Grátt ástand - sóttvarnir í fyrirrúmi. Óveruleg áhrif á daglegt líf fólks. Almenningur þarf að sinna persónulegum sóttvörnum og fara með gát. Grár er lægsta hættustigið og áhrifin eru einna helst á ferðir fólks milli landa, stærri samkomur og daglegt hreinlæti. Við þessar aðstæður mun ákveðin starfsemi þurfa að búa við skerðingar til lengri tíma. Grár er nýja normið okkar á meðan heimsfaraldurinn stendur yfir.
Gult ástand - hertar sóttvarnir. Nokkur eða staðbundin áhrif á daglegt líf fólks, sem og takmarkanir á þjónustu og samkomum. Aukin hætta er á sýkingum, en þó þannig að sóttvarnaaðgerðir eru sértækar og er beint að þeim stöðum og þjónustu þar sem sýkingarhættan er mest. Fólk í áhættuhópum þarf að sýna aukna aðgát sem og þjónustuaðilar viðkvæmra hópa.
Appelsínugult ástand - mikil fjöldatakmörkun. Miðlungs eða miklar líkur á að faraldurinn hafi veruleg áhrif á samfélagið og daglegar athafnir fólks. Skerðing á þjónustu og samkomum er töluverð, sýkingarhætta hefur aukist og fólk beðið að halda sig innan síns nána tengslahóps og fara sérstaklega varlega í kringum einstaklinga í viðkvæmum hópum. Hætta er á að heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi.
Rautt ástand - mikil fjöldatakmörkun. Miklar líkur á mjög miklum samfélagslegum áhrifum. Strangar og íþyngjandi sóttvarnaaðgerðir á samkomum og jafnvel ferðum fólks innanlands. Mikil hætta á smitum og fólk beðið að halda sig innan síns nánasta tengslahóps og fara sérstaklega varlega í þjónustu og umgengni við viðkvæma hópa. Heilbrigðiskerfið er við þolmörk og álag á viðbragðsaðila mikið.