Hlutfall bólusettra 12 ára eldri
Uppfært síðast
18.11.2021
1.4
%
Hálfbólusettir
89.2
%
Fullbólusettir

Upplýsingar og tölfræði
vegna bólusetningar gegn COVID-19

Bólusetningarátak hófst 15. nóvember í Laugardalshöll. Fyrsti hluti átaksins stendur í fjórar vikur eða til 8. desember. Góð þátttaka í örvunarbólusetningum gegn COVID-19 er ein aðal forsenda þess að við náum tökum á útbreiðslunni nú án verulegra samfélagshafta.

Ef þú býrð eða starfar á Íslandi áttu rétt á bólusetningu við COVID-19. Þú getur skráð þig í bólusetningu á netspjalli heilsuveru.is.

Bólusetningarskírteini er aðgengilegt á mínum síðum á heilsuvera.is einni viku eftir að fullri bólusetningu er lokið. Á bólusetningarskírteini kemur fram að það séu ekki ferðaskjal (þ.e.a.s. ekki vegabréf) en vottorðin gilda fyrir ferðalög milli landa.

Dreifing bóluefna og skipulag bólusetningar er undir stjórn sóttvarnalæknis en framkvæmdin í höndum heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana um allt land.

Bólusetning er og verður gjaldfrjáls og engin verða skylduð í bólusetningu.

Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og hindra útbreiðslu faraldursins.  

Spurt og svarað vegna bólusetningar gegn COVID-19

Algengar spurningar og svör um bólusetningu gegn COVID-19 á vef Embætti Landlæknis.
Algengar spurningar og svör um bóluefni og lyf við COVID-19 á vef Lyfjastofnunar.
Upplýsingar um örvunarbólusetningu á vef Landlæknis hér og hér.
Hér er hægt að lesa allt um bólusetningar á auðlesanlegu máli. Texti frá Þroskahjálp.

Boðun og skráning

Allir sem búa og starfa á Íslandi eiga rétt á bólusetningu. Nánari Leiðbeiningar um skráningu fyrir þau sem ekki eru með kennitölu eða eru með kerfiskennitölu.

Þau sem ekki hafa fengið boð í bólusetningu geta skráð sig á netspjalli Heilsuveru.is.

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, kvensjúkdómalæknar og sóttvarnalæknir mæla nú með bólusetningu barnshafandi kvenna gegn COVID-19. Allar konur sem eru komnar á annan eða þriðja þriðjung meðgöngu eru hvattar til að þiggja bólusetninguna ef ekki eru til staðar frábendingar s.s. alvarleg ofnæmi.

 

Yfirlit yfir stöðu bólusetningar á Íslandi

Uppfært síðast
05.05.21
Hópur skilgreindur í reglugerð
Boðunarlisti skilgreindur
Afhending bóluefnis fyrir hóp komin á áætlun
Boðun hafin
Bólusetning hafin
Bólusetningu þeirra sem hana þiggja lokið
Hópur
1

Heilbrigðisstarfsfólk og annað starfsfólk sem starfar á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum sjúkrahúsa Landspítala og sambærilegum deildum Sjúkrahússins á Akureyri.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
2

Heilbrigðisstarfsfólk á COVID-19 göngudeild og legudeildum fyrir sjúklinga sem smitast hafa af COVID-19.

Starfsmenn sem sinna sýnatökum vegna COVID-19 greininga, t.d. í heilsugæslu.

Starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
3

Einstaklingar sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa.

Einstaklingar í dagdvöl og dagþjálfun.

Einstaklingar sem fá heimaþjónustu sem jafnast á við þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila.

Boðunarleið: Stofnun/þjónustuveitandi skilgreinir lista, bólusetning kynnt og boðuð innan stofnunar/þjónustu.

Hópur
4

Sjúkraflutningamenn, bráðatæknar, starfsmenn Landhelgisgæslunnar, starfsmenn slökkviliðsins, fangaverðir, útkallslögregla, landamæralögregla og tollgæsla á landamærastöð á Keflavíkurflugvelli. Forgangsraðað innan hóps m.t.t. umgengni við almenning með háa bakgrunnsáhættu á smiti.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi. Sjúkraflutningamenn, bráðatæknar, útkallslögregla, landamæralögregla og tollgæsla á KEF.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, starfsmenn slökkviliðsins, fangaverðir, landamæraverðir og tollgæslustarfsmenn annarra landamærastöðva.

Hópur
5

Heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúklingum með beinum hætti og nauðsynlegt er að fái bólusetningu.

Boðunarleið: Embætti landlæknis skilgreinir lista yfir heilbrigðisstarfsmenn, boðað með sms í miðlægu kerfi. Sjá: Boðanir í COVID-19 bólusetningu fyrir heilbrigðisstarfsmenn.

Hópur
6

60 ára og eldri.

Boðunarleið: Listi skilgreindur út frá kennitölu, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi en einnig verður auglýst hvar og hvenær bólusetning býðst fyrir ákveðna árganga.

Hópur
7

Einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi. Innan hóps verður forgangsraðað m.t.t. eigin áhættu einstaklings, yfirstandandi meðferðar sem truflar ónæmissvar, yfirvofandi meðferðar sem dregur úr áhrifum bólusetningar o.fl.

Boðunarleið: Listi skilgreindur miðlægt með aðstoð sérfræðinga sem sinna sjúklingahópum sem taldir eru í áhættu fyrir alvarleg einkenni COVID-19 sýkingar, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni. Boðun verður með sms úr miðlægu kerfi og liðsinni sérfræðinga eða göngudeilda sem sinna ákveðnum sjúklingahópum.

Hópur
8

Starfsfólk leik- grunn- og framhaldsskóla og tiltekið starfsfólk félags- og velferðarþjónustu.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
9

Einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra- og efnahagslegra aðstæðna.

Boðunarleið: Þjónustuveitendur skilgreina lista, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi og með liðsinni þjónustuveitenda.

Hópur
10

Allir aðrir sem óska bólusetningar. Forgangsröðun innan hóps möguleg þegar bólusetning annarra hópa langt komin, t.d. eftir landsvæðum m.t.t. COVID-19 útbreiðslu og hlutfalli áður bólusettra á svæðinu.

Boðunarleið: Listi skilgreindur út frá Þjóðskrá, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi en einnig verður auglýst hvar og hvenær bólusetning býðst fyrir þá sem ekki fá boð með sms.

Aukaverkanir eftir bólusetningu við COVID-19

Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Allar bólusetningar geta þó valdið óþægindum sem við köllum aukaverkanir. Flestar aukaverkanir eru í raun afleiðing virkjunar ónæmiskerfisins sem er tilgangur bólusetningarinnar og eru yfirleitt þær sömu óháð bóluefni:

 • Hiti >38°, hrollur, vöðva/bein-/liðverkir
 • Óþægindi á stungustað
 • Þreyta og slappleiki, höfuðverkur, magaóþægindi

Þessi einkenni koma oftast fram innan sólarhrings frá bólusetningu og vara sjaldan lengur en 1-2 sólarhringa nema óþægindi á stungustað og eitlabólgur. Einkenni koma gjarnan hraðar fram eftir endurtekna bólusetningu. Óþægindi á stungustað geta verið eymsli eingöngu en stundum kláði, roði eða bólga. Þau vara oft lengur en sólarhring, jafnvel upp undir viku. Þessi einkenni þarf ekki að tilkynna til heilsugæslu/stofnunar sem bólusetti eða Lyfjastofnunar nema þau séu talin óvenju alvarleg. Nota má venjulega skammta af parasetamóli og/eða íbúprófeni ef einstaklingur þolir slík lyf, til að draga úr óþægindum ef einhver þessara einkenna koma fram eftir bólusetninguna.

Eitlabólgur, oftast í holhönd þeim megin sem bóluefni var gefið í handlegg eru sjaldgæfari en einnig tilkomnar vegna virkjunar ónæmiskerfis. Ef eitlabólgur koma fram víðar en á því svæði sem næst er stungustað við bólusetningu er rétt að hafa samband við heilbrigðisþjónustu s.s. heilsugæslu sem metur hvort tilefni er til frekari skoðunar eða meðferðar og tilkynnir til Lyfjastofnunar.

Mögulegar aukaverkanir COVID-19 bóluefna önnur en virkjun ónæmiskerfis:

Þessar aukaverkanir ætti að tilkynna til Lyfjastofnunar í öllum kringumstæðum þar sem sérstakt eftirlit er með þessum lyfjum. Athugið að ekki er víst að um eiginleg tengsl við bóluefni sé að ræða en með góðri skráningu slíkra einkenna eftir bólusetningu verður mögulega hægt að staðfesta eða hrekja tengslin. Ef tengsl eru staðfest getur verið hægt að skilgreina hópa í sérstakri áhættu fyrir slíkar aukaverkanir og gera ráðstafanir eða frekari leiðbeiningar um notkun bóluefnanna hjá þeim hópum.

Comirnaty/Pfizer bóluefni: sjá fylgiseðil

 • Bráðaofnæmiseinkenni
 • Andlitstaugarlömun
 • Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni

Moderna bóluefni: sjá fylgiseðil

 • Bráðaofnæmiseinkenni
 • Andlitstaugarlömun
 • Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni

Astra Zeneca bóluefni: sjá fylgiseðil

 • Bráðaofnæmiseinkenni
 • Blóðtappar samfara blóðflögufæð – ekki hefur verið staðfest að um orsakatengsl við bólusetningu með Astra Zeneca sé að ræða en grunur er um það. Dæmi um einkenni sem þarf að hafa í huga og leita strax til læknis ef koma fram í fyrsta sinn innan 14 daga eftir bólusetningu: s.s. mæði, skyndilegir nýir, slæmir verkir í höfði, brjósti eða kvið, verkir og bólga í útlim annarstaðar en þar sem bóluefni var gefið og án áverka, einkenni frá taugakerfi s.s. sjóntruflanir/þokusýn, húðblæðingar (punktblæðingar eða marblettir) annarstaðar en þar sem bóluefni var gefið
 • Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni

Janssen bóluefni: sjá fylgiseðil

 • Bráðaofnæmiseinkenni
 • Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni

Tilkynning til Lyfjastofnunar:

Allir geta tilkynnt aukaverkun lyfja (þ.m.t. bóluefna). Aðstandendur og starfsfólk, t.d. á dvalarheimilum, geta t.d. tilkynnt um aukaverkun fyrir skjólstæðinga. Lögð er sérstök áhersla á að tilkynntar séu nýjar aukaverkanir (aukaverkanir sem ekki eru þekktar og er þar af leiðandi ekki getið í fylgiseðlinum), aukaverkanir sem lýst hefur verið en með óþekkta tíðni (sem er þá óvissa um tengsl við bólusetningu) og alvarlegar aukaverkanir (aukaverkanir sem þarfnast meðferðar umfram verkjastillingu/hitalækkandi lyf). Hægt er að tilkynna aukaverkanir til heilbrigðisstarfsfólks sem tilkynnir þá áfram til Lyfjastofnunar eða beint á vef Lyfjastofnunar.

Lífið eftir COVID-19 bólusetningu

Þeir sem hafa lokið bólusetningu við COVID-19 eru ekki undanþegnir þeim sóttvarnareglum sem gilda í íslensku samfélagi meðan COVID faraldur geisar (fjöldatakmörkunum, grímuskyldu, ráðstöfunum á vinnustað). Nánar um bólusetta einstaklinga og sóttvarnir.

Bólusetning dregur úr hættu á smiti en útilokar það ekki og ekki er enn vitað hvort bólusetning dregur úr smiti til annarra ef bólusettur einstaklingur veikist af COVID-19.

Þeir sem hafa lokið bólusetningu gegn COVID-19 og hafa um það skírteini geta ferðast milli landa án þess að þurfa að fara í sóttkví við komuna til Íslands. Misjafnt er þó hvaða reglur gilda á landamærum annarra landa.

Bólusetning kemur ekki alfarið í veg fyrir sóttkví ef einstaklingi er skipað í sóttkví vegna umgengni við smitaðan einstakling.

Hverju má búast við eftir bólusetningu

Ef þú ertu bólusett/ur með bóluefni AstraZeneca
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Moderna
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Pfizer-BioNTech
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Janssen

Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og hindra útbreiðslu faraldursins.

Fjögur mismunandi bóluefni frá fjórum mismunandi framleiðendum eru í notkun hér á landi. Á vef Landlæknis má sjá nánari útlistun á virkni allra bóluefnanna. Landsamtökin Þroskahjálp hafa útbúið bækling á auðlesnu máli um notkun bóluefna við COVID-19.

AstraZeneca

Bóluefni AstraZeneca innihleldur kvefveiru sem er búið að óvirkja þannig að hún getur ekki fjölgað sér, og bæta við erfðaefni fyrir sama prótín og myndast í líkamanum eftir mRNA bólusetningu.

Efnið er flutt og geymt við sömu aðstæður og bóluefni sem notuð eru daglega í heilsugæslunni. 10 skammtar eru í glasi og efnið þarf að nota innan fárra klukkustunda frá opnun glassins. Vegna þessa hentar bóluefnið vel í dreifbýli.

Ofnæmi er ekki eins algengt við notkun bóluefnisins og við notkun mRNA bóluefnanna. Óvenjuleg gerð blóðtappa hefur komið fram sem alvarleg en afa sjaldgæf aukaverkun í mörgum Evrópulöndum en þess vegna hefur notkun þess verið hætt hjá konum undir 55 ára aldri og hjá fólki með fyrri sögu eða áhættu á blóðtappa.

AstraZeneca er skráð fyrir fyrir 18 ára og eldri. Til að byrja með var óvíst um virkni hjá 65 ára og eldri vegna fárra þátttakenda á þeim tíma en þau gögn eru nú fullnægjandi vegna rannsókna frá Bretlandi. Rannsóknir á bólusetningu barna eru hafnar. Lyfið er nú gefið konum sem eru 55 ára og eldri sem ekki eru í hættu á bláæðasegamyndun eða blóðtappa, og körlum á öllum aldri sem uppfylla sömu skilyrði.

12 vikur tekur að klára bólusetningu. Bilið milli sprauta má vera styttra en best vörn fæst með þessum hætti.  

Janssen

Janssen bóluefnið inniheldur kvefveiru sem er búið að óvirkja þannig að hún getur ekki fjölgað sér, og bæta við erfðaefni fyrir sama prótín og myndast í líkamanum eftir mRNA bólusetningu.

Bóluefnið er flutt frosið en má geyma á bólusetningastað við sömu aðstæður og bóluefni sem við notum daglega í heilsugæslunni. Það eru fimm skammtar í glasi og bóluefnið þarf að nota innan fárra klukkustunda frá opnun glassins. Vegna þessa hentar bóluefnið vel í dreifbýli.

Ofnæmi er ekki eins algengt við notkun bóluefnisins og við notkun mRNA bóluefnanna. Blóðtappar af sama tagi og þekktir eru eftir Astra Zeneca bóluefni hafa komið fram þar sem milljónir skammta hafa verið notaðir en eru afar sjaldgæfir.

Lyfið hefur markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni og eina slíka lyfið sem notað er hér á landi. Einn skammtur Janssen dregur verulega úr líkum á smiti, alvarlegum veikindum og dauðsföllum vegna COVID-19 sjúkdóms. Þess vegna getur efnið virkað vel fyrir einstaklinga sem erfitt er að ná til fyrir endurbólusetningu vegna búsetu, starfs eða annars. Verið er að skoða hvort örvunarskammtur efli enn frekar vörnina.

Janssen er notað fyrir 18 ára og eldri en rannsóknir á bólusetningu barna eru hafnar. Lyfið er gefið þeim sem óvíst er um að geti þegið tvo skammta hér á landi, s.s. einstaklingar sem starfa hér en eiga lögheimili erlendis eða starfa erlendis og eiga lögheimili hér.

Ekki er mælt með notkun bóluefnisins fyrir mjög ónæmisbælt fólk eða barnshafandi konur.

Moderna

Bóluefni Moderna er svokallað mRNA bóluefni. Það inniheldur enga veiru, heldur erfðaefni í fituögn. Líkaminn les þetta erfðaefni og myndar prótín sem ónæmiskerfið lærir að þekkja.

Bóluefnið þarf að flytja og geyma í myrkri og hægt er að ná 11 skömmtum úr hverju glasi með réttum búnaði. Efnið þarf að nota strax eftir blöndun og þolir enga bið. Þess vegna er best að nota efnið í þéttbýli þar sem hægt er að safna saman stórum hópum fólks.

Ofnæmi algengara en við sum önnur bóluefni.

Lyfið má nota fyrir 12 ára og eldri.  Efnið er notað fyrir hópa sem liggur á að klári bólusetningu sem fyrst.

Fjórar vikur eiga að líða milli skammta og ekki meira en fimm vikur.

Pfizer/BioNTech

Bóluefni Pfizer/BioNTeck er svokallað mRNA bóluefni. Það inniheldur enga veiru, heldur erfðaefni í fituögn. Líkaminn les þetta erfðaefni og myndar prótín sem ónæmiskerfið lærir að þekkja.

Lyfið þarf að flytja við mjög kaldar aðstæður en geymist nokkra daga í kæli áður en fer í notkun. Hægt er að ná sex skömmtum úr hverju glasi með réttum búnaði. Efnið þarf að nota strax og búið er að blanda það og þess vegna er best að bólusetja hóp fólks í einu.

Ofnæmi er algengara en við sum önnur bóluefni.

Efnið er notað fyrir 12 ára og eldri. Þrjár vikur eiga að líða milli skammta og ekki meira en sex vikur.

Örvunarbólusetning

Hvað er örvunarbólusetning?

Örvunarbólusetning er bólusetning umfram það sem upphaflega var talið grunnbólusetning s.s. tvær sprautur af mRNA bóluefni, ein sprauta Janssen. Tilgangurinn með örvunarbólusetningu er í að efla eins og hægt er varnir gegn COVID-19 smiti og alvarlegum veikindum.

Til hvers?

Örvunarbólusetning er leið til að auka ónæmi gegn COVID-19. Þau bóluefni sem notuð eru hafa ekki reynst alveg eins öflug vörn og vonir stóðu til vegna tilkomu delta-afbrigðisins. Nánari upplýsingar um tilgang örvunarbólusetninga má finna á vef Embættis landlæknis.

Góð þátttaka í örvunarbólusetningum gegn COVID-19 er ein aðal forsenda þess að við náum tökum á útbreiðslunni nú án verulegra samfélagshafta.

Fyrir hverja?

Örvunarbólusetningu er hægt að fá séu að lágmarki 5–6 mánuðir frá því grunnbólusetningu lauk. Sjötíu ára og eldri og fólk með ónæmisbælingu, óháð aldri, geta þó fengið örvunarbólusetninguna þegar 3 mánuðir eru liðnir þar sem þessi hópur er talinn í aukinni hættu á ófullnægjandi svari við tveimur bólusetningum. Nú þegar hafa þeir hópar verið boðaðir sem skilgreindir höfðu verið í forgangi fyrir örvunarskammt.

Sóttvarnarlæknir mælir einnig með því að þau sem ekki hafa mætt í sína fyrstu bólusetningu geri það sem fyrst því alvarleg veikindi meðal óbólusettra eru um fimm sinnum algengari en meðal bólusettra (eftir tvær sprautur) .

Hvar?

Bólusetning er sem fyrr í höndum heilsugæslunnar og heilsustofnana um allt land. Í Reykjavík er bólusett á Suðurlandbraut 34. Heilsugæslan vinnur að því að auka afkastagetu í bólusetningum en nóg bóluefni er til eða væntanlegt til að gefa örvunarskammt. Bólusetningarátak hefst 15. nóvember í Laugardalshöll. Fyrsti hluti átaksins stendur í fjórar vikur eða til 8. desember. Boð verða send með sms.

Hvað sýna rannsóknir?

Niðurstaða rannsóknar í Ísrael sem birt var nýlega í vísindatímaritinu Lancet sýna að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær sprautur af Pfizer bóluefninu

Hvaða bóluefni er notað?

Bóluefni frá Pfizer/BioNTech verður notað hérlendis í örvunarbólusetningar almennt en til er bóluefni frá Moderna sem má einnig nota í þessum tilgangi. Fyrir karlmenn 16–39 ára er mælt með að nota frekar Pfizer bóluefni vegna meiri óvissu um hversu mikil hætta er á hjartabólgu þegar bóluefni Moderna er notað við örvunarbólusetningu.

Hverjir fá ekki örvunarbólusetningu?

Gögn um örvunarbólusetningar 12–15 ára barna eru ekki fullnægjandi til að mæla með almennum örvunarbólusetningum þess aldurshóps, að svo komnu máli.

Eftirfarandi hópar ættu ekki að þiggja örvunarbólusetningu nema að höfðu samráði við sinn lækni:

1. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem eru með virkan sjúkdóm þegar örvunarbólusetning er ráðlögð.
2. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem fengu versnun einkenna eða ný, alvarleg einkenni innan 2ja vikna frá COVID-19 grunnbólusetningu.
3. Einstaklingar sem fengu lífshættulegar aukaverkanir við grunnbólusetningu, s.s. bráðaofnæmi.

Tilkynna brot