklingar sem leita læknisþjónustu

Greining, meðferð og eftirlit tilkynningarskyldra sjúkdóma, þar með talið COVID-19, er sjúklingi að kostnaðarlausu. Þetta á ekki við um valkvæða sýnatöku vegna COVID-19.

Á meðan á dvöl stendur

Allir eru hvattir til að gæta að sóttvörnum, svo sem handþvotti, sótthreinsun og 2ja metra nándar-mörkum, og virða gildandi reglur um sóttvarnir.

PCR-próf hjá einkennalausum einstaklingum er ekki óyggjandi próf til að greina SARS-CoV-2 veiruna, sem veldur COVID-19. Ferðamenn eru hvattir til að hlaða niður og nota COVID-19 appið Rakning C-19. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um COVID-19 og hvernig nálgast á heilbrigðisþjónustuna. Einnig eru þeir hvattir til að fylgjast vel með covid.is vefsíðunni. Þar eru ávallt nýjustu upplýsingar og tilkynningar til ferðamanna að finna.

Ferðamenn eru hvattir til að huga að heilsu sinni. Þeir sem veikjast eða telja sig vera með COVID-19 einkenni geta haft samband við Læknavaktina í gegnum Rakning C-19 appið, covid.is, heilsuvera.is, í síma 1700 eða í síma +354 544 4113 sé hringt úr erlendu símanúmeri.

Mælst er til þess að allir virði 2ja metra nándarmörk í samskiptum eins og kostur er. Slíkt er mikilvægur hluti smitvarna og skulu allir sem þess óska eiga rétt á að halda slíkri fjarlægð.

Í neyð getur þú haft samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, 545 0112. Þar færðu upplýsingar allan sólarhringinn.

Hér má sjá lista yfir gististaði sem taka vel á móti fólki sem þarf að dvelja í sóttkví.

Sjá einnig Ferðamálastofa - upplýsingar til ferðaþjónustuaðila.

Ef þú starfar í ferðaþjónustu þar sem smit kemur upp þarf ákveðið ferli að fara í gang samkvæmt leiðbeiningum.

Sjá einnig leiðbeiningar fyrir tjaldsvæði, hjólhýsasvæði, skála ferðafélaga, lítil gistihús, skipulagðar ferðir og afþreyingu utandyra


Tengt efni