Táknmál
Táknmál

Einangrun

Einangrun er fyrir þá sem eru með staðfesta COVID-19 sýkingu en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda. Þá þarftu að fylgja leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi og vera heima eða á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina. Á meðan þú ert í einangrun mun heilbrigðisstarfsfólk vera í reglulegu sambandi við þig. Fleiri en einn sem greinst hafa með smit mega dveljast saman í einangrun.

Einangrun er strangara úrræði en sóttkví og leggur því auknar kröfur á þann sem er í einangrun umfram þær sem gilda um sóttkví.

Annað heimilisfólk getur verið í sóttkví á sama stað ef það vill ekki fara af heimilinu. En þá þarf að takmarka snertingu við þann sem er í einangrun eins og raunhæft er, helst að halda sig tveggja metra fjarlægð frá hinum smitaða. Ef fleiri veikjast á heimilinu lengir það tímann sem annað heimilisfólk þarf að vera í sóttkví.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Hvernig er einangrun aflétt eftir COVID-19 sýkingu?

Ákvörðun hefur verið tekin af Covid göngudeild, smitsjúkdómalæknum Landspítala og sóttvarnalækni að almennt hraustir einstaklingar með engin eða væg einkenni geti útskrifast úr einangrun ef komnir eru a.m.k. 10 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni og þeir hafa verið alveg einkennalausir í a.m.k. 3 daga. Hverjir uppfylli þessi skilyrði er metið af Covid göngudeild í hverju tilfelli.


Læknar COVID-19-teymis Landspítala sjá um útskriftarsímtöl fyrir fólk sem útskrifast úr einangrun. Viðkomandi þurfa bæði að uppfylla eftirfarandi skilyrði og staðfesta það í samtali við lækni:

Að komnir séu a.m.k. 14 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni (greiningarsýni).
Að hafa verið einkennalaus í 7 daga.

Sérstök tilvik

Einkennalausir einstaklingar: Krafist er að einstaklingur hafi verið hitalaus og laus við slappleika/veikindatilfinningu, hósta, mæði og nefrennsli í viku eða 14 daga frá jákvæðu prófi.

Sambýlisfólk í sóttkví og einangrun saman: Aflétta má sóttkví sambýlismanna þess sem var í einangrun þegar liðnir eru 14 dagar frá seinustu útsetningu (bein snerting, náin umgengni, deilt salerni, nálægð undir 1–2 m í 15 mín. eða meira) þeirra fyrir veika einstaklingnum. Sambýlisfólk á við alla á sama heimili, einnig börn.

Sambýlisfólk allt í einangrun saman: Þegar fyrsta einstaklingnum í hópnum batnar, er hægt að leysa hann úr einangrun (sbr. að ofan) með því skilyrði að hinir veiku verði áfram í einangrun gagnvart hinum læknaða og öðrum. Ef ekki er hægt að aðskilja hinn læknaða frá hinum sem ennþá eru veikir, verður að hafa þá alla saman og er þá einangrun ekki aflétt fyrr en sá seinasti útskrifast úr einangrun. Mikilvægt er að allt heimilisfólk þrífi sig og heimili vel áður en einangrun er aflétt. Sambýlisfólk á við alla á sama heimili, einnig börn

Heilbrigðisstarfsfólk: Sömu reglur og um aðra, þarf þó að huga að verkefnum viðkomandi þegar hann snýr aftur til starfa (viðkvæmir hópar). Læknir og yfirmaður meta hvert tilfelli fyrir sig.