Hlutfall bólusettra 12 ára eldri
Uppfært síðast
16.12.2021
1.4
%
Hálfbólusettir
90.1
%
Fullbólusettir

Upplýsingar og tölfræði
vegna bólusetningar gegn COVID-19

Ef þú býrð eða starfar á Íslandi áttu rétt á bólusetningu við COVID-19.

Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og draga úr veikindum vegna hans.

Framkvæmd og skipulag bólusetningar er í heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana um allt land. Bóluefni Pfizer, Moderna og Janssen eru í boði. Nú þarf að bóka tíma í á mínum síðum á heilsuvera.is en bólusetningin er gjaldfrjáls. Þó er hægt að mæta á sérstaklega auglýst opin hús fyrir bólusetningu án tímapöntunar. Nánari upplýsingar um bólusetningar haustið 2022.

Öll, 16 ára og eldri, sem fengu seinni skammt grunnbólusetningar fyrir a.m.k. 4 mánuðum eru velkomin í örvunarbólusetningu. Öll sem eru óbólusett eða hálfbólusett (hafa bara fengið einn skammt) eru sérstaklega hvött til að mæta. Nánari upplýsingar fyrir fólk sem ekki hefur íslenska kennitölu.

Bólusetningarskírteini er aðgengilegt á mínum síðum á heilsuvera.is einni viku eftir að fullri bólusetningu er lokið. Skírteinið getur þurft að sýna við ferðalög milli landa. Gildistími vottorða er 9 mánuðir eftir að grunnbólusetningu er lokið en við örvunarskammt fellur gildistíminn niður.

Bólusetning er og verður gjaldfrjáls og engin verða skylduð í bólusetningu.

Spurt og svarað vegna bólusetningar gegn COVID-19

Algengar spurningar og svör um bólusetningu gegn COVID-19 á vef Embætti Landlæknis.
Algengar spurningar og svör um bóluefni og lyf við COVID-19 á vef Lyfjastofnunar.
Upplýsingar um örvunarbólusetningu á vef Landlæknis hér og hér.
Hér er hægt að lesa allt um bólusetningar á auðlesanlegu máli. Texti frá Þroskahjálp.

Aukaverkanir eftir bólusetningu við COVID-19

Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum ef þau eru notuð eins og mælt er með. Allar bólusetningar geta þó valdið óþægindum sem við köllum aukaverkanir. Flestar aukaverkanir eru í raun afleiðing virkjunar ónæmiskerfisins sem er tilgangur bólusetningarinnar og eru yfirleitt þær sömu óháð bóluefni:

  • Hiti >38°, hrollur, vöðva/bein-/liðverkir
  • Óþægindi á stungustað
  • Þreyta og slappleiki, höfuðverkur, magaóþægindi

Þessi einkenni koma oftast fram innan sólarhrings frá bólusetningu og vara sjaldan lengur en 1-2 sólarhringa nema óþægindi á stungustað. Einkenni koma gjarnan hraðar fram eftir endurtekna bólusetningu. Óþægindi á stungustað geta verið eymsli eingöngu en stundum kláði, roði eða bólga. Þau vara oft lengur en sólarhring, jafnvel upp undir viku. Þessi einkenni þarf ekki að tilkynna til heilsugæslu/stofnunar sem bólusetti eða Lyfjastofnunar nema þau séu talin óvenju alvarleg. Nota má venjulega skammta af parasetamóli og/eða íbúprófeni ef einstaklingur þolir slík lyf, til að draga úr óþægindum ef einhver þessara einkenna koma fram eftir bólusetninguna.

Adenoveirubóluefni s.s. bóluefni Janssen, Jcovden, valda mestum aukaverkunum við fyrsta skammt en mRNA bóluefni s.s. bóluefni Pfizer/BioNTech, Comirnaty, valda yfirleitt meiri aukaverkunum við annan skammt.

Eitlabólgur, oftast í holhönd þeim megin sem bóluefni var gefið í handlegg eru sjaldgæfari en áðurnefndar aukaverkanir, en eru einnig tilkomnar vegna virkjunar ónæmiskerfis. Þær vara yfirleitt í um viku ef þær koma fram. Ef eitlabólgur koma fram víðar en á því svæði sem næst er stungustað við bólusetningu er rétt að hafa samband við heilbrigðisþjónustu s.s. heilsugæslu sem metur hvort tilefni er til frekari skoðunar eða meðferðar og tilkynnir til Lyfjastofnunar.

Upplýsingar um sjaldgæfar aukaverkanir eftir COVID-bólusetningu. Slíkar aukaverkanir ætti alltaf að tilkynna til Lyfjastofnunar.

Flestar aukaverkanir eru algengari við grunnbólusetningu (fyrstu tvo skammta) en örvunarbólusetningu (allir skammtar umfram tvo), aðrar en eitlabólgur sem eru lítillega algengari við örvunarbólusetningar.

Lífið eftir COVID-19 bólusetningu

Bólusetning dregur úr hættu á smiti en útilokar það ekki. Líkur á alvarlegum veikindum eru þó mun minni hjá bólusettum en óbólusettum.

Þau sem hafa lokið bólusetningu við COVID-19 eru ekki undanþegnir þeim sóttvarnareglum sem gilda í íslensku samfélagi meðan COVID faraldur geisar (fjöldatakmörkunum, grímuskyldu, ráðstöfunum á vinnustað).

Þeir sem hafa lokið bólusetningu gegn COVID-19 og hafa um það skírteini geta ferðast milli landa án þess að þurfa að fara í sóttkví við komuna til Íslands. Misjafnt er þó hvaða reglur gilda á landamærum annarra landa. Gildistími vottorða er 9 mánuðir eftir að grunnbólusetningu er lokið en við örvunarskammt fellur gildistíminn niður.

Í töflu á vef Landlæknis má finna út hvenær æskilegt er að fá næsta skammt bóluefnis, eftir atvikum svo sem fyrri bólusetningar eða veikindi.

Bólusetning kemur ekki í veg fyrir einangrun ef fólk veikist.

Hverju má búast við eftir bólusetningu

Ef þú ertu bólusett/ur með bóluefni AstraZeneca
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Moderna
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Pfizer-BioNTech
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Janssen

Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og hindra útbreiðslu faraldursins.

Fimm mismunandi bóluefni frá fjórum mismunandi framleiðendum eru í notkun hér á landi. Á vef Landlæknis má sjá nánari útlistun á virkni allra bóluefnanna. Landsamtökin Þroskahjálp hafa útbúið bækling á auðlesnu máli um notkun bóluefna við COVID-19.

AstraZeneca (Vaxzevria)

Notað í grunnbólusetningar 2021, tveir skammtar með 12 vikna millibili. Bóluefni AstraZeneca inniheldur kvefveiru sem er búið að óvirkja þannig að hún getur ekki fjölgað sér, og bæta við erfðaefni fyrir sama prótín og myndast í líkamanum eftir mRNA bólusetningu.

Ofnæmi er ekki eins algengt við notkun bóluefnisins og við notkun mRNA bóluefnanna. Óvenjuleg gerð blóðtappa er alvarleg en afar sjaldgæf aukaverkun en þess vegna var notkun þess hætt hjá konum undir 55 ára aldri og hjá fólki með fyrri sögu eða áhættu á blóðtappa.

AstraZeneca er skráð fyrir fyrir 18 ára og eldri.

Ekki notað í örvunarbólusetningar.

Janssen

Notað út apríl 2022. Janssen bóluefnið inniheldur kvefveiru sem er búið að óvirkja þannig að hún getur ekki fjölgað sér, og bæta við erfðaefni fyrir sama prótín og myndast í líkamanum eftir mRNA bólusetningu.

Ofnæmi er ekki eins algengt við notkun bóluefnisins og við notkun mRNA bóluefnanna. Blóðtappar af sama tagi og þekktir eru eftir Astra Zeneca bóluefni hafa komið fram þar sem milljónir skammta hafa verið notaðir en eru afar sjaldgæfir.

Lyfið hefur markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni og eina slíka lyfið sem notað er hér á landi. Einn skammtur Janssen dró verulega úr líkum á smiti, alvarlegum veikindum og dauðsföllum vegna COVID-19 sjúkdóms vegna upprunalega afbrigðis veirunnar en reyndist minna virkt gegn delta og omikron afbrigðum. Örvunarskammtur eflir virkni verulega en við annan skammt verður vörn álíka og með tveimur skömmtum af öðrum bóluefnum.

Skráð fyrir 18 ára og eldri. Ekki er mælt með notkun bóluefnisins fyrir mjög ónæmisbælt fólk eða barnshafandi konur.

Má nota við örvunarbólusetningar eftir bólusetningu með öðru bóluefni ef viðkomandi einstaklingur þolir ekki mRNA bóluefni.

Moderna (Spikevax)

Bóluefni Moderna er svokallað mRNA bóluefni. Það inniheldur enga veiru, heldur erfðaefni í fituögn. Líkaminn les þetta erfðaefni og myndar prótín sem ónæmiskerfið lærir að þekkja.

Ofnæmi algengara en við sum önnur bóluefni.

Lyfið má nota fyrir 12 ára og eldri en er ekki notað fyrir 12-17 ára hér á landi. Notkun hætt fyrir 18-39 ára karlmenn haustið 2021 vegna hjartavöðvabólgu sem er algengari við Moderna bólusetningu en önnur COVID bóluefni.

Fjórar vikur eiga að líða milli skammta grunnbólusetningar og ekki meira en fimm vikur.

Notað í örvunarbólusetningar fyrir konur frá 18 ára aldri og karla frá 40 ára aldri.

Pfizer/BioNTech (Comirnaty)

Bóluefni Pfizer/BioNTech er svokallað mRNA bóluefni. Það inniheldur enga veiru, heldur erfðaefni í fituögn. Líkaminn les þetta erfðaefni og myndar prótín sem ónæmiskerfið lærir að þekkja.

Ofnæmi er algengara en við sum önnur bóluefni.

Efnið er notað fyrir 5 ára og eldri. Þrjár vikur verða að líða að lágmarki milli skammta grunnbólusetningar en lengra millibil vekur líka góða vörn.

Mest notaða bóluefnið hér á landi, bæði í grunnbólusetningu og örvunarbólusetningar.

Novavax (Nuvaxovid)

Notað frá mars 2022. Bóluefni Novavax inniheldur S-prótín SARS-CoV-2 veirunnar og þarf ekki að mynda það í líkamanum eftir bólusetningu. Það er því prótínbóluefni svipað og inflúensubóluefni eða bóluefni gegn lifrarbólgu B. Nýstárlegur ónæmisglæðir, Matrix M, unninn úr sáputré, er í bóluefninu og er því fremur lítið S-prótín í hverjum skammti.

Ofnæmi hefur óþekkta tíðni.

Efnið hefur markaðsleyfi fyrir 18 ára og eldri. Þrjár vikur verða að líða að lágmarki á milli tveggja skammta við grunnbólusetningu.

Ekki er komið markaðsleyfi fyrir örvunarbólusetningu en rannsóknir frá Bretlandi styðja að það sé notað fyrir örvunarbólusetningu ef ekki er talið óhætt að nota mRNA bóluefni.

Ítarlegar upplýsingar fyrir börn og forsjáraðila um bólusetningar

Almenn bólusetning 5-11 ára barna gegn COVID-19 hófst í janúar

Forsjáraðilum barna á Íslandi er boðin bólusetning fyrir 5-11 ára börn í byrjun árs 2022 en í nóvember sl. fékk bóluefni Pfizer/BioNTech gegn COVID-19 markaðsleyfi í Evrópu fyrir 5-11 ára börn. Þessi aldurshópur fær minni skammt en eldri aldurshópar eða einn þriðja af því sem  fullorðnir fá.

Nánari upplýsingar um framkvæmd bólusetninga verður auglýst á hverjum stað.

Ávinningur barna af bólusetningu gegn COVID-19

Í fyrstu bylgjum COVID-19 bar ekki mikið á smitum hjá börnum. Þegar delta afbrigðið kom fram á sjónarsviðið jukust veikindi í þessum aldurshópi töluvert. Þannig eru börn á þessum aldri um 8,7% af íbúum landsins, en hlutfall sýktra barna hefur verið mun hærra en það frá ágúst og fram í miðjan desember, eða 17,6%. Sumar vikur voru börn allt að þriðjungur allra smita. Af þeim 12.500 sem sýkst hafa á þessu tímabili eru 2.200 börn.  

Engin börn í þessum aldurshópi hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús, en um miðjan janúar 2022 höfðu 143 börn hafa orðið það veik að þurfa viðbótareftirlit hjá COVID-göngudeildinni (gul staða). Bólusetning minnkar líkur á að barn smitist og þar af leiðandi af alvarlegum fylgikvillum COVID-19.

Sýkingar af völdum COVID-19 raska töluvert daglegu lífi fólks og sérstaklega þegar um börn eru að ræða. Þessar aðstæður geta valdið áhyggjum af heilsufari þeirra sem sýkjast og þær geta líka haft tilfinningaleg áhrif. Einangrun smitaðra barna frá öðrum í fjölskyldunni hefur iðulega leitt til þess að fjölskyldur hafa þurft að skipta sér upp. Um helmingur þeirra sem fylgt hafa börnum í einangrun hefur smitast í kjölfarið og þá hefur aðskilnaður fylgdarmanna frá öðrum fjölskyldumeðlimum varað enn lengur. Þegar heimili af einhverjum ástæðum hafa ekki skipt sér ekki upp hafa orðið til smitkeðjur í fjölskyldum sem hafa sumar varað vikum saman.

Færri smit meðal barna á þessum aldri leiða til færri smita í skólum. Þá dregur úr þörf fyrir sóttkví og raski í skóla- og frístundastarfi vegna smita. Þar með dregur úr útbreiðslu smita í samfélaginu og þörf fyrir samfélagsaðgerðir til að hefta útbreiðslu. Sjá nánar umfjöllun í samantekt sóttvarnastofnunar Evrópu.  

Rannsóknir og öryggi bólusetningar barna gegn COVID-19

Pfizer/BioNtech gerði rannsókn á 1.528 börnum á aldrinum 5-11 ára, og til viðbótar sérstaka öryggisrannsókn þar sem 1.122 börnum til viðbótar var fylgt eftir í 2-4 vikur eftir seinni skammt. Niðurstöður þessara rannsókna sýndu svipaðar aukaverkanir meðal barnanna og hjá 12-17 ára unglingum og hjá fullorðnum. Niðurstöður  þessara rannsókna hafa ekki verið birtar opinberlega en voru notaðar til grundvallar markaðsleyfi hjá Lyfjastofnunum Bandaríkjanna og Evrópu.

Samkvæmt rannsóknum framleiðanda reyndist bólusetning kom í veg fyrir smit í rúmlega 90% tilfella 7 dögum til 2,3 mánuðum eftir seinni bólusetningu en delta afbrigði var ráðandi á rannsóknartímanum.

Í ljós kom að algengustu aukaverkanirnar (sérstaklega verkir á stungustað, þreyta og höfuðverkur) eru mögulega örlítið sjaldgæfari í þessum aldurshópi en hjá unglingunum. Of fá börn voru bólusett í þessum rannsóknum til að hægt sé að fullyrða um tíðni sjaldgæfra aukaverkana.

Engin tilvik hjartavöðva- eða gollurshússbólgu komu fram í rannsóknunum fyrir markaðssetningu.

Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna, CDC, hefur nú birt fyrsta uppgjör aukaverkana meðal 5-11 ára þar í landi. Eins og vonast var til er tíðni hjartavöðvabólgu lægri en hjá 12-17 ára, eða allt að 2/1.000.000 bólusetningar en hjá 12-17 ára reyndist tíðnin 9/100.000 bólusetningar. Þetta er í samræmi við að tíðni hjartavöðva- og gollurshússbólgu hjá 5-11 ára af öðrum orsökum er mun lægri en hjá eldri börnum og ungum fullorðnum. Kynjahlutfall hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu 5-11 ára er jafnt samkvæmt þessu uppgjöri. Rétt er að hafa líka í huga að tíðni hjartavöðvabólgu vegna COVID-19 smits er mun hærri en eftir bólusetningu hjá ungum fullorðnum en tíðnin er enn óþekkt hjá börnum.

Frekari upplýsingar er að finna í grein sóttvarnalæknis frá 13. desember 2021.

Tilkynningar
Örvunarbólusetningar
Örvunarbólusetningar

Til baka á forsíðu