Smitrakning er
samfélagsmál
Táknmál
Táknmál

Appið er í lykilhlutverki

Smáforritið Rakning C-19 er mikilvægur hlekkur í því viðamikla starfi sem er í gangi vegna Covid-19 og getur hjálpað til við að hindra útbreiðslu veirunnar.

Ný uppfærsla af Rakningar appinu er komin út.  Mikilvægt er að notendur opni appið eftir uppfærslu og fari í gegnum uppsetningaferli til að virkja rakningu.  Eftir uppfærslu ætti staða smitrakningar að vera sýnileg á forsíðu appsins. Helstu breytingar í þessari útgáfu eru meðal annars:

Staða smitrakningar sýnileg í appinu
Bætt virkni á iOS tækjum
Einfaldari útreikningur fyrir útsetningu á smiti
Skráning á símanúmeri er fjarlægð úr appinu

Hefur þú ekki fengið uppfærslu?

Þá getur þú farið í app búðina og valið að uppfæra.

Við erum öll almannavarnir

Hvernig virkar appið?

Hvað geri ég?

Sæki appið.
Kveiki á tilkynningum um möguleg smit.

Hvað gerir appið?

Skiptist á handahófskenndum og ópersónugreinanlegum lyklum við nálæga síma sem eru með appið gegnum bluetooth.
Sækir upplýsingar í gagnagrunn, um smit frá öðrum notendum appsins sem hafa greinst með COVID-19 og deilt sínum niðurstöðum.
Ef þú greinist með COVID-19 smit getur rakningarteymi Almannavarna óskað eftir því gegnum síma að þú sendir ópersónugreinanlegu lyklana yfir í gagnagrunn rakningarteymisins.
Þá er hægt að vara aðra við hugsanlegri útsetningu um smit.
Þessar upplýsingar eru eingöngu vistaðar í símanum sjálfum og engum aðgengilegar. Gögnin eru einungis geymd í 14 daga.

Hvers vegna fæ ég tilkynningu?

Einhver sem þú hefur verið nálægt hefur greinst með COVID-19. Engin leið er að komast að því hver það var því gögnin eru ekki persónugreinanleg. Það eina sem þú veist er hvaða dag möguleg útsetning átti sér stað.
Ef þú færð tilkynningu um mögulega útsetningu fyrir smiti leiðbeinir appið um skráningu í smitgát og útvegar strikamerki fyrir sýnatöku á 7. degi. Þá þartu að skrá þig inn með símanúmeri og fylla út viðeigandi reiti. Sýnataka án einkenna fyrr hefur ekkert að segja því smit kemur fram síðar.
Það er í þínum höndum hvernig þú bregst við. Þú getur ákveðið viðbrögðin eftir aðstæðum á útsetningartíma.

Hvað er smitgát?

Smitgát er ekki formlega skipuð sóttkví en mjög mikilvægt er að sýna aðgát og gæta sérstaklega vel að persónubundnum sóttvörnum.
Ef þú telur að útsetningin hafi verið minniháttar getur þú samt valið að forðast viðkvæma hópa, vinna heima og forðast margmenni.
Það er háð þínu samþykki að bregðast við tilkynningu um smit. Rakningarteymið veit ekki hverjir fá tilkynningu.
Þú stjórnar því hvernig þú bregst við og hagar þér, jafnvel þó þú hafir skráð þig í smitgát.

Skilaboð um sóttkví?

Ef þú færð skilaboð um sóttkví þá þarftu umsvifalaust að fylgja reglum um sóttkví. Þá hefur þú sannarlega verið útsett/ur fyrir smiti. Sóttkví er skylda, öfugt við smitgát, og brot á sóttkví varða sektum.

Því fleiri sem sækja appið, því betra, og því meiri líkur á að tilkynningar berist til þeirra sem eru útsettir fyrir smiti. Appið er bæði fyrir Android og iOS tæki og er opið öllum.

Vertu sterkur hlekkur í keðjunni

Upplýsingar um persónuvernd má finna hér.

App storeGoogle play

Rakning c-19 appið

17.11.2021

Frá því að síðasta reglugerð um takmarkandi aðgerðir gegn COVID-19 tók gildi þ. 13. nóvember sl. þá hafa verið sveiflur í fjölda daglegra smita og ekki hægt að segja með vissu að faraldurinn sé á niðurleið. Fjöldi innlagna á sjúkrahús hefur hins vegar aukist og eru nú 18 inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19 og þar af fjórir á gjörgæsludeild. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri liggja nú þrír sjúklingar vegna COVID-19 en enginn á gjörgæsludeild. Vert er að minna á að alvarleg veikindi koma ekki fram fyrr en á fyrstu til annarri viku veikinda og því mun það taka u.þ.b. tvær vikur að merkja fækkun í innlögnum í kjölfar hertra aðgerða. Hins vegar má búast við að sjá fækkun daglegra smita u.þ.b. 7 dögum eftir að aðgerðir voru hertar ef þær bera þá árangur á annað borð.

Undanfarna daga hefur talsvert verið rætt um hvort fullbólusettir einstaklingar með tveimur sprautum gegn COVID-19 eigi að njóta réttinda í samfélaginu umfram óbólusetta. Þessi umræða er ekki ný af nálinni því á undanförnum árum hefur oft verið rætt um hvort gera eigi bólusetningar barna að skyldubólusetningu, sérstaklega í þau fáu skipti þegar aukning verður á bólusetningasjúkdómum.

Sóttvarnalæknir hefur löngum haft þá afstöðu að varasamt sé að gera bólusetningar að skyldu af þeirri ástæðu að þátttaka hér í almennum bólusetningum er með ágætum og því gæti slík ákvörðun skapað önnur vandamál sem leitt gætui til minni þátttöku og meiri smithættu í samfélaginu.

Hvað varðar umræðu undanfarinna daga um aukin réttindi fullbólusettra þá verður hún að byggja á faglegum forsendum. Veitir full bólusetning með tveimur sprautum gegn COVID-19 það mikla vernd gegn smiti að það réttlæti mismunun bólusettra og óbólusettra? Niðurstöður rannsókna hafa sýnt, að full bólusetning veitir um 50% vernd gegn smiti og 90% vernd gegn alvarlegum veikindum. Gögn okkar hér á landi sýna jafnframt að flestir sem greinast (60%) eru fullbólusettir og um 50% þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús eru fullbólusettir. Hins vegar virðast fullbólusettir (skv. upplýsingum frá smitsjúkdómalæknum) fá vægari einkenni og dvelja skemur á sjúkrahúsi ef þeir þurfa á annað borð að leggjast inn. Ávinningur af bólusetningu með tveimur skömmtum er því ótvíræður.  Þó að óbólusettir séu um þrefalt líklegri til að smitast af COVID-19 og fimm sinnum líklegri til að leggjast inn á sjúkrahús þá er ekki hægt að segja að núverandi bylgja sé orsökuð og drifin áfram af smitum frá óbólusettum. Því er ekki líklegt að jafnvel þó allir hér á landi yrðu fullbólusettir með tveimur skömmtum, að smit í samfélaginu myndu stöðvast og ásættanlega staða myndi skapast á sjúkrahúsum. Því tel ég ekki faglegar forsendur vera fyrir því á þessari stundu að mismuna bólusettum og óbólusettum í samfélaginu.

Breytir örvunarbólusetning með þriðja skammti þá faglegum forsendum hvað varðar mismunun á þeim sem fá þriðja skammtinn og öðrum? Í dag er ekki hægt að fullyrða að bólusetning með örvunarskammti muni vernda að mestu gegn smiti. Erlendar rannsóknir gefa þó vonir um að verndin sé veruleg umfram skammt númer tvö og því eru allir hvattir til að mæta í örvunarbólusetninguna þegar boð berast. Sóttvarnalæknir mun áfram sem hingað til fylgjast náið með bólusetningastöðu þeirra sem greinast og því mun verða hægt að svara spurningunni um árangur örvunarskammtsins að nokkrum vikum eða mánuðum liðnum.

Sóttvarnalæknir vill því hvetja alla til að mæta í bólusetningu og þiggja jafnfram örvunarskammtinn sem í boði er. Ef í ljós kemur að smit eru mjög fátíð hjá þeim sem fá örvunarskammt þá verður komin grundvöllur til að ræða hvort þessir aðilar eigi að njóta réttinda umfram þá sem eru óbólusettir eða hafa fengið tvo skammta. Slík ákvörðun verður þó alltaf pólitísk og siðfræðileg og verður ekki tekin af öðrum en stjórnvöldum.    

Sóttvarnalæknir

09.11.2021

Áfram heldur greindum smitum af völdum COVID-19 að fjölga hér á landi. Sl. sólarhring greindust 168 með COVID-19 innanlands og 14 á landamærum. Smitin greindust í öllum landshlutum en lang flest á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ljóst að að faraldurinn er áfram í veldisvexti hér á landi.

Innlögnum á sjúkrahús fjölgar jafnframt samhliða aukinni útbreiðslu því um 2% þeirra sem greinast geta búist við að þurfa að leggjast inn á spítala vegna alvarlegra veikinda. Í dag eru 13 inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19 og þar af þrír á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyrir og er sá einnig á gjörgæsludeild.

Nú er að hefjast átak í bólusetningum gegn COVID-19 þar sem að þeim sem fengið hafa tvo skammta bóluefnis verður boðinn þriðji skammtur eða svokallaður örvunarskammtur með bóluefni Pfizer. A.m.k. 5 mánuðir verða að líða frá skammti nr. tvö þar til að þriðji skammtur er gefinn. Fólk mun fá boð um mætingu í örvunarskammtinn  og vonast er til að það nást að bólusetja um 170 þúsund manns fyrir næstu áramót og 240 þúsund fyrir mars 2022.

Rannsóknir erlendis frá benda til að örvunarskammtur veiti um 90% vörn gegn smiti og alvarlegum veikindum umfram skammt nr. tvö og þannig eru sterkar vísbendingar um að hjarðónæmi muni nást með útbreiddri örvunarbólusetningu. Reynslan mun hins vegar skera úr um hver raunverulegur árangur verður eða hvort fleiri örvunarskammta þurfi að gefa á næstu mánuðum eða árum. Alvarlegar aukaverkanir eftir örvunarskammtinn eru afar fátíðar og síst algengari en eftir skammt nr. tvö. Einu frábendingar örvunarskammts eru hjá þeim sem fengu alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö og eins hjá þeim sem eru með sjálfofnæmissjúkdóm sem gæti versnað við bólusetninguna. Ef fólk er með alvarlegan sjálfofnæmissjúkdóm þá ætti það að ráðfæra sig við sinn lækni um hvort bólusetning sé ráðlögð.

Talsvert hefur borið á því að fólk hafi farið í mótefnamælingu gegn SARS-CoV-2 til að ákveða hvort raunveruleg þörf sé á örvunarskammti. Því er til að svara að ekki er hægt með góðu móti að meta út frá mótefnamagni í blóði hver verndin er gegn COVID-19. Því er alls ekki ráðlagt að fara í mótefnamælingu í slíkum tilgangi nema samkvæmt ákvörðun læknis.  

Allir (nema þeir sem ofangreindar frábendingar eiga við um) eru því hvattir til að mæta í örvunarbólusetningu bæði til að vernda sjálfan sig gegn smiti og alvarlegum veikindum, og einnig til að koma í fyrir samfélagslegt smit. Aðeins með góðri þátttöku mun okkur takast að skapa hér hjarðónæmi sem mun koma í veg fyrir útbreitt smit.

Sóttvarnalæknir

05.11.2021

Af tölum undanfarinna daga er ljóst að COVID-19 faraldurinn er í miklum vexti og hefur náð að dreifa sér um allt land. Síðast liðna tvo daga hafa 319 einstaklingar greinst smitaðir af COVID-19 innanlands og er það mesti fjöldi á tveimur dögum frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Álag er áfram mikið á Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri en nú liggja 15 einstaklingar inni á Landspítala með COVID-19 og þar af 4 á gjörgæsludeild. Auk þess liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og er sá í öndunarvél. Búast má við fleiri innlögnum á næstunni vegna vaxandi fjölda smita í samfélaginu sem mun auka enn frekar á vanda spítalakerfisins.

Eins og marg oft hefur komið fram þá er eina ráðið til að koma í veg fyrir neyðarástand á sjúkrahúsum landsins að fækka smitum í samfélaginu. Til þess þarf takmarkandi aðgerðir í samfélaginu því einstaklingsbundnar sóttvarnir duga ekki einar og sér til að bæla faraldurinn niður.

Sóttvarnalæknir hefur sent minnisblað til heilbrigðisráðherra þar sem bent er á alvarlega stöðu faraldursins og bent á fyrri aðgerðir innanlands sem skilað hafa árangri til að fækka smitum.

Nú gildir að sýna samstöðu og viðhafa þær sóttvarnir sem við vitum að skila árangri. Forðumst hópamyndanir, virðum eins metra nándarreglu, notum andlitsgrímu ef ekki er hægt að viðhafa eins metra nánd við ótengda aðila og/eða í illa loftræstum rýmum, þvoum og sprittum hendur, höldum okkur til hlés ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 og mætum í PCR próf. Einnig er mikilvægt að viðhafa góða smitgát þar til niðurstaða úr PCR prófi liggur fyrir.

Sóttvarnalæknir

03.11.2021

Fjöldi einstaklinga sem greinast með COVID-19 heldur áfram að aukast en í gær greindist 91 innanlands og þrír á landamærum. Samhliða vaxandi fjölda smita smita þá fjöldar þeim sem eru alvarlega veikir af völdum COVID-19 og sl. tvo sólarhringa lögðust 6 inn á Landspítala en þrír voru útskrifaðir. Í dag liggja 16 inni á spítalanum og þar af eitt barn. Fjórir eru á gjörgæsludeild og þar af er einn á hjarta- og lungnavél (ECMO) og tveir á öndunarvél. Helmingur þeirra er full bólusettur. Auk þess er einn einstaklingur inniliggjandi í öndunarvél á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Spá um þróun faraldursins er því að raungerast þ.e. útbreiðsla smita er að aukast í kjölfarið á afléttingu takmarkana og jafnframt er fjöldi þeirra sem leggst inn á sjúkrahús alvarlega veikur að aukast. Um 2% þeirra sem greinast með COVID-19 þurfa á spítalavist að halda og er um 60% þeirra full bólusettir.

Nú er að hefjast átak í áframhaldandi bólusetningum gegn COVID-19. Allir 60 ára og eldri verða kallaðir inn í sína þriðju bólusetningu (örvunarbólusetningu) sem og einstaklingar með undirliggjandi ónæmisvandamál og ýmsar framvarðasveitir t.d heilbrigðisstarfsmenn, lögregla og sjúkraflutningamenn. Til skoðunar er einnig að bjóða öllum almenningi örvunarbólusetningu. Örvunarbólusetning verður fyrst gefin 5-6 mánuðum eftir skammt númer tvö.

Ekki er komin víðtæk reynsla á örvunarbólusetningu vegna COVID-19. Mesta reynslan hefur fengist í Ísrael en þar hefur öllum verið boðin örvunarbólusetning með bóluefni frá Pfizer um 5-6 mánuðum eftir bólusetningu númer tvö. Niðurstaða rannsóknar í Ísrael sem birt var nýlega í vísindatímaritinu Lancet sýnir að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær sprautur. Í kynningu Ísraelsmanna á sínum niðurstöðum kemur einnig fram að alvarlegar aukaverkanir eru líklega færri eftir þriðja skammt en eftir skammt tvo en þess ber að geta að alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö eru mjög fátíðar.

Það er líklegt að fljótlega verði hafist handa hér á landi við að bjóða öllum örvunarbólusetningu með bóluefni Pfizer a.m.k. 5-6 mánuðum eftir bólusetningu tvö. Vonir eru bundnar við að örvunarbólusetning muni bæði koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi umfram tvær sprautur. Einnig er mikilvægt að allir sem ekki hafa mætt í sína fyrstu bólusetningu geri það sem fyrst því alvarleg veikindi meðal bólusettra (eftir tvær sprautur) eru um fimm sinnum fátíðari en meðal óbólusettra.

Sóttvarnalæknir

01.11.2021

Um helgina (föstudag-sunnudag) greindust 226 einstaklingar með COVID-19 innanlands og 19 á landamærum. Sjö lögðust inn á Landspítala en 10 voru útskrifaðir. Þrettán liggja nú inn á Landspítala vegna COVID-19 og þar af tveir á gjörgæsludeild. Annar þeirra er á hjarta- og lungnavél (ECMO) og hinn á öndunarvél. Einn einstaklingur með COVID-19 lést um helgina. Tveir af þessum þremur voru óbólusettir.  

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um samburð á svínaflensunni sem hér gekk 2009 og svo COVID-19. Í þessari umræðu hefur borið nokkuð á staðreyndarvillum og ályktunum sem illa standast.

Hið rétta er að í svínaflensunni 2009 sem stóð yfir frá september til ársloka 2009 er áætlað að um 60.000 manns hafi smitast og voru flestir yngri en 30 ára. Um 160 voru lagðir inn á sjúkrahús (0,3% af öllum sýkingum), 20 lögðust inn á gjörgæslu (0,03% af öllum sýkingum) og tveir létust. Ástæðan fyrir því að að ekki smituðust fleiri og alvarlegar afleiðingar urðu ekki víðtækari var að byrjað var að bólusetja með mjög virku bóluefni í október 2009 og veirulyfið (Tamiflu) var tiltækt til almennrar notkunar. Lokið var við að bólusetja helming þjóðarinnar gegn flensunni í upphafi árs 2010.

COVID-19 á hinn bóginn hegðar sér öðru vísi. Um 2-5% sýktra leggjast inn á sjúkrahús, 0,4% leggst inn á gjörgæsludeild og 34 hafa látist. Engin vel virk lyf eru til við sýkingunni og virkni bóluefna er einungis um 50% gegn smiti þó þau séu um 90% virk til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.  

Þá var á árinu 2009 heildarfjöldi gjörgæslurýma á Landspítalanum um 20 rúm, en í dag er fjöldi þeirra alls 14.

Af ofangreindu má því sjá að alvarleiki COVID-19 mældur í innlögnum á sjúkrahús, er um tíu sinnum meiri en svínaflensunnar 2009 auk þess eru bóluefni gegn COVID-19 minna virk, engin vel virk lyf eru til við COVID-19 og fjöldi gjörgæsluplássa er nú minni en árið 2009.

Þannig er allur samanburður á COVID-19 og svínaflensunni 2009 COVID í óhag. Baráttan við COVID-19 er margfalt erfiðari en baráttan var við svínaflensuna 2009.  

Sóttvarnalæknir

29.10.2021

Heldur færri greindust með COVID-19 í gær en í fyrradag eða 78 innanlands og 3 á landamærum. Sl. sólarhring lögðust þrír inn á Landspítalann en sex útskrifuðust. Alls eru því 13 inniliggjandi vegna COVID-19 á spítalanum og þar af fjórir á gjörgæsludeild og einn er á öndunarvél. Meðalaldur inniliggjandi sjúklinga er 56 ár. Erfitt er að túlka smittölur einstakra daga en þróun faraldursins mun skýrast betur á næstu dögum.

Nokkuð hefur verið rætt um árangur bólusetninga barna á aldrinum 12-15 ára gegn COVID-19. Áður hafði verið greint frá því að ekkert fullbólusett barn hefði greinst með COVID-19. Vegna tæknilegra vandamála þá hefur komið í ljós að þetta er ekki rétt. Af um rúmlega 12.000 fullbólusettum börnum 12-15 ára þá hafa 9 greinst með COVID-19 eða 0,07%. Til samanburðar þá hafa um 3.750 af um 266.000 fullbólusettum einstaklingum eldri en 15 ára greinst með COVID-19 (1,4%). Vísbendingar eru því um að bólusetning barna kunni að vera áhrifaríkari en bólusetning fullorðinna til að koma í veg fyrir smit af völdum COVID-19.

Ákvörðun um bólusetningu barna yngri en 12 ára hefur ekki verið tekin enda hafa engin bóluefni verið samþykkt hér á landi fyrir börn á þeim aldri. Bóluefni frá Pfizer er nú umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu og er von á niðurstöðu í desember 2021.

Sóttvarnalæknir

28.10.2021

COVID-19 smitum innanlands heldur áfram að fjölga. Í gær greindust tæplega 100 manns innanlands og voru aðeins um 40% í sóttkví við greiningu og eins og áður um helmingur full bólusettur. Meðalaldur þeirra sem greindust er um 30 ár og spannaði aldursbil þeirra frá nokkrum mánuðum til 92 ára. Lögheimili einstaklinganna var víða á landinu en flestir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Síðastliðinn sólarhring lögðust þrír inn á Landspítalann vegna COVID-19 og eru nú alls 15 inniliggjandi vegna COVID og þrír á gjörgæsludeild, þar af einn á öndunarvél.

Þróun faraldursins hér er því enn versnandi og faraldurinn í veldisvexti. Líklegt er að þessi þróun  hvað varðar heildarfjölda smita haldi áfram sem mun leiða til versnandi ástands á Landsspítalanum.

Þó að litlar opinberar takmarkanir séu nú í gildi þá getum við öll sem einstaklingar lagt okkar af mörkum  til að hindra útbreiðslu veirunnar. Við getum forðast hópamyndanir með ókunnugum, viðhaft eins metra nándarreglu, notað andlitsgrímur í aðstæðum þar sem nánd við ókunnuga er undir einum metra og gætt að góðri sótthreinsun handa. Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá ættum við að halda okkur til hlés, forðast margmenni og umgengni við viðkvæma einstaklinga og fara í sýnatöku.

Hollt er hins vegar að hafa í huga þá reynslu okkar að samfélagslegum smitum fækkar ekki fyrr en gripið er til takmarkandi aðgerða í samfélaginu.

Sóttvarnalæknir

26. október 2021

Undanfarnar vikur hefur nokkuð hröð fjölgun sést á greindum smitum af völdum COVID-19 hér á landi. Smitin hafa greinst í svo til öllum landshlutum, um 50% voru í sóttkví við greiningu og um 50% full bólusettir. Í gær greindust 80 einstaklingar innanlands og er 14 daga nýgengi nú komið upp íum 230 á 100.000 íbúa. Þetta er með því mesta sem sést hefur frá því faraldurinn hófst.

Innlögnum á Landspítalann hefur einnig fjölgað og á spítalanum liggja nú 11 einstaklingar og þar af einn á gjörgæsludeild. Síðustu vikur og mánuði hafa um 2% þeirra sem greinast lagst inn á sjúkrahús, 0,4% lagst inn á gjörgæsludeild og um 0,2% þurft aðstoð öndunarvéla. Um helmingur innlagðra var full bólusettur.

Fyllsta ástæða er til að hafa áhyggjur af núverandi þróun COVID-19 á Íslandi. Með vaxandi afléttingu takmarkana þá hefur dreifing smits aukist og greinilegt að einstaklingsbundnar sóttvarnir duga ekki til að halda faraldrinum í skefjum. Þó að útbreidd bólusetning komi í veg fyrir smit og einkum alvarleg veikindi þá virðist hún ekki duga til að stöðva þá bylgju sem nú er í gangi né heldur að koma í veg fyrir innlagnir alvarlegra veikra.

Rétt er að hvetja alla til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum svo síður þurfi að koma til opinberra takmarkana á umgengni fólks. Munum að margar innlagnir á sjúkrahús koma ekki einungis niður á umönnun þeirra sem veikst hafa alvarlega af COVID-19 heldur einnig annarri mikilvægri þjónustu.

Sóttvarnalæknir

About the App

The app Skanni C-19 is a verifier of EU Digital COVID Certificates (EU DCC) that uses the mobile device camera to capture the QR-code containing the certificate.

The app will verify if the certificate is valid using a registry of public keys stored on the mobile device and display the results (valid or not valid). The app will also display the name and date of birth of the certificate holder that is included in the QR-code. No data is saved on the mobile device.

Processing of Personal Data

The app doesn´t process any personal data relating to users of the app.

The processing of personal data of holders of COVID-19 test certificates is limited to the temporary display of the validity of the certificate and name and date of birth of the person the certificate was issued for. No other personal information is displayed.

No personal data is stored in connection with the use of Skanni C-19. The camera does not store any image on the mobile device.

The Directorate of Health in Iceland, Katrínartún 2, 105, Reykjavík, is responsible for any processing of personal data relating to issuing and verifying COVID-19 certificates. Questions or requests regarding the processing of personal data in relation to COVID-19 certificates can be directed to the Directorate of Health via the email address personuvernd@landlaeknir.is.


Með vorinu koma fermingarnar og í ár geta trú- og lífsskoðunarfélög haft athafnir fyrir allt að 30 manns. Um veislur gilda þó aðrar reglur og núverandi takmarkanir á samkomum leyfa 10 einstaklingum að koma saman. Þær gilda til og með 15. apríl nk. Börn fædd eftir 2015 eru undanskilin og einnig ættingjar og vinir sem vitað er að hafi fengið COVID-19. Fermingarveislur verða því mögulega að vera skipulagðar með öðrum hætti en tíðkast hefur.

Hér eru nokkur atriði sem innihalda ráðleggingar um það hvernig gott sé að halda veislu með sóttvarnir í fyrirrúmi.

Skiptum veislugestum í hópa sem eru innan fjöldatakmarkanna og höldum aðskildar veislur fyrir hópana
Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið
Verndum viðkvæma einstaklinga
Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir
Fylgjumst með þróun faraldursins og takmörkunum og bregðumst við ef þörf krefur
Sýnum varúð í ferðalögum milli landshluta
Tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir

Veislan sjálf

Höfum handspritt víða aðgengilegt í veislunni
Gætum vel að sóttvörnum og höfum handspritt á hlaðborðinu
Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma
Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur
Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega
Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega
Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá
Takmörkum fjölda fólks þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn
Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis
Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur

Gisting

Algengt er að vinir og/eða fjölskyldumeðlimir ferðist á milli landshluta til að gleðjast með fermingarbörnunum. Mikilvægt er að vera búin að gera ráðstafanir ef gestir og/eða heimilisfólk veikjast af COVID-19 á meðan heimsókn stendur. Við þurfum að huga að sóttkví, einangrun, heilbrigðisþjónustu og ferðalaginu heim ef um gesti er að ræða. Hvort sem við gistum að heiman eða fáum sjálf gesti þurfum við að huga vel að sóttvörnum, sérstaklega ef einhver er í áhættuhópi.

Í ferðalaginu

Notum grímu á meðan á ferðalaginu stendur
Forðumst að snerta grímuna, augu, nef og munn
Höldum fjarlægð frá öðru fólki
Þvoum okkur oft um hendur og/eða notum handspritt

Líkt og á öðrum tímum þurfum við að huga að persónulegum sóttvörnum

Þvoum hendur reglulega
Virðum nálægðarmörkin
Loftum reglulega út
Notum andlitsgrímur þegar við á
Þrífum snertifleti reglulega

Áríðandi er að við verndum viðkvæma einstaklinga og gleðjumst gætilega

Gerum okkur dagamun í nærumhverfinu

Höldum upp á daginn á heimavelli, í skólanum, frístundaheimilinu eða félagsmiðstöðinni.

Mætum í búningum

Brjótum upp á hversdagsleikann með því  að mæta öll í búningum. Ungir sem aldnir.

Endurvekjum gamlar hefðir

Nú er tækifæri að endurvekja gamlar öskudagshefðir eins og að búa til öskudagspoka og slá köttinn úr tunnunni. Með sóttvarnir í huga að sjálfsögðu.

Syngjum fyrir sælgæti

Ef hefð er fyrir því að ganga á milli húsa eða fyrirtækja í hverfinu væri upplagt að foreldrafélög tækju upp á sína arma að halda utan um hvar sé hægt að koma og syngja fyrir nammi. Athugið að gæta fyllstu sóttvarna og gefið aðeins sérinnpakkað sælgæti.

Jólakúlujól 2020

Rík hefð er fyrir því að fólk komi saman og njóti samverunnar og alls þess sem hátíðarnar hafa upp á að bjóða. Fyrir marga verður þessi tími frábrugðinn því sem við erum vön líkt og með annað á þessu ári. Samt sem áður höfum við ýmsa möguleika á því að gleðjast saman, þó ekki fleiri en 10 saman, því samkvæmt þeim reglum sem við fylgjum til 12. janúar þá mega ekki fleiri vera í hverri jólakúlu. Því er ljóst að þessi jól verði mögulega lágstemmdari og með breyttu sniði fyrir marga. Athygli er vakin á því að börn fædd 2005 og yngri teljast ekki með í þessari tölu og ekki heldur þeir sem hafa fengið COVID-19.

Hér eru nokkur atriði sem innihalda ráðleggingar um það hvernig gott sé að haga málum yfir hátíðarnar.

Eigum góðar stundir í okkar jólakúlu
Verndum viðkvæma hópa
Njótum rafrænna samverustunda
Eigum góðar stundir með heimilisfólkinu okkar
Veljum jólavini (okkar jólakúlu)
Hugum að heilsunni og stundum útivist í fámennum hópi
Verslum á netinu ef hægt er 
Verum tilbúin með innkaupalista þegar farið er að versla
Kaupum máltíðir á veitingastöðum og tökum með heim
Sýnum varúð í ferðalögum milli landshluta
Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir.

Heimboð og veitingar

Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið.
Fylgjumst með þróun faraldursins.
Virðum fjöldatakmarkanir og tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir.
Forðumst samskotsboð („pálínuboð") og hlaðborð.
Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.
Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur.
Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega.
Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega. 
Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá.
Takmörkum fjölda fólks í eldhúsinu eða þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn.
Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis.
Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur.
Forðumst söng og hávært tal, sérstaklega innandyra.

Gisting

Algengt er að vinir og/eðafjölskyldumeðlimir dvelji saman yfir hátíðirnar á sama heimili. Mikilvægt er að vera búin að gera ráðstafanir ef gestir og/eða heimilisfólk veikjast af COVID-19 á meðan heimsókn stendur. Við þurfum að huga að sóttkví, einangrun,heilbrigðis­þjónustu og ferðalaginu heim ef um gesti er að ræða. Hvort sem við gistum að heiman eða fáum sjálf gesti yfir hátíðirnar þurfum við að huga vel að sóttvörnum, sérstaklega ef einhver er í áhættuhópi.

Ferðalög til og á Íslandi

Jólin eru ferðatími. Áður en við ferðumst á milli staða og hittum fólk þurfum við að velta fyrir okkur eftirfarandi atriðum.

Eru einhver tilmæli eða takmarkanir í gildi vegna ferðalaga? Á Íslandi þarf til að mynda að fara í sóttkví við komuna til landsins. Í boði er 14 daga sóttkví sem hægt er að stytta um 5-6 daga ef farið er í sýnatöku við upphaf og lok sóttkvíar.
Erum við eða einhver í okkar nána tengslaneti í áhættuhópi?
Er smithættan á þínu búsetusvæði eða á svæðinu sem þú ætlar að ferðast til, mikil eða að aukast? 
Hvernig höfum við og þau sem við ætlum að heimsækja hagað samskiptum við aðra í tvær vikur fram að brottför? Hafa átt sér stað náin samskipti við aðra en heimilisfólk?
Verður erfitt að halda nálægðarmörkin á meðan ferðalagi stendur (flug, rúta og/eða bátur).
Er samferðafólk okkar aðrir en heimilisfólkið? 

Í ferðalaginu

Notum grímu á meðan á ferðalaginu stendur
Forðumst að snerta grímuna, augu, nef og munn
Höldum fjarlægð frá öðru fólki
Þvoum okkur oft um hendur og/eða notum handspritt

Koma til landsins

Fólk sem kemur til Íslands þarf að fara í sóttkví og gera þarf ráðstafanir í tengslum við það. Síðasti dagur til að koma heim til Íslands og vera laus úr sóttkví fyrir jól er 18.desember.
Ekki má sækja fólk sem ferðast til Íslands, þar með talið fjölskyldumeðlimi og vini. Þau sem koma til landsins þurfa að taka flugrútu, leigubíl, bílaleigubíl eða einkabíl sem búið er að koma með út á flugvöll.

Rekstraraðilar og fyrirtæki

Tryggja þarf að skilaboð um gildandi reglur og leiðbeiningar á Íslandi, sé komið til starfsmanna fyrirtækja þá sérstaklega farandverkamanna og þeirra sem eru af erlendum uppruna.
Huga þarf vel að þrifum á samkvæmt verklagsreglum um þrif á COVID-19 tímum.
Upplýsingar og leiðbeiningaskilti um persónubundnar einstaklingsbundnar smitvarnir séu sýnileg einstaklingum á áberandi stöðum.
Tryggja skal nálægðarmörk á milli ótengdra aðila.

Líkt og á öðrum tímum þurfum við að huga að persónulegum sóttvörnum

Þvoum hendur reglulega
Virðum nálægðarmörkin
Loftum reglulega út
Notum andlitsgrímur þegar við á
Þrífum snertifleti reglulega

Áríðandi er að við verndum viðkvæma hópa og verndum þá yfir hátíðarnar.

Gleðilega hátíð!

Það er opið hús í bólusetningar alla virka daga frá kl. 10:00 til 15:00 í Laugardalshöll. Bóluefnin Pfizer, Moderna og Janssen eru í boði alla daga.

Öll, 16 ára og eldri, sem fengu seinni skammt grunnbólusetningar fyrir a.m.k. 5 mánuðum eru velkomin í örvunarbólusetningu. Ekki verða send út boð í bólusetningu. Það er nóg að gefa upp kennitölu á bólusetningastað. Öll sem eru óbólusett eða hálfbólusett (hafa bara fengið einn skammt) eru sérstaklega hvött til að mæta.

Ef þú býrð eða starfar á Íslandi áttu rétt á bólusetningu við COVID-19. Þú getur skráð þig í bólusetningu á netspjalli heilsuveru.is.

Bólusetningarskírteini er aðgengilegt á mínum síðum á heilsuvera.is einni viku eftir að fullri bólusetningu er lokið. Á bólusetningarskírteini kemur fram að það séu ekki ferðaskjal (þ.e.a.s. ekki vegabréf) en vottorðin gilda fyrir ferðalög milli landa.

Dreifing bóluefna og skipulag bólusetningar er undir stjórn sóttvarnalæknis en framkvæmdin í höndum heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana um allt land.

Bólusetning er og verður gjaldfrjáls og engin verða skylduð í bólusetningu.

Þau bóluefni sem notuð eru hér á landi við COVID-19 eru örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Markmið bólusetningar við COVID-19 er að vernda fólk fyrir sjúkdómnum og hindra útbreiðslu faraldursins.  

Spurt og svarað vegna bólusetningar gegn COVID-19

Algengar spurningar og svör um bólusetningu gegn COVID-19 á vef Embætti Landlæknis.
Algengar spurningar og svör um bóluefni og lyf við COVID-19 á vef Lyfjastofnunar.
Upplýsingar um örvunarbólusetningu á vef Landlæknis hér og hér.
Hér er hægt að lesa allt um bólusetningar á auðlesanlegu máli. Texti frá Þroskahjálp.

Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er í gildi frá og með 28. ágúst og gildir til og með 17. september 2021.

Reglugerðin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna, né til loftfara og skipa í millilandaferðum og skipa sem stunda fiskveiðar. Einnig tekur reglugerðin ekki til heilbrigðisstofnana, hjúkrunarheimila og annarra sambærilegra stofnana, en þær skulu setja sérreglur um sóttvarnir.

Fjöldatakmörkun á ekki við um börn sem fædd eru 2016 eða síðar. Nálægðarmörk og grímuskylda eiga ekki við um börn sem fædd eru 2006 og síðar.

Reglugerð þessi tekur til skólastarfs eftir því sem við á.

Fjöldi, nálægðarmörk, grímunotkun

Fjöldatakmörkun

Hámarksfjöldi fólks í sama rými er 200 með ákveðnum takmörkunum, bæði í opinberu rými og í einkarými, úti og inni. Frá 3. september gildir einnig að: Heimilt er að hafa allt að 500 manns í rými á viðburðum að uppfylltum viðbótarskilyrðum, þ.á m. neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.

Fjöldatakmörkun tekur ekki til barna sem fædd eru 2016 eða síðar. Fjöldatakmörkunin gildir ekki um almenningsamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila (s.s. lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almannavarna og heilbrigðisstarfsfólks). Einnig gildir hún ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis, þjóðaröryggisráðs eða þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

Nálægðarmörk

Á öllum vinnustöðum og í annarri starfsemi þarf að tryggja 1 metra nálægðarmörk á milli fólks sem er ekki í nánum tengslum.

Heimilt er að falla frá 1 metra nálægðarmörkum á athöfnum þar sem gestir sitja, að því gefnu að þeir séu skráðir í sæti með nafni, kennitölu og símanúmeri og noti andlitsgrímu.

Grímunotkun

Grímuskylda er innandyra þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, einnig á viðburðum þar sem gestir sitja í bókuðum sætum. Nálægðarmörk og grímuskylda á ekki við um börn fædd 2006 eða síðar.

Andlitsgrímur skal nota þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk svo sem í heilbrigðisþjónustu, verslunum, söfnum, innanlandsflugi og ferjum, almenningssamgöngum, leigubifreiðum og hópbifreiðum, í verklegu ökunámi og flugnámi, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og annarri sambærilegri starfsemi. Andlitsgríma skal hylja nef og munn.

Undanþegnir grímuskyldu eru þeir einstaklingar sem hafa ekki skilning eða þroska til að nota andlitsgrímu rétt eða geta það ekki af öðrum ástæðum, svo sem vegna heilsufars.

Kennurum og nemendum fæddum 2005 og fyrr er heimilt í skólum að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofu.

Starfsemi sem felur í sér sérstaka smithættu

Viðburðir þar sem gestir sitja:

Allt að 200 manns mega vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðslistar- menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum. Nálægðarmörk gilda ekki á viðburðum þar sem allir sitja að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

Þátttaka allra gesta skal skráð á númeruð sæti þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer. Varðveita skal skráninguna í tvær vikur.
Allir skulu nota andlitsgrímu innandyra (börn fædd 2006 eða síðar undanskilin).
Heimilt er að hafa hlé á sýningum og veitingasala á viðburðum er heimil. Í hléi skal tryggja 1 metra nálægðarmörk.

Frá 3. september gildir að: Heimilt er að hafa allt að 500 manns í rými á viðburðum að uppfylltum öllum eftirfarandi skilyrðum:

Allir gestir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst.ATH. sjálfspróf eru ekki tekin gild.
Allir gestir séu sitjandi og ekki andspænis hver öðrum.
Allir gestir séu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skrána skal varðveita í tvær vikur og henni eytt að þeim tíma liðnum.
Allir gestir noti andlitsgrímu innandyra (börn fædd 2006 eða síðar undanskilin).

Ýmis starfsemi

Verslanir mega taka á móti 200 viðskiptavinum svo lengi sem hægt sé að tryggja að minnsta kosti 1 metra á milli þeirra sem eru ekki í nánum tengslum.  Tryggja þarf aðgang að handsótthreinsi við innganga og í grennd við algenga snertifleti, s.s. snertiskjái, innkaupakerrur og afgreiðslukassa.

Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir hafa heimild til að hafa allt að 200 manns á sviði, þ.e. á æfingum og sýningum. Heimilt er að taka á móti allt að 200 sitjandi gestum í hvert rými og er þeim skylt að nota andlitsgrímu innandyra. Sæti skulu númeruð og skráð á nafn, kenntiölu og símanúmer. Börn fædd 2016 og síðar eru ekki talin með. Veitingasala er heimil í hléi. Frá 3. september: Athugið sérstakar reglur um allt að 500 manns í hólfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjá ofar.

Við athafnir trú- og lífskoðunarfélaga mega allt að 200 gestir vera viðstaddir og einnig í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum..

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar mega hafa opið til kl. 23 alla daga vikunnar með að hámarki 200 gesti í rými og 1 metra nálægðarmörkum. Allir gestir skulu skráðir á nafn, kennitölu og símanúmer. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn kl. 00.00.

Skemmtistaðir og krár mega hafa opið til kl. 23 alla daga vikunnar með að hámarki 200 gesti í rými. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Allir gestir skulu skráðir á nafn, kennitölu og símanúmer. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn kl. 00.00.

Þó er heimilt að halda einkasamkvæmi á veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengur en til kl. 23. að því gefnu að vínveitingaleyfi sé ekki nýtt, allir gestir séu skráðir og ekki fleiri í heildina en 200.

Spilakassar og spilasalir mega hafa opið til kl. 23 alla daga vikunnar með að hámarki 200 gesti í rými. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn kl. 00.00.

Sundlaugar og baðstaðir eru opnir fyrir leyfilegan hámarksfjölda.

Heilsu- og líkamsræktarstöðvar eru opnar fyrir leyfilegan hámarksfjölda gesta. Búnað skal sótthreinsa milli notenda og allir notendur skráðir. Mælt er með notkun andlitsgríma í sameiginlegum rýmum. Tryggja skal loftræstingu og góðan aðgang sótthreinsiefnum fyrir hendur og tæki.

Tjaldsvæði og hjólhýsasvæði mega taka á móti 200 manns í hverju sóttvarnarými. Börn fædd árið 2016 og síðar eru ekki talin með. Sóttvarnarými getur verið innan- sem utandyra. Nálægðarmörk er 1 metri milli ótengdra aðila en annars grímuskylda. Takmarka þarf samneyti á milli aðskildra ferðahópa eins og unnt er.

Söfn mega taka á móti leyfilegum hámarksfjölda gesta en þó ekki fleiri en 200 í hvert rými.

Ekki er heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum svo sem tónleikum, dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að sér hóp fólks eftir kl 23.

Íþróttastarf á vegum ÍSÍ

Íþróttir inni og úti, jafnt barna sem fullorðinna, eru heimilar. Hámarksfjöldi í hverju hólfi eru 200 manns. Gætt skal að sóttvörnum og sameiginleg áhöld sótthreinsuð eftir notkun og þess gætt að loftræsting sé í lagi og loftað út reglulega.

Íþróttakeppnir barna og fullorðinna eru heimilar og leyfilegt að taka á móti allt að 200 sitjandi gestum og er þeim skylt að nota andlitsgrímu innandyra. Sæti skulu númeruð og skráð á nafn, kennitölu og símanúmer. Fylgja skal reglum um viðburði með sitjandi gesti. Sjá ofar. Veitingasala á keppnisstöðum er heimil.

Í íþróttum sem ekki tilheyra Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands skal setja leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilegar íþróttir innan sambandsins.

Vinnustaðir, verslanir, opinberar byggingar og þjónusta

Tryggja þarf 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga í sama rými og viðeigandi hámarksfjölda. Enginn samgangur má vera á milli rýma.

Sóttvarnir

Þrífa og sótthreinsa yfirborðsfleti eins oft og hægt er, sérstaklega algenga snertifleti eins hurðarhúna og handrið.

Tryggja þarf aðgang að handsótthreinsi við innganga og í grennd við algenga snertifleti, s.s. snertiskjái, innkaupakerrur og afgreiðslukassa.

Minna almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum.

Spurt og svarað

Algengum spurningum um faraldurinn, smitleiðir, sóttkví, einangrun og bólusetningar svarað.

Brot á sóttvarnarreglum geta varðað sektum.

Grímur eru mikilvæg viðbót við einstaklingsbundnar sóttvarnir, og nauðsynlegar þar sem erfitt er að virða fjarlægðarmörk. Munum að þær koma ekki í stað handþvottar  og annarra sóttvarna.

Það er nauðsynlegt að nota grímuna rétt, annars gerir hún ekkert gagn og veitir falskt öryggi.

Gríman þarf að hylja bæði munn og nef til að stöðva dropasmit.

Einnota gríma dugar í þrjá til fjóra tíma, eða þar til hún er orðin rakamettuð. Þá þarf að henda henni og setja upp nýja. Margnota grímur þarf að þvo minnst daglega.

Það er mikilvægt að snerta grímurnar sem minnst og þvo hendur eða sótthreinsa eftir snertingu.

Þannig koma grímurnar að mestu gagni.

Á öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, s.s. kennslu, fyrirlestrum og kirkjuathöfnum þarf að tryggja 1 metra nálægðarmörkin á milli fólks sem er ekki í nánum tengslum.

Andlitsgrímur skal nota þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk svo sem á söfnum, í verslunum, heilbrigðisþjónustu, innanlandsflugi og -ferjum, almenningssamgöngum, leigubifreiðum og hópbifreiðum, í verklegu ökunámi og flugnámi, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og annarri sambærilegri starfsemi. Andlitsgríma skal hylja nef og munn.


Við erum öll almannavarnir

Helstu einkenni COVID-19

Helstu einkenni COVID-19 sýkingar minna á venjulega flensu: hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Meltingareinkenni (kviðverkir,ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt. Breytingu, eða tapi á bragð- og lyktarskyni er lýst hjá 20–30% sjúklinga.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Þú getur varið þig og aðra gegn smiti með því að fylgja þessum ráðum

Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti. Gert hefur verið myndband sem útskýrir mikilvægi handþvottar sem hluta af sóttvörnum, lengri útgáfa og styttri útgáfa.
Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum.
Forðastu að bera hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
Þrífðu oftar fleti sem eru mikið notaðir.
Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina eða einnota klúta. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.
Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa sem ekki fela í sér snertingu. Sóttvarnalæknir hefur gefið út útskýringar á 2 metra nándarreglunni.

Ef þú ert eldri borgari eða með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma er ráðlagt að halda sig fjarri mannamótum og fjöldasamkomum.

Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um notkun á hlífðargrímum. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri og að rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingahættu. Jafnframt gerir einnota gríma, sem notuð er oftar en einu sinni, ekkert gagn og getur einnig aukið sýkingarhættu. Hlífðargríma, sem hylur ekki bæði nef og munn eða er höfð á enni eða undir höku, gerir heldur ekkert gagn.

Forðastu að umgangast fólk sem er með einkenni sem minna á flensu.

Ef þig grunar að þú sért með smit

Haltu þig heima og hafðu samband í síma við heilsugæsluna þína, Læknavaktina í síma 1700 eða í gegn um netspjall á heilsuvera.is. Heilbrigðisstarfsfólk verður þar til svara og ráðleggur þér um næstu skref.

Það er mjög mikilvægt að þú farir ekki í eigin persónu á læknavakt eða heilsugæslu.

Ef þú greinist með COVID-19, getur smáforritið Rakning C-19 hjálpað til við að rifja upp ferðir þínar þegar upp kemur smit eða grunur um smit. Appið er mikilvægur hlekkur í því viðamikla starfi sem er í gangi hér á landi vegna COVID-19.

Ef þig grunar að einhver í þínu nærumhverfi sé smitaður/smituð

Gættu þess að eiga ekki í nánu samneyti við viðkomandi. Ráðlegðu viðkomandi að hafa samband við heilsugæsluna, 1700 eða Heilsuveru.is og ræða einkenni sín og fá ráð um hvernig best er að bregðast við.

Hér eru upplýsingar um kórónaveiruna á auðlesnu máli sem voru unnar af Landssamtökunum Þroskahjálp.

Veggspjald LMN 

Hér getur þú lesið meira um forritið og persónuvernd.

Leiðbeiningar um uppsetningu

Ef þú færð beiðni frá rakningarteymi

Hvernig virkar appið fyrir þig?

Þegar þú setur appið inn á símann þinn, þá ertu beðin(n) um að kveikja á tilkynningum um hugsanlegt smit. Einnig stendur til boða að skrá símanúmer og þá getur þú fengið tilkynningar um neikvæðar niðurstöður vegna skimana á landamærum.

Eftir að appið hefur verið sett upp þá vinnur það í bakgrunni og skiptist á handahófskendum og ópersónugreinanlegum lyklum við aðra nálæga síma sem eru með appið. Einnig sækir appið reglulega á vefþjón, upplýsingar um smit, frá öðrum notendum appsins sem hafa greinst með Covid 19. Þetta er gert til þess að hægt sé að láta vita ef möguleg útsetning er fyrir smiti.  

Þessi gögn eru aðeins vistuð í símanum sjálfum og engum aðgengileg nema appinu sjálfu til þess að bera saman auðkennin og þau eru aðeins geymd í 14 daga.

Ef þú greinist með Covid-19, getur rakningateymi Almannavarna óskað eftir því að þú sendir ópersónugreinanlegu auðkennin yfir í gagnagrunn rakningarteymisins svo hægt sé að vara aðra við hugsanlegri útsetningu fyrir smiti. Þeir geta þá gert viðeigandi ráðstafanir. Ef þú færð tilkynningu um hugsanlega útsetningu fyrir smiti leiðbeinir appið um skráningu í sóttkví og útvegar strikamerki fyrir sýnatöku. Þar þarf að skrá sig inn með símanúmeri og fylla út viðeigandi reiti.

Það er háð þínu samþykki að bregðast við tilkynningu um smit. Rakningarteymið veit ekki hverjir fá tilkynningu.

Til baka á forsíðu

Tilkynna brot