Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og hindra útbreiðslu faraldursins.
Fimm mismunandi bóluefni frá fjórum mismunandi framleiðendum eru í notkun hér á landi. Á vef Landlæknis má sjá nánari útlistun á virkni allra bóluefnanna. Landsamtökin Þroskahjálp hafa útbúið bækling á auðlesnu máli um notkun bóluefna við COVID-19.
AstraZeneca (Vaxzevria)
Notað í grunnbólusetningar 2021, tveir skammtar með 12 vikna millibili. Bóluefni AstraZeneca inniheldur kvefveiru sem er búið að óvirkja þannig að hún getur ekki fjölgað sér, og bæta við erfðaefni fyrir sama prótín og myndast í líkamanum eftir mRNA bólusetningu.
Ofnæmi er ekki eins algengt við notkun bóluefnisins og við notkun mRNA bóluefnanna. Óvenjuleg gerð blóðtappa er alvarleg en afar sjaldgæf aukaverkun en þess vegna var notkun þess hætt hjá konum undir 55 ára aldri og hjá fólki með fyrri sögu eða áhættu á blóðtappa.
AstraZeneca er skráð fyrir fyrir 18 ára og eldri.
Ekki notað í örvunarbólusetningar.
Janssen
Notað út apríl 2022. Janssen bóluefnið inniheldur kvefveiru sem er búið að óvirkja þannig að hún getur ekki fjölgað sér, og bæta við erfðaefni fyrir sama prótín og myndast í líkamanum eftir mRNA bólusetningu.
Ofnæmi er ekki eins algengt við notkun bóluefnisins og við notkun mRNA bóluefnanna. Blóðtappar af sama tagi og þekktir eru eftir Astra Zeneca bóluefni hafa komið fram þar sem milljónir skammta hafa verið notaðir en eru afar sjaldgæfir.
Lyfið hefur markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni og eina slíka lyfið sem notað er hér á landi. Einn skammtur Janssen dró verulega úr líkum á smiti, alvarlegum veikindum og dauðsföllum vegna COVID-19 sjúkdóms vegna upprunalega afbrigðis veirunnar en reyndist minna virkt gegn delta og omikron afbrigðum. Örvunarskammtur eflir virkni verulega en við annan skammt verður vörn álíka og með tveimur skömmtum af öðrum bóluefnum.
Skráð fyrir 18 ára og eldri. Ekki er mælt með notkun bóluefnisins fyrir mjög ónæmisbælt fólk eða barnshafandi konur.
Má nota við örvunarbólusetningar eftir bólusetningu með öðru bóluefni ef viðkomandi einstaklingur þolir ekki mRNA bóluefni.
Moderna (Spikevax)
Bóluefni Moderna er svokallað mRNA bóluefni. Það inniheldur enga veiru, heldur erfðaefni í fituögn. Líkaminn les þetta erfðaefni og myndar prótín sem ónæmiskerfið lærir að þekkja.
Ofnæmi algengara en við sum önnur bóluefni.
Lyfið má nota fyrir 12 ára og eldri en er ekki notað fyrir 12-17 ára hér á landi. Notkun hætt fyrir 18-39 ára karlmenn haustið 2021 vegna hjartavöðvabólgu sem er algengari við Moderna bólusetningu en önnur COVID bóluefni.
Fjórar vikur eiga að líða milli skammta grunnbólusetningar og ekki meira en fimm vikur.
Notað í örvunarbólusetningar fyrir konur frá 18 ára aldri og karla frá 40 ára aldri.
Pfizer/BioNTech (Comirnaty)
Bóluefni Pfizer/BioNTech er svokallað mRNA bóluefni. Það inniheldur enga veiru, heldur erfðaefni í fituögn. Líkaminn les þetta erfðaefni og myndar prótín sem ónæmiskerfið lærir að þekkja.
Ofnæmi er algengara en við sum önnur bóluefni.
Efnið er notað fyrir 5 ára og eldri. Þrjár vikur verða að líða að lágmarki milli skammta grunnbólusetningar en lengra millibil vekur líka góða vörn.
Mest notaða bóluefnið hér á landi, bæði í grunnbólusetningu og örvunarbólusetningar.
Novavax (Nuvaxovid)
Notað frá mars 2022. Bóluefni Novavax inniheldur S-prótín SARS-CoV-2 veirunnar og þarf ekki að mynda það í líkamanum eftir bólusetningu. Það er því prótínbóluefni svipað og inflúensubóluefni eða bóluefni gegn lifrarbólgu B. Nýstárlegur ónæmisglæðir, Matrix M, unninn úr sáputré, er í bóluefninu og er því fremur lítið S-prótín í hverjum skammti.
Ofnæmi hefur óþekkta tíðni.
Efnið hefur markaðsleyfi fyrir 18 ára og eldri. Þrjár vikur verða að líða að lágmarki á milli tveggja skammta við grunnbólusetningu.
Ekki er komið markaðsleyfi fyrir örvunarbólusetningu en rannsóknir frá Bretlandi styðja að það sé notað fyrir örvunarbólusetningu ef ekki er talið óhætt að nota mRNA bóluefni.