Hlutfall bólusettra
Uppfært síðast
02.03.21
4.2
%
Fullbólusettir
2.0
%
Hafa fengið COVID-19 og/eða mótefni til staðar

Upplýsingar og tölfræði
vegna bólusetningar gegn COVID-19

Þau bóluefni sem notuð verða hér á landi við nýju kórónuveirunni (COVID-19) eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum.

Bólusetningar við COVID-19: Í þessari viku (1. – 7. mars) verða um 8900 einstaklingar bólusettir. Allt bóluefni sem fer í dreifingu næstu viku verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu. Einstaklingar í aldurshópum yfir 80 ára verða bólusettir með 4600 skömmtum af Pfizer og 4300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni frá AstraZeneca.

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið bólusetningardagatal vegna COVID-19, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um afhendingu bóluefna og áætlanir þar af lútandi.

Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og ná upp hjarðónæmi sem hindrar útbreiðslu faraldursins. Hlutfall íbúa sem þarf að bólusetja til að ná hjarðónæmi fer eftir hversu smitandi veiran er. Nýir veirustofnar sem komið hafa fram nýlega eru taldir meira smitandi en fyrri stofnar en eru ekki allsráðandi í faraldrinum. Því er nokkur óvissa í útreikningum á því hlutfalli sem þarf að bólusetja til að ná hjarðónæmi en það er líklega á bilinu 60-80%.

Bólusetning er og verður gjaldfrjáls og engin verður skyldaður í bólusetningu.

Hraði bólusetninga ræðst af því hversu mikið magn bóluefnis kemur til landsins á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir að í lok mars 2021 verði komið langt með að bólusetja alla eldri en 70 ára, en í þeim hóp er um 40.000 manns.

Virkni allra bóluefna byggir á því að þau ræsa ónæmiskerfið þannig að það nái síðar meir að verja líkamann gegn ákveðnum sjúkdómi með því að þekkja þá sýklana sem honum valda. Á heimasíðu Lyfjastofunar er hægt að kynna sér allt um bóluefni gegn COVID-19.

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð um röðun á þeim hópum sem fara fyrstir í bólusetningu vegna COVID-19. Dreifing bóluefna og skipulag bólusetningar er undir stjórn sóttvarnalæknis en framkvæmdin í höndum heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana.

Barnshafandi konur eru ekki sérstakur forgangshópur þegar verið er að bólusetja gegn COVID-19 en ekki er lagst gegn bólusetningu þungaðra kvenna sem þess óska. Sérstaklega gildir þetta um þær konur sem eru með áhættuþætti fyrir meðgöngu, eða sinna störfum þar sem mælt er með forgangsbólusetningu s.s. í heilbrigðisþjónustu.

 • Hér er að finna upplýsingar og fréttir um bóluefni og lyf við COVID-19 á vef Lyfjastofnunar
 • Upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk um framkvæmd bólusetninga má nálgast á vef Embætti Landlæknis
 • Hér er hægt að lesa allt um bólusetningar á auðlesanlegu máli. Texti frá Þroskahjálp.

  Þessi síða mun taka breytingum eftir því sem nýjar upplýsingar berast um virkni og afhendingu bóluefna og framkvæmd bólusetninga.

COVID-19: Aðlögun bóluefna að nýjum afbrigðum SARS-CoV-2 veirunnar

4.3.2021

Leiðbeiningar til framleiðenda bóluefna

25. febrúar 2021

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur gefið út leiðbeiningar til framleiðenda bóluefna sem hyggjast aðlaga bóluefnin að nýjum afbrigðum SARS-CoV-2 veirunnar.  Í leiðbeiningunum er tilgreint hvaða gögn þurfa að fylgja til að hægt sé að samþykkja aðlagaðar útgáfur bóluefnanna.

Útgangspunktur leiðbeininganna er að aðlöguð bóluefni byggi í megindráttum á sama grunni og fyrstu útgáfur þeirra, sem hafa verið samþykktar á EES-svæðinu til varnar COVID-19. Þannig þurfi færri gögn til stuðnings samþykktar en þegar um glænýtt bóluefni er að ræða.

Nánar í frétt á vef EMA

Bólusetningar við COVID-19 í viku 9, 1. – 7. mars

1.3.2021

Í viku 9, 1. – 7. mars verða um 8900 einstaklingar bólusettir.

Allt bóluefni sem fer í dreifingu næstu viku verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu.

Einstaklingar í aldurshópum yfir 80 ára verða bólusettir með 4600 skömmtum af Pfizer og 4300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni frá AstraZeneca.

Bólusetning 81 ára og eldri í Laugardagshöllinni 2. og 3.mars

1.3.2021

Þriðjudaginn 2. mars og miðvikdaginn 3. mars mun heilsugæslan bjóða öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu 81 árs og eldri, þ.e. fæddir 1939 eða fyrr, COVID-19 bólusetningu í Laugardalshöllinni.

Boð um bólusetninguna hafa verið send með SMS skilaboðum og fólk er beðið um að fylgja tímasetningu sem þar kemur fram.

Þeir sem eru á þessum aldri en hafa ekki fengið SMS skilaboð geta komið í Laugardalshöllina, milli kl. 9:00 og 15:00 annan hvorn daginn og fengið bólusetningu.

Fyrirkomulag

Allir eru beðnir um að mæta með skilríki og við minnum á grímuskyldu.

Bólusett er í axlarvöðva og í almennu rými. Því biðjum við fólk um að koma klætt þannig að auðvelt sé að ná í stungustaðinn. Gott er að vera í stuttermabol innst klæða.

Allir þurfa að bíða í 15 mínútur eftir að bólusetning er gefin.

Hafi fólk bráðaofnæmi við stungulyfjum, eða af óþekktum toga, er ekki ráðlegt að bólusetja það. Þeir sem ekki þiggja bólusetningu eru beðnir um að láta vita á bolusetning@heilsugaeslan.is eða i síma 513-5000.

Bólusetningardagatal

19.2.2021

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við sóttvarnalækni hefur útbúið bólusetningardagatal vegna COVID-19, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um afhendingu bóluefna og áætlanir þar að lútandi. Dagatalinu er ætlað að gefa fólki vísbendingu um hvenær líklegt er að bólusetning hefjist í einstökum forgangshópum. Dagatalið er birt með fyrirvara, enda að hluta til um áætlun að ræða sem mun taka breytingum. Gangi forsendur eftir lýkur bólusetningu gegn COVID-19 hér á landi fyrir lok júní næstkomandi.

Þrjú bóluefni eru með markaðsleyfi og í notkun hér á landi. Þetta eru bóluefni Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Fyrir liggur staðfest áætlun um afhendingu þessara lyfja til loka mars. Þá liggur einnig fyrir að þessir framleiðendur áforma að hafa fyrir lok júní afhent bóluefni fyrir samtals 190.000 einstaklinga.

Bólusetning verður langt komin í lok júní

15.2.2021

Gera má ráð fyrir að hægt verði að bólusetja tæplega 190.000 einstaklinga hér á landi fyrir lok júní næstkomandi með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna sem öll eru með markaðsleyfi og komin í notkun hér á landi. Þetta er mun meira en áður var vænst. Mestu munar annars vegar um nýjan samning Evrópusambandsins við Pfizer sem tryggir Íslandi bóluefni fyrir 25.000 til 30.000 manns strax á öðrum ársfjórðungi, til viðbótar fyrri samningum. Gert er ráð fyrir að Ísland undirriti samning um aukið magn bóluefna frá Pfizer á grundvelli nýs samnings Evrópusambandsins fyrir lok þessarar viku. Einnig mun aukin framleiðslugeta AstraZeneca hafa áhrif. Alls verður rúmlega 280.000 einstaklingum boðin bólusetning hér á landi, þ.e. öllum sem eru 16 ára og eldri. Vænta má bóluefna frá fleiri lyfjaframleiðendum á öðrum ársfjórðungi að því gefnu að þeim verði veitt markaðsleyfi á næstunni eins og að er stefnt.

Bólusetningar við COVID-19 í viku 7, 15. - 21. febrúar

15.2.2021

Upplýsingar um áætlun vikunnar varðandi bólusetningar við COVID-19 hér á landi, verða framvegis birtar á mánudögum á vef embættis landlæknis.

Í viku 7, 15.- 21. febrúar, verða tæplega 6 þúsund einstaklingar bólusettir.

Um 1300 heilbrigðisstarfsmenn fá fyrri bólusetningu með Moderna bóluefni og 4600 aldraðir fá seinni bólusetningu með Pfizer bóluefni.

2400 starfsmenn á hjúkrunar- og dvalarheimilum verða bólusettir með bóluefni AstraZenica.

Undirritun samnings Íslands um bóluefni CureVac

3.2.2021

Undirritaður hefur verið samningur Íslands um kaup á bóluefni lyfjaframleiðandans CureVac gegn COVID-19 sem dugir fyrir um 90.000 einstaklinga. Vonir standa til að afhending bóluefnisins geti hafist á öðrum fjórðungi þessa árs, að undangengnu mati Lyfjastofnunar Evrópu og útgáfu markaðsleyfis en bóluefnið er nú í fasa III í prófunum. Bóluefnið er af sömu gerð og bóluefni Pfizer og Moderna, að því leyti að hluti af RNA erfðaefni veiru er notað til að vekja mótefnasvar hjá bólusettum einstaklingum. Bólusetja þarf hvern og einn tvisvar sinnum með bóluefninu til að ná fullri virkni.

Bóluefninu COVID-19 Vaccine AstraZeneca hefur verið veitt skilyrt íslenskt markaðsleyfi

1.2.2021

Lyfjastofnun veitti rétt í þessu bóluefninu „COVID-19 Vaccine AstraZeneca“  skilyrt íslenskt markaðsleyfi. Bóluefnið ver einstaklinga gegn COVID-19 og er ætlað til notkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri. Byggir markaðsleyfið á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en leyfisveiting hennar byggir á meðmælum Lyfjastofnunar Evrópu. Meðmælin og markaðsleyfi framkvæmdastjórnarnarinnar birtust fyrr í dag.

Um er að ræða þriðja bóluefnið gegn COVID-19 sem hlýtur markaðsleyfi hérlendis, en áður hafa verið samþykkt bóluefnin Comirnaty frá BioNTech/Pfizer og COVID-19 Vaccine Moderna. Yfirlestur á íslenskum þýðingum fylgiseðils og samantektar á eiginleikum lyfs stendur yfir hjá Lyfjastofnun og verða íslenskir textar birtir um leið og þeir eru endanlegir. Sérstök upplýsingasíða um bóluefnið verður einnig birt von bráðar á vef Lyfjastofnunar.

COVID-19 bólusetning fyrir 90 ára og eldri

1.2.2021

Þriðjudaginn 2. febrúar mun heilsugæslan bjóða öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu 90 ára og eldri, þ.e. fæddir 1931 eða fyrr, COVID-19 bólusetningu á Suðurlandsbraut 34.  

Boð um bólusetninguna verða send með SMS skilaboðum og fólk er beðið um að fylgja tímasetningu sem þar kemur fram. 

Þeir sem eru á þessum aldri en hafa ekki fengið SMS skilaboð geta komið á Suðurlandsbraut 34, milli kl. 9:00 og 15:00 sama dag og fengið bólusetningu. 

Allir eru beðnir um að mæta með skilríki og við minnum á grímuskyldu.

Bólusett er í axlarvöðva og í almennu rými. Því biðjum við fólk um að koma klætt þannig að auðvelt sé að ná í stungustaðinn. Gott er að vera í stuttermabol innst klæða. 

Allir þurfa að bíða í 15 mínútur eftir að bólusetning er gefin. 

Hafi fólk bráðaofnæmi er ekki ráðlegt að bólusetja það. Þeir sem ekki þiggja bólusetningu eru beðnir um að láta vita á bolusetning@heilsugaeslan.is eða i síma 513-5000.

Framvísun bólusetningarvottorða á landamærum

22.1.2021

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögu vinnuhóps um vottorð, þess efnis að bólusetningarvottorð sem uppfylla leiðbeiningar sóttvarnalæknis og gefin eru út í EES/EFTA-ríki verði tekin gild á landamærum Íslands.Þeir sem framvísa slíku vottorði eru undanþegnir opinberum sóttvarnaráðstöfunum á landamærum og er þannig ekki skylt að fara í sýnatöku við landamæri. Ný reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands sem tekur gildi þann 15. janúar mun gera ráð fyrir þessari breytingu.

Forgangsröðun í bólusetningu

21.1.2021

Núna er lögð áhersla á að bólusetja aldraða og við reynum að ná til þeirra á marga vegu.

Bólusetningu á hjúkrunarheimilum er nánast lokið.

Byrjað er að bólusetja á sambýlum, dagdvölum og skjólstæðinga heimahjúkrunar.  

Eldri borgarar eru næstir í forgangsröð. Við byrjum á þeim sem eru elstir og farið niður aldursröðina eftir því sem bóluefni berst.

Rafræn bólusetningarvottorð frá 21. janúar

21.1.2021

Í dag og á morgun fær hópur einstaklinga síðari bólusetningarsprautuna gegn COVID-19 og telst þar með fullbólusettur. Hjá embætti landlæknis er verið að leggja lokahönd á rafræna lausn sem gerir fólki kleift að sækja sér bólusetningarvottorð á vefnum; heilsuvera.is. Stefnt er að því að þetta verður mögulegt frá og með morgundeginum. Vottorðið verður að efni og útliti í samræmi við fyrirliggjandi evrópska staðla og alþjóðlega bólusetningarskírteinið. Markmiðið er að greiða för fólks milli landa, þannig að einstaklingar geti framvísað bóluefnarvottorði á landamærum og séu þá undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19 í samræmi við reglur hlutaðeigandi lands.

Fyrsta sending bóluefnis Moderna komið til landsins

13.1.2021

Tekið var á móti fyrstu sendingu bóluefnis Moderna í dag.Þetta er annað bóluefnið gegn COVID-19 sem hlýtur markaðsleyfi Evrópskulyfjastofnunarinnar og tekið er í notkun hér á landi. Áður var bóluefni Pfizerkomið með markaðsleyfi og hófst bólusetning með því fyrir áramót. Vonir standatil þess að þriðja bóluefnið, þ.e. frá AstraZeneca fái markaðsleyfi innan tíðaren Lyfjastofnun Evrópu tilkynnti í dag að hún áformi að halda matsfund umbóluefnið 29. janúar næstkomandi.

Rannsókn vegna tilkynntra aukaverkana bóluefnis við COVID-19

13.1.2021

Lyfjastofnun hefur verið tilkynnt um fimm alvarlegar aukaverkanir, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega kunna að tengjast bólusetningu við SARS-CoV-2 veirunni. Í öllum tilfellunum erum að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og sem búa á hjúkrunarheimilum. Í ljósi þess að um nýtt bóluefni er að ræða hafa landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákveðið að fá óháða aðila til að fara gaumgæfilega yfir þessi fimm alvarlegu atvik.

Viðbótarskammtur úr hettuglösum COVID-19 bóluefnis BioNTech/Pfizer (Comirnaty)

8.1.2021

Til að hægt sé að ná sjötta skammtinum þarf að nota sérstakar sprautur og nálar

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hefur mælt með því að lyfjatextar fyrir COVID-19 bóluefnið Comirnaty verði uppfærðir á þann veg að skilgreindir séu sex skammtar af bóluefni í hverju hettuglasi í stað fimm áður.

Lyfjastofnun Evrópu mælir með markaðsleyfi fyrir Moderna

6.1.2021

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) mælti í dag með útgáfu markaðsleyfis fyrir bóluefni Moderna við COVID-19. Fjallað er um mat EMA á bóluefninu á vef Lyfjastofnunar Íslands. Þar segir einnig fram að íslenskt markaðsleyfi fyrir bóluefnið sé væntanlegt von bráðar.

Eins og fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar er þetta annað bóluefnið gegn COVID-19 sem EMA mælir með markaðsleyfi fyrir, en hið fyrra er bóluefnið Comirnaty frá BioNTech/Pfizer sem veitt hefur verið skilyrt íslenskt markaðsleyfi.

Áætlun um fyrstu afhendingu bóluefnis Moderna

5.1.2021

Nú liggur fyrir áætlun um afhendingu fyrstu bóluefnaskammta lyfjafyrirtækisins Moderna. Vonir standa til að fyrirtækið fái markaðsleyfi í Evrópu í kjölfar matsfundar Lyfjastofnunar Evrópu á morgun. Gert er ráð fyrir að Ísland fái 5.000 bóluefnaskammta frá Moderna í janúar og febrúar en að eftir það verði afhendingin hraðari. Þetta er hlutfallslega sama úthlutun og til annarra þjóða í Evrópusamstarfi um kaup á bóluefnum sem miðast við íbúafjölda þjóða. Alls á Ísland von á 128.000 bóluefnaskömmtum frá Moderna sem dugir fyrir 64.000 einstaklinga.

Undirritun samnings Íslands um bóluefni Moderna og viðbótarsamnings um bóluefni frá Pfizer

30.12.2020

Samningur Íslands um bóluefni Moderna og viðbótarsamningur um bóluefni frá Pfizer voru undirritaðir í heilbrigðisráðuneytinu í dag. Samningurinn við Moderna tryggir Íslendingum 128.000 bóluefnaskammta og dugir fyrir 64.000 einstaklinga. Þetta er það sama og aðrar þjóðir í samstarfi Evrópuþjóða eiga rétt á sem hlutfall af mannfjölda.

Bólusetning hafin við COVID-19

29.12.2020

Fjórir starfsmenn heilbrigðisþjónustu voru bólusettir við COVID-19 kl. 9.00 í morgun og voru þar með fyrstir allra til að hljóta bólusetningu hér á landi. Klukkan 10.00 hófst bólusetning á hjúkrunarheimilum. Þorleifur Hauksson var fyrstur íbúa á hjúkrunarheimili til að fá bólusetningu en hann býr á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fylgdust með bólusetningu Þorleifs, ásamt starfsfólki Seljahlíðar og fjölmiðlafólki og var tímamótunum vel fagnað af Þorleifi og öðrum viðstöddum.

Heilbrigðisstarfsfólkið sem var bólusett fyrst allra kl. 9.00 í morgun voru þau Krist­ina El­izondo, sjúkra­liði á gjör­gæslu­deild, Krist­ín Gunn­ars­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræðing­ur á gjör­gæslu­deild, Elías Eyþórs­son, sér­náms­lækn­ir í lyflækn­ing­um, og Thelma Guðrún Jóns­dótt­ir, aðstoðarmaður á bráðamót­töku.

Ísland fær 80.000 viðbótarskammta af bóluefni frá Pfizer

28.12.2020

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að gera viðbótarsamning um kaup á 100 milljónum skammta bóluefnis frá Pfizer til viðbótar þeim 200 milljónum sem framkvæmdastjórnin hafði áður samið um. Þetta gefur öllum ríkjum sem aðild eiga að Evrópusamstarfinu, Íslandi þar með töldu, kost á að kaupa meira bóluefni frá framleiðandanum. Samningur Íslands um kaup á 80.000 skömmtum til viðbótar frá Pfizer verður undirritaður á morgun. Viðræður framkvæmdastjórnarinnar og Pfizer um afhendingaráætlun standa yfir og verða þær niðurstöður kynntar um leið og þær eru ljósar.

Bóluefni Pfizer komið til landsins – bólusetning hefst á morgun

28.12.2020

„Dag­ur­inn í dag er dag­ur góðra frétta og senni­lega betri frétta en við höf­um lengi heyrt“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við móttöku fyrstu 10.000 skammtanna af bóluefni Pfizer við COVID-19 í dag. Hún sagði engan hafa órað fyrir því að takast myndi að þróa bóluefni við þessum skæða og alvarlega heimsfaraldri á svo skömmum tíma. Það hefði gerst hraðar en nokkur þorði að vona eða taldi raunhæft. Þetta væri ótrúlegur árangur sem þakka mætti víðtækri samstöðu og samvinnu vísindamanna, fyrirtækja, heilbrigðiskerfa og þjóða. Fyrsta COVID-19 smitið greindist hér á landi í lok febrúar á þessu ári og rúmt ár er frá því að fyrsta smitið greindist í heiminum.

EMA mælir með markaðsleyfi fyrsta bóluefnisins

23.12.2020

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur mælt með útgáfu skilyrts markaðsleyfis fyrir bóluefnið „Comirnaty“ sem þróað hefur verið af lyfjafyrirtækjunum BioNTech og Pfizer til varnar COVID-19 hjá einstaklingum 16 ára og eldri. Þessi meðmæli EMA byggja á vísindalegu mati stofnunarinnar og greiða þau leiðina að því að gefa megi út markaðsleyfi fyrir bóluefnið og bólusetning geti hafist.

Sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn menn (CHMP) hefur lokið ítarlegu mati á bóluefninu. Komst nefndin samhljóða að þeirri niðurstöðu að sýnt hafi verið fram á fullnægjandi gæði, öryggi og virkni bóluefnisins og því mælir hún með útgáfu skilyrts markaðsleyfis.

Undirritun samnings við Janssen um bóluefni fyrir 235.000 manns

22.12.2020

Samningur Íslands um bóluefni frá lyfjaframleiðandanum Janssen var undirritaður í dag. Þetta er þriðji samningurinn íslenskra heilbrigðisyfirvalda um kaup á bóluefnum við COVID 19. Samningurinn við Janssen tryggir bóluefni fyrir 235.000 einstaklinga. Áður var búið að gera samning um bóluefni frá Pfizer fyrir 85.000 einstaklinga og Astra Zenca fyrir 115.000 einstaklinga.

Fyrstu bólusetningar gegn COVID-19 hefjast eftir jól

22.12.2020

Fyrirhugað er að bólusetningar gegn COVID-19 hefjist hér á landi 29. desember nk. Óvíst er að hún geti hafist þann dag á öllu landinu en það ræðst af flutningi bóluefnisins út á land, veðurskilyrðum og aðbúnaði heilsugæslunnar. Framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustunni sem telur rúmlega 1.000 manns verða í fyrsta hópi og jafnframt verður hafin bólusetning hjá íbúum hjúkrunar- og öldrunardeilda sem telja 3.000–4.000 manns. Þegar önnur sending kemur til landsins verður haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.

Það er gleðilegt að geta hafið bólusetningar áður en árið er liðið og hefja þar með þá mikilvægu vegferð í leið okkar út úr farsóttinni.

Samningur Íslands við Pfizer í höfn

22.12.2020

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa undirritað samning við bóluefnaframleiðandann Pfizer. Samningurinn kveður á um 170.000 skammta til Íslands sem dugir fyrir 85.000 manns. Gert er ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu veiti lyfinu markaðsleyfi í síðasta lagi 29. desember. Áætlað er að fyrstu skammtarnir frá Pfizer berist um áramót, alls rúmlega 21.000 skammtar sem duga fyrir 10.600 manns.

Yfirlit um stöðu samninga um bóluefni

22.12.2020

Heilbrigðisráðuneytið hefur tekið saman yfirlit með upplýsingum um stöðu samninga um bóluefni vegna COVID 19 sem Íslandi bjóðast á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Á yfirlitinu má einnig sjá hver staðan er á prófunum viðkomandi bóluefnis, hvenær megi vænta útgáfu markaðsleyfis og hve marga skammta bóluefnis Ísland muni fá eftir því sem upplýsingar um það liggja fyrir. Yfirlitið er myndrænt og verður uppfært reglulega eftir því sem málum vindur fram.

Forgangsröðun við bólusetningu þegar fyrstu skammtar bóluefnis berast

22.12.2020

Sóttvarnalæknir hefur í samráði við heilbrigðisráðherra ákveðið hvaða hópar munu njóta forgangs við bólusetningu við COVID-19 þegar fyrstu skammtar bóluefnis berast til landsins. Þetta er í samræmi við reglugerð þar að lútandi sem heimilar sóttvarnalækni að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar telji hann það nauðsynlegt og skal hann þá tilkynna það ráðherra með rökstuðningi.

Þegar búið að tryggja bóluefni fyrir 87% þjóðarinnar

22.12.2020

Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87% þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samningar sem Ísland hefur þegar lokið við lyfjaframleiðendurna Pfizer og Astra Zeneca tryggja 400.000 bóluefnaskammta sem nægja fyrir 200.000 einstaklinga. Þriðji samningurinn við bóluefnaframleiðandann Janssen verður undirritaður 23. desember næstkomandi og tryggir Íslandi 235.000 skammta sem nægja fyrir 117.500 manns. Alls tryggja þessir þrír samningar bóluefni fyrir rúmlega 317.500 einstaklinga. Þann 31. desember næstkomandi verður undirritaður samningur við Moderna en umfang samningsins varðandi fjölda skammta liggur ekki fyrir að svo stöddu. Hér má sjá yfirlit um stöðu samninga Íslands og verður það uppfært reglulega eftir því sem málum vindur fram.

Fáum hlutfallslega sama magn bóluefna og önnur ríki í Evrópusamstarfi

22.12.2020

Þátttaka Íslands í samstarfi Evrópuþjóða um kaup á bóluefnum í gegnum samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tryggir Íslandi hlutfallslega sama magn bóluefna og öllum öðrum þjóðum sem taka þátt í samstarfinu. Framkvæmdastjórnin kveður á um hve mikið ríkin fá og er þar alfarið byggt á hlutfallslegri úthlutun miðað við höfðatölu hverrar þjóðar. Þetta á við um bóluefni Pfizer líkt og annarra framleiðenda. Allar þjóðir fá til að byrja með 10.000 skammta. Síðan hefst úthlutun samkvæmt afhendingaráætlun.

Eins og áður hefur komið fram hefur Ísland lokið samningum um bóluefni við tvö þeirra fyrirtækja sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er með samninga við, þ.e. Pfizer og Astra Zeneka og tryggja þau Íslandi bóluefni fyrir samtals 200.000 einstaklinga. Þann 23. desember er stefnt að undirritun samnings Íslands um bóluefni Janssen um 235.000 bóluefnaskammta. Þá er enn fremur gert ráð fyrir undirritun samnings við Moderna 31. desember næstkomandi.

Bólusetningarhóparnir eru tíu

Bólusetning gegn COVID-19 hófst á Íslandi í lok síðasta árs. Hér er hægt að nálgast tölulegar upplýsingar um hvað margir eru bólusettir hér á landi.

Eins og staðan er núna þá er lögð áhersla að bólusetja aldraða, bólusetningin fer fram á hjúkrunarheimilum, sambýlum, dagdvölum og í heimahúsum (heimahjúkrun). Þeir sem ekki fá boð í bólusetningu á rafrænan hátt fá boð eftir öðrum leiðum. Það mun koma að öllum og enginn verður undanskilinn. Einnig hafa framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustunni verið bólusettir.

Þeir sem hafa fengið staðfest COVID-19 með PCR greiningar prófi eða mótefnamælingu þurfa ekki að fara í bólusetningu.

Samkvæmt reglugerð nr. 1198/2020 hefur sóttvarnalæknir í samráði við heilbrigðisráðherra ákveðið hvaða hópar munu njóta forgangs við bólusetningu við COVID-19. Sóttvarnalækni er heimilt að víkja frá neðangreindri forgangsröðun ef nauðsynlegt er, svo sem vegna stöðu faraldursins hverju sinni eða tegund bóluefnis, en skal taka mið af þeirri forgangsröðun sem kveðið er á um í reglugerðinni. Vakin er athygli á að Heilsugæslustöðvar breyta ekki forgangsröðinni.

Yfirlit yfir stöðu bólusetningar á Íslandi

Uppfært síðast
04.02.21
Hópur skilgreindur í reglugerð
Boðunarlisti skilgreindur
Afhending bóluefnis fyrir hóp komin á áætlun
Boðun hafin
Bólusetning hafin
Bólusetningu þeirra sem hana þiggja lokið
Hópur
1

Heilbrigðisstarfsfólk og annað starfsfólk sem starfar á bráðamóttökum og gjörgæsludeildum sjúkrahúsa Landspítala og sambærilegum deildum Sjúkrahússins á Akureyri.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
2

Heilbrigðisstarfsfólk á COVID-19 göngudeild og legudeildum fyrir sjúklinga sem smitast hafa af COVID-19.

Starfsmenn sem sinna sýnatökum vegna COVID-19 greininga, t.d. í heilsugæslu.

Starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
3

Einstaklingar sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa.

Einstaklingar í dagdvöl og dagþjálfun.

Einstaklingar sem fá heimaþjónustu sem jafnast á við þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila.

Boðunarleið: Stofnun/þjónustuveitandi skilgreinir lista, bólusetning kynnt og boðuð innan stofnunar/þjónustu.

Hópur
4

Sjúkraflutningamenn, bráðatæknar, starfsmenn Landhelgisgæslunnar, starfsmennslökkviliðsins, fangaverðir, útkallslögregla, landamæralögregla og tollgæsla á landamærastöð á Keflavíkurflugvelli. Forgangsraðað innan hóps m.t.t. umgengni við almenning með háa bakgrunnsáhættu á smiti.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi. Sjúkraflutningamenn, bráðatæknar, útkallslögregla, landamæralögregla og tollgæsla á KEF.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, starfsmenn slökkviliðsins, fangaverðir, landamæraverðir og tollgæslustarfsmenn annarra landamærastöðva.

Hópur
5

Heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúklingum með beinum hætti og nauðsynlegt er að fái bólusetningu.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
6

60 ára og eldri.

Boðunarleið: Listi skilgreindur út frá kennitölu, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi en einnig verður auglýst hvar og hvenær bólusetning býðst fyrir ákveðna árganga.

Hópur
7

Einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi. Innan hóps verður forgangsraðað m.t.t. eigin áhættu einstaklings, yfirstandandi meðferðar sem truflar ónæmissvar, yfirvofandi meðferðar sem dregur úr áhrifum bólusetningar o.fl.

Boðunarleið: Listi skilgreindur miðlægt með aðstoð sérfræðinga sem sinna sjúklingahópum sem taldir eru í áhættu fyrir alvarleg einkenni COVID-19 sýkingar, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni. Boðun verður með sms úr miðlægu kerfi og liðsinni sérfræðinga eða göngudeilda sem sinna ákveðnum sjúklingahópum.

Hópur
8

Starfsfólk leik- grunn- og framhaldsskóla og tiltekið starfsfólk félags- og velferðarþjónustu.

Boðunarleið: Vinnuveitandi skilgreinir lista, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi.

Hópur
9

Einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra- og efnahagslegra aðstæðna.

Boðunarleið: Þjónustuveitendur skilgreina lista, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi og með liðsinni þjónustuveitenda.

Hópur
10

Allir aðrir sem óska bólusetningar. Forgangsröðun innan hóps möguleg þegar bólusetning annarra hópa langt komin, t.d. eftir landsvæðum m.t.t. COVID-19 útbreiðslu og hlutfalli áður bólusettra á svæðinu.

Boðunarleið: Listi skilgreindur út frá Þjóðskrá, dregnir frá þeir sem tilheyra fyrri hópum, áður smitaðir eða með mótefni, boðað með sms í miðlægu kerfi en einnig verður auglýst hvar og hvenær bólusetning býðst fyrir þá sem ekki fá boð með sms.

Hvernig verður skipulag bólusetningarinnar?

Boðun og skráning

Einstaklingar í bólusetningarhópum eru boðaðir í bólusetningu með skilaboðum frá heilsugæslustöðvum (t.d. með SMS-skilaboðum, skilaboðum á Heilsuveru eða eftir öðrum leiðum) þar sem fram kemur hvar og hvenær viðkomandi á að mæta. Ekki verður hægt að panta tíma í bólusetningu og heilsugæslustöðvar geta ekki breytt forgangsröðun.  

Embætti landlæknis hefur þróað tölvukerfi sem mun styðja við bólusetningar. Í kerfinu er haldið utan hvern hóp fyrir sig, boðun í bólusetningar, upplýsingar um bóluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólks, auk eftirlits með að hver og einn einstaklingur sé fullbólusettur. Þannig heldur kerfið utan um feril bólusetninga og skráir beint inn í bólusetningargrunn sóttvarnalæknis.

Starfsfólk og sjúklingar á sjúkrahúsum hafa verið bólusettir á sjúkrahúsum. Íbúar og starfsmenn hjúkrunarheimila og sambýla hafa einnig verið bólusettir á heimilum.

Upplýsingar um staðsetningu bólusetninga fyrir aðra hópa verða birtar þegar það liggur fyrir hvenær hægt verður bólusetja þá.

 • Einstaklingar verða boðaðir í bólusetningu skv. lista/hópum.
 • Ekki verður hægt að panta tíma í bólusetningu.
 • Tölvukerfi heldur utan um alla hópa, boðun í bólusetningar, upplýsingar um bóluefni, skráningu og eftirlit með að einstaklingur hafi verið bólusettur að fullu.
 • Bóluefni verður dreift til afhendingastaða á landinu þar sem heilsugæslan ber ábyrgð á framkvæmd bólusetninga á þjónustusvæði sínu.
 • Einstaklingar í forgangshópum verða boðaðir með skilaboðum í Heilsuveru þar sem fram kemur hvar og hvenær viðkomandi á að mæta.
 • Staðsetning bólusetninga fyrir aðra hópa verður kynnt þegar liggur fyrir hvenær þeir fá bólusetningu.
 • Að öllu jöfnu þarf að bólusetja einstaklinga tvisvar með sama bóluefninu með 3 vikna millibili, eftir leiðbeiningum framleiðanda.
 • Aukaverkanir. Almenningur og heilbrigðisstarfsfólk getur tilkynnt um aukaverkanir af völdum bóluefnis á vef Lyfjastofnunar.

Aukaverkanir eftir bólusetningu við COVID-19:

Allar bólusetningar geta valdið óþægindum sem við köllum aukaverkanir. Flestar aukaverkanir eru í raun afleiðing virkjunar ónæmiskerfisins sem er tilgangur bólusetningarinnar og eru yfirleitt þær sömu óháð bóluefni:

 • Hiti >38°, hrollur
 • Óþægindi á stungustað
 • Þreyta og slappleiki, höfuðverkur, magaóþægindi

Þessi einkenni koma oftast fram innan sólarhrings frá bólusetningu og vara sjaldan lengur en 1-2 sólarhringa nema óþægindi á stungustað og eitlabólgur. Einkenni koma gjarnan hraðar fram eftir endurtekna bólusetningu. Óþægindi á stungustað geta verið eymsli eingöngu en stundum kláði, roði eða bólga. Þau vara oft lengur en sólarhring, jafnvel upp undir viku. Þessi einkenni þarf ekki að tilkynna til heilsugæslu/stofnunar sem bólusetti eða Lyfjastofnunar nema þau séu talin óvenju alvarleg. Nota má venjulega skammta af parasetamóli og/eða íbúprófeni ef einstaklingur þolir slík lyf, til að draga úr óþægindum ef einhver þessara einkenna koma fram eftir bólusetninguna.

Eitlabólgur, oftast í holhönd þeim megin sem bóluefni var gefið í handlegg eru sjaldgæfari en einnig tilkomnar vegna virkjunar ónæmiskerfis. Ef eitlabólgur koma fram víðar en á því svæði sem næst er stungustað við bólusetningu er rétt að hafa samband við heilbrigðisþjónustu s.s. heilsugæslu sem metur hvort tilefni er til frekari skoðunar eða meðferðar og tilkynnir til Lyfjastofnunar.

Mögulegar aukaverkanir COVID-19 bóluefna önnur en virkjun ónæmiskerfis:

Þessar aukaverkanir ætti að tilkynna til Lyfjastofnunar í öllum kringumstæðum þar sem sérstakt eftirlit er með þessum lyfjum. Athugið að ekki er víst að um eiginleg tengsl við bóluefni sé að ræða en með góðri skráningu slíkra einkenna eftir bólusetningu verður mögulega hægt að staðfesta eða hrekja tengslin. Ef tengsl eru staðfest getur verið hægt að skilgreina hópa í sérstakri áhættu fyrir slíkar aukaverkanir og gera ráðstafanir eða frekari leiðbeiningar um notkun bóluefnanna hjá þeim hópum.

Comirnaty/Pfizer bóluefni: sjá fylgiseðil

 • Bráðaofnæmiseinkenni
 • Andlitstaugarlömun
 • Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni

Moderna bóluefni: sjá fylgiseðil

 • Bráðaofnæmiseinkenni
 • Andlitstaugarlömun
 • Önnur skyndileg, ný einkenni sem talin eru geta tengst bóluefni

Tilkynning til Lyfjastofnunar:

Allir geta tilkynnt aukaverkun lyfja (þ.m.t. bóluefna). Aðstandendur og starfsfólk, t.d. á dvalarheimilum, geta t.d. tilkynnt um aukaverkun fyrir skjólstæðinga. Lögð er sérstök áhersla á að tilkynntar séu nýjar aukaverkanir (aukaverkanir sem ekki eru þekktar og er þar af leiðandi ekki getið í fylgiseðlinum), aukaverkanir sem lýst hefur verið en með óþekkta tíðni (sem er þá óvissa um tengsl við bólusetningu) og alvarlegar aukaverkanir (aukaverkanir sem þarfnast meðferðar umfram verkjastillingu/hitalækkandi lyf). Hægt er að tilkynna aukaverkanir til heilbrigðisstarfsfólks sem tilkynnir þá áfram til Lyfjastofnunar eða beint á vef Lyfjastofnunar.

Lífið eftir COVID-19 bólusetningu

Einkenni eftir bólusetningu:

Sjá um aukaverkanir hér. Afar mikilvægt er að láta heilsugæslu eða þá stofnun sem bólusetti þig vita ef alvarlegar eða óvenjulegar aukaverkanir/fylgikvillar koma fram eftir bólusetningu. Ef vafi leikur á tengslum einkenna við bólusetningu er rétt að tilkynna þau frekar en ekki þar sem um ræðir ný lyf sem sæta sérstöku eftirliti. Athugið að ef bólusett er þétt með samskonar bóluefni eru almennt séð töluverðar líkur á að fram komi einkenni ónæmisvirkjunar (hiti, slappleiki, þreyta, óþægindi á stungustað) á fyrsta sólarhring eftir seinni skammta. Þessi algengu einkenni er ekki þörf á að tilkynna til Lyfjastofnunar nema þau vari óvenju lengi (mat heilbrigðisstarfsmanns) eða séu óvenju alvarleg, t.d. ef allur handleggur bólgnar.

Sóttvarnaráðstafanir eftir bólusetningu:

Þeir sem hafa lokið bólusetningu við COVID-19 eru ekki undanþegnir þeim sóttvarnareglum sem gilda í íslensku samfélagi meðan COVID faraldur geisar (fjöldatakmörkunum, grímuskyldu, ráðstöfunum á vinnustað).

Bólusetning dregur úr hættu á smiti en útilokar það ekki og ekki er enn vitað hvort bólusetning dregur úr smiti til annarra ef bólusettur einstaklingur veikist af COVID-19.

Þeir sem hafa lokið bólusetningu gegn COVID-19 og hafa um það skírteini sem er gefið út í EU/EES landi eru undanskildir kröfu um skimun og sóttkví á landamærum skv reglugerð nr. 18/2021. Þegar WHO gefur út skilmerki um alþjóðlegar kröfur um bólusetningar og skírteini verða þau tekin gild til afléttingar kröfu um skimun og sóttkví á landamærum.

Bólusetning kemur að svo stöddu ekki í veg fyrir sóttkví ef einstaklingi er skipað í sóttkví vegna umgengni við smitaðan einstakling.

Ef þú ertu bólusett/ur með bóluefni AstraZeneca
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Moderna
Ef þú ert bólusett/ur með bóluefni Pfizer-biontech

Spurt og svarað vegna bólusetningar gegn COVID-19

Algengar spurningar og svör um bólusetningu gegn COVID-19 á vef Embætti Landlæknis.
Algengar spurningar heilbrigðisstarfsfólks vegna bólusetningar gegn COVID-19 á vef Embætti Landlæknis.
Algengar spurningar og svör um bóluefni og lyf við COVID-19 á vef Lyfjastofnunar.
Tilkynna brot