Aukaverkanir eftir bólusetningu við COVID-19:
Allar bólusetningar geta valdið óþægindum sem við köllum aukaverkanir. Flestar aukaverkanir eru í raun afleiðing virkjunar ónæmiskerfisins sem er tilgangur bólusetningarinnar og eru yfirleitt þær sömu óháð bóluefni:
- Hiti >38°, hrollur
- Óþægindi á stungustað
- Þreyta og slappleiki, höfuðverkur, magaóþægindi
Þessi einkenni koma oftast fram innan sólarhrings frá bólusetningu og vara sjaldan lengur en 1-2 sólarhringa nema óþægindi á stungustað og eitlabólgur. Einkenni koma gjarnan hraðar fram eftir endurtekna bólusetningu. Óþægindi á stungustað geta verið eymsli eingöngu en stundum kláði, roði eða bólga. Þau vara oft lengur en sólarhring, jafnvel upp undir viku. Þessi einkenni þarf ekki að tilkynna til heilsugæslu/stofnunar sem bólusetti eða Lyfjastofnunar nema þau séu talin óvenju alvarleg. Nota má venjulega skammta af parasetamóli og/eða íbúprófeni ef einstaklingur þolir slík lyf, til að draga úr óþægindum ef einhver þessara einkenna koma fram eftir bólusetninguna.
Eitlabólgur, oftast í holhönd þeim megin sem bóluefni var gefið í handlegg eru sjaldgæfari en einnig tilkomnar vegna virkjunar ónæmiskerfis. Ef eitlabólgur koma fram víðar en á því svæði sem næst er stungustað við bólusetningu er rétt að hafa samband við heilbrigðisþjónustu s.s. heilsugæslu sem metur hvort tilefni er til frekari skoðunar eða meðferðar og tilkynnir til Lyfjastofnunar.
Mögulegar aukaverkanir COVID-19 bóluefna önnur en virkjun ónæmiskerfis:
Þessar aukaverkanir ætti að tilkynna til Lyfjastofnunar í öllum kringumstæðum þar sem sérstakt eftirlit er með þessum lyfjum. Athugið að ekki er víst að um eiginleg tengsl við bóluefni sé að ræða en með góðri skráningu slíkra einkenna eftir bólusetningu verður mögulega hægt að staðfesta eða hrekja tengslin. Ef tengsl eru staðfest getur verið hægt að skilgreina hópa í sérstakri áhættu fyrir slíkar aukaverkanir og gera ráðstafanir eða frekari leiðbeiningar um notkun bóluefnanna hjá þeim hópum.
Comirnaty/Pfizer bóluefni: sjá fylgiseðil
- Bráðaofnæmiseinkenni
- Andlitstaugarlömun
- Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni
Moderna bóluefni: sjá fylgiseðil
- Bráðaofnæmiseinkenni
- Andlitstaugarlömun
- Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni
Tilkynning til Lyfjastofnunar:
Allir geta tilkynnt aukaverkun lyfja (þ.m.t. bóluefna). Aðstandendur og starfsfólk, t.d. á dvalarheimilum, geta t.d. tilkynnt um aukaverkun fyrir skjólstæðinga. Lögð er sérstök áhersla á að tilkynntar séu nýjar aukaverkanir (aukaverkanir sem ekki eru þekktar og er þar af leiðandi ekki getið í fylgiseðlinum), aukaverkanir sem lýst hefur verið en með óþekkta tíðni (sem er þá óvissa um tengsl við bólusetningu) og alvarlegar aukaverkanir (aukaverkanir sem þarfnast meðferðar umfram verkjastillingu/hitalækkandi lyf). Hægt er að tilkynna aukaverkanir til heilbrigðisstarfsfólks sem tilkynnir þá áfram til Lyfjastofnunar eða beint á vef Lyfjastofnunar.