Táknmál
Táknmál

Persónuverndarstefna

Rakning C-19 – smáforrit

Rakning C-19 smáforritið er smáforrit, sem þú getur sótt og nýtist við rakningu á COVID-19 smitum. Smáforritið geymir staðsetningarupplýsingar með þínu samþykki. Ef smitrakningateymi almannavarna þarf að rekja ferðir þínar verður þú beðinn um að senda staðsetningargögnin til teymisins.

Staðsetningarupplýsingarnar munu nýtast rakningateyminu við að rekja ferðir þínar síðustu 14 daga. Þannig aukast líkurnar á því að hægt verði að finna einstaklinga, sem þú hefur verið í návígi við.

Embætti landlæknis, Katrínartúni 2, 105, Reykjavík, er ábyrgðaraðili við vinnslu persónuupplýsinga, sem verða til við notkun smáforritsins.

Hvaða persónuupplýsingar er verið vinna?

Þegar þú sækir forritið og setur það upp á símanum þínum, samþykkir þú að símanúmerið þitt sé vistað í gagnagrunni. Meðan smáforritið er virkt á símanum þínum safnar það staðsetningargögnum síðustu 14 daga og geymir á öruggan hátt á símanum þínum. Forritið byrjar að safna gögnum þegar þú tekur það í notkun, þannig verða engin gögn til um ferðir þínar fyrir þann tíma.

Staðsetningargögnin verða eingöngu vistuð á símanum þínum. Þeim verður ekki miðlað til smitrakningateymisins án þíns samþykkis. Smitrakningateymið mun eingöngu biðja þig um að miðla staðsetningargögnunum ef nauðsynlegt reynist að rekja ferðir þínar. Í slíkum tilfellum verður þú einnig beðinn um að gefa upp kennitölu þína, til að tryggja að gögnin tilheyri réttum einstaklingi.

Hver er tilgangur vinnslunnar?

Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga við notkun á Rakning C-19 smáforritinu er að hefta útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins í samræmi við skyldur sóttvarnalæknis skv. sóttvarnalögum. Notkun smáforritins er ætlað að tryggja hraða og árangursríka smitrakningu og auðvelda þannig smitrakningateyminu að hafa upp á einstaklingum sem kunna að hafa verið útsettir fyrir COVID-19 smiti.

Miðlun persónuupplýsinga

Persónuupplýsingum verður eingöngu miðlað til smitrakningateymis almannavarna og þá að fengnu samþykki þínu.

Að öðru leyti verður persónuupplýsingum ekki miðlað, nema lög kveði á um að skylt sé að miðla slíkum upplýsingum.

Persónuupplýsingum verður ekki miðlað út fyrir Evrópska efnahagssvæðið.

Vinnsluheimild

Vinnsla þeirra persónuupplýsinga, sem nauðsynleg er vegna notkunar á smáforritinu, byggir á samþykki notenda.

Sé staðsetningargögnum miðlað til rakningateymis, byggir vinnsla persónuupplýsinga við smitrakningu á þeirri lagaskyldu sóttvarnalæknis að hindra dreifingu smitsjúkdóma, skv. sóttvarnalögum.

Öryggi persónuupplýsinga

Við þróun og rekstur kerfisins hefur verið gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að gögn komist ekki í hendur óviðkomandi, þeim verði ekki breytt, þau eyðilögð eða að þau tapist.

Öll samskipti milli smáforritsins og gagnagrunna eru dulkóðuð. Staðsetningargögn sem vistuð eru á símanum þínum eru varin af þeim öryggisráðstöfunum sem þar eru fyrir hendi.

Aðgangur að gagnagrunnum verður takmarkaður og rekjanlegur. Símanúmerum verður eytt úr gagnagrunni þegar ekki verður lengur þörf fyrir smitrakningu.

Öllum staðsetningargögnum sem miðlað er til rakningteymis, verður eytt úr gagnagrunni eftir 14 daga.

Þín réttindi

Þú átt rétt á að fá upplýsingar um þau gögn sem vistuð eru vegna notkunar á smáforritinu, ásamt því að fá afhent eintak af slíkum gögnum.

Þú átt rétt á að fara fram á að rangar persónuupplýsingar séu leiðréttar og að upplýsingum sé eytt. Þú átt einnig rétt á því að mótmæla vinnslu persónuupplýsinga og óska eftir því að vinnsla þeirra sé takmörkuð. Þú átt einnig rétt á að fara fram á að fá persónuupplýsingar þínar afhentar á tölvutæki formi, eða þær verði fluttar beint til þriðja aðila.

Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Embættis landlæknis með tölvupósti á personuvernd@landlaeknir.is eða í síma 510-1900, óskir þú eftir frekari upplýsingum um vinnslu persónuupplýsinga eða til að koma á framfæri ábendingum sem varða hana. Þá er einnig hægt að senda póst merktan persónuverndarfulltrúi til Embætti landlæknis, Katrínartúni 2, 6. hæð, 105 Reykjavík.

Teljir þú að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við þau lög sem um hana gilda getur þú sent erindi til Persónuverndar.Til baka á forsíðu