Bólusetning við COVID-19
fyrir börn og ungmenni

Það er ekki hættulegt að fá sprautu gegn COVID-19. Aukaverkanir geta komið eftir bólusetningu en alvarlegar aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar. Það er verra að fá COVID-19 sjúkdóminn, líka fyrir börn.

Á Íslandi er bóluefni frá fyrirtækinu Pfizer/BioNTech notað fyrir 12–17 ára. Þetta bóluefni hefur leyfi frá Lyfjastofnun til notkunar fyrir börn og hefur verið gefið börnum í mörgum löndum með góðum árangri.

Bóluefnin eru ný lyf en það er búið að rannsaka þau mjög vel og gefa þau milljónum fullorðinna og barna undir miklu eftirliti.  Vísindamenn hafa staðfest að það er öruggara að fá bólusetningu heldur en COVID-19 sjúkdóminn, bæði fyrir börn og fullorðna. Alvarleg veikindi eða langtímaáhrif eftir COVID-19 veikindi eru líklegri fyrir alla sem mega fá bólusetningu heldur en alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu. Þess vegna er mælt með bólusetningu fyrir alla 12 ára og eldri. Bráðum kemur í ljós hvort yngri börn mega fá bólusetningu líka.

Enginn er neyddur til að fá sprautu sem vill það ekki og mikilvægt að tala um það við foreldra/forráðamenn og ákveða það saman hvort þú færð bólusetningu.

Hvernig er bólusetningin gerð?

Mamma, pabbi eða annar fullorðinn sem ber ábyrgð á þér samkvæmt lögum (forráðamaður) þarf að vera með þér ef þú ert ekki orðin(n) 16 ára. Sá sem kemur með mun vera hjá þér allan tímann.
Það má nota símann á meðan þú bíður, en það má ekki taka myndir.
Hjúkrunarfræðingur sem kemur og gefur þér sprautuna talar við þig og útskýrir allt sem gert er, en sprautað er í handlegginn við öxlina. Þú ræður hvoru megin.
Flestir sitja þegar bólusetningin er gerð en það má líka biðja um að fá að liggja. Það er sérstakur staður fyrir þá sem eru kvíðnir eða vilja leggjast. Þú hefur kannski fengið sprautu (bólusetningu) áður og þessi sprauta er lík því. Flestum finnst það ekki vont en kannski smá óþægilegt.
Það tekur mjög stuttan tíma að fá sprautuna en það þarf að bíða í 15 mínútur eftir hana áður en þú mátt fara, því sumir hafa ofnæmi fyrir bóluefninu án þess að vita það fyrirfram.
Ef þér líður illa á undan eða eftir sprautuna er mikilvægt að þú látir vita, t.d. ef þér verður óglatt, finnst þú máttlaus, svimar eða líður skringilega í höfðinu, munninum, hálsinum eða finnst skrítið eða erfitt að anda. Það eru hjúkrunarfræðingar á svæðinu sem geta hjálpað.
Bólusetningin er samtals tvær sprautur og eru yfirleitt 3 vikur á milli þeirra. Það er mikilvægt að fá báðar sprauturnar svo bóluefnið virki sem best. Það er líka í lagi að það líði aðeins lengra en 3 vikur ef það hentar betur.


Get ég fengið aukaverkanir eftir bólusetninguna?

Öll lyf geta haft aukaverkanir, líka bólusetningar. Það er mælt með bólusetningu ef sjúkdómurinn sem hún verndar fyrir er algengur og hættulegri en bólusetningin.  


Algengustu aukaverkanir bólusetningar vegna COVID-19

Óþægindi í handlegg eftir bólusetninguna
Hiti
Höfuðverkur eða verkir í líkamann (bein- eða vöðvaverki)
Þreyta í einn eða tvo daga

Þessar aukaverkanir gerast oftar eftir seinni sprautuna. Það má nota verkjalyf ef þarf til að líða betur á meðan aukaverkanir ganga yfir. Þótt manni geti liðið illa meðan þær ganga yfir eru þessar aukaverkanir ekki hættulegar.

Sjaldgæfari aukaverkanir eftir þetta bóluefni eru bólgur í poka í kringum hjartað sem er kallað gollurshús eða enn sjaldnar í hjartanu sjálfu. Þessar aukaverkanir koma frekar eftir bólusetningu hjá ungu fólki heldur en gömlu, hjá drengjum frekar en stúlkum og gerast oftast 3-4 dögum eftir seinni skammtinn. Þá getur komið skrítinn hjartsláttur, verkur í brjóstið, hraður andardráttur eða verið óþægilegt að anda djúpt. Þótt þessar aukaverkanir geti verið óþægilegar og jafnvel ógnvekjandi, þá jafna flestir sig alveg með hvíld og bólgueyðandi verkjalyfjum. Það getur tekið nokkrar vikur að jafna sig.

Verið er að skoða hvort breytingar á tíðahring, bæði litlar eða miklar blæðingar, hafi tengsl við bólusetningu með þessu bóluefni en það er ekki ennþá vitað.

Það á að láta einhvern fullorðinn sem þú treystir vita ef eitthvað gerist eftir bólusetninguna sem þú heldur að geti verið aukaverkun.

Tilkynna brot

Til baka á forsíðu